Warning: Undefined variable $udleiks in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 16
Viðtal við Jónatan Þór um ferilinn og framtíðina - Akureyri Handboltafélag
  Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Meistarafl. karla
Næstu leikir
Nýjustu úrslit
Stjarnan-Akureyri 28-23
Þri. 4. apr. 2017
Olís deild karla
ÍBV-Akureyri 22-22
Mið. 29. mar. 2017
Olís deild karla
deildin staðan

Ungmennalið karla
Næstu leikir
Nýjustu úrslit
Stjarnan U-Akureyri U 35-30
Fös. 7. apr. 2017
1. deild karla
Akureyri U-KR 34-30
Fös. 31. mar. 2017
1. deild karla
deildin staðan




    Fréttir                       Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar! 

Jonni spilaði bæði með KA og Akureyri en hellir sér nú alfarið í þjálfunina










27. maí 2014 - Akureyri handboltafélag skrifar

Viðtal við Jónatan Þór um ferilinn og framtíðina

Jónatan Þór Magnússon er einhver allra þekktasti handknattleiksmaður sem komið hefur frá Akureyrarbæ. Jonni var gríðarlega fyrirferðarmikill í íslenskum handbolta til margra ára, kom ungur inn í lið KA og fór fyrir því sem fyrirliði. Jonni prófaði að fara í "mennskuna" til Frakklands en sneri svo til baka til Akureyrar og lék í þrjú ár með liði Akureyrar Handboltafélags. Síðustu ár hefur hann svo verið í Kristiansund í Noregi þar sem hann hefur tekið þátt í uppbyggingu á staðarliðinu þar og eftir að hafa lagt skóna á hilluna núna er hann þjálfari liðsins.

Jonni hafði gríðarleg áhrif á handboltann á Akureyri hvort sem það var sem leikmaður eða þjálfari, bæði yngri flokka sem og meistaraflokk kvenna. Þá tel ég að það finnist varla meiri fyrirliði heldur en hann Jonni enda ákaflega mikill keppnismaður sem að drífur alla með sér í baráttunni.

Nú hefur þú lagt skóna á hilluna frægu, hvernig er að átta sig á því að leikmannaferlinum sé lokið?
Það er nú ekki langt síðan ég tók þá ákvörðun að hætta, svo það er kannski ekki komin mikil reynsla á það, en alla vegana núna er ég bara sáttur. Fann að þetta var orðið gott og fínt að hætta meðan að maður gat ennþá eitthvað smá. Núna tekur við þjálfaraferillinn og það er bara spennandi.


Jonni á sínu fyrsta tímabili með meistaraflokk 1997-1998

Hvenær tókst þú skrefið upp í meistaraflokk og hvernig var það?
Fyrsta alvöru tímabilið mitt í meistaraflokki var tímabilið 1997-1998 sem var einmitt fyrsta árið sem að Atli Hilmars tók við KA. Það var ótrúlega spennandi, en allavegana í þá daga fékk maður alveg að finna vel fyrir því að vera kjúklingur og við þurftum svo sannarlega að hafa fyrir því að fá eitthvað "respekt". Man að á fyrstu æfingunni minni þá gaf Leó Örn Þorleifsson mér smá smakk af því hvert ég væri kominn. Það má alveg segja að hann hafi slátrað mér nokkrum sinnum… þá hugsaði ég með mér að annað hvort væri að leggjast í gólfið og grenja eða taka slaginn. Ég sem ungur gaur lærði mikið af þessum sem eldri voru, fékk mikla kennslu og leiðsögn en mér varð fljótt ljóst að það þýddi ekki að mæta bara með kjaft, maður varð að verða sér út um innistæðu áður en maður gat farið að rífa sig. Held kannski að núna í seinni tíð hafi þetta pínu breyst, sumir þessir ungu mæta innistæðalausir upp í meistaraflokk, en þá vonandi eru til staðar þessir "gömlu" sem að vísa þeim réttu leiðina og skóla þá aðeins til.

Þú tókst ungur við fyrirliðabandi KA liðsins og barst það til margra ára og varst að margra mati nokkurskonar andlit handboltaliðs KA enda fór mikið fyrir þér á velli og dreifst fólk með þér. Eftirminnilegt er stemmningsklappið hjá þér til að kveikja vel í KA-Heimilinu, hvað stendur uppúr þegar þú lítur til baka á þennan tíma?
Úff, það er að miklu að taka sem að maður man eftir. Við unnum nú einhverja titla í KA, sem að eru allir mjög eftirminnilegir, en það sem stendur kannski mest upp úr eru allir gaurarnir sem að maður náði að spilaði með. Margir hverjir skrautlegir karakterar og sumir alveg snarruglaðir. Æfingarnar í KA voru líka mjög sérstakar, það var varla æfing þar sem ekki sauð upp úr. Fótboltinn í upphitun er nú efni í heila bók, það sem gekk þar á er náttúrulega bara alveg stórbilað. Þegar á æfingunni stóð voru menn stundum alveg við það að drepa hvern annan en svo eftir æfingu var allt gleymt og menn hlógu að vitleysunni. En ég spilaði og æfði með miklum snillingum, og svo eru það margir sem að voru í kringum liðið sem að alltaf mættu og aðstoðuðu mann. Held að það sé einmitt fólkið í félaginu sem að maður umgekkst og kynntist sem stendur mest upp úr svona þegar að ég hugsa til baka til KA áranna góðu.


Jonni liggur eftir eftir að hafa fengið tönn í nefið í úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn árið 2001

Hverjar eru eftirminnilegustu stundirnar á KA ferlinum?
Það liggur beinast við að nefna þessar úrslitastundir, man að ég grísaðist á að skora sigurmarkið á lokasekúndunum á móti ÍR í KA-Heimilinu í lokaumferðinni í deildinni 2001 og tryggði okkur þá deildarmeistaratitil.
Úrslitaleikurinn á móti Haukum í KA-Heimilinu það sama ár sem tapaðist og ég endaði með tönn í nefinu! Það er sennilega súrasta tapið af mörgum súrum töpum.
Íslandsmeistaratitillinn sem við unnum svo árið eftir (2002) mun seint gleymast eftir að margir höfðu afskrifað okkur gegn sterku liði Vals. Svo var bikarúrslitaleikurinn móti Fram árið 2004 magnaður, þá var gamli frekar stoltur að taka á móti bikarnum sem fyrirliði.


KA Íslandsmeistarar árið 2002

Nú varstu oft viðriðinn landsliðið og hefur nokkra landsleiki á bakinu en margir eru þó á því að þú hefðir átt að fá oftar tækifæri með landsliðinu, svíður það eitthvað að landsleikirnir hafi ekki orðið fleiri?
Verð nú að byrja á því að leiðrétta þig... ég á ekki "nokkra" ég hef spilað eitt stykki landsleik og sá leikur telst ekki á ferilskránni þar sem að það var landsliðið á móti pressuliðinu.
Ég var valinn í úrtakshóp fyrir einhver stórmót (að ég held tvisvar sinnum) en var "köttaður" svo ég náði aldrei þeim markmiðum að spila með landsliðinu.
Ég get ekki sagt að það svíði, annað hvort er maður nógu góður fyrir landsliðið eða ekki. Pabbi gerir ennþá grín að mér, sjálfur með landsleiki á bakinu í fótbolta, og vill meina að ég hafi verið vitlaus að velja handboltann. Pabbi er alveg sannfærður um að ég hefði náð landsleik í fótbolta ef ég hefði valið þá íþrótt, held þó reyndar að hann sé einn um þá skoðun!


Aliaksandr Shamkuts með gott tak á Jónatan

Þú fórst svo frá KA og gekkst til liðs við St. Raphael í Frakklandi, hvernig var það tímabil og að prófa allt annað umhverfi?
Árið 2006 fluttum við hjónin til Frakklands, ævintýraþráin var mikil hjá okkur og staðurinn sem og umhverfið hrikalega flott. Þar fékk ég að upplifa að þurfa að standa á eigin fótum og þetta var stórt próf, en þetta var erfitt og það endaði svo sem fljótt, ég meiddist snemma og náði mér aldrei góðum. Konan varð svo ólétt og við enduðum á því að "flýja heim". Eftir á að hyggja var það bara væl að koma heim, en svona er það þegar maður er yngsta barnið í fjölskyldunni! En ég lærði þó heilmikið af verunni þarna, reyndar ekki frönsku!


Jonni fyrirliði KA sem varð Bikarmeistari 2004

Svo tekur við endurkoma til Akureyrar og þú gengur til liðs við hið sameinaða lið Akureyrar Handboltafélags og leikur með liðinu þrjú tímabil, hvernig var sá tími og hvernig berð þú saman að spila með KA og svo Akureyri Handboltafélagi?
Sá tími var fínn, skrítið þó í byrjun að spila í KA-Heimilinu ekki í gulu, en það vandist. Svo var ákveðið að fara með leikina yfir í Íþróttahöllina sem að var fínt á þeim tímapunkti. Ég vil þó meina að Akureyri Handboltafélag eigi í framtíðinni að spila í KA-Heimilinu. Það hefur nákvæmlega ekkert með KA og Þór að gera, stemmningin sem skapast þar er bara það góð að engin Höll á Akureyri getur toppað það.


Kominn í Akureyri Handboltafélag og baráttan alltaf sú sama

Endirinn á ferlinum er svo Noregsævintýri í Kristiansund þar sem þú ásamt fleiri Íslendingum rífið þar bæjarliðið upp. Hvernig var að enda ferilinn á slíku ævintýri?
Það var mjög gaman að flytja hingað til Noregs, töluvert öðruvísi en þegar ég fór í "mennskuna" til Frakklands. Núna fórum við út með 2 börn og það var þroskandi að takast á við þær áskoranir sem fylgdu því að flytja út heila fjölskyldu.
Fyrsta árið var náttúrulega algjört grín handboltalega séð, en tvö árin þar á eftir voru mjög skemmtileg handboltalega. Svo þetta síðasta ár, hálfgert ævintýri með peningakrísu, þjálfaraskiptum og ég veit ekki hvað og hvað.


Með tönn í nefinu! Þar var hún í 10 mánuði

Hvað tekur svo við hjá Jonna Magg, á að hella sér alfarið yfir í þjálfunina eða stefnir þú frá handboltanum?
Nú er ég sem sagt á mínu öðru ári sem þjálfari, finnst það mjög skemmtilegt og klúbburinn er búinn að núllstilla sig. Ég er nýbúinn að gera tveggja ára samning og það er engin dramatík lengur varðandi fjárhag hjá félaginu. Ég er í fullri vinnu hjá klúbbnum og hlakka mikið til næstu tveggja ára.


Tveggja mínútna brottvísun á síðasta tímabilinu með Akureyri

Hefurðu fylgst með gengi Akureyrar síðan þú fórst og hvernig líst þér á framtíðina hjá félaginu?
Ég tel mig hafa fylgst mjög mikið með Akureyri eftir að ég flutti út. Mér líst vel á framtíðina, gaman að sjá að það heldur áfram sú þróun að það koma alltaf ungir og flottur strákar upp. Ég verð samt að segja að mig langar að sjá Akureyri gera alvöru atlögu að einhverjum titlum, og þá verða að vera góðir leikmenn í Akureyri í bland við okkar ungu efnilegu leikmenn. En það kostar auðvitað og ég vona að menn sem geta hjálpað til með peningahliðina sjái hag bæjarins í því að eiga alvöru handboltalið.


Það eru ófáir Akureyringarnir sem hafa fengið áritun hjá okkar manni

Svona í restina þá væri gaman að fá svokallað draumalið af þeim leikmönnum sem þú hefur leikið með
Þetta er fáránlega erfið spurning… svo að ég móðgi engan þá læt ég það vera að svara henni. En það eru margir frábærir leikmenn sem að ég spilaði með.


Endum þetta á einni gamalli en góðri af Jonna frá KA dögunum

Fletta milli frétta Til baka    Senda á Facebook
Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson