Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Meistarafl. karla
Næstu leikir
Nýjustu úrslit
Stjarnan-Akureyri 28-23
Þri. 4. apr. 2017
Olís deild karla
ÍBV-Akureyri 22-22
Mið. 29. mar. 2017
Olís deild karla
deildin staðan

Ungmennalið karla
Næstu leikir
Nýjustu úrslit
Stjarnan U-Akureyri U 35-30
Fös. 7. apr. 2017
1. deild karla
Akureyri U-KR 34-30
Fös. 31. mar. 2017
1. deild karla
deildin staðan




    Fréttir                       Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar! 

Eftir að hafa lent 2-0 undir voru norðanmenn búnir að jafna í einvíginu





6. maí 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar

Úrslitakeppnin 2002: KA - Valur (leikur 4)

Þó að þátttöku Akureyrar í úrslitakeppni Íslandsmótsins 2010 hafi lokið óþarflega fljótt getum við verið stolt af liðinu sem missti af lokarimmunni eftir framlengingu í oddaleik. Vissulega hefði verið gaman að fara alla leið en það munu koma tímar til slíkra verka fljótlega. Við höfum verið að rifja upp úrslitastemminguna hér á síðunni með því að draga upp fréttir frá árinu 2002 og margir hafa orðið til að spyrja hvort eigi ekki að klára söguna. Við höldum því áfram þar sem frá var horfið en nú er komið að fjórða leik KA og Vals árið 2002 en hann var leikinn í KA heimilinu þann 8. maí og fyrir leikinn var staðan í einvíginu 2-1 Valsmönnum í vil. Hér er stuðst við efni úr Morgunblaðinu og DV-Sport ásamt ljósmyndum Þóris Tryggvasonar.

Byrjum á umfjöllun Morgunblaðsins en þar er það Stefán Þór Sæmundsson sem skrifar

Heimir tryggði KA oddaleik

Leikir KA og Vals svíkja sjaldan þegar mikið liggur við og fjórði úrslitaleikur liðanna um Íslandsmeistaratitilinn var einn sá æsilegasti sem um getur. KA-heimilið var troðfullt í gær, hitinn kæfandi, hávaðinn ærandi, spennan yfirþyrmandi og taugar leikmanna þandar að ystu mörkum. Þótt heimamenn hafi haft frumkvæðið lengst af komust Valsmenn yfir þegar rúmar þrjár mínútur voru til leiksloka en KA skoraði tvö síðustu mörkin og úrslitin 17:16. Markstöng KA-liðsins kom í veg fyrir framlengingu að þessu sinni. Það fæst úr því skorið í hreinum úrslitaleik á Hlíðarenda á föstudagskvöldið hvort liðið fagnar titlinum.


Halldór Jóhann Sigfússon sloppinn í gegnum Valsvörnina

Bæði liðin léku ægisterka 6-0-vörn en markaskorun gekk þó vel í byrjun og staðan var 2:2 eftir tvær og hálfa mínútu. Þá tóku varnirnar og markverðirnir til sinna ráða og næsta mark kom ekki fyrr en eftir 10 mínútna leik. KA var alltaf á undan að skora og náði góðum kafla er liðið breytti stöðunni úr 5:4 í 7:4 en Valsmenn nýttu sér það vel að vera einum fleiri undir lok hálfleiksins og staðan í leikhléi var 8:7.

Valsmenn hófu seinni hálfleikinn á því að jafna og leikurinn var í járnum fram að stöðunni 12:12. Þá hafði Bjarki Sigurðsson skorað fjögur af fimm mörkum Vals en sóknir KA iðulega strandað á Roland Eradze í marki Vals. Það var ekki laust við að KA-menn væru komnir í vandræði í sóknarleiknum en bjargvættur þeirra var hinn 18 ára gamli Baldvin Þorsteinsson. Hann skoraði tvö lagleg mörk úr horninu og kom liði sínu í 14:12. Valsmenn reyndust þó líka luma á leynivopni og Einar Gunnarsson skoraði tvö mörk í röð fyrir þá og jafnaði leikinn. Eradze varði síðan annað vítaskot sitt frá Halldóri Sigfússyni en KA fékk fljótlega aftur víti og þá má segja að Atli Hilmarsson þjálfari hafi teflt djarft. Hann lét hinn unga Baldvin taka vítaskotið, sennilega hið fyrsta sem hann tekur í alvöruleik í meistaraflokki. Baldvin þakkaði fyrir sig og skoraði örugglega.


Baldvin skorar úr víti yfir höfuðið á Roland

Enginn uppgjafartónn var í Valsmönnum. Einar Gunnarsson jafnaði þótt Valsmenn væru einum færri og Bjarki Sigurðsson breytti stöðunni í 15:16 og kom liði sínu yfir í fyrsta sinn þegar rúmar 3 mín. voru eftir. Það var raunar ótrúlegt hve Valsmönnum gekk vel að leika einum færri en þeir fengu dæmdar á sig fimm brottvísanir í hálfleiknum en KA eina. Áðurnefndur Baldvin jafnaði síðan fyrir KA af vítalínunni með því að sneiða knöttinn yfir höfuð Eradze, alveg sallarólegur. Mikill darraðardans var stiginn síðustu mínúturnar. Heimir Árnason skoraði sigurmark KA þegar rúm mínúta var eftir og tíu sekúndum fyrir leikslok skaut Einar Gunnarsson í stöng KA-marksins og sigur heimamanna var í höfn.


Geir Sveinsson þjálfari Vals fer með bænirnar sínar

Þessi leikur var adrenalínfoss fyrir alla sem komu nálægt honum og voru dómararnir ekki öfundsverðir. Nokkuð virtist vera skorað af ólöglegum mörkum en handboltinn er línudans og ekki gott að meta hvert tilvik í hita leiksins. Valsmenn voru æði ósáttir með sinn hlut í seinni hálfleik og eyddu talsverðri orku í það að kvarta við eftirlitsdómarann á tímabili en í leik sem þessum er það trauðla eitt atvik sem ræður úrslitum.


Einar Logi Friðjónsson gnæfir yfir vörn Vals

Baldvin Þorsteinsson var hetja KA-manna og Heimir Árnason reif sig upp úr lægð. Heiðmar Felixson náði sér ekki á strik og Halldór Sigfússon gat ekki iðkað sömu töfrabrögð og í síðasta leik. Egidijus Petkevicius varði mikilvæg skot, m.a. tvö vítaskot. Vörnin var sérdeilis sterk. Hjá Val var varnarmúrinn þéttur og Roland Eradze varði oft ótrúlega. Bjarki Sigurðsson og Einar Gunnarsson voru nánast þeir einu sem létu að sér kveða í sókninni í seinni hálfleik og liðið hefði þurft á kröftum fleiri leikmanna að halda, s.s. Snorra Guðjónssonar og Sigfúsar Sigurðssonar, en vörn KA tók þá föstum tökum. Líklega eru margir leikmenn liðanna orðnir þreyttir og ekki ganga þeir allir heilir til skógar en víst er að þeir munu allir berjast til síðasta svitadropa í úrslitaleiknum.

Gangur leiksins: 1:0, 2:2, 5:3, 7:6, 8:7, 10:9, 11:11, 14:12, 15:16, 17:16.

Mörk KA: Heimir Örn Árnason 4, Baldvin Þorsteinsson 4/2, Andrius Stelmokas 3, Jóhann Gunnar Jóhannsson 2, Halldór Sigfússon 2/1, Heiðmar Felixson 1, Sævar Árnason 1.
Markvarsla: Egidijus Petkevicius, KA: 10 (3 til mótherja); 4 (1) langskot, 2 (1) víti, 2 úr horni, 1 (1) eftir gegnumbrot, 1 af línu.
Utan vallar: 4 mínútur.

Mörk Vals: Bjarki Sigurðsson 6/1, Einar Gunnarsson 3, Freyr Brynjarsson 3, Markús Mikaelsson 2/1, Sigfús Sigurðsson 1, Snorri Guðjónsson 1.
Markvarsla: Roland Eradze, Val: 20 (9 til mótherja); 7 (2) langskot, 4 (4) eftir gegnumbrot, 4 (2) eftir hraðaupphlaup, 2 úr horni, 2 víti, 1 (1) af línu.
Utan vallar: 8 mínútur.

Dómarar: Anton Gylfi Pálsson og Hlynur Leifsson. Héldu sinni línu og dæmdu í heildina vel.
Áhorfendur: Um 1.300.

Einar Sigtryggsson blaðamaður Morgunblaðsins ræddi við menn eftir leikinn.

Hissa á að fá að taka vítaköstin
Baldvin Þorsteinsson, hinn 18 ára gamli hornamaður KA, kom svellkaldur til leiks í síðari hálfleik og skoraði fjögur af fimm síðustu mörkum KA. Hann fór tvívegis á vítalínuna þegar skammt var eftir. Stráknum urðu ekki á nein mistök og mörkin hans fleyttu KA í úrslitaleikinn.
„Ég var nú hálfhissa á að fá að taka vítaköstin. Þegar Atli bað mig um að taka þau sagði ég að sjálfsögðu já. Ég gerði bara eins og ég er vanur, var ekkert að breyta því,“ sagði Baldvin við Morgunblaðið.
Var hann ekki hræddur við Eradze sem hafði varið um tuttugu skot og þar af tvö vítaköst? „Ja, ég klikkaði á fyrsta skotinu og gerði smámistök í vörninni í byrjun en eftir að ég var búinn að skora tvö þá var ég kominn í takt við leikinn og eftir það gekk þetta vel. Leikurinn á föstudaginn verður líkt og þessi mjög jafn. Ég vona bara að við fáum að spila í Laugardalshöllinni svo að sem flestir geti séð leikinn,“ sagði Baldvin Þorsteinsson, en honum verður ekki að þeirri ósk sinni.

Einar Gunnarsson, Valsmaður, kom mjög sterkur af varamannabekknum hjá Hlíðarendaliðinu í gær og skoraði þrjú af fjórum síðustu mörkum Vals. Hann átti einnig síðasta skot Vals sem hafnaði í stöng KA-marksins. Hann ræddi við nafna sinn Sigtryggsson.

Töpum ekki tvisvar heima
„Þetta er bara svona, annaðhvort tekst það eða ekki og það gerði það ekki núna,“ sagði Einar við Morgunblaðið eftir leikinn. „Nú kemur smáhlé frá rimmunni og eitt svona skot sakar ekki. Ég kom þarna inn og ætlaði að vinna þennan leik en það verður víst að bíða og við tökum þá á föstudaginn í staðinn. Það verður gaman að fara á okkar heimavöll með okkar stuðning og okkar stemningu og við töpum ekki tvisvar í röð á heimavelli,“ sagði Einar.



Sigurinn í höfn og aðeins oddaleikurinn eftir

Þá er komið að umfjöllun DV-Sports um leikinn:

KA-menn tryggðu sér oddaleik í úrslitaeinvígi Esso-deildar karla í handbolta með 17-16 sigri á Valsmönnum í troðfullu KA-húsinu á miðvikudaginn. KA-menn náðu þar með sigri í síðasta heimaleik Atla Hilmarssonar. En nú er að sjá hvort þeir brjóta blað í sögu úrslitakeppni karla (í hand- og körfubolta) og verða fyrsta liðið til að koma aftur eftir að hafa lent 0-2 undir.

Leikurinn í KA-húsinu í fyrrakvöld var æsispennandi en ólíkt fyrri leik liðanna í húsinu var það vörnin og markvarslan sem var aðall beggja liða enda hefur aldrei verið skorað jafnlítið í leik í lokaúrslitum karla frá upphafi.

KA-menn höfðu frumkvæðið og Valsmenn komust ekki yfir í leiknum fyrr en þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir. KA-menn svöruðu strax og gerðu tvö síðustu mörk leiksins og sigurmarkið kom einni mínútu og 15 sekúndum fyrir leikslok þegar Heimir Örn Árnason braust leifursnöggt í gegnum Valsvörnina. Hlíðarendapiltum tókst þar ekki að nýta síðustu tvær sóknir sinar og misstu af því að tryggja sér titilinn annan leikinn í röð.


Heiðmar Felixson kominn í vænlega stöðu

Roland Eradze varði frábærlega í marki Vals í leiknum og þá sérstaklega í síðari hálfleik er hann varði 16 af 25 skotum KA-manna. Sú staðreynd varð þó ekki til að draga úr sjálfstrausti hins 18 ára Baldvins Þorsteinssonar eða það að Eradze varði fyrsta skot hans í leiknum.

Baldvin skoraði fjögur af síðustu fimm mörkum KA í leiknum, tvö þau seinni svellkaldur á vítalínunni. Það gátu fáir trúað sem á horfðu að þarna færi 18 ára strákur í liðinu að taka sín fyrstu víti í vetur gegn besta vítamarkverði deildarinnar. Fyrra vítið sendi hann í gegnum klof hans og í því seinna lét hann boltann falla yfir höfðið. Á sama tíma og Baldvin skoraði úr fjórum skotum í röð á móti Roland Eradze varði hann 11 skot í röð frá öðrum leikmönnum KA-liðsins.


Stuðningsmenn sýna stuðninginn

Valsmenn léku vörnina vel en mistökin í sóknarleiknum og vandræði skyttna liðsins sáu til þess að sóknarleikurinn hikstaði alltof mikið.

Sigfús Sigurðsson, hinn stæðilegi línumaður Valsmanna, var enn í gjörgæslu og svo strangri að hann náði ekki að skjóta nema tvisvar á markið og í bæði skiptin í hraðaupphlaupi. KA-menn fengu vissulega bæði að fanga og hanga í peysu tröllsins en Sigfús varð líka fljótt pirraður og fékk meðal annars dæmd tvö sóknarbrot á sig í seinni hálfleik.


Jóhann Gunnar Jóhannsson skorar annað af mörkum sínum í leiknum

Hjá KA átti Heimir Örn góðan leik og hann og Andrius Stelomkas og Jónatan Þór Magnússon lokuðu á Sigfús á línunni. Þá átti Baldvin frábæra innkomu í vinstra hornið og Egidijus Petkvevicius varði mikilvæga bolta allan leikinn.

Hjá Val var það aðeins Bjarki Sigurðsson sem fann sig í sókninni, aðeins 5 mörk komu ekki í gegnum hann. Markús Máni Michaelsson og Snorri Steinn Guðjónsson virtust báðir yfirspenntir og munar um minna. Einar Gunnarsson átti hins vegar góða innkomu í seinni hálfleik en Roland Eradze var yfirburðamaður í liðinu og hélt því margoft inni í leiknum eftir slæm mistök í sókninni. -ÓÓJ

DV-Sport ræddi sömuleiðis við leikmenn og þjálfara:

Eins og ég er vanur að gera
„Þetta er eins og ég tek oftast víti og ég sá enga ástæðu til að breyta út af því,“ sagði Baldvin Þorsteinsson, 18 ára piltur í KA-liðinu, sem steig fram og skoraði úr tveimur mikilvægum vítum á lokasprettinum gegn vítabananum Roland Eradze.

Baldvin segist síst hafa verið smeykur þegar hann var kallaður til. „Ég var hálfhissa þegar Atli bað mig að taka vítið en það kom ekki annað til greina en að segja já. Þegar fyrra vítið fór inn var ég öruggur í því síðara. Manni líður vel fyrir fullu húsi af KA-áhorfendum og þeir styðja alltaf vel við bakið á manni,“ sagði Baldvin Þorsteinsson. -ÓK

Spennuþrungið
„Eigum við ekki að segja að þetta hafi verið spennuþrungið,“ sagði Jónatan Magnússon, leikmaður KA, eftir leikinn. „Bæði lið voru með hörkuvarnir og markmennirnir að verja vel, sérstaklega Eradze, en okkar markmaður gerði vel líka. Þess vegna var hvert mark rosalega mikilvægt í þessum leik. Þá þarf að nýta vítin og við settum litla strákinn (Baldvin Þorsteinsson) í það og hann kann þetta, alveg ískaldur,“ segir Jónatan.

Bæði lið virtust nokkuð taugastrekkt framan af og til að mynda fóru fjórar sóknir forgörðum í röð hjá báðum liðum á fyrstu tíu mínútunum. „Ég held að menn hafi verið að vanda sig of mikið til að byrja með og opnu færin fóru illa. Það er ekki okkar stíll að spila af varkárni, við kýlum á það, en svona gerist. Síðan var Fúsi eitthvað að væla,“ bætir Jónatan við þegar Sigfús Sigurðsson, línumaður Vals, greip í hann og þakkaði honum fyrir leikinn og greinilega stutt í glensið hjá strákunum þrátt fyrir að vera rétt komnir úr miklum baráttuleik.


Menn sýna stuðninginn með ýmsu móti

„Þegar við vorum orðnir 2-0 undir í rimmunni fórum við að hugsa um að við þyrftum að vinna þrjá leiki í röð. Við sáum að það þýddi ekkert að hugsa þannig og ákváðum því að líta bara á næsta leik. Nú er einn leikur eftir og það verður eins með hann.

Við erum orðnir þreyttir og þeir líka og þó að menn finni ekki fyrir því sjálfir þá sést það á spilinu. Þreytan kemur síðan þegar maður er kominn heim og varir fram að upphitun í næsta leik en hún gleymist í leiknum.
Nú ætlum við að enda þetta eins og 1997, kveðja Atla eins og þeir kvöddu Alfreð (Gíslason)," sagði baráttujaxlinn Jónatan. -ÓK

Við erum óbugaðir
Snorri Steinn Guðjónsson, fyrirliði Valsmanna, var ekki sáttur við lyktir leiksins en sagði hann hafa verið mjög erfiðan. „Bæði lið voru að spila sterkan varnarleik, markvarslan var góð en að sama skapi voru bæði lið að fara illa með dauðafæri. Við brenndum okkur á því að klikka á mörgum dauðafærum og það fer með leikinn hjá okkur. Það er sóknarleikurinn sem er að klikka, það lið sem spilar betri sóknarleik stendur uppi sem sigurvegari.“

- Heldur þú að það hafi slæm áhrifá liðið að hafa misst niður tveggja leikja forskot?
„Nei, við vorum búnir að vinna sex leiki í röð, sjálfstraustið er í lagi og það þarf meira en tvo tapleiki til að buga okkur. Nú er þetta búið og næsta verkefni er fyrir höndum, leikurinn á föstudaginn. Hann er á okkar heimavelli og við töpum ekki tvisvar í röð á Hlíðarenda,“ sagði Snorri Steinn. -ÓK

Kveð vonandi með titli
sagði Atli Hilmarsson sem á eftir að stjórna KA-liðinu í einum leik

„Þetta var mjög erfiður sigur og maður sér það á báðum liðum að menn eru orðnir mjög þreyttir og stressið er mikið, enda mikið undir, það sést á því hversu mikið fór í súginn af dauðafærum.

Þetta féll okkar megin núna og við njótum góðs af því að geta skipt aðeins meira inn á. Við fáum óþreytta menn inn á eins og Baldvin í dag, hann kom með kollinn kláran. Þegar svona er komið, menn orðnir þreyttir og lappirnar hættar að svara þá vinnst þetta í höfði manna.“

- Hvað hugsaði þjálfarinn þegar 18 ára strákur setti boltann rétt yfir höfuðiö á einhverjum mesta vítabana deildarinnar í leik sem gat ráðið úrslitum um íslandsmeistaratitilinn?

„Menn horfðu á mig á bekknum og spurðu: „Ætlarðu að láta Baldvin taka vítið? Hann tekur ekki einu sinni vítin í 2. flokki!“. Einhvern veginn fannst mér hann vera í besta standinu af þeim sem voru inn á, ég veit að þetta er klár strákur og sá setti hann!“


Atli Hilmarsson, þjálfari KA, hvatti sína menn til dáða og hér stappar hann stálinu í Baldvin Þorsteinsson sem fór á kostum undir lok leiksins.

Atli kvaddi KA-heimilið í leiknum eftir fimm ára veru þar og áhorfendur stóðu upp fyrir leik og hylltu hann. „Þetta var mjög gaman og þetta fyrir leikinn var alveg frábært, að geta kvatt fyrir fullu húsi og það var ánægjulegt að vera kvaddur svona. Ég vona að ég geti kvatt félagið með titli á föstudaginn.“


Sigurstemming í leikslok

Atli segir það skemmtilega tilhugsun að geta fetað í fótspor Alfreðs Gíslasonar, fyrrum landsliðsfélaga síns, sem vann titilinn á sínu síðasta ári. „Það væri auðvitað gaman. Það er erfitt verkefni fram undan og erfiður útivöllur. Það er engin spurning að Valur er mjög gott lið og í raun synd að annað liðið þurfi að tapa,“ sagði Atli. -ÓK

Seljum okkur dýrt
„Þetta var hörkuleikur enda engin spurning að það væri erfitt að spila hér,“ sagði Ágúst Jóhannsson, aðstoðarþjálfari Vals, eftir leikinn.
„Við vorum að spila vel varnarlega en vorum í vandræðum sóknarlega, sérstaklega framan af, en náðum síðan að leysa úr því eftir því sem líða fór á leikinn. Spennan var ótrúlega mikil og það sást á gæðum leiksins, þetta var ekki leikur upp á toppeinkunn.“

„Það var okkur dýrt að misnota dauðafæri og 2 víti, sérstaklega í fyrri hálfleik, og í svona leikjum skipta dauðafærin miklu máli.

Varnirnar voru mjög góðar en það er ekki hægt að horfa fram hjá því að menn eru orðnir þreyttir. Það er hins vegar skemmtanagildið í þessu að menn ná að reka sig áfram og við komum til með að selja okkur dýrt í Valsheimilinu.“

Það var greinilegt í leiknum að Valsmenn voru ekki alls kostar sáttir við dómgæsluna.
„Við erum ekki sáttir við dómgæsluna hér í dag, í heildina var þetta allt í lagi en það komu tveir, þrír mikilvægir dómar, KA-menn skora eitt greinilegt línumark og síðan skil ég ekki hvað þeir voru að dæma á Sigfús undir lokin. Við vorum svo sem ósáttir í Valsheimilinu um daginn en það er langt frá því að við séum að kenna dómurunum um.“ -ÓK
Fletta milli frétta Til baka    Senda á Facebook
Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson