Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15
Góður sigur í fyrsta leik Íslandsmótins - Akureyri Handboltafélag
  Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Fyrri leiktímabil

Tímabilið 2011-12

Leikmenn meistarafl. karla
Úrslit leikja
Deild karla




Textalýsing frá leiknum     Tölfræði leiksins 
    Afturelding - Akureyri  20-31 (10-16)
N1 deild karla
Varmá
Mán 26. september 2011 klukkan: 18:30
Dómarar: Jón Karl Björnsson og Þorleifur Árni Björnsson
Umfjöllun

Geir minnti vel á sig í Mosfellsbænum

26. september 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar

Góður sigur í fyrsta leik Íslandsmótins

Akureyri gerði góða ferð í Mosfellsbæinn í kvöld þegar leikin var fyrsta umferðin í N1 deild karla. Mosfellingar reyndust Akureyringum erfiðir á síðustu leiktíð, unnu síðasta leik liðanna hér í Höllinni og Akureyri mátti þakka fyrir eins marks sigur í Mosfellsbænum.

Það leit út fyrir að sagan ætlaði að endurtaka sig í upphafi leiksins, Mosfellingar komust í 2-0 áður en Akureyri komst á blað. En þá komu líka þrjú Akureyrarmörk í röð og í kjölfarið jafnt á öllum tölum upp í stöðuna 7-7. En þá skildu leiðir, Akureyri breytti stöðunni í 8-13 með öflugum varnarleik og fínum sóknarleik. Staðan í hálfleik var síðan 10-16 Akureyri í vil.
Oddur Gretarsson, Bjarni Fritzson og Guðmundur Hólmar voru aðsópsmiklir í markaskoruninni í fyrri hálfleik auk þess sem Sveinbjörn varði vel í markinu.


Oddur og Guðmundur fagna marki í Mosfellsbænum. Mynd Hilmar Þór sport.is


Bjarni Fritzson í rökræðum um dómgæsluna. Mynd Hilmar Þór sport.is

Svipaður munur hélst á liðunum í seinni hálfleik en á síðust tíu mínútunum breytti Akureyri stöðunni úr 19-24 í 20-31 og öruggur sigur staðreynd.

Sigurinn kostaði þó sitt, Heimir Örn Árnason, fyrirliði sem lék reyndar ekkert í fyrri hálfleik kom inná í smástund, fékk högg á hnéð og varð að yfirgefa völlinn. Það var reyndar vitað að Heimir þyrfti að fara í aðgerð á næstunni en nú er ljóst að það verður ekki umflúið.


Guðlaugur barði vörnina saman. Mynd Hilmar Þór sport.is

Þá varð uppi fótur og fit í upphafi seinni hálfleiks þegar Guðmundur Hólmar Helgason kenndi sér skyndilega mikillar ógleði, hljóp útaf og kastaði upp aftan við varamannabekk Akureyrarliðsins. Leikurinn var stöðvaður á meðan ælan var hreinsuð upp. Guðmundur kom síðan inná aftur nokkru síðar og skoraði tvö mörk til viðbótar.

Mörk Akureyrar: Oddur Gretarsson 10, Guðmundur Hólmar Helgason 5, Bjarni Fritzson 4, Geir Guðmundsson 4, Bergvin Gíslason 3, Heiðar Þór Aðalsteinsson 3, Hörður Fannar Sigþórsson 2.
Sveinbjörn Pétursson stóð í markinu allan leikinn og átti fínan leik, 14 skot varin og mörg þeirra úr dauðafærum.

Mörk Aftureldingar: Jóhann Jóhannsson 5, Þrándur Gíslason 4, Daníel Jónsson 2, Sverrir Hermansson 2, Jón Andri Helgason 2, Eyþór Vestmann 2, Einar Héðinsson 1, Hilmar Stefánsson 1, Pétur Júníusson 1.
Hafþór Einarsson átti að vanda góðan leik í markinu og varði ein 14 skot Akureyrarliðsins.


Bergvin Gíslason tekur vel á Þrándi Gíslasyni, línumanni Aftureldingar. Mynd Hilmar Þór sport.is

Okkar maður á staðnum sagði að þrátt fyrir góðan sigur þá væri ljóst að ýmislegt ætti eftir að slípa saman enda liðið ekki fengið marga leiki í haust fullskipað. Þá valdi hann Geir Guðmundsson besta mann liðsins í leiknum.


Atli Hilmarsson hugsi á bekknum. Mynd Hilmar Þór sport.is

Við minnum á fysta heimaleikinn sem er strax á fimmtudaginn, klukkan 19:00 en þá koma Íslandsmeistarar FH í heimsókn og öruggt að þar verður ekkert gefið eftir. FH tapaði í kvöld nokkuð óvænt fyrir Fram á heimavelli þannig að þeir mæta örugglega í miklum ham í Íþróttahöllina.

Staðan eftir fyrstu umferðina er þá þannig:
Nr. FélagLeikir U J TMörkHlutfallStig-
1. Akureyri110031 : 20112:0
2. Fram110028 : 2352:0
3. Haukar110027 : 2252:0
4. Grótta101021 : 2101:1
5. Valur101021 : 2101:1
6. FH100123 : 28-50:2
7. HK100122 : 27-50:2
8. Afturelding100120 : 31-110:2

Tengdar fréttir

Atli ánægður með sína menn

27. september 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar

Hvað sögðu menn eftir Aftureldingar leikinn?

Að venju reynum við að safna saman viðtölum við leikmenn og þjálfara eftir leikinn. Ólafur Már Þórisson, omt@mbl.is blaðamaður Morgunblaðsins tók viðtöl við Atla Hilmarsson og Guðmund Hólmar Helgason og birtust þau á mbl.is sem textaviðtöl og einnig sem videóviðtöl

Atli: Vil tileinka Böggu þennan sigur

Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar, var að vonum ánægður með sigur sinna manna á Aftureldingu í fyrsta leik Íslandsmótsins í handknattleik. Hann sagði erfitt að heimsækja Aftureldingu og minntist viðureignar liðanna á síðustu leiktíð. Þá sagði Atli að þeirra fyrrverandi liðsfélagi, Hafþór Einarsson, hefði verið þeim erfiður í byrjun.

„Maður var aldrei öruggur þó við værum með sex marka forskot í hálfleik,“ sagði Atli en sagðist jafnframt vera ánægður með hvernig liðið kemur til leiks eftir sumarfrí. Hann benti þó á að þetta væri fyrsti leikur Bjarna Fritzsonar en hann náði ekki undirbúningstímabilinu.

Þá fengu Akureyringar slæmar fréttir í dag þegar ljóst var að Heimir Örn Árnason þarf að fara í uppskurð á hné. „Hann þarf að fara í aðgerð í næstu viku. Mér sýndist hnéð fara alveg í dag. Ég hugsa að það verði mánuður sem hann verður frá, ég geri mér þó ekki alveg grein fyrir því.“

Atli tileinkaði svo sigurinn í kvöld Böggu eða Sigurbjörgu Níelsdóttur sem lést í gær, langt fyrir aldur fram. Hún var lengi starfsmaður í KA-heimilinu.



Ólafur ræddi einnig við Guðmund Hólmar

Guðmundur Hólmar: Ældi á bekkinn - „Síðbúin flugveiki“

Guðmundur Hólmar Helgason var næstmarkahæstur hjá Akureyri þegar liðið vann Aftureldingu með ellefu mörkum 31:20 í N1-deildinni í handknattleik. Þetta var fyrsta umferðin og var Guðmundur ánægður með leik sinna manna fyrir utan fyrstu mínúturnar. Þá komst Afturelding í 2:0 og jafnt var á flestum tölum þangað til í stöðunni 7:7. Þá skildi leiðir. „Við vorum mjög ryðgaðir í byrjun enda nýir menn að koma í nýjar stöður,“ sagði Guðmundur Hólmar.

Heimir Örn Árnason verður ekki með liðinu í næstu leikjum en hann þarf að fara í aðgerð á hné. Heimir hefur verið mjög mikilvægur Akureyrarliðinu en Guðmundur segir liðið þurfa að vinna með það sem það hefur og er hvergi banginn. „Við erum með mjög góða menn sem geta komið fyrir utan og þá get ég og fleiri farið á miðjuna. Við leysum það en vissulega er mjög slæmt að missa Heimi í þennan tíma. Við vorum að vona að hann myndi ná leiknum gegn FH en það verður ekki.“
„Það verður spennandi að sjá hvernig hin liðin koma til leiks,“ sagði Guðmundur um veturinn sem framundan er og bætti við: „Gaman að fá að spila á móti Ingimundi landsliðs [Ingimundi Ingimundarsyni], það verður ekki leiðinlegt að láta hann lemja sig aðeins.“

Guðmundur varð fyrir því að æla á varamannabekk Akureyrar þegar aðeins tvær mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. Hann lýsti þessu einhvern veginn svona: „Mig byrjar að svima og svo kemur bara ælan upp í háls. Ég bið þá um skiptingu og æli fyrir aftan bekkinn og fer svo út og þá kom aðeins meira. Svo var ég bara góður og fór aftur inn á. Eins og kynnirinn sagði þá var þetta kannski síðbúin flugveiki.“



Mosfellingar hafa ekki verið nein lömb að leika við

26. september 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar

Leikur dagsins: Afturelding – Akureyri, textalýsing

N1 deildin rúllar af stað í dag þegar Akureyri Handboltafélag heldur í Mosfellsbæinn og leikur þar við heimamenn í Aftureldingu. Það er ekki laust við að það sé spenna í loftinu enda munum við að Akureyri lenti í mesta basli þar á síðasta tímabili.

Liðin mættust tvívegis á Opna Norðlenska mótinu fyrr í mánuðinum en nú er það ísköld alvaran sem gildir. Bjarni Fritzson, Guðmundur Hólmar Helgason og Ásgeir Jóhann Kristinsson misstu allir af Norðlenska mótinu en verða væntanlega með af fullum krafti í dag. Það kemur síðan í ljós hvort þeir Heimir Örn Árnason fyrirliði, Guðlaugur Arnarsson, Ásgeir Jónsson og Heiðar Þór Aðalsteinsson verði klárir í slaginn en þeir hafa verið tæpir vegna meiðsla.


Geir Guðmundsson er mættur til leiks á ný og lék vel á móti Aftureldingu á Opna Norðlenska í haust

Í liði Aftureldingar mun væntanlega mæða mikið á markverðinum Hafþóri Einarssyni en hann hefur reynst Akureyringum erfiður eftir að hann gekk til liðs við Mosfellinga. Afturelding fékk til liðs við sig tvo Breta fyrir þetta tímabil og verður spennandi að sjá hvernig þeim vegnar í íslenska boltanum.

Við vonumst til að geta verið með beina textalýsingu hér á síðunni frá leiknum, okkar maður verður á staðnum og vonandi verður netsamband í húsinu.

Til að fylgjast með beinu lýsingunni skaltu smella hér!


Veturinn leggst vel í Atla og Sævar

24. september 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar

N1 deildin hefst á mánudaginn, útileikur gegn Aftureldingu

Handboltaunnendur geta farið að taka gleði sína á ný en á mánudaginn hefst N1-deild karla á ný. Akureyri Handboltafélag átti frábært tímabil í fyrra þar sem liðið varð deildarmeistari og lék til úrslita í bikarnum og um sjálfan Íslandsmeistaratitilinn.

Norðanmenn senda lítið breytt lið til leiks í vetur. Félagið hefur misst þá Halldór Loga Árnason línumann og varnarmanninn sterka Hrein Þór Hauksson. Halldór samdi við ÍR en Hreinn lagði skóna á hilluna. Í hópinn hafa bæst þeir Ásgeir Jónsson línumaður frá Aftureldingu og hornamaðurinn Heiðar Þór Aðalsteinsson, sem er aftur kominn í raðir norðanmanna.

Þröstur Ernir Viðarsson blaðamaður Vikudags spjallaði við Atla Hilmarsson þjálfara Akureyrar um komandi vetur.

Markmiðið að berjast um alla titlana segir Atli Hilmarsson þjálfari Akureyrar

„Þessi vetur leggst mjög vel í mig. Við erum með svipað lið og í fyrra og ég held að þetta geti orðið spennandi vetur. Við ætlum okkur að vera á svipuðum slóðum og í fyrra,“ segir Atli. Aðspurður hvort stefnan sé sett á Íslandsmeistaratitilinn í ár segir Atli: „Við ætlum okkur að vera í baráttunni um alla titlana í vetur. Það er markmiðið. Það er hins vegar mjög stutt á milli og það má ekki mikið út af bregða. Við ætlum að vera í toppbaráttunni en það verður erfitt að toppa tímabilið í fyrra sem var frábært. Það væri hins vegar gaman að endurtaka þetta en það þarf allt að ganga upp svo það gerist,“ segir Atli og bætir við: „Ef allir haldast heilir getum við farið alla leið.“

Verður jafnara en í fyrra
Atli reiknar með að mörg lið muni blanda sér í toppbaráttuna í vetur og nefnir Íslandsmeistarana í FH, HK og Val í því samhengi. „Ég hugsa að FH-ingar verði mjög sterkir. Þótt þeir hafi misst leikmenn frá sér hafa þeir líka bætt við sig. HK heldur sínum mönnum og bætair auk þess við sig þannig að þeir verða öflugir. Ég sá Fram um daginn og þeir líta vel út, sem og Valsararnir. Mér sýnist á öllu að þetta verði jafnara en í fyrra.“

Afturelding í fyrsta leik
Akureyri hefur leik á útivelli gegn Aftureldingu í fyrstu umferðinni á mánudaginn kemur. Atli segir mikilvægt að byrja mótið vel. „Þetta er erfiður útivöllur að fara á og við lentum í miklu basli þarna í fyrra. Við þurfum því á öllu okkar að halda til þess að vinna leikinn og við ætlum okkur að sjálfsögðu ekkert annað en að byrja á sigri,“ segir Atli.

Óvíst er hins vegar hvort Atli geti stillt upp sínu sterkasta liði en mikið er um að menn séu tæpir vegna meiðsla í herbúðum Akureyrar. Þeir Heimir Örn Árnason fyrirliði, Guðlaugur Arnarsson, Ásgeir Jónsson og Heiðar Þór Aðalsteinsson eru allir tæpir fyrir fyrsta leikinn.

Til baka    Senda á Facebook

Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson