Warning: Undefined variable $udleiks in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 16
Stórbrotinn sigur Akureyrar á Haukum - Akureyri Handboltafélag
  Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Meistarafl. karla
Næstu leikir
Nýjustu úrslit
Stjarnan-Akureyri 28-23
Þri. 4. apr. 2017
Olís deild karla
ÍBV-Akureyri 22-22
Mið. 29. mar. 2017
Olís deild karla
deildin staðan

Ungmennalið karla
Næstu leikir
Nýjustu úrslit
Stjarnan U-Akureyri U 35-30
Fös. 7. apr. 2017
1. deild karla
Akureyri U-KR 34-30
Fös. 31. mar. 2017
1. deild karla
deildin staðan




    Fréttir                       Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar! 

Hreiðar Levý, Ingimundur, Kristján Orri og Brynjar fóru fyrir sínum mönnum í gær







17. apríl 2016 - Akureyri handboltafélag skrifar

Stórbrotinn sigur Akureyrar á Haukum

Það voru án efa býsna margir sem töldu það nánast formsatriði fyrir Hauka að gera út um einvígi liðanna eftir öruggan sigur þeirra á heimavelli á fimmtudaginn. Stór hópur stuðningsmanna Hauka fylgdi þeim norður til að taka þátt í gleðinni.


Hluti af fylgdarliði Hauka í stúkunni

Það var þó ljóst strax í byrjun að Akureyrarliðið ætlaði ekki að sýna neina minnimáttarkennd gagnvart deildarmeisturunum. Bergvin Þór Gíslason kom Akureyri yfir með fyrsta markinu og leikurinn strax í járnum og jafnt á öllum tölum upp í 4-4. Næstu átta mínúturnar virtust Haukarnir ætla að stinga af því næstu fjögur mörk voru þeirra, staðan orðin 4-8 og mikil gleði meðal fjölmargra stuðningsmanna Hauka í stúkunni.

En þá hófst viðsnúningurinn, Hreiðar Levý var kominn í markið og varnarleikurinn small betur. Í kjölfarið komu tvö hraðaupphlaupsmörk og forysta Hauka komin niður í eitt mark, 8-9. Haukarnir spyrntu þó frá sér og juku muninn í þrjú mörk, 9-12 og 10-13 þegar enn voru tæpar fjórar mínútur til hálfleiks.

Þessar mínútur reyndust heldur betur fjörugar, Hörður Másson og Bergvin Þór Gíslason minnkuðu muninn í eitt mark með flottum mörkum utan af velli. Hreiðar Levý varði síðasta skot Hauka þegar 15 sekúndur voru eftir og kom boltanum fram. Boltinn barst til Friðriks Svavarssonar á línunni og af gríðarlegu harðfylgi sótti hann aukakast og varnarmann Hauka útaf þegar tvær sekúndur voru eftir. Stillt var upp í aukakastið og Brynjar Hólm Grétarsson klíndi boltanum, óverjandi upp í samskeytin og jafnaði leikinn við gríðarlegan fögnuð heimamanna í húsinu.


Friðrik Svavarsson svo sannarlega með krafta í kögglum vinnur mikilvægt aukakast

Bergvin Þór og Kristján Orri voru komnir með 4 mörk hvor, Hörður 2, Brynjar Hólm Róbert og Sigþór með 1 mark hver.

Haukar byrjuðu með boltann í seinni hálfleik en það var ljóst strax í upphafi að vörn Akureyrar var komin í ofurham. Ingimundur Ingimundarson fór hamförum og dreif alla með sér. Hreiðar Levý varði síðan flest sem komst í gegnum varnarmúrinn. Eftir þrettán mínútna leik í seinni hálfleik náði Akureyri forystunni 16-15 og áfram var haldið með þrem mörkum í viðbót og staðan orðin 19-15 fyrir heimamenn.


Ingimundur átti sannkallaðan stórleik í vörninni

Haukar virtust ekki trúa sínum eigin augum en Akureyrarliðið barðist áfram af fullum krafti og það segir nokkuð um vörn og markvörslu að það var ekki fyrr en eftir 22 mínútna leik í seinni hálfleik sem þeir skora sitt fjórða mark.

Lokahluti leiksins var æsilegur, Haukar reyndu hvað þeir gátu til að riðla sóknarleik Akureyrar, tóku eiginlega þrjá sóknarmenn úr umferð og með tveim mörkum frá Tjörva Þorgeirssyni tókst þeim að minnka forystu Akureyrar í tvö mörk. Þegar rétt rúm mínúta var eftir fiskaði Janus Daði víti fyrir Hauka en Hreiðar Levý kórónaði frábæra frammistöðu sína með því að verja vítakastið frá Hákoni Daða.


Hreiðar Levý ver vítakastið á lokamínútunni

Kristján Orri og Hreiðar Þór skiluðu síðan tveim Akureyrskum mörkum á lokamínútunni og Hreiðar Levý bætti um betur með því að verja tvö skot til viðbótar þannig að Akureyri fagnaði hreint stórkostlegum fjögurra marka sigri, 25-21.

Það verður að segjast eins og er að þetta var einhver albesti leikur sem Akureyrarliðið hefur sýnt á tíu ára sögu liðsins. Sérstaklega var seinni hálfleikurinn hreint frábær. Varnarleikur liðsins var hreint ævintýralegur, Ingimundur var sem kóngur í ríki sínu og smitaði heldur betur út frá sér. Sóknin gekk líka vel og ef ekki hefðu komið til nokkrir tapaðir boltar hefði sigurinn hæglega getað orðið stærri því þegar upp er staðið þá blasir við sú ótrúlega staðreynd að markverðir Hauka náðu ekki að verja eitt einasta skot í seinni hálfleik.

Mörk Akureyrar: Kristján Orri Jóhannsson 9 (2 úr vítum), Bergvin Þór Gíslason 4, Brynjar Hólm Grétarsson 4, Heiðar Þór Aðalsteinsson 3, Hörður Másson 2, Sigþór Árni Heimisson 2 og Róbert Sigurðarson 1 mark.
Hreiðar Levý Guðmundsson varði 18 skot þar af 1 vítakast og Tomas Olason varði 1 skot.

Mörk Hauka: Tjörvi Þorgeirsson 7, Adam Haukur Baumruk 4, Hákon Daði Styrmisson 4 (2 úr vítum), Janus Daði Smárason 3, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 2 og Elías Már Halldórsson 1 mark.
Í markinu varði Giedrius Morkunas 8 skot, þar af 1 vítakast. Grétar Ari Guðjónsson kom í markið um tíma í seinni hálfleik en náði ekki að verja skot.

Við völdum Hreiðar Levý mann leiksins en ekki er hægt annað en hrósa öllu liðinu fyrir frábæra frammistöðu, Ingimundur, Kristján Orri og þið allir, takk fyrir okkur.


Ósvikin fagnaðarlæti í leikslok

Slagurinn heldur svo áfram á þriðjudagskvöldið með oddaleik á Ásvöllum, það er ekkert gefið í þeim leik.
Fletta milli frétta Til baka    Senda á Facebook
Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson