Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15
Stórleikur Harðar Flóka og Árna í góðum sigri á Fram - Akureyri Handboltafélag
  Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Fyrri leiktímabil

Tímabilið 2009-10

Leikmenn meistarafl. karla
Úrslit leikja
Deild karla




Ljósmyndir frá leiknum     Textalýsing frá leiknum     Tölfræði leiksins 
    Akureyri - Fram  28-25 (13-11)
N1 deild karla
Íþróttahöllin
Mán 22. febrúar 2010 klukkan: 19:00
Dómarar: Gísli Hlynur Jóhannsson og Hafsteinn Ingibergsson
Umfjöllun

Varnarmenn Fram réðu lítið við Árna Sigtryggsson í kvöld





22. febrúar 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar

Stórleikur Harðar Flóka og Árna í góðum sigri á Fram

Akureyri vann í kvöld nokkuð öruggan sigur á Fram í Höllinni 28-25 þar sem þeir Hörður Flóki Ólafsson markvörður og Árni Sigtryggsson fóru á kostum í liði Akureyrar.

Minna var skorað í fyrri hálfleik en oft áður í leikjum Akureyrar í vetur, en heimamenn voru með forystu 13-11 þegar flautað var til hálfleiks. Þeir voru raunar klaufar að hafa ekki mun meiri forystu því þeir fóru illa með fjölda dauðafæra og hefðu einu sinni getað komist í sex marka forystu í fyrri hálfleiknum en fóru illa að ráði sínu og hleyptu gestunum inn í leikinn.

Jafnræði var með liðunum framan af seinni hálfleik eða allt þar til að um 14 mínútur voru til leiksloka að Akureyri tók góðan kipp og komst í sex marka forystu 23-17. Eftir fylgdi nokkuð slæmur kafli þar sem Fram komst aftur inn í leikinn og minnkaði muninn í 20-22, Rúnar Sigtryggsson þjálfari Akureyrar tók þá leikhlé.
Ræða Rúnar virðist hafa farið vel í menn því Akureyringar tóku aftur við sér og lönduðum að lokum góðum 28-25 sigri.


Góðum sigri fagnað í Höllinni

Sóknarleikur Akureyrar var kaflaskiptur í leiknum, en góðu kaflarnir þó fleiri en þeir slæmu. Mikið munar um að Árni Sigtryggsson virðist vera búinn að finna sitt gamla form og skoraði hann 11 góð mörk, öll þeirra með langskotum fyrir utan. Vörnin var allan leikinn nokkuð góð og Hörður Flóki var að vanda frábær fyrir aftan hana og varði 25 skot alls í leiknum. Þeir Hörður Flóki og Árni drógu að öðrum ólöstuðum vagninn í þessum leik og voru frábærir.


Frábærir stuðningsmenn sem aldrei klikka

Áður en botninn er sleginn í þessa grein verður að minnast á að áhorfendur á leiknum voru að vanda fjölmargir og létu ágætlega heyra í sér í seinni hálfleik eftir að hafa verið heldur rólegir í þeim fyrri!

Mörk Akureyrar: Árni Sigtryggsson 11, Oddur Gretarsson 5, Jónatan Magnússon 4, Hörður Fannar Sigþórsson 3, Guðmundur Helgason 2, Heimir Árnason 2, Hreinn Hauksson 1.
Hörður Flóki Ólafsson varði 25 skot en Hafþór Einarsson kom inná og reyndi við eitt vítakast.

Jón Stefán Jónsson

Skoða myndir Þóris Tryggvasonar frá leiknum.

Tengdar fréttir

Hörður Flóki vitnaði í heimsbókmenntirnar eftir leikinn





23. febrúar 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar

Hvað sögðu menn eftir leik Akureyrar og Fram?

Blaðamenn Fréttablaðsins (visir.is) og Morgunblaðsins tóku fjölmörg viðtöl við aðstandendur liðanna eftir leikinn í gærkvöldi. Skoðum hér nokkur sýnishorn þeirra.

Jónatan Magnússon, fyrirliði Akureyrar var í góðum gír þegar hann spjallaði við Hjalta Þór Hreinsson á Fréttablaðinu. „Síðasta heimaleik unnum við með þrettán mörkum og við heyrðum það á fólki að það hefði ekki verið nógu gaman, við ákváðum því að hugsa um skemmtanagildið fyrir áhorfendur í kvöld. Við vorum eiginlega pínulítið búnir að gleyma hvernig á að klára leikina. Við vitum ekkert hvað er að gerast. Við kláruðum þetta í restina eftir atlögu þeirra að okkur. Við svöruðum fyrir okkur og þetta var nokkuð öruggt í lokin.
Þetta var lykilleikur fyrir okkur. Við eigum HK næst sem er annar lykilleikur fyrir toppbaráttuna.“

Þegar Hjalti spyr Jónatan um gæði leiksins svarar hann: „Vörnin var ágæt lengst af og markvarslan fín allan tímann. Það komu slæmir kaflar en þetta var nóg í kvöld. Heilt yfir var þetta ekkert spes en þetta var vinnusigur. Við eigum nokkra leikmenn inni.
Við erum bara þannig lið að við vinnum leikina á vörn og markvörslu. Sóknarleikurinn er ekki fallegur, við vitum það, en hún verður falleg í úrslitakeppninni ef við komumst þangað," sagði brosmildur Jónatan sem átti ágætan leik í gær.

Hjalti Þór spjallaði einnig við rokkarann Heimi Örn Árnason: „Mér finnst við bara ekki vera að spila af nógu góðum standard. Bæði ég, Jonni (Jónatan Magnússon) og Árni (Þór Sigtryggsson) erum alltof rokkandi. Það kemur einn og einn góður leikur en við getum aldrei verið góðir á sama tíma. Það vantar miklu meiri stöðugleika í liðið. Við erum bara rokkandi frá aumingjum upp í töffara. Ég ætla bara að vona að þetta lagist á lokasprettinum og fyrir úrslitakeppnina,“ sagði Akureyringurinn Heimir Örn Árnason eftir leikinn.

Markvörðurinn Hörður Flóki Ólafsson var að mati Hjalta maður leiksins, en Flóki fagnaði nýfæddri dóttur sinni með frábærum leik: „Ég held að Hómer Simpson hafi sagt: Good, but not great. Þessi leikur var þannig, ekki gott en alveg nógu gott. Það er að bjarga mér hvað standardinn á deildinni er slakur. Ég er ekki að æfa mikið né vel og ég er ekki í góðu formi. Ég er líklega að taka þetta á reynslunni.“ Sagði Hörður Flóki lítillátur eftir frábæra frammistöðu.

Andri Yrkill Valsson, blaðamaður Morgunblaðsins ræddi við Árna Sigtryggsson sem var í miklum ham í leiknum: „Já, ég var bara nokkuð heitur“ sagði Árni og hélt áfram: „Þetta er slæmt hjá okkur að spila svona í lokin en við gáfum í síðustu mínúturnar og það skipti máli,“ sagði Árni Þór.

Andri Yrkill ræddi einnig við Rúnar Sigtryggsson, þjálfara Akureyrar, sem var sammála bróður sínum Árna um spilamennsku liðsins undir lokin. „Það var komið niður í tvö mörk í lokin og í þeirri stöðu hættir okkur til að halda að sigurinn sé öruggur en sem betur fer sýndu þeir hvað þeir gátu og stóðu sig vel. Þetta var erfitt, en ég er virkilega ánægður með að við náðum að slíta þá frá okkur með góðum varnarleik, sérstaklega einum færri. Í þeirri stöðu lögðu sig allir fram, spiluðu mjög góða vörn og það er það sem skóp sigurinn.“

Hvað sögðu Framarar í leikslok?

Andri Yrkill ræddi við Einar Jónsson þjálfara Fram sem var að vonum ekki alveg sáttur með spilamennsku sinna manna: „Leikurinn í heild hjá okkur er allt í lagi. Við erum einum fleiri á mikilvægum köflum í leiknum og við töpum þeim kafla illa. Þá fengum við á okkur mörg hraðaupphlaup þar sem við náðum ekki að hlaupa til baka til að verjast. Í heild var margt gott hjá okkur, en á móti margt sem má laga.“

Hjalti Þór á Fréttablaðinu ræddi við Harald Þorvarðarson fyrirliða Fram: „Þetta er dæmigert fyrir okkur í vetur, við höfum spilað rosalega kaflaskipt. Það er svo erfitt að koma svona oft til baka. Þetta hefur verið ótrúlega erfitt tímabil fyrir alla en með því að fá menn úr meiðslum er þetta vonandi á uppleið," sagði Haraldur.

Að lokum sjáum við hvað Halldór Jóhann Sigfússon sagði við Hjalta Þór eftir leikinn. „Þetta er dæmigerður leikur fyrir okkur í vetur. Við eigum góða kafla en þess á milli köstum við þessu frá okkur. Það má segja þetta um fleiri leiki eins og leikinn í kvöld. Við erum alltaf að narta í hælana á andstæðingnum en það vantar herslumuninn að fara einu marki lengra.
Akureyri var ekki að spila góðan leik í kvöld, langt því frá, og þaðan af síður við. En ef við ætlum að fá eitthvað út úr þessum leikjum þá þurfa allir lykilmennirnir að eiga góðan dag en það gerðist ekki í þessum leik.
Við höfum verið að lenda í meiðslum og það hefur verið erfitt fyrir liðið og hópinn. Það fer vonandi að lagast. En við þurfum að vera skynsamir í okkar leik og við erum að kasta þessum leikjum frá okkur of fljótt. Við erum kannski að fá á okkur fjögur mörk á tveimur mínútum og leikurinn nánast búinn.

Staða liðsins er bara eins og hún er og hún segir sína sögu. Meðan liðið vinnur ekki leiki fáum við ekki stig, þannig virkar handbolti. Við þurfum bara að girða okkur í brók ef það á ekki illa að fara,“ sagði Halldór að lokum.


Jónatan leiðir sína menn til leiks í dag

22. febrúar 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar

Leikur dagsins: Akureyri - Fram (textalýsing)

Að vanda gerum við ráð fyrir að hafa beina textalýsingu frá leiknum í dag. Leikurinn hefst í Höllinni klukkan 19:00.

Þú smellir hér til að fylgjast með beinu lýsingunni sem opnast í sérstökum glugga og uppfærist síðan sjálfkrafa á 20 sekúndna fresti.


Enginn skyldi afskrifa Fram liðið

22. febrúar 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar

Leikur dagsins: Akureyri - Fram í Höllinni klukkan 19:00

Andstæðingar okkar manna í dag (mánudag) eru engir aðrir en bláklæddir Framarar úr Safamýrinni. Þessi leiktíð hefur verið þeim afar erfið en eftir tólf leiki hefur liðið einungis náð sér í 3 stig og situr það á botni N1 deildarinnar. Liðið virðist þó vera að rétta úr kútnum því þeir léku skínandi leik gegn Val í síðustu umferð og má segja til marks um óheppni Frammara að Valsarar hreinlega rændu öðru stiginu í lok leiksins. Allavega er ljóst að lið Akureyrar hefur engin efni á því að slaka á í þessum leik og verður að sýna sömu baráttu og leikgleði og liðið sýndi gegn Gróttu um daginn.

Í liði Fram eru þrír Akureyringar, Halldór Jóhann Sigfússon og bræðurnir Magnús og Hákon Stefánssynir kenndir við Fagraskóg. Magnús lék sinn fyrsta leik síðastliðinn fimmtudag eftir slæm meiðsli þegar Fram gerði jafnteflið við Val og við vitum alveg hvað hann getur þegar hann kemst í gang.


Magnús og Hákon Stefánssynir


Halldór Jóhann Sigfússon

Akureyri mátti líka sætta sig við jafntefli í síðasta leik þannig að það er morgunljóst að bæði liðin ætla sér bæði stigin úr leiknum. Fyrri leik liðanna sem fram fór á heimavelli Fram lyktaði með stórsigri Akureyrar 18-27 eftir að hafa verið yfir í hálfleik 10-12. En eins og Fram sýndi í síðasta leik þá hefur liðið stóreflst síðan.

Ráðgert hafði verið að fyrir leikinn og í hálfleik kæmi hljómsveit kennara og nemenda Tónlistarskólans á Akureyri með lifandi tónlist á staðnum en því miður vorum við að fá þær fréttir að vegna veikinda yrði ekki af því að þessu sinni.


Til baka    Senda á Facebook

Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson