Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15
Deildarbikarinn rann úr greipum Akureyrar - Akureyri Handboltafélag
  Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Fyrri leiktímabil

Tímabilið 2009-10

Leikmenn meistarafl. karla
Úrslit leikja
Deild karla




Ljósmyndir frá leiknum     Tölfræði leiksins 
    Haukar - Akureyri  25-24 (11-13)
Deildarbikar karla
Strandgata
Mán 28. des 2009 klukkan: 18:00
Dómarar: Anton Gylfi Pálsson og Hlynur Leifsson
Umfjöllun

Hafþór og Oddur voru frábærir í leiknum í dag



28. desember 2009 - Akureyri handboltafélag skrifar

Deildarbikarinn rann úr greipum Akureyrar

Akureyri var grátlega nálægt því að landa fyrsta meistaraflokkstitlinum í sögu félagsins í dag. Akureyringar mættu vel stemmdir til leiks og komust í 5-0 í upphafi leiks. Hafþór gjörsamlega lokaði markinu á upphafsmínútunum en Haukarnir náðu reyndar iðulega fráköstum og fengu annað tækifæri.

Það var ekki fyrr en eftir tíu mínútur sem Haukar komust á blað en þá svöruðu þeir með næstu fjórum mörkum og spenna komin í leikinn. Akureyringar héldu þó nokkuð öruggri forystu upp á 2 til 3 mörk út hálfleikinn en hálfleiksstaðan var 13-11 Akureyri í vil.

Hafþór átti magnaðan fyrri hálfleik í markinu og varði ein tólf skot og var tvímælalaust maður vallarins í fyrri hálfleik. Oddur hélt uppteknum hætti og skoraði mörk í öllum regnbogans litum, alls sjö í fyrri hálfleik.

Haukarnir náðu að jafna í 15-15 þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik en Akureyri gaf í og náði tveggja marka forystu 17-15 og seinna 19-17. Þá kom hins vegar slakur kafli þar sem Haukarnir gerðu fjögur mörk í röð á meðan allt gekk á afturfótunum hjá okkar mönnum, dauðafæri og vítakast fóru forgörðum og Haukar komust yfir í fyrsta sinn í leiknum 19-21.

Guðmundur Hólmar kom þá inná á ný og jafnaði með tveim bylmingsskotum 21-21. Haukarnir voru skrefinu á undan lokakaflann en Árni Sigtryggsson jafnaði í 24-24 þegar nítján sekúndur voru til leiksloka.

Þessar lokasekúndur voru dramatískar, vörn Akureyrar virtist ætla að halda en Haukar komu skoti á markið sem Hafþór varði í innkast. Á einhvern ótrúlegan hátt náðu Haukarnir að taka innkastið og Tjörvi Þorgeirsson átti síðan skot sem hafnaði í markinu um leið og leiktíminn rann út og sigur Hauka staðreynd 24-25.

Þessi úrslit voru sárgrætileg því Akureyri hafði leikinn í höndum sér mestallan tímann og fengu leikmenn býsna mörg tækifæri til að gera út um leikinn. Oddur Gretarsson átti annan stórleikinn í röð og var yfirburðamaður í sóknarleik liðsins. Varnarleikurinn gekk býsna vel í dag líkt og í gær en það verður að segjast að sóknarlega kom afskaplega lítið út úr hægri vængnum og er það eitthvað sem klárlega þarf að vinna í á næstu vikum.

Mörk Akureyrar skoruðu: Oddur Gretarsson 11 (3 víti), Árni Sigtryggsson 3, Andri Snær Stefánsson 2, Guðmundur Hólmar Helgason 2, Hreinn Hauksson 2, Hörður Fannar Sigþórsson 2 og Jónatan Magnússon 2.

Hafþór Einarsson stóð í markinu allan tímann og stóð svo sannarlega fyrir sínu með 22 skot varin.

Tengdar fréttir

Sendum Degi okkar bestu þakkir fyrir þjónustuna

29. desember 2009 - Akureyri handboltafélag skrifar

Myndir frá úrslitaleiknum gegn Haukum

Góðvinur okkar Dagur Brynjólfsson var mættur í Strandgötuna í gær með myndavélina og tók myndir á úrslitaleikjunum. Myndirnar eru komnar inn á myndasíðuna hans þannig að við getum skoðað þær þar.

Við sendum Degi bestu þakkir fyrir frábæra þjónustu hvað þetta varðar.

Smellið hér til að skoða myndir frá leik Akureyrar og Hauka.

Hér eru síðan hægt að skoða myndasíðu Dags, þar á meðal frá öllum leikjum Deildarbikarsins.


Spennandi leikur framundan

28. desember 2009 - Akureyri handboltafélag skrifar

Úrslitaleikurinn sýndur í KA-heimilinu og í Hamri

Við greindum frá því fyrr í dag að ekki yrði mögulegt að sýna leik Akureyrar og Hauka á Greifanum eins og venja hefur verið. Nú höfum við fengið fréttir af því að leikurinn verður sýndur á breiðtjaldi í KA heimilinu og þangað eru allir velkomnir.

Einnig höfum við heimildir fyrir því að leikurinn verði einnig sömuleiðis sýndur í Hamri, félagsheimili Þórs þannig að stuðningsmenn Akureyrar hafa ýmsa möguleika á að koma saman og fylgjast með leiknum sem hefst klukkan 18:00 í dag.

Að sjálfsögðu er einnig hægt að fylgjast með leiknum í gegnum heimilistölvuna ef maður hefur á annaðborð þokkalegt netsamband. Þú smellir bara hér til að sjá leikinn beint á SportTV.is.


Akureyrarstrákarnir eru í góðum gír um jólin

28. desember 2009 - Akureyri handboltafélag skrifar

Úrslitaleikur dagsins: Haukar - Akureyri (bein útsending)

Í dag er komið að úrslitaleik Deildarbikarsins í ár þar sem Akureyri Handboltafélag mætir Íslandsmeisturum Hauka. Eftir flottan leik í gær þar sem Akureyri vann sannfærandi sigur á FH verður athyglisvert að fylgjast með úrslitaleiknum í dag en hann hefst klukkan 18:00.

Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á SportTV.is og hvetjum við alla stuðningsmenn til að fylgjast með.

Vegna anna á Greifanum er því miður ekki hægt að koma því við að þessu sinni að sýna leikinn þar á tjaldi.

Að loknum karlaleiknum mætast Haukar og Fram í úrslitaleik kvenna. Báðir leikirnir fara fram í Hafnarfirði, í gamla Haukahúsinu í Strandgötu.

Smelltu hér til að fylgjast með beinni útsendingu frá úrslitaleikjunum.

Til baka    Senda á Facebook

Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson