Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15
Valsarar sterkari á lokasprettinum - Akureyri Handboltafélag
  Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Fyrri leiktímabil

Tímabilið 2007-08

Leikmenn meistarafl. karla
Úrslit leikja
Deild karla
Deild kvenna
Leikmenn meistarafl. kvenna




Textalýsing frá leiknum     Tölfræði leiksins 
    Akureyri - Valur  20-24 (11-10)
N1 deild karla
KA heimilið
5. desember 2007 klukkan: 19:00
Dómarar: Gísli Jóhannsson og Hafsteinn Ingibergsson
Umfjöllun

Einar Logi skoraði sex mörk og fékk reisupassann. Bubbi varði 4 víti Valsara










6. desember 2007 - Akureyri handboltafélag skrifar

Valsarar sterkari á lokasprettinum

Leikmenn Akureyrar og Vals buðu upp á hörkuleik í KA-Heimilinu í gærkvöld. Valsarar komust í yfir í 0-1 og aftur í 1-2 en þá tóku baráttuglaðir Akureyringar við sér og skoruðu næstu fimm mörk og breyttu stöðunni í 6-2. Áfram héldu yfirburðir Akureyrar og eftir þrettán mínútna leik var staðan orðin 8-4. Á þessum tíma varði Sveinbjörn m.a. tvö vítaköst og allur leikur liðsins búinn að vera frábær.

Það sem eftir var fyrri hálfleiks gekk hins vegar ekki sem skyldi í sóknarleiknum og skoraði liðið aðeins þrjú mörk fram að hálfleik, fjögur stangarskot og markvarsla Pálmars í Valsmarkinu úr dauðafærum komu í veg fyrir að Akureyri næði að gera út um leikinn í fyrri hálfleik. Þess í stað leiddi Akureyri einungis með einu marki í hálfleik 11-10.

Eftir tæplega fimm mínútna leik í síðari hálfleik komust Valsarar yfir, 12-13 og héldu tveggja til þriggja marka forystu þar til að Akureyri jafnaði leikinn af miklu harðfylgi í 19-19 þegar rétt tæpar tíu mínútur voru eftir. Á þessum tíma spiluðu bæði lið hörku vörn en sóknarleikur okkar manna var þó engan veginn nógu góður, flestir virkuðu hálfhikandi og virtust ekki leggja í að taka af skarið. Helst var það Einar Logi sem sýndi áræðni og ógnaði þó svo að skotnýtingin væri ekki eins og best verður á kosið.

Á þessum tímapunkti fékk Einar Logi sína þriðju brottvísun og þar með útilokun frá leiknum. Næstu mínútur einkenndust af gríðarlegri baráttu, Sveinbjörn varði sitt fjórða víti í leiknum en í sókninni gekk afleitlega og munaði greinilega um fjarveru Einars Loga. Okkar menn skoruðu aðeins eitt mark á þessum síðustu tíu mínútum gegn fimm mörkum Valsara sem sigruðu 20-24 og fögnuðu mikið í leikslok.

Það ætlar greinilega að verða erfið fæðing á fyrsta heimasigri liðsins í ár en eins og svo oft áður í vetur þá sýndi liðið afbragðsleik á löngum köflum, sérstaklega varnarlega en hins vegar var sóknarleikurinn alltof köflóttur. Það sást í leiknum að lykilmenn í sókninni eru ekki alveg heilir og ekki að spila á fullum styrk. Það var greinilegt að meiðsli Magnúsar Stefánssonar frá Haukaleiknum eru að há honum þannig að hann beitti sér alls ekki af sínum eðlilega styrk í leiknum hvorki í vörn né sókn. Magnús skoraði einungis eitt mark og það undir lok leiksins og munar um minna. Ásbjörn var bara á annarri löppinni eftir öklameiðsli á æfingu og þá er Þorvaldur ekki leikfær. Þá sást Goran nánast ekkert í sóknarleiknum og ár og dagar síðan að hann er ekki á meðal markaskorara. Hins vegar er ekki hægt annað en hrósa liðinu fyrir grimma vörn og Sveinbjörn átti afbragðsleik í markinu.

Mörk Akureyrar: Einar Logi 6, Jónatan 5 (3 víti), Andri Snær 3, Hörður Fannar 2, Magnús, Eiríkur, Nikolaj og Rúnar 1 mark hver.

Sveinbjörn Pétursson stóð í markinu allan tímann og varði alls 17 skot, þar af fjögur víti og virkilega gerði sitt til að halda fjöri í leiknum og er tvímælalaust útnefndur maður leiksins.

Í liði Vals voru Akureyringarnir Baldvin Þorsteinsson og Arnór Gunnarsson atkvæðamestir með 8 og 4 mörk.

Tengdar fréttir

Strákarnir svekktir eftir tapið gegn Val







6. desember 2007 - Akureyri handboltafélag skrifar

Hvað sögðu þeir eftir Valsleikinn

Fréttablaðið og Vikudagur ræddu við Sveinbjörn markvörð og Andra Snæ eftir Valsleikinn í gær, svo og við Óskar Bjarna, þjálfara Vals.

Sveinbjörn segir við Fréttablaðið: "Loksins þegar ég næ mér á strik þá er þetta eins og svo oft í vetur, tveir hlutir eru í lagi en sá þriðji klikkar. Við áttum að keyra yfir þá þegar þeir voru á rassgatinu í fyrri hálfleik en það er eins og það hafi vantað einhvern sigurvilja í okkur. Þetta skilur á milli sigurvegara og hinna, sigurvegararnir keyra bara yfir liðið meðan hinir bíða og tapa svo," sagði Sveinbjörn Pétursson sem varði vel í marki Akureyrar, þar á meðal fjögur vítaköst.

"Þetta er virkilega svekkjandi eftir að við fáum góðan stuðning hérna en það er þó ekki allt svart, það eru jákvæðir punktar í þessu líka. Við þurfum að byggja á því og taka fjögur stig í leikjunum tveimur fyrir hléið," sagði markmaðurinn.

Vikudagur hefur eftirfarandi eftir Andra Snæ: "Þetta er alltaf sama sagan, við erum sjálfum okkur verstir með því að klúðra öllum þessum dauðafærum. Það er það sem er að fara með alla þessa leiki hjá okkur, þrátt fyrir frábæra vörn og markvörslu eins og í þessum leik. Auðvitað fer maður að spyrja sig að því hvort sjálftraustið sé farið að minnka en við þurfum bara einn góðan sigurleik þá kemur það aftur," sagði hornamaðurinn sterki Andri Snær Stefánsson sársvekktur að leik loknum.

Loks skulum við sjá hvað Óskar Bjarni, þjálfari Vals hafði að segja um Akureyrarliðið við Fréttablaðið: "Þetta var mjög erfiður leikur og ég er hrifinn af þessu Akureyrarliði, ég er viss um að þeir munu klífa upp töfluna. Þeir eru með gott lið, vel mannað og vel þjálfað. Hvað okkur varðar þýðir ekkert að horfa á töfluna, þetta er bara að duga eða drepast og við þurfum bara að vinna alla leikina, það er bara þannig," sagði Óskar sem var skiljanlega glaðbeittari en norðanmenn eftir leikinn.


Nú þarf lið Akureyrar að halda áfram þar sem frá var horfið



5. desember 2007 - Akureyri handboltafélag skrifar

Leikur dagsins: Akureyri-Valur Bein lýsing

Andstæðingar okkar manna í dag eru engir aðrir en Íslandsmeistarar Vals. Valsmenn hafa heldur betur verið á siglingu í deildinni upp á síðkastið eftir dapra byrjun og lögðu Stjörnuna sannfærandi í síðasta leik. Okkar strákar hafa einnig verið að ná sér vel á strik í síðustu leikjum þannig að við getum lofað hörkuleik í KA-heimilinu í kvöld.

Þá eru bæði liðin komin í fjögurra liða úrslit í Eimskipsbikarnum og gætu hæglega átt eftir að lenda saman þar einnig.

Liðin mættust 17. október í Vodafone höllinni og var sá leikur ágætis skemmun þrátt fyrir að Valsmenn sigruðu að lokum 30-26. Síðari hálfleikur í þeim leik fór fjörlega af stað eins og kemur fram í umfjöllun Kristins Guðmundssonar...

"Eftir aðeins 26 sekúndur fór hornamaður Akureyringa, Andri Snær Stefánsson, inn úr þröngu færi í horninu og skaut beint í andlit Pálmars markvarðar. Klárt óviljaverk enda brotið á Andra í skotinu. Við þetta fauk hressilega í Pálmar, sem óð beint í Andra og uppskar að launum rautt spjald frá dómurum leiksins, þeim Antoni Gylfa Pálssyni og Hlyn Leifssyni. Verðskuldað rautt spjald sem Pálmar verður að bera fulla ábyrgð á, þar sem Andri er þekktur fyrir allt annað en ruddaskap á velli."

Hægt er að lesa alla umfjöllunina um þann leik hér.

Við hvetjum alla stuðningsmenn liðsins til að fjölmenna á leikinn í KA-heimilinu í dag klukkan 19:00. Mikilvægt er að mæta tímanlega og styðja okkar menn allt frá byrjun leiks. Aðrir geta þá fylgst með beinni lýsingunni hér á síðunni.

Það er virkilega auðvelt að fylgjast með leiknum í gegnum Beinu Lýsinguna.

Smellið hér til að opna Beina Lýsingu

Beina Lýsingin opnast í nýjum glugga sem uppfærist af sjálfu sér á 15 sekúndna fresti. Það er því ekkert mál að fylgjast með. Leikurinn hefst eins og fyrr kom fram klukkan 19:00 og við hvetjum alla til að fylgjast vel með.


Það hafa alltaf verið hörkuleikir þegar Valur mætir á svæðið

5. desember 2007 - Akureyri handboltafélag skrifar

Akureyri gegn Íslandsmeisturum Vals í kvöld kl. 19:00

Nú þurfa menn að taka á honum stóra sínum og halda áfram þar sem frá var horfið í síðustu leikjum og leggja Íslandsmeistara Vals. Lið Akureyrar hefur sýnt það í tveim síðustu deildarleikjum gegn toppliðum deildarinnar að það er til alls líklegt. Síðasti heimaleikur gegn HK var æsispennandi og topplið Hauka mátti þakka fyrir jafntefli á heimavelli sínum í síðustu umferð. Nú er bara að halda baráttunni áfram, flykkjast á leikinn kl. 19:00 í kvöld og styðja sína menn.



Til baka    Senda á Facebook

Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson