Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15
Dýrmætur sigur á Aftureldingu í háspennuleik - Akureyri Handboltafélag
  Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Fyrri leiktímabil

Tímabilið 2007-08

Leikmenn meistarafl. karla
Úrslit leikja
Deild karla
Deild kvenna
Leikmenn meistarafl. kvenna




Tölfræði leiksins 
    Afturelding - Akureyri  26-27 (16-16)
N1 deild karla
Varmá
3. febrúar 2008 klukkan: 16:00
Dómarar: Gísli Jóhannsson og Hafsteinn Ingibergsson
Umfjöllun

Jonni sýndi gamalkunna takta í dag

4. febrúar 2008 - Akureyri handboltafélag skrifar

Dýrmætur sigur á Aftureldingu í háspennuleik

Það var mikið undir í leik Aftureldingar og Akureyrar í meistaraflokki karla í gær enda skildi aðeins eitt stig liðin að fyrir leikinn. Akureyri byrjaði leikinn mjög vel og hafði frumkvæðið á upphafsmínútunum. Allir leikmenn voru mjög virkir í sóknarleiknum og eftir þrettán mínútna leik var liðið komið með fjögurra marka forystu 5-9 og höfðu sjö leikmenn skorað þessi mörk. Að loknum 15 mínútum var staðan 7-10 en þá var eins og kæmi værukærð yfir liðið og Afturelding náði að minnka muninn í eitt mark 9-10 og jafna síðan í 11-11.

Það er skemmst frá því að segja að eftir þetta var leikurinn í járnum og jafnt á öllum tölum þangað til í blálokin að Akureyri náði að knýja fram tveggja marka forystu 25-27 og unnu síðan eins marks sigur 26-27.

Fyrri hálfleik lauk með glæsilegu sirkusmarki þeirra Jónatans og Nikolaj Jankovic sem tryggði það að jafnt var í hálfleik 16-16. Sóknarleikurinn gekk býsna vel mestallan hálfleikinn, vörnin kannski ekki alveg nógu einbeitt og Sveinbjörn náði sér ekki nægilega vel á strik í fyrri hálfleiknum, aðeins fjögur skot varin en þar af eitt vítakast sem var mjög mikilvægt.

Eins og áður segir þá hélst sami barningurinn út allan leikinn og liðin skiptust á að halda eins marks forystu. Arnar Sveinbjörnsson kom í markið í hálfleik og átti prýðilega innkomu en Sveinbjörn kom þó inn á í blálokin og var þá kominn í sinn besta gír og tók nokkra gríðarlega góða bolta sem svo sannarlega skiptu máli þegar upp var staðið.

Það var margt mjög jákvætt í leik liðsins í leiknum, Jónatan sýndi sínar bestu hliðar sem leikstjórnandi og mataði samherja sína hvað eftir annað með snilldarsendingum, alls töldum við ellefu stoðsendingar frá honum sem gáfu mörk eða vítaköst, ekki slæm tölfræði það. Þá var Ásbjörn Friðriksson öryggið uppmálað á vítapunktinum, skoraði úr öllum sex vítunum sem liðið fékk og það er svo sannarlega dýrmætt í spennandi leik sem þessum. Þá átti Hörður Fannar einn sinn besta leik í vetur, skoraði þrjú mörk og fiskaði fimm víti, þá áttu Nikolaj Jankovic og Heiðar Þór fína spretti svo einhverjir séu nefndir.

Sérstaklega var ánægjulegt að liðið skyldi sýna karakter og halda haus undir lok leiksins og ná loksins að klára háspennuleik en alltof oft hefur það gerst í vetur að stig færu í súginn á síðustu sekúndum leikjanna en nú kláruðu menn leikinn sem var afskaplega kærkomið og dýrmæt stig komin í safnið. Sérstaklega var gaman að sjá að sóknarleikurinn er að smella vel og mörg skemmtileg leikkerfi skiluðu fínum mörkum.

Leikurinn var sýndur í sjónvarpinu og ætti að vera hægt að horfa á leikinn hér a.m.k. næstu tvær vikurnar.


Tengdar fréttir

Andri Snær og Emelía meiddust í gær og missa af næstu leikjum Akureyrar



3. febrúar 2008 - Akureyri handboltafélag skrifar

Leikir dagsins - meiðsli í herbúðum Akureyrar

Í dag leika bæði karla- og kvennalið Akureyrar í N1 deild og hefjast báðir leikirnir á sama tíma. Kvennaliðið mætir Fylki í KA heimilinu en karlarnir mæta Aftureldingu í Mosfellsbæ og hefjast leikirnir klukkan 16:00 í dag og er sá leikur jafnframt sýndur beint í sjónvarpinu.

Bæði lið urðu fyrir áfalli í gær þegar þau misstu leikmenn í meiðsli. Hornamaðurinn Andri Snær rifbeinsbrotnaði í gær og er ljóst að hann verður frá keppni og æfingum í einhverjar vikur. Þá meiddist Emelía markvörður kvennaliðsins í leik unglingaflokksins í gær og ljóst að hún verður ekki í leikmannahópnum í dag.

Við hvetjum stuðningsmenn Akureyrar á höfuðborgarsvæðinu til að fjölmenna í Mosfellsbæinn og hvetja strákana til dáða því að leikurinn í dag er gríðarlega mikilvægur og bráðnauðsynlegt fyrir liðið að ná í stig og slíta sig frá Aftureldingu í neðri hluta deildarinnar.

Þá hvetjum við bæjarbúa til að mæta á kvennaleikinn í KA heimilinu því að með góðum stuðningi er ekki ólíklegt að stelpunum takist að krækja í sín fyrstu stig í vetur.

Þar sem karlaleikurinn er sýndur beint í sjónvarpinu verðum við ekki með beina textalýsingu að þessu sinni.



Loksins, loksins fáum við að sjá þessa kappa í sjónvarpinu á sunnudaginn





31. janúar 2008 - Akureyri handboltafélag skrifar

Deildin hefst hjá körlunum - Sjónvarpsleikur

N1 deildin hjá körlunum fer af stað núna um helgina og hefja okkar menn leikinn í Mosfellsbænum sunnudaginn 3. febrúar klukkan 16:00. Leikurinn átti upphaflega að vera á laugardeginum en hefur sem sé verið færður yfir á sunnudaginn. Þau undur hafa jafnframt gerst að RUV ætlar að sýna leikinn í beinni útsendingu sem hefst tíu mínútum fyrir leik þ.e.a.s. klukkan 15:50 á sunnudag samkvæmt dagskrárvef RUV.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig okkar menn koma undan þessu langa hléi en vonandi hefur Noregsferðin gert þeim gott og þeir komi margefldir til leiks.

Jafnframt mun 2. flokkur karla standa í ströngu um helgina en þeir munu leika tvo deildarleiki fyrir sunnan um helgina, við Víking á föstudag og HK á laugardag. Þess má geta að þetta verða fyrstu leikir liðsins síðan 11. nóvember á síðasta ári. Á þriðjudagskvöldið leikur 2. flokkur síðan margfrestaðan bikarleik við Val í Vodafone höllinni.

Til baka    Senda á Facebook

Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson