Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Meistarafl. karla
Næstu leikir
Nýjustu úrslit
Stjarnan-Akureyri 28-23
Þri. 4. apr. 2017
Olís deild karla
ÍBV-Akureyri 22-22
Mið. 29. mar. 2017
Olís deild karla
deildin staðan

Ungmennalið karla
Næstu leikir
Nýjustu úrslit
Stjarnan U-Akureyri U 35-30
Fös. 7. apr. 2017
1. deild karla
Akureyri U-KR 34-30
Fös. 31. mar. 2017
1. deild karla
deildin staðan




    Fréttir                       Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar! 

Andri Snær stóð í ströngu í gær

18. október 2007 - Akureyri handboltafélag skrifar

Strákarnir töpuðu gegn Val í gær

Það gekk ekki alveg upp hjá strákunum í gærkvöldi þegar þeir mættu Íslandsmeistum Vals. Eftirfarandi hafði Rúnar Sigtryggson að segja eftir leikinn: "Leikurinn var handboltalega séð góður af okkar hálfu. Spilið gekk vel og skilaði mönnum í upplögð færi og vörnin stóð sig lengstum vel. Það sem varð okkur að falli var léleg nýting í upplögðum marktækifærum og svo var markvarslan ekki nægilega góð."

Við birtum hér ítarlega umfjöllun Kristins Guðmundssonar um leikinn sem hann ritaði á handbolti.is, gefum Kristni orðið...

Lið Vals og Akureyrar buðu upp á ágætis skemmtun í N1 deild karla í Vodafone höllinni í kvöld. Stuðningsmenn Vals hafa þurft að bíða lengi eftir fyrsta sigri liðsins í deildarkeppni í nýju húsi að Hlíðarenda. Þeirri martröð að hafa ekki unnið leik í nýju húsi lauk þó í kvöld með sigri heimamanna 30-26 (15-13) á liði Akureyrar.

Jafnræði var með liðunum framan af leik og mikil stöðubarátta á vellinum. Valsarar voru þó alltaf skrefinu á undan og áttu nokkuð auðvelt með að finna leiðir í gegnum 5-1 vörn gestanna. Undir lok fyrri hálfleiks náðu Valsarar góðum kafla og breyttu stöðunni úr 11-10 í 14-10. Á þessum kafla fór Pálmar Pétursson mikinn í marki heimamanna og varði hvert skotið á fætur öðru. Vörn Vals ásamt Pálmari skilaði liðinu tveggja marka forskoti í hálfleik 15-13. Ingvar Árnason línumaður Vals fór mikinn í fyrri hálfleik, skoraði 4 mörk og fiskaði 2 víti. Einnig var Sigfús Páll Sigfússon drjúgur í sóknarleik heimamanna og ljóst að hann hefur haft gott af þeim tíma sem hann hefur varið með liðinu í æfingum og keppni utan lands, síðustu 10 daga. Hjá Akureyringum var Magnús Stefánsson langatkvæða mestur í fyrri hálfleik og skoraði 5 mörk í öllum regnbogans litum.

Síðari hálfleikur fór fjörlega af stað. Eftir aðeins 26 sekúndur fór hornamaður Akureyringa, Andri Snær Stefánsson, inn úr þröngu færi í horninu og skaut beint í andlit Pálmars markvarðar. Klárt óviljaverk enda brotið á Andra í skotinu. Við þetta fauk hressilega í Pálmar, sem óð beint í Andra og uppskar að launum rautt spjald frá dómurum leiksins, þeim Antoni Gylfa Pálssyni og Hlyn Leifssyni. Verðskuldað rautt spjald sem Pálmar verður að bera fulla ábyrgð á, þar sem Andri er þekktur fyrir allt annað en ruddaskap á velli.

Aðrir leikmenn vallarins héldu ró sinni og buðu upp á ágætis handbolta það sem eftir var leiks. Valsarar með yfirhöndina og leiddu með 2 til 4 mörkum lengst af hálfleiknum. Leikmenn Akureyrar voru þó aldrei langt undan, en áttu í stökustu vandræðum með Ólaf Hauk Gíslason markvörð Vals, sem fór hamförum í seinni hálfleik og varði 13, þar af 2 víti. Ólafur ásamt Fannari Friðgeirssyni, sem skoraði 7 mörk og þar af 6 í seinni hálfleik, voru Akureyringum einfaldlega of stór biti í kvöld.

Af þessum leik að dæma virðast Íslandsmeistararnir vera á réttri leið og sóknarleikur liðsins var mikið betri en í fyrri leikjum liðsins til þessa á Íslandsmótinu. Ef liðinu tekst að halda áfram á þeirri braut sem þeir virðast vera á, kemur liðið til með að blanda sér í baráttu þeirra bestu þegar líður á tímabilið og þá er aldrei að vita hver uppskeran verður.

Lið Akureyrar sýndi það í kvöld að þeir verða ekki auðsigraðir í vetur. Liðið náði upp skemmtilegum sóknarleik á köflum, sem var drifinn áfram af stórskyttunni Magnúsi Stefánssyni frá Fagraskógi, en markvarslan var þeirra versti óvinur í kvöld. Ef Akureyringum tekst að bæta varnaleik sinn og hjálpa markvörðum sínum betur í næstu leikjum, geta þeir uppskorið ríkulega og blandað sér í baráttu ofar í deildinni.

Ólafur Gíslason fyrirliði Vals og besti maður leiksins var að vonum ánægður í leikslok. Hann var samt sammála því að það hefði verið mikið slen yfir leiknum í upphafi og e.t.v. hefðu menn verið í sjokki yfir því hve fáir áhorfendur væri. Honum fannst síðan leikurinn fara á hærra tempó er á leið leikinn. Hann var ánægður með sína frammistöðu en hann hefur átt við smávægileg meiðsli að stríða undanfarið en fann sig vel í leiknum í kvöld. Honum fannst stígandi vera í síðustu leikjum Vals og að liðið væri á réttri leið með að bæta sinn leik. Hann var bjartsýnn á framhaldið hjá liðinu í næstu leikjum.

Sævar Árnason annar þjálfari Akureyrar var ekki sáttur í leikslok með tap sinna drengja. Honum fannst vanta herslumuninn á að sínir drengir mundu ná að landa sigri í kvöld. Þar sem er þeir voru að nálgast Valsdrengi þá rákust þeir á vegg sem ekki var hægt að brjóta og allt fór í baklás hjá þeim. Honum fannst einnig að markvarsla sinna drengja hefði mátt vera betri í leiknum og það hefði verið þeim dýrt.

Mörk Vals:
Fannar Friðgeirsson 7, Sigfús Páll Sigfússon 6, Ingvar Árnason 5, Baldvin Þorsteinsson 5/4, Arnór Þór Gunnarsson 4, Elvar Erlingsson 2 og Kristján Þór Karlsson 1.
Varin skot Valur:
Ólafur Haukur Gíslason 15/2
Pálmar Pétursson 6

Mörk Akureyrar:
Magnús Stefánsson 7, Heiðar Þór Aðalsteinsson 4, Goran Gusic 4/3, Einar Logi Friðjónsson 3, Jónatan Þór Magnússon 3/2, Hörður Fannar Sigþórsson 2, Andri Snær Stefánsson 2 og Rúnar Þór Sigtryggsson 1.

Varin skot Akureyri:
Sveinbjörn Pétursson 10
Elmar Kristjánsson 1

Dómarar leiksins voru þeir:
Anton Pálsson og Hlynur Leifsson.

Áhorfendur voru í kringum 100.

Gangur leiksins:
1-0, 2-0, 2-1, 2-2, 3-2, 4-2, 4-3,4-4, 5-4, 5-5, 6-5, 6-6, 7-6, 7-7, 8-7, 9-7, 9-8, 10-8, 10-9, 11-9, 11-10, 12-10, 13-10, 14-10, 14-11, 14-12, 15-12, 15-13.
15-14, 16-14, 16-15, 17-15, 18-15, 18-16, 19-16, 19-17, 20-17, 21-17, 21-18, 22-18, 22-19, 23-19, 24-19, 24-20, 25-20, 25-21, 25-22, 26-22, 26-23, 26-24, 27-24, 28-24, 29-24, 29-25, 30-25, 30-26.
Kristinn Guðmundsson skrifaði
Fletta milli frétta Til baka    Senda á Facebook
Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson