Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15
Jafntefli í leik Hauka og Akureyrar - Akureyri Handboltafélag
  Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Fyrri leiktímabil

Tímabilið 2010-11

Leikmenn meistarafl. karla
Úrslit leikja
Deild karla




Ljósmyndir frá leiknum     Tölfræði leiksins 
    Haukar - Akureyri  23-23 (11-11)
N1 deild karla
Ásvellir
Fim 16. desember 2010 klukkan: 18:30
Dómarar: Magnús Kári Jónsson og Jónas Elíasson
Umfjöllun

Sveinbjörn og Heimir stóðu fyrir sínu í kvöld

16. desember 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar

Jafntefli í leik Hauka og Akureyrar

Það var sannkölluð dramatík í öllum leikjum umferðarinnar í kvöld. Haukar voru búnir að lofa beinni útsendingu frá leiknum en því miður þá brást sú von algjörlega og menn fengu ekkert nema svartan skjá með villuboðum í stað myndar frá leiknum. Við birtum hér umfjöllun Snorra Sturlusonar frá leiknum en hún birtist á sport.is.

Fyrri hálfleikurinn að Ásvöllum var býsna jafn og spennandi, en ólíkt höfðust þó liðin að. Varnarleikur beggja var reyndar með ágætum, Haukarnir spiluðu sína rómuðu 5+1 vörn sem á það til að hefta sóknarleik andstæðinganna svo að til þess er tekið og Akureyringar spiluðu sína árásargjörnu vörn sem truflar sendingar og sóknarflæði út í eitt. Sóknarleikur Akureyringa var hins vegar öllu frísklegri lengst af og norðanmenn létu reyna talsvert á Birki Ívar í Haukamarkinu. Birkir Ívar nærist á slíkum áskorunum og varði með miklum ágætum í fyrri hálfleik. Akureyrsku markverðirnir voru ekki í sama stuðinu, Sveinbjörn fann sig ekki framan af en Stefán Guðnason gerði ágætlega síðustu mínúturnar í hálfleiknum. Norðanmenn virtust um miðjan fyrri hálfleikinn ætla að síga fram úr, komust í 8-6 og 9-7, en Haukarnir jöfnuðu metin í 9-9 þegar fimm og hálf mínúta var eftir af hálfleiknum og liðin héldust í hendur fram að leikhléi. Í hálfleik var staðan 11-11.


Bjarni Fritzson skorar í leiknum

Barningur og barátta einkenndu síðari hálfleikinn engu síður en þann fyrri, varnarleikur beggja var á köflum rosalegur og hamagangurinn tók þann toll að handboltinn sem var spilaður var ekki alltaf ægifagur. Birkir Ívar varði eins og óður maður í marki Hauka og Sveinbjörn vaknaði til lífsins í hinu markinu. Hann gæti líklega þénað þolanlega á því að gefa út kennslumyndbandið „Staðsetningar handboltamarkmanns 101“. Haukarnir tóku á ágætan sprett og náðu þriggja marka forystu, 16-13, þegar ellefu mínútur voru liðnar af hálfleiknum og líklega hefur sælutilfinningin hríslast niður bakið á stuðningsmönnum þeirra rauðklæddu. Sælan var hins vegar skammvinn, það tók Akureyringa ekki nema rétt tæpar tvær mínútur að jafna metin og spennustigið var um það bil að buga mann og annan.


Guðlaugur Arnarsson fastur fyrir í vörninni að vanda


Það fer enginn í gegnum Heimi og Bergvin

Um tíma virtist sem menn ætluðu hreinlega að fara að heilsast að sjómannasið og brotum var mörgum hverjum fylgt full mikið eftir, en til allrar lukku var horfið frá öllum slíkum takteringum. Menn tókust á og spöruðu sig hvergi, sem er gott og blessað, og enn virtust Haukarnir ætla að ná tökum á leiknum þegar þeir komust tveimur mörkum yfir tæpum sjö mínútum fyrir leikslok, 20-18. Akureyringum var ekki skemmt og þeir skoruðu tvö næstu mörk og lokamínúturnar voru æsispennandi.


Geir er jafnan tekinn föstum tökum þegar hann ógnar markinu


Guðmundur Hólmar á flugi yfir Haukavörninni

Haukarnir voru skrefinu á undan en fengu undantekningalaust á sig mark nokkrum sekúndum eftir að þeir höfðu skorað, vörðust ekki hröðum miðjum Akureyringa. Guðmundur Árni sveif inn úr horninu þegar átta sekúndur voru til leiksloka og staðan jöfn, 23-23, en Sveinbjörn varði og dúndraði boltanum fram. Akureyringar tóku leikhlé í einum grænum og höfðu boltann síðustu fjórar sekúndurnar, en þær dugðu ekki til að koma skoti á markið og niðurstaðan varð því jafntefli, sem verða, miðað við allt og allt, að teljast nokkuð sanngjörn úrslit.


Sveinbjörn og Heimir voru mikilvægir að vanda

Markverðir liðanna voru frábærir í dag, Birkir Ívar varði eins og berserkur allan leikinn á meðan Sveinbjörn geymdi bestu atriði sinnar sýningar fram í síðari hálfleikinn og varnarleikur beggja liða var hrikalegur. Tjörvi, Guðmundur Árni og Þórður Rafn létu allir mikið að sér kveða í sókninni hjá Haukum; Tjörvi stýrði sóknarleiknum af myndarskap, skoraði góð mörk og Þórður Rafn kom með ógnun fyrir utan þegar á þurfti að halda. Þá reif Björgvin sig í gang með reglulegu millibili. Hinum voru Bjarni og Oddur í ágætum ham, Heimir stóð fyrir sínu eins og alltaf og skoraði dýrmæt mörk. Ungskytturnar Guðmundur Hólmar og Geir gerðu margt vel.

Mörk Hauka: Guðmundur Árni Ólafsson 5 (1 víti), Þórður Rafn Guðmundsson 5, Tjörvi Þorgeirsson 4, Björgvin Þór Hólmgeirsson 3, Jónatan Ingi Jónsson 2, Einar Örn Jónsson 2, Freyr Brynjarsson 1, Heimir Óli Heimisson 1.
Varin skot: Birkir Ívar Guðmundsson 21.

Mörk Akureyrar: Bjarni Fritzson 7 (2 víti), Heimir Örn Árnason 4, Oddur Grétarsson 4, Guðmundur Hólmar Helgason 3, Geir Guðmundsson 2, Guðlaugur Arnarsson 2, Bergvin Gíslason 1.
Varin skot: Sveinbjörn Pétursson 17, Stefán Guðnason 2.

Myndir: Hilmar Þór og eru fengnar á sport.is. Þar er hægt að skoða enn fleiri myndir frá leiknum.

Önnur úrslit kvöldsins voru að Valur vann Fram, FH vann HK og Afturelding vann Selfoss. Staðan í N1 deildinni er því sem hér segir en efstu fjögur liðin leika í deildarbikarnum milli jóla og nýárs.

Staðan í deildarkeppni karla
Nr. FélagLeikir  U  J  TMörkHlutfallStig-
1.  Akureyri11911326 : 2854119:3
2.  Fram11803372 : 3185416:6
3.  FH11704317 : 2972014:8
4.  Haukar11614282 : 278413:9
5.  HK11605341 : 354-1312:10
6.  Valur11407281 : 307-268:14
7.  Afturelding11209274 : 309-354:18
8.  Selfoss111010308 : 353-452:20

Tengdar fréttir

Allir virðast vera tiltölulega sáttir við leikinn



17. desember 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar

Viðtöl eftir jafnteflisleik Hauka og Akureyrar

Að vanda leynast víða viðtöl við leikmenn og þjálfara eftir leikinn. Við reynum að tína til það sem við finnum og byrjum á viðtölum Stefáns Árna Pálssonar á visir.is sem hann tók við þjálfarana strax að leik loknum:

Atli Hilmarsson: Gott að vera á toppnum í fríinu
Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar, var nokkuð sáttur með stigið í kvöld en hann hefði viljað þau bæði. Akureyri gerði jafntefli, 23-23, gegn Haukum í 11. umferð N1-deild karla en leikurinn fór fram á Ásvöllum. Bæði lið hefðu getað stolið sigrinum í lokin en jafntefli varð niðurstaðan.

„Ég er gríðarlega ánægður að vera enn á toppnum þegar kemur að fríinu. Strákarnir gerðu sér fulla grein fyrir því að Haukar væru með frábært lið og það yrði ekkert auðvelt að koma hingað.
Við vorum alltaf vel inn í þessum leik og hefðum á tíma getað náð þriggja marka forystu og þá veit maður aldrei hvort leikurinn hefði þróast öðruvísi.
Það sem einkenndi leikinn í kvöld var mikil taugaspenna hjá leikmönnum og bæði liðin vildu greinilega enda á góðum nótum fyrir fríið. Þetta var ekki besti handbolti sem ég hef séð en menn voru að leggja sig mikið fram og ég get ekki farið fram á meira,“ sagði Atli.
Akureyringar voru í miklum vandræðum með framliggjandi vörn Hauka í kvöld og Birkir Ívar Guðmundsson var gjörsamlega með leikmenn Akureyrar í vasanum.
„Ég hef engar áhyggjur af sóknarleiknum hjá okkur. Við spiluðum fínan sóknarleik á móti Fram í síðustu umferð, en í kvöld var það aðallega Birkir sem við vorum í vandræðum með,“ sagði Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar, eftir leikinn.

Halldór Ingólfsson: Áttum að hirða bæði stigin
„Ég hefði viljað fá bæði stigin,“ sagði Halldór Ingólfsson, þjálfari Hauka, eftir leikinn í kvöld. Haukar gerðu jafntefli við Akureyri, 23-23, í hörkuspennandi leik á Ásvöllum í kvöld, en leikurinn var hluti af 11. umferð N1-deildar karla í handknattleik.
„Við vorum í raun bara klaufar að klára ekki dæmið í restina. Akureyringar áttu í bullandi vandræðum með vörnina okkar nánast allan leikinn.
Við vorum búnir að kortleggja sóknarleik þeirra vel og lögðum mikla áherslu á að stoppa Heimi (Örn Árnason). Undir lokin þá skora Akureyringar nokkur mörk eftir hraða miðju sem er alveg óásættanlegt af okkar hálfu.
Akureyringar náðu að halda hraðanum töluvert niðri í leiknum og ég hefði viljað sjá mína menn keyra mun meira í bakið á þeim. Það er samt allt annar bragur á liðinu og hefur verið mikill stígandi í okkar spilamennsku,“ sagði Halldór eftir leikinn.

Guðmundur Hilmarsson á mbl ræddi við Atla Hilmarsson og Einar Örn Jónsson leikmann Hauka

Atli Hilmarsson: Fer ánægður í jólafríið
Atli Hilmarsson þjálfari Akureyringa sagði við mbl.is eftir leikinn gegn Haukum í kvöld að úrslitin hefðu verið sanngjörn en liðin skildu jöfn, 23:23, í miklum baráttuleik sem leikinn var á Ásvöllum. „Ég fer ánægður í jólafríið enda erum við á toppnum og þetta var gott stig á útivelli gegn meisturunum,“ sagði Atli.
Mbl sýndi einnig myndbandsviðtal við Atla, smelltu hér til að horfa á viðtalið, ef það virkar ekki þá er einnig hægt að prófa hér.

Einar Örn Jónsson: Ánægður með vörnina
Einar Örn Jónsson leikmaðurinn reyndi í liði Haukanna var nokkuð sáttur við stigið sem Haukar fengu gegn toppliði Akureyringa í kvöld en liðin skildu jöfn, 23:23, í hörkuleik á Ásvöllum. Einar hrósaði varnaleik sinna manna og markvörslu Birkis Ívars Guðmundssonar.
Mbl sýndi einnig myndbandsviðtal við Einar Örn, smelltu hér til að horfa á viðtalið, ef það virkar ekki þá er einnig hægt að prófa hér.

Snorri Sturluson blaðamaður Sport.is ræddi við Odd Gretarsson og Björgvin Hólmgeirsson eftir leikinn. Smelltu á linkana hér að neðan til að spila viðtölin við þá.
Viðtal við Odd Gretarsson.

Viðtal við Björgvin Hólmgeirsson leikmann Hauka.

Loks er hægt að skoða viðtöl frá Haukar-TV þar sem Gunnar Berg leikmaður Hauka ræðir við Guðlaug Arnarsson, Björgvin Hólmgeirsson og Halldór Ingólfsson á léttu nótunum eftir leikinn.
Sjá viðtalið við Guðlaug Arnarsson og fleiri.


Það er mikilvægur leikur sem Akureyri leikur í kvöld

16. desember 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar

Leikur dagsins: Haukar – Akureyri jafntefli 23-23

Því miður er beina útsendingin ekki að virka hjá Haukum en hér eru upplýsingar um gang leiksins.

Seinni hálfleikur hefst: 12-11, 12-12, 15-13 (40 mínútur), 16-16 (44 mín), 16-17, 18-17, 19-18, 20-20, 23-23 leiknum lokið.

Hálfleikur á Ásvöllum. Staðan er jöfn í miklum baráttuleik, 11:11, þar sem Akureyringar hafa verið skrefinu á undan. Birkir Ívar Guðmundsson hefur leikið best allra í fyrri hálfleiknum en hann varði 11 skot í hálfleiknum. Markahæstir Hauka: Guðmundur Á. Ólafsson 4/2, Tjörvi Þorgeirsson 2.
Markahæstir Akureyringa: Guðmundur H. Helgason 3 Bjarni Fritzson 3/2.

Gangur leiksins í fyrri hálfleik:
1-2, 3-3, 5-6 (15. mín), 6-8, 7-8(22 min), 9-9, 11-11 (hálfleikur)

Síðasta umferð N1 deildarinnar fyrir jól verður leikin í kvöld. Akureyri mætir Haukum á heimavelli þeirra að Ásvöllum í Hafnarfirði. Að sjálfsögðu hvetjum við stuðningsmenn okkar á höfuðborgarsvæðinu til að mæta á leikinn og hvetja strákana til sigurs.

Því miður virðist útsending þeirra Haukamanna ekki vera að gera sig. Þegar við hringdum í þá fyrir örfáum mínútum voru svörin á þá leið að betra væri að nota Firefox vafrann í stað Internet Explorer. En það virðist engu skipta. Það er þó rétt að halda áfram að reyna. Einnig skal bent á stopula lýsingu á mbl.is.

Fyrir þá sem ekki komast á leikinn getum við bent á að hann verður sýndur í beinni á vefnum og hefst útsendingin klukkan 18:15 en leikurinn sjálfur klukkan 18:30.

Smelltu hér til að sjá útsendinguna á Haukar-TV

Leikurinn hefur mikla þýðingu fyrir bæði liðin, Akureyri að sjálfsögðu til að halda toppsætinu en Haukar þurfa að sigur til að tryggja sér keppnisrétt í deildarbikarnum sem leikinn verður milli jóla og nýárs.

FH og HK eru einnig í sömu baráttunni en þau lið mætast einnig í kvöld og ljóst að sigurvegarinn í þeirri viðureign fer einnig í deildarbikarinn, sá leikur verður í beinni útsendingu á SportTV.is þannig að það verður nóg að gera fyrir áhugamenn að fylgjast með þessu öllu saman.

Stuðningsmannabolir til sölu á leiknum
Hægt verður að kaupa stuðningsmannaboli Akureyrar Handboltafélags á leiknum en Hlynur Jóhannsson verður með boli og posa á staðnum. Bolurinn kostar 4.000.- krónur og er að sjálfsögðu tilvalinn í jólapakkann í ár.


Flottir strákar í stuðningsmannabolunum



Einn af stóru leikjunum í umferðinni

14. desember 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar

Útileikur á fimmtudaginn gegn Haukum – sýndur á vefnum

Lokaumferð N1 deildar á þessu ári verður leikin á fimmtudagskvöldið. Akureyri sækir Hauka heim á Ásvelli í Hafnarfirði og hefst sá leikur klukkan 18:30. Okkur voru að berast fréttir um að leikurinn verði sýndur beint á netinu en það er Haukar-TV sem býður upp á þessa þjónustu og reikna þeir með að hefja útsendingu klukkan 18:15 með viðtölum og fleira fram að leik.

Slóðin á útsendinguna verður www.haukar.is/haukar-tv

Liðin mættust hér á Akureyri þann 22. október og þá fór Akureyri með góðan sex marka sigur 25-19. Haukar verða klárlega engin lömb að leika við á sama tíma og Akureyri þarf að rífa sig upp eftir slakan leik gegn Fram um síðustu helgi.

Við fjöllum betur um leikinn hér á síðunni á næstu dögum.

Í þessari umferð eru ýmsar athyglisverðar viðureignir, Valur tekur á móti Fram en Valsmenn hafa heldur betur risið upp í síðustu leikjum. FH fær HK í heimsókn og þar geta ýmsir hlutir gerst. Loks er hörkuleikur í botnbaráttunni þar sem Selfyssingar mæta heimamönnum í Aftureldingu.

Liðin sem verða í fjórum efstu sætunum að lokinni þessari umferð keppa síðan í deildarbikarnum á milli jóla og nýárs. Akureyri og Fram eru örugg um sæti þar en FH, HK og Haukar berjast um hin tvö lausu sætin.

Til baka    Senda á Facebook

Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson