Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15
Akureyri fór með tvö stig úr Mosfellsbænum - Akureyri Handboltafélag
  Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Fyrri leiktímabil

Tímabilið 2010-11

Leikmenn meistarafl. karla
Úrslit leikja
Deild karla




Textalýsing frá leiknum     Tölfræði leiksins 
    Afturelding - Akureyri  24-25 (12-11)
N1 deild karla
Varmá
Fim 2. desember 2010 klukkan: 18:30
Dómarar: Jónas Elíasson og Ingvar Guðjónsson
Umfjöllun

Kannski ekki besti leikur okkar manna - en tvö stig eru alltaf kærkomin





2. desember 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar

Akureyri fór með tvö stig úr Mosfellsbænum

Eftir sveiflukenndan leik fór Akureyri með eins marks sigur á Aftureldingu á heimavelli þeirra síðarnefndu. Það mátti í raun engu muna í leikslok en með tveim síðustu mörkum leiksins og þar að auki síðustu sóknina í leiknum átti Afturelding möguleika á að jafna leikinn. En Akureyrarliðið stóð áhlaupið af sér og og er því enn með fullt hús á toppi deildarinnar.

Leikið var í gamla íþróttahúsinu að Varmá en þar reyndist ekki vera netsamband og því gátum við ekki lýst leiknum beint úr húsinu heldur þurfti okkar maður á staðnum að lýsa því sem fyrir augu bar símleiðis hingað norður. Fyrir vikið vantar okkur nákvæmar upplýsingar um markaskorara á upphafsmínútunum.

Hér á eftir fer umfjöllun Hilmars Þórs Guðmundssonar á sport.is.

Leikurinn byrjaði með töluverðum látum á heimavelli Aftureldingar en íþróttahúsið að Varmá hefur verið gott vígi heimamanna og ekki beint auðvelt að koma þangað og fara með sigur í farteskinu.

En það voru gestirnir sem byrjuðu betur og náðu þeir fljótlega yfirhöndinni. Staðan var 5-1 eftir um 8 mínútna leik en það átti reyndar eftir að breytast. Heimamenn í Aftureldingu gerðu áhlaup á Akureyringa og náðu að komast yfir á 21.mínútu en staðan var þá 9-8 fyrir heimamenn. Það var eins og Akureyringar hefðu misst móðinn á þessum kafla og kannski hafði góð byrjun eitthvað með það að gera, kannski áttu gestirnir von á því að eftirleikurinn yrði einfaldur.

Heimamenn héldu áfram að sækja með leikmenn eins og Aron Gylfason og Ásgeir Jónsson í miklum ham. Staðan í hálfleik var 12-11 fyrir heimamenn og miðað við spilamennskuna þá mátti alveg von á óvæntum úrslitum í Mosfellsbænum.


Ásgeir Jónsson var illviðráðanlegur í fyrri hálfleik. Mynd/Stefán visir.is

Góð spilamennska heimamanna hélt áfram í seinni hálfleik en liðið komst í 17-13 og það má segja að steinn hafi varla staðið yfir steini hjá Akureyringum. En Atli Hilmarsson kann handbolta ágætlega og með útsjónarsemi náði hann að fá vörnina til að loka á skot heimamanna og þetta gerði útslagið í leiknum. Akureyri jafnaði 18-18 og heimamenn voru líklega að sprengja sig út.


Bjarni Fritzson sækir að marki Aftureldingar. Mynd/Stefán visir.is

Akureyri hélt áfram að salla inn mörkum og eftir ótrúlega sveiflu þá var staðan allt í einu orðin 21-18 fyrir gestina. Þá komu heimamenn með góða leikkafla og náðu að jafna metin í 22-22. Akureyri komst í 25-23 og var að landa sigri. En heimamenn fengu samt tækifæri á að ná jafntefli en í stöðunni 24-25 voru heimamenn með boltann en á klaufalegan hátt misstu þeir boltann þegar um 5 sekúndur voru eftir og Akureyringar héldu knettinum út leikinn.

Eins marks sigur gestanna en leikmenn Aftureldingar sýndu það að Varmáin er þeirra vígi og það kemur ekkert lið þangað til að bursta heimamenn. Akureyringar voru sveiflukenndir í leiknum og hefðu getað tapað ef þeir hefðu ekki rifið sig á fætur í seinni hálfleik. Kannski var það reynslan sem skilaði sér á lokakaflanum.

Oddur Grétarsson var markahæstur hjá Akureyri með 8 mörk en Haukur Sörli Sigurvinsson var markahæstur hjá heimamönnum með 7 mörk.

Mörk Aftureldingar: Haukur Sörli Sigurvinsson 7, Aron Gylfason 5, Ásgeir Jónsson 4, Jón Andri Helgason 4, Bjarni Aron Þórðarson 2, Arnar Theodórsson 1, Hrafn Ingvason 1.
Varin skot: Hafþór Einarsson 20

Mörk Akureyri: Oddur Grétarsson 8, Guðmundur Hólmar Helgason 5, Heimir Örn Árnason 4, Hörður Fannar Sigþórsson 3, Bjarni Fritzon 2, Daníel Erlingsson 1, Hlynur Matthíasson 1, Guðlaugur Arnarsson 1.
Varin skot: Sveinbjörn Pétursson 13, Stefán Guðnason kom inná og varði vítakast.

Staðan í N1-deild karla eftir níu umferðir
Nr. FélagLeikir U J TMörkHlutfallStig-
1. Akureyri9900273 : 2284518:0
2. Fram9702310 : 2595114:4
3. HK9603299 : 300-112:6
4. FH9504257 : 2451210:8
5. Haukar9504231 : 231010:8
6. Valur9207220 : 257-374:14
7. Afturelding9108222 : 254-322:16
8. Selfoss9108249 : 287-382:16

Tengdar fréttir

Oddur og Gulli voru í viðtölum eftir leikinn

3. desember 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar

Hvað sögðu menn eftir Aftureldingar leikinn?

Það er alltaf fróðlegt að glugga í orð leikmanna og þjálfara eftir leiki, ekki síst eftir dramatík og taugaspennu líkt og var boðið upp á í leik Aftureldingar og Akureyrar í gærkvöldi. Við reynum að vanda að safna saman þeim viðtölum sem við finnum í fjölmiðlunum.
Eiríkur Stefán Ásgeirsson ræddi við Guðlaug Arnarsson leikmann Akureyrar og Gunnar Andrésson, þjálfara Aftureldingar. Viðtölin birtust á visir.is.

Guðlaugur Arnarsson: Tæpt en góður sigur
Guðlaugur Arnarsson, leikmaður Akureyrar, segir að liðið hafi oft spilað betur en gegn Aftureldingu í kvöld. Akureyri vann nauman sigur, 25-24.

„Þetta var tæpt en mjög góður sigur,“ sagði Guðlaugur. „Ég er rosalega ánægður með sigurinn. Við bjuggumst við því að mæta sterku liði Aftureldingar í kvöld enda erfiðir heim að sækja. Þeir komu okkur því ekki á óvart, við vitum að þeir eru með hörkulið.

Þeir spiluðu mjög góða vörn í þesum leik og það vantaði ákveðinn takt í okkar lið. Við vorum ekki jafn beittir og við höfum áður verið.

Það er þó gott að vinna svona leiki líka og það sýnir karakterinn sem býr í okkar liði. Við gefumst ekki upp þó svo að við lentum fjórum mörkum undir í seinni hálfleik. Við héldum áfram og kláruðum þetta.“

Akureyri er með fullt hús stiga en Guðlaugur segir að menn séu ekki farnir að bíða eftir fyrsta tapinu.

„Alls ekki. Við horfum bara á hvern leik fyrir sig og njótum þess á meðan er að vera ósigraðir á toppnum. En þetta var ekki okkar besti leikur í kvöld þó svo að við höfum átt rispur inn á milli. En ég tek ekkert af Mosfellingum - þeir voru að spila mjög vel í kvöld.“

Gunnar Andrésson: Vantar smá lukku í Mosfellsbæinn
Gunnar Andrésson, þjálfari Aftureldingar, segir það skelfilegt að hafa tapað enn einum heimaleiknum í N1-deild karla.

Afturelding tapaði í kvöld fyrir toppliði Akureyrar í hörkuspennandi viðureign. Akureyri vann að lokum eins marks sigur, 25-24.

„Þeð er skelfilegt fyrir okkar áhorfendur sem mæta á völlin og styðja okkur í þessari baráttu. En það má ekki gleyma því að við vorum í kvöld að spila við toppliðið sem hefur enn ekki tapað leik,“ sagði Gunnar.

Afturelding spilaði mun betur í kvöld en í síðasta leik er liðið tapaði stórt fyrir FH.

„Það var okkar langlélegasti leikur síðan ég tók við liðinu. Frammistaða okkar þá var til skammar og ég er mjög ánægður með liðið og hvernig það kom til baka í kvöld. Það var ekki sjálfgefið.

En það breytir því ekki að það var svakalega sárt að tapa þessu í kvöld. Okkur fannst líka að það hafi verið ansi mörg vafaatriði sem féllu þeim megin - án þess að ég ætli að fara kenna dómurunum um eitt eða neitt. Við misnotuðum tvö víti og þeir skoruðu þrisvar eftir frákast. Allt var þetta okkur mjög dýrkeypt í kvöld og það vantar kannski smá lukku til okkar í Mosfellsbæinn.

Við leggjum okkar líf og sál í þetta og þess vegna er svo svakalega sárt að uppskera ekki meira en við höfum gert hingað til - sérstaklega á heimavelli.“

Sindri Sverrisson blaðamaður Morgunblaðsins tók myndbandsviðtal við Odd Gretarsson:
Oddur: Ljótasti sigurinn á ferlinum (myndband)

Smelltu hér til að sjá viðtalið við Odd.

Sindri Sverrisson ræddi sömuleiðis við þá Heimi Örn Árnason og Hafþór Einarsson eftir leikinn. Þesssi viðtöl birtust í Morgunblaðinu.

Heimir Örn Árnason: Tók ekki Lineker á þetta
„Þessi leikur, Fram-leikurinn og fleiri sýna bara að það er komin þvílík sigurhefð í þetta lið. Við bara kunnum ekki að tapa lengur,“ sagði Heimir Örn Árnason leikstjórnandi Akureyrar í N1-deildinni í handknattleik eftir einn naumasta sigur liðsins á tímabilinu sem kom gegn Aftureldingu í Mosfellsbæ í gær. Akureyri hefur því unnið alla níu leiki sína á tímabilinu og er með fjögurra stiga forskot á toppi deildarinnar. Afturelding á hins vegar enn eftir að ná í stig á heimavelli og hefur innbyrt tvö stig sem nýliði í deildinni.

„Það var bara ljómandi fínt að fá tvö stig. Það er búið að vera dauft yfir okkur síðustu daga, ég og Sveinbjörn erum búnir að vera veikir, og við vorum bara skíthræddir við þennan leik. Við vissum að þetta yrði akkúrat svona leikur,“ sagði Heimir sem fann sérstaklega fyrir flensunni í fyrri hálfleik þegar hann þurfti að fara af velli í nokkra stund, á meðan Afturelding sneri leiknum sér í vil.

„Ég hélt að ég væri að fara að drulla á mig þarna á vellinum, en þetta hélt. Ég tók ekki Gary Lineker á þetta,“ sagði Heimir léttur og vísaði til myndbands af enska knattspyrnumanninum sem gengið hefur um netheima.

Hjá Akureyri var Oddur Gretarsson áberandi en hann hafði fyrr um daginn verið valinn í bæði A- og U21-landslið Íslands. Akureyri á 3 leikmenn í hvoru liði sem hlýtur að teljast nokkuð gott og er til marks um gæðin sem liðið hefur sýnt.

„Þetta er frábært fyrir handboltann á Akureyri og þvílíkt uppörvandi fyrir unga iðkendur þar,“ sagði Heimir.

Hafþór Einarsson: Þjálfaði nokkra og æfði með þeim öllum
„Það er alveg sorglegt að hafa ekki náð í alla vega eitt stig fyrir þessa frábæru stuðningsmenn. Það er frábært hvað þetta fólk heldur áfram að mæta og styðja okkur þó að gengið hafi ekki verið betra en þetta, og vonandi náðum við að sýna því eitthvað í kvöld,“ sagði Hafþór Einarsson sem fór á kostum í marki Aftureldingar þegar liðið tapaði gegn Akureyri í gærkvöldi í N1-deildinni í handknattleik.

Afturelding lenti 5:1 undir en sýndi svo hörkuleik það sem eftir var: „Ég veit ekki af hverju byrjunin var svona skringileg en við gerðum upp á bak í síðasta leik gegn FH og það tók okkur þessar fyrstu mínútur í þessum leik að gyrða okkur eftir það. Eftir það fórum við að spila saman sem lið og stóðum okkur vel, og þetta var bara mjög gaman en hefði mátt vera aðeins skemmtilegra í lokin. Það eru batamerki hjá okkur og þetta er skref upp á við,“ sagði Hafþór sem virtist stundum vita nákvæmlega hvar andstæðingarnir ætluðu sér að skjóta. Það er kannski ekki að undra því hann kom til liðs við nýliða Aftureldingar frá Akureyri fyrir þessa leiktíð.

„Þó það nú væri. Ég er búinn að þjálfa nokkra þeirra og æfa með þeim öllum saman þannig að það væri slæmt ef maður vissi ekki neitt um hvar þeir skjóta. Ég er ekki orðinn það gamall,“ sagði Hafþór léttur en hann varði meðal annars vítakast frá Oddi Gretarssyni og virtist nýta til þess einhvers konar sálfræðitaktík: „Ég þjálfaði hann lengi og spilaði með honum síðustu tvö ár þannig að maður þekkir aðeins til hans.“


Hörður Fannar er klár í slaginn gegn Aftureldingu

2. desember 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar

Leikur dagsins: Afturelding - Akureyri í beinni textalýsingu

Í kvöld klárast 9. umferð N1 deildar karla með tveim leikjum. Að Varmá í Mosfellsbæ mæta heimamenn í Aftureldingu toppliði Akureyrar en í Vodafonehöllinni verður baráttan á botninum í algleymingi þegar botnliðin Valur og Selfoss mætast.

Í gærkvöldi vann Fram stórsigur á HK og því ljóst að Akureyri verður að berjast til sigurs gegn Aftureldingu til að halda þeirri forystu sem liðið er búið að byggja upp með frábærri baráttu. Að sama skapi munu Mosfellingar leggja allt í sölurnar til að ná í sín fyrstu stig á heimavelli og má gera ráð fyrir að stuðningsmenn þeirra, Rothöggið fari hamförum á pöllunum, enda þekktir fyrir öflugan stuðning við sitt lið.

Heimasíðan ætlar að þjóna fjölmörgum stuðningsmönnum sem heima sitja með því að halda úti beinni textalýsingu frá leiknum og væntanlega mun okkar maður hefja lýsingu rétt fyrir leikinn sem hefst klukkan 18:30.

Eins og vanalega þá opnast lýsingin í sérstökum glugga og uppfærist sjálfkrafa á 15 sekúndna millibili.

Smelltu hér til að opna beinu lýsinguna.


Afturelding á harma að hefna gegn Akureyri

29. nóvember 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar

Útileikur á fimmtudag gegn Aftureldingu

Næstu tveir leikir Akureyrar Handboltafélags eru á útivelli, næskomandi fimmtudag fer liðið suður í Mosfellsbæ og leikur þar deildarleik gegn Aftureldingu. Á sunnudaginn þar á eftir er verkefnið bikarleikur gegn Víkingum og verður leikið í Víkinni.

Afturelding – Akureyri
Liðin eru búin að mætast tvisvar það sem af er keppnistímabilsins, bæði skiptin hér á Akureyri. Fyrri leikinn vann Akureyri 28-23 eftir dálítið basl en seinni leikinn, sem var í bikarkeppninni vann Akureyri með tíu mörkum, 30-20 eftir góðan sprett á lokakafla leiksins. Báðir leikirnir voru í raun hörkuleikir og ljóst að Afturelding er lið sem þarf að taka verulega alvarlega.


Hafþór hefur reynst sínum fyrri félögum erfiður í vetur

Mosfellingar eru erfiðir heim að sækja og heimavöllur þeirra almennt talinn ein mesta gryfjan hér á landi. Því fengu Haukar illilega að kenna á í þriðju umferðinni en sluppu með skrekkinn og fóru með eins marks sigur, 22-23. Sama má segja um hið frábæra lið HK sem marði sigur 34-37 á síðustu mínútum þess leiks.
Valur náði sömuleiðis í sín einu stig í deildinni með eins marks sigri, 22-23 í Mosfellsbænum en líkt og í fyrri leikjunum réðust úrslitin á lokamínútunni. Í síðustu umferð fengu Mosfellingar FH í heimsókn. Öfugt við hina leikina þá náði Afturelding aldrei upp stemmingu og gekk allt á afturfótunum og máttu þeir þola átta marka tap í leiknum.

Afturelding hefur sem sé ekki náð í stig á heimavelli ennþá og það eru áreiðanlega gríðarleg vonbrigði fyrir liðið og ekki síður stuðningsmennina sem hafa haldið uppi magnaðri stemmingu á öllum leikjum. Þeir munu því örugglega leggja allt í sölurnar til að snúa taphrinunni við og á móti toppliðinu mæta þeir klárlega af fullum krafti. Bæði til að hefna fyrir töpin tvö og auðvitað er það öllum liðum kappsmál að verða fyrst til að ná stigi af Akureyri.


Baráttuglaðir stuðningsmenn Aftureldingar - kalla sig Rothöggið

Hafþór Einarsson markvörður hefur reynst Akureyrarliðinu erfiður í báðum leikjunum, sem kemur ekki á óvart enda hefur hann verið öflugasti maður Aftureldingar í síðustu leikjum.

Skyttan, Bjarni Aron Þórðarson er yfirleitt þeirra langdrýgstur í markaskorun en í síðustu tveim leikjum Aftureldingar hefur gamla brýnið Haukur Sigurvinsson komið sterkur inn og skorað mikið. Marga fleiri leikmenn má nefna til sögunnar eins og Arnar Theódórsson, Ásgeir Jónsson, Eyþór Vestmann og Jón Andra Helgason.

Akureyrarliðið fagnaði gríðarlega mikilvægum sigri á HK í síðustu umferð, en hann var tæpur. Strákarnir klúðruðu reyndar niður vænlegri stöðu í þeim leik en sýndu mikinn styrk og frábæran karakter að snúa honum aftur sér í vil undir lokin. Liðið verður að mæta til þessa leiks með sömu baráttu og kraft sem skilaði dýrmætum stigum í síðustu umferð.

Til baka    Senda á Facebook

Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson