Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15
Akureyri-Fram umfjöllun - Akureyri Handboltafélag
  Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Fyrri leiktímabil

Tímabilið 2007-08

Leikmenn meistarafl. karla
Úrslit leikja
Deild karla
Deild kvenna
Leikmenn meistarafl. kvenna




Textalýsing frá leiknum     Tölfræði leiksins 
    Akureyri - Fram  26-30 (10-13)
N1 deild karla
KA heimilið
22. september 2007 klukkan: 16:00
Dómarar: Anton Gylfi Pálsson og Hlynur Leifsson
Umfjöllun

Maggi átti stórleik í seinni hálfleik og skoraði 12 mörk í allt





22. september 2007 - Akureyri Handboltafélag skrifar

Akureyri-Fram umfjöllun

Fyrsti heimaleikur vetrarins hjá körlunum fór fram í dag þegar Akureyri mætti Frömurum í annarri umferð N1 deildarinnar.
Leikurinn fór ágætlega af stað hjá okkar mönnum og jafnt var á öllum tölum framan af leiknum. Akureyri spilaði ágætis vörn framan af en sóknarleikurinn var nokkuð stirður. Mörkin létu nokkuð á sér standa hjá liðunum og mikið var um mistök á báða bóga.
Framarar leiddu megnið af hálfleiknum með einu til tveimur mörkum en fjórum mínútum fyrir hálfleik náðu heimamenn að jafna leikinn í 10-10. Síðustu þrjár mínútur hálfleiksins voru þó skelfilegar hjá Akureyri og Framarar skoruðu þrjú mörk í röð og leiddu í hléi 10-13.

Leikhléð sjálft var nokkuð tíðindamikið en þá kynnti Jóhannes Bjarnason kvennalið Akureyrar af sinni alkunnu snilld á meðan stelpurnar sýndu sig á gólfinu. Svo sannarlega ungt og efnilegt lið þar á ferð og vonandi að áhorfendur fjölmenni á fyrsta heimaleik þeirra á morgun gegn FH.

Þá fékk heppinn ársmiðahafi að spreyta sig í þeirri von að vinna sér inn GSM síma frá Vodafone. Það var svo Haukur Ármannsson sem kastaði boltanum glæsilega yfir völlinn, í stöngina og inn og vann sér þar með inn símann góða. Ekki var þó nauðsynlegt að setja boltann í stöngina á leiðinni í netið en boltinn mátti ekki snerta völlinn á leið sinni í markið og var Haukur ekki í vandræðum með það.

Segja má að síðari hálfleikur hafi hafist eins og þeim fyrri lauk og Framarar gerðu tvö fyrstu mörkin þrátt fyrir að Akureyri hafi byrjað með boltann. Staðan því orðin 10-15 og brekkan orðin grýtt hjá heimamönnum. Skemmst er frá því að segja að gestirnir héldu þessum fimm marka mun allt fram á lokamínúturnar þegar Akureyri náði loksins að minnka muninn í þrjú mörk en niðurstaðan fjögurra marka tap, 26-30.

Akureyri fékk mörg tækifæri til að koma sér inn í leikinn en fjöldinn allur af sendingafeilum, þá sérstaklega í hröðum sóknum urðu liðinu að falli. Þá voru Framarar mun ákveðnari í fráköstum auk þess sem lukkan var oftar en ekki bláklædd á mikilvægum augnablikum.

Akureyri hefur oft leikið betur en í dag. Sóknin var fremur ryðguð og allt of lítið kom út úr hægri vængnum. Magnús bar sóknarleikinn nánast á herðum sér í síðari hálfleik og skoraði hann í honum 9 mörk, hvert öðru fallegra.
Meiri eru þó kannski vonbrigðin með varnarleikinn en hann var ekki eins öflugur og menn höfðu búist við. Mótið er þó enn ungt og enn á eftir að slípa saman ýmis smáatriði.

Við bendum á beina textalýsingu sem fram fór hér á síðunni til að fá enn betri mynd af þróun leiksins.

Næsti leikur liðsins er gegn HK á útivelli á laugardaginn kemur en næsti heimaleikur er gegn Haukum og fer sá leikur fram fimmtudaginn 4. október.

Tölfræði:
Mörk/víti (fjöldi skota), annað
Magnús Stefánsson 12 (22), 1 tapaður bolti
Goran Gusic 6/3 (10/4)
Jónatan Magnússon 3 (3), 1 tapaður bolti
Andri Snær Stefánsson 2 (3), 1 tapaður bolti
Einar Logi Friðjónsson 2 (8), 1 ruðningur
Þorvaldur Þorvaldsson, 1 (1)
Rúnar Sigtryggsson 1 (4)
Heiðar Þór Aðalsteinsson 0 (2)
Hörður Sigþórsson 0 (1)
Björn Óli Guðmundsson, 1 tapaður bolti

Varin skot:
Sveinbjörn Pétursson 9
Siguróli Sigurðsson 6

Smelltu hér til að skoða myndir Þóris Tryggvasonar frá leiknum

Tengdar fréttir

Vonum að Heiddi hafi ekki slasast alvarlega

22. september 2007 - Akureyri Handboltafélag skrifar

Tap gegn Fram - Heiðar Þór á sjúkrahús

Akureyri-Handboltafélag tapaði í dag gegn Fram með 26 mörkum gegn 30.

Það leiðinlega atvik átti sér stað undir lok leiksins að Heiðar Þór Aðalsteinsson lenti í harkalegu samstuði við Magnús Gunnar Erlendsson, markvörð Framara.

Eftir leik var farið með Heiðar á sjúkrahús þar sem hann var ekki alveg með sjálfum sér. Talið er að um heilahristing sé að ræða en Heiðar verður undir eftirliti á sjúkrahúsi fram eftir kvöldi.

Magnús slapp óskaddaður úr samstuðinu.

Nánari umfjöllun um leikinn kemur á heimasíðuna í kvöld en einnig bendum við á beina textalýsingu sem fram fór hér á síðunni.


Sendum góða strauma til strákanna

22. september 2007 - Akureyri Handboltafélag skrifar

Byggt á sterkri liðsheild

Þá er komið að fyrsta heimaleik karlaliðs Akureyrar á þessu keppnistímabili, þegar Framarar koma í heimsókn í dag en flautað verður til leiks í KA-heimilinu kl. 16. Akureyri vann sætan sigur á útivelli um síðustu helgi gegn nýliðum Aftureldingar og þá lögðu Framarar hina nýliðana í N1-deildinni, ÍBV, að velli í Eyjum.

Óhætt er að segja að Akureyri muni í vetur byggja á sterkri liðsheild. Í leikmannahópnum eru framúrskarandi einstaklingar, en engin ein stórstjarna sem mótherjarnir þurfa að leggja höfuðáherslu á að stöðva. Sem betur fer; þannig lið er mun skeinuhættara þegar á hólminn kemur en það sem byggir á einum eða fáum sterkum mönnum.

Í vinstra horninu byrjaði Heiðar Þór Aðalsteinsson í sókninni gegn Aftureldingu um daginn en Andri Snær Stefánsson lék þó þar meirihluta leiksins. Akureyringar vita að mikið býr í báðum; Heiðar Þór er mikið efni og skemmtilega lipur leikmaður; þriðji sonur Steina Sigurgeirs og Önnu Grétu sem leikur í þessari stöðu! Andri Snær var valinn leikmaður ársins í fyrravetur hjá Akureyrarliðinu og lék þá gríðarlega vel. Feykilega sterkur, snöggur og lipur leikmaður sem erfitt er að eiga við og verður áfram einn burðarása Akureyrarliðsins í vetur.

Og talandi um bræður; í leiknum gegn Aftureldingu um daginn var í fyrsta skipti í leikmannahópi Akureyrar Ágúst Stefánsson, fyrrverandi umsjónarmaður Heimasíðunnar og litli bróðir Andra Snæs. Stefán gítarleikari og tölvusérfræðingur Heimasíðunnar kann að búa til hornamenn ekki síður en Steini Sigurgeirs!

Helsta tromp Akureyrar á vinstri vængnum fyrir utan verður Magnús Stefánsson eins og í fyrravetur. Magnús er skytta mikil og góð eins og allir vita. Hann æfði ekki með félögum sínum í liðinu í sumar, heldur sinnti starfi og unnustu í Vestmannaeyjum en æfði duglega þar að sögn og spennandi verður að sjá hvernig hann kemur undan sumrinu. Þrumufleygarnir frá Fagraskógi eru án vafa á sínum stað.

Björn Óli Guðmundsson sem kom til Akureyrar frá Stjörnunni í sumar er ákaflega drjúgur leikmaður, traustur og fylginn sér og á án efa eftir að nýtast liðinu vel. Björn Óli hóf leikinn gegn Aftureldingu sem leikstjórnandi en getur einnig leikið í skyttustöðunni vinstra megin, og jafnvel í fleiri stöðum ef þörf er á. Þá finnst honum ákaflega gaman að taka þátt í varnarleiknum...

Rúnar Sigtryggsson byrjaði á bekknum um síðustu helgi en getur komið í stöðu skyttu vinstra megin eða spilað sem leikstjórnandi, þegar og ef þjálfarinn vill... Rúnar hefur engu gleymt og skoraði þrjú mörk gegn Aftureldingu. Ekki má heldur gleyma því hve gríðarlega mikilvægur hann getur reynst liðinu í varnarleiknum.

Jónatan Þór Magnússon er fáum líkur, ef nokkrum. Jonni snéri heim frá Frakklandi í fyrravetur, átti við meiðsli að stríða mánuðum saman og fór í aðgerð í sumar. Illa gekk þó að greina nákvæmlega hvað var að honum, en þrautseigju hans og dugnaði er viðbrugðið og hann var klár í fyrsta leik þótt engum dytti það í hug nokkrum vikum fyrr - ekki einu sinni honum sjálfum. Það er frábært að Jonni skuli vera kominn heim á ný; þessi ódrepandi baráttujaxl er ómetanlegur liðsmaður og þekktur fyrir að drífa félaga sína áfram.

Einar Logi Friðjónsson lék mjög vel gegn Aftureldingu um síðustu helgi. Einar Logi kom heim frá Þýskalandi í fyrravetur sem kunnugt er og hóf að leika með liðinu eftir jólafríið. Hann átti frekar erfitt uppdráttar framan af enda liðið í erfiðleikum, en Einar hefur sýnt í haust hvað í honum býr og nú er ljóst að hann fellur vel inn í liðið og mun örugglega verða mjög ógnandi í vetur. Það er auðvitað mjög mikilvægt að hafa svo sterkan örvhentan leikmann innanborðs. Þá skilar Einar Logi geysilega góðu hlutverki í vörninni.

Goran Gusic er frábær á góðum degi og var einmitt markahæstur Akureyringa gegn Aftureldingu. Goran leikur aðallega í hægra horninu en getur auðveldlega leyst Einar Loga af í skyttustöðunni. Ef Goran sleppur við meiðsli, sem hafa hrjáð hann annað veifið síðustu misseri, verður hann liðinu afar dýrmætur. Og ekki má gleyma vítaskyttunni Goran; þau eru ekki mörg skotin af vítalínunni sem hann hefur ekki skilað í markið.

Akureyringar eru ekki á flæðiskeri staddir þegar kemur að því að manna línumannsstöðuna. Hörður Fannar Sigþórsson hefur eflst með hverju árinu sem líður og ætti að geta blómstrað í vetur sem aldrei fyrr. Höddi verður ekki stöðvaður svo glatt ef hann nær að handsama boltann á línunni og þá er hann auðvitað ódrepandi baráttujaxl, hvort sem er í vörn eða sókn. Sömu rulluna er hægt að fara með um Þorvald Þorvaldsson, hraðinn er kannski ekki sá sami og í gamla daga en reynslan og baráttuandinn vega það upp.

Í markinu stendur Sveinbjörn Pétursson sem þrátt fyrir ungan aldur er kominn með töluverða reynslu og byrjaði tímabilið mjög vel gegn Aftureldingu um síðustu helgi. Nú er Hreiðar Levý farinn til Svíþjóðar og komið að Bubba að sýna hvað í honum býr og ekki ástæða til annars en vera bjartsýnn. Vert er að minna á frábæra frammistöðu hans framan af síðasta vetri þegar hann stóð í markinu á meðan Hreiðar var meiddur. Þá saknaði í sjálfu sér enginn landsliðsmarkvarðarins! Það segir meira um Sveinbjörn en mörg orð.

Vörn Akureyrarliðsins á að vera gríðarlega sterk í vetur; besta vörn landsins er markmið Rúnars þjálfara. Varnarlína skipuð einhverjum þeirra Magnúsi Stefánssyni, Herði Fannari, Einari Loga, Þorvaldi Þorvaldssyni, Rúnari eða Birni Óla hefði einhvern tíma verið kallaður ókleifur múr. Og þegar Jonni bætist við fyrir framan varnarvegginn og þeir Andri Snær, Heiddi eða Goran tilbúnir að skjótast fram í hraðaupphlaup úr hornunum, ættu æstir áhorfendur í KA-heimilinu að geta hlakkað til fjörugra viðureigna, glæsilegra marka og flottra tilþrifa.

Ótaldir eru margir ungir og bráðefnilegir leikmenn sem gætu komið inn í liðið í vetur en spreyta sig væntanlega að mestu með 2. flokki, sem ætti að geta orðið mjög sterkur í vetur. Nánar um þá síðar.

Að endingu hvetur Heimasíðan alla handknattleiksáhugamenn á Akureyri til þess að mæta á leikinn í dag og styðja okkar menn af miklum krafti. Áfram, til sigurs!


Fylgist spennt með stórleik Akureyrar og Fram hér á síðunni klukkan 16:00

22. september 2007 - Akureyri Handboltafélag skrifar

Bein Lýsing: Akureyri - Fram

Akureyri Handboltafélag leikur í dag mikilvægan leik og er leikurinn gegn öflugu liði Fram og byrjar klukkan 16:00. Það verður gaman að sjá hvernig liðið kemur tilbúið til leiks en þetta er eins og menn vita fyrsti alvöru heimaleikurinn á tímabilunu. Heimasíðan býður upp á beina textalýsingu af leiknum sem hún hvetur fólk til að fylgjast með ef það kemst ekki á leikinn, en leikurinn er leikinn í KA-heimilinu. Það er virkilega auðvelt að fylgjast með leiknum í gegnum Beinu Lýsinguna.

Smellið hér til að opna Beina Lýsingu

Beina Lýsingin opnast í nýjum glugga sem uppfærist af sjálfu sér á 15 sekúndna fresti. Það er því ekkert mál að fylgjast með. Leikurinn hefst eins og fyrr kom fram klukkan 16:00 en við hvetjum alla til að fylgjast vel með.


Allir klárir í að taka á móti Fram

20. september 2007 - Akureyri Handboltafélag skrifar

Fyrsti heimaleikurinn á laugardaginn


Til baka    Senda á Facebook

Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson