Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15
Akureyri lagði Fram í hörkuleik - Akureyri Handboltafélag
  Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Fyrri leiktímabil

Tímabilið 2011-12

Leikmenn meistarafl. karla
Úrslit leikja
Deild karla




Ljósmyndir frá leiknum     Myndband frá leiknum      Textalýsing frá leiknum     Tölfræði leiksins 
    Akureyri - Fram  25-24 (12-10)
N1 deild karla
Íþróttahöllin
Mið 30. nóvember 2011 klukkan: 19:00
Dómarar: Arnar Sigurjónsson og Svavar Pétursson. Eftirlitsmaður Kristján Halldórsson
Umfjöllun

Þetta var góður sigur liðsheildar í kvöld





30. nóvember 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar

Akureyri lagði Fram í hörkuleik

Það var sannkölluð hátíðarstemming í Íþróttahöllinni í kvöld þegar Akureyri tók á móti Fram liðinu í fyrsta leik 10. umferðar N1 deildarinnar. Í upphafi keppnistímabilsins var ákveðið að tvisvar í vetur yrði sérstakur hátíðarbragur á matnum fyrir stuðningsmannaklúbb liðsins og var einmitt komið að fyrra skiptinu í kvöld.

Sigurður Jóhannsson á Strikinu hafði veg og vanda að frábærri sjávarréttasúpu og glæsilegri umgjörð á veitingunum að þessu sinni. Þeir sem vildu fengu að smakka á jólabjórnum frá Víking og í hálfleik var boðið upp á veislutertur frá Bakaríinu við Brúna.
Þessum aðilum ber að þakka fyrir einstaklega glæsilegt framtak og ljóst að margir bíða spenntir eftir samsvarandi fínheitum á seinni hluta keppnistímabilsins.


Sigurður á Strikinu eldaði og skenkti frábæra fiskisúpu

Eftir hefðbundna kynningu á leikmönnum liðanna voru þeir félagar Sveinbjörn Pétursson og Oddur Gretarsson kallaðir fram á gólfið til að taka á móti blómum í tilefni þess að þeir voru að komast í hundrað leikja klúbbinn hjá Akureyri Handboltafélagi, Oddur lék í kvöld sinn 103. leik og Sveinbjörn sinn 100. leik og varð þar að auki 23 ára í dag.


Oddur Gretarsson og Sveinbjörn Pétursson fengu viðurkenningu fyrir að ná 100 leikja markinu

Leikurinn fór fjörlega af stað þar sem Fram hafði frumkvæðið í byrjun og komst í 2-4 og síðan í 3-5 en þar með tók Akureyrarliðið við sér og skoraði fjögur mörk í röð og þar með náðist frumkvæðið í leiknum, staðan orðin 7-5.
Mestur varð munurinn þrjú mörk 10 – 7 en í hálfleik hafði Akureyri tveggja marka forystu 12-10. Vörnin var öflug og Sveinbjörn fann sig vel í markinu. Geir Guðmundsson minnti heldur betur á sig í fyrri hálfleiknum og skoraði þrjú glæsimörk með dúndurskotum.


Geir skorar eitt af þrem glæsimörkum sínum

Seinni hálfleikur var keimlíkur, Akureyri hafði góð tök á leiknum þó svo að Fram næði nokkrum sinnum að jafna leikinn, 14–14, 15-15 og síðast 17-17. Mestur varð munurinn þrjú mörk 20-18 en góð markvarsla Magnúsar Erlendssonar kom í veg fyrir að Akureyri næði að stinga Fram af í leiknum. Oddur Gretarsson og Bjarni Fritzson skoruðu hvor um sig fjögur mörk í seinni hálfleik og Sveinbjörn varði vel, tók til dæmis víti hjá Halldóri Jóhanni Sigfússyni á mikilvægum tímapunkti.


Bjarni Fritzson í sinni uppáhaldsstöðu í hægra horninu

Stemmingin í Höllinni var mögnuð og átti sinn þátt í því að Akureyrarliðið landaði mikilvægum sigri og dýrmætum stigum. Með þessum sigri er liðið farið að nálgast liðin í efri hluta deildarinnar og hefur nú náð sér í sjö stig af átta mögulegum í síðustu fjórum leikjum.

Leikurinn var ekki sá áferðarfegursti sem við höfum séð en það var margt sem gladdi augað og greinilegt að liðið er að endurheimta sinn styrk og sjálfstraust þannig að framtíðin er björt.
Í leikslok var Oddur Gretarsson valinn besti maður Akureyrarliðsins og Magnús, markvörður Erlendsson bestur Framara. Báðir fengu þeir körfu frá Norðlenska að launum.

Mörk Akureyrar: Bjarni Fritzson 8 (3 úr vítum), Oddur Gretarsson 7, Guðmundur Hólmar Helgason 4, Geir Guðmundsson og Heimir Örn Árnason 3 mörk hvor.
Markvarsla: Sveinbjörn Pétursson stóð í markinu allan leikinn og varði 21 skot, þar af eitt vítakast. Fram skoraði aðeins 1 mark úr 4 vítum og spurning hvort á ekki að eigna markverðinum heiðurinn af því að ekki var um betri nýtingu að ræða.

Hjá Fram var Einar Rafn Eiðsson markahæstur með 7 mörk og Stefán Baldvin Stefánsson næstur með 5 mörk.
Sebastian Alexandersson stóð í markinu til að byrja með en varði einungis 2 skot á tuttugu mínútum en Magnús Erlendsson stóð vaktina í fjörtíu mínútur og varði 19 skot á þeim tíma.

Að vanda hefur Þórir Tryggvason sent slatta af myndum frá kvöldinu, smelltu hér til að skoða þær allar.

Tengdar fréttir

Sveinbjörn fékk fullkomna afmælisgjöf

1. desember 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar

Hvað sögðu menn eftir leik Akureyrar og Fram?

Við förum hér yfir viðtöl við leikmenn og þjálfara sem við höfum fundið á hinum ýmsu fjölmiðlum landsins eftir viðureign Akureyrar og Fram í gærkvöldi.

Efni af mbl.is og Morgunblaðinu

Snúum okkur fyrst að Morgunblaðinu þar sem Andri Yrkill Valsson ræðir við afmælisbarnið Sveinbjörn Pétursson:

Sveinbjörn Pétursson: Fullkomin afmælisgjöf

„Þetta var það eina sem ég bað um í afmælisgjöf og fullkomnaði algjörlega daginn,“ sagði Sveinbjörn Pétursson, markvörður Akureyrar. Sveinbjörn Pétursson átti góðan afmælisdag í marki Akureyrar, en það kom honum nokkuð á óvart hversu mörg skot andstæðingsins rötuðu ekki á markið. „Já, mér fannst nokkuð merkilegt hvað þeir voru að hitta illa, svo ef þeir hittu á markið þá náði maður að vera fyrir nokkrum boltum, svo það er mjög gott. Ég ætla nú ekki að vera að nafngreina neina en þeir voru nokkrir sem hafa átt betri dag hjá þeim og við fögnum því. En vörnin var mjög þétt svo það var erfitt fyrir þá að finna glufur. Þeir neyddust í kjölfarið oft í erfið skot, svo vörnin á þetta alveg skuldlaust.


Sveinbjörn tekur víti frá Halldóri Jóhanni Sigfússyni

Það var talað um fyrir leik að við þyrftum að fara að sýna það á vellinum að við ætluðum að vera með í vetur. Þessi leikur var algjör úrslitaleikur um það og næstu leikir eru það einnig í okkar augum og þannig leggjum við upp hlutina. Við erum komnir í þá stöðu að við verðum helst að vinna hvern einasta leik sem eftir er til þess að eiga einhvern möguleika, en markmiðið er ekkert annað en úrslitakeppnin. Við erum með báða fætur á jörðinni og tökum einn leik fyrir í einu,“ sagði Sveinbjörn.

Á vef mbl er einnig vídeóviðtal Skapta Hallgrímssonar við Sveinbjörn:

Einar Jónsson: Of óagaðir í sókninni

Einar Jónsson þjálfari Fram var ekki ánægður með sóknarleikinn hjá sínum mönnum þegar töpuðu, 25:24, á Akureyri í gærkvöldi. „Við vorum oft á tíðum of óagaðir í sóknarleiknum, fórum illa með færi sem við sköpuðum en Bubbi varði líka mjög vel,“ sagði hann og átti við Sveinbjörn Pétursson markvörð Akureyrar.
Sex lið berjast um sæti í fjögurra liða úrslitakeppni eins og staðan er í dag og Einar reiknar með að keppni verði hörð. „Haukarnir eru hvað öflugastir í dag en þessi sex eru að reita stig hvert af öðru og þannig verður það - mér sýnist ekkert benda til annars.“


Efni af visir.is og Fréttablaðinu

Á visir.is eru nokkur viðtöl Hjalta Þórs Hreinssonar sem fara hér á eftir:

Sveinbjörn: Besta afmælisgjöfin

„Ég hef ekki fengið margar gjafir í dag en auðvitað er þetta besta afmælisgjöfin. Að fá að spila svona leik á þessum velli fyrir framan þessa áhorfendur, og taka tvö stig, er toppurinn,“ sagði markmaðurinn sem varði 21 skot, 47% markvarsla.
„Þetta var ekki góður leikur en þetta þarf ekki alltaf að vera fallegt. Okkur er sama ef við vinnum. Fallegi handboltinn er lagður til hliðar en baráttan skilar sigrinum. Þetta er gott skref fyrir sjálfstraustið, ekki síður en tvö góð stig.

Vörnin okkar var frábær í dag og ég hafði ótrúlega lítið að gera, þeir skutu mikið framhjá. Það er vörninni að þakka,“ sagði Sveinbjörn auðmjúkur. „Svona leikir féllu ekki með okkur í fyrra en vonandi er þetta það sem koma skal.“

Geir Guðmundsson: Fer að minna á síðasta tímabil

„Við vorum ekki að spila vel, ekki frekar en þeir. En það skiptir ekki öllu máli þegar maður vinnur. Þetta var ekki fallegur leikur, hann var mjög ójafn hjá mönnum. En við unnum fyrir rest og sýndum góðan karakter,“ sagði Geir.


Geir Guðmundsson sýndi mátt sinn og megin

„Vonandi kemur þetta okkur á sama ról og í fyrra. Þessi leikur minnti á tímabilið í fyrra þegar við unnum alla leiki sem voru jafnir. Vonandi ger þetta að snúast okkur í hag núna.
Það er gríðarlega mikilvægt að vinna alla leiki fram að jólafríi núna, við ætlum okkur að taka Haukana hér heima næst líka,“ sagði hinn einhleypi Geir sem kvaðst þar með rokinn í ljós, enda árshátíð MA framundan.

Atli Hilmarsson: Skutum illa á Magga

Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar, segir að strákarnir hans hafi verið sjálfum sér verstir. „Við vorum oft komnir í álitlega stöðu en nýttum það ekki nógu vel. Maggi varði vel í seinni hálfleik en við vorum líka að skjóta illa á hann. Við lentum ekki í vandræðum með Róbert eða Arnar Birki sem hafa verið að spila vel en Maggi og Jóhann voru okkur erfiðir“, sagði Atli.


Atli spáir í gang mála með sínum mönnum á bekknum

„Þetta gefur okkur mikið, við erum enn í baráttunni um efstu fjögur sætin og loksins unnum við lið fyrir ofan okkur. Það er stutt í langt hlé og mikilvægt að hala sem mestu inn núna. Svona leikir hafa ekki verið að falla með okkur í vetur en það er mjög sterkt að vinna þegar maður er ekki að spila vel“, sagði Atli.

Ingimundur Ingimundarson: Dýrt að tapa þessu

„Það er dýrt að tapa þessum leik þar sem Akureyri var ekki að spila eins vel og þeir geta,“ sagði Ingimundur eftir leikinn.
„Þetta var kaflaskiptur leikur en við vorum mjög óagaðir. Við náum ekki að spila vel nema í stuttum rispum. Við bökkuðum of mikið í vörninni og tókum ekki nógu vel á þeim sem gerði markmennina óörugga.


Ingimundur skoraði fjögur mörk í leiknum

Sóknin var óörugg og agalaus. Það gekk vel þegar við stilltum upp en svo vorum við að taka óöguð skot. Það var margt sem féll ekki með okkur,“ sagði Ingimundur.

Einar Jónsson: Lögðum upp með að gera þetta ekki

„Við nýtum færin okkar mjög illa, erum að skjóta illa og taka rangar ákvarðarnir,“ segir Einar Jónsson, þjálfari Fram.
„Við töluðum um að gera þetta ekki en menn eru ekki nógu einbeittir eða ekki nógu klárir. Þá fer þetta svona. Það var ekki gæðastimpill á leiknum en þetta var hörku leikur sem hefði getað dottið hvoru megin sem var.
Þetta var stöngin út hjá okkur en stöngin inn hjá þeim. Akureyri var kannski með reynslumeiri menn undir lokin til að klára þetta og Bubbi varði mikilvæga bolta,“ sagði Einar.

Halldór Jóhann Sigfússon: Lítil gæði og leiðinlegt

„Gæði handboltans voru ekki mikil og þetta var eflaust leiðinlegur leikur á að horfa, fyrir utan kannski spennuna“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, Framari. „Við vorum óskynsamir á löngum köflum, kaflar þar sem við vorum í vandræðum bæði í vörn og sókn fóru með okkur. Heilt yfir held ég að þetta hafi bara verið lélegur handboltaleikur. Nýtingin okkar var ekki góð og ég er hálf orðlaus yfir ákveðnum punktum í leiknum. Við verðum að fá fleiri skot en tókum mjög léleg færi í þessum leik. Samt hefði þetta getað endað hvorumegin sem var en of margir voru að spila undir getu til að við gætum unnið“, sagði Halldór.


Halldór náði ekki að stöðva Odd Gretarsson í hraðaupphlaupi

Efni af sport.is

Á sport.is eru vídeóviðtöl við þar sem Þröstur Ernir Viðarsson ræðir við Heimi Örn Árnason og Magnús Gunnar Erlendsson, markvörð Fram liðsins. Smelltu á myndirnar til að sjá og heyra viðtölin:





Oddur var valinn maður leiksins

1. desember 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar

Myndband frá leik Akureyrar og Fram

Hákon Ingi Þórisson situr ekki auðum höndum og er búinn að klippa saman myndband frá sigurleik Akureyrar á Fram í gærkvöldi. Stemmingin var rafmögnuð eins og kemur vel fram í myndbandinu.

Enn og aftur þökkum við Hákoni Inga og Þóri Tryggvasyni þetta frábæra framtak en þeir hafa gert slík myndbönd eftir alla heimaleiki tímabilsins.



Smelltu á myndina til að spila myndbandið.

Ljósmyndir Þóris frá leiknum eru einnig komnar hér á síðuna.


Reynsluboltarnir Sveinbjörn og Oddur - til hamingju



30. nóvember 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar

Tímamótaleikur í dag: Akureyri - Fram

Leikurinn í dag er stór á marga vegu, ekki nóg með að Akureyri sé að berjast við Framliðið sem hefur leitt N1 deildina allt til þessa heldur eru tveir leikmenn Akureyrar að ná merkisáfanga með félaginu. Oddur Gretarsson leikur í dag sinn 103. leik og markvörðurinn Sveinbjörn Pétursson leikur sinn 100. leik og verður jafnframt 23 ára í dag.

Við óskum þeim félögum að sjálfsögðu til hamingju með áfangann en aðeins einn leikmaður, Hörður Fannar Sigþórsson hefur náð 100 leikja markinu áður.

Leikurinn er gríðarlega mikilvægur eins og Atli Hilmarsson segir í spjalli við Vikudag:
„Þetta er mjög mikilvægur leikur fyrir okkur og núna fáum við tækifæri á að sýna að við eigum virkilega heima í efri hluta deildarinnar. Það er líka kominn tími á að fara vinna þessi lið sem eru í efri hluta deildarinnar,“ segir Atli.

Eftir slæma byrjun hafa norðanmenn verið að rétta úr kútnum og fengið fimm stig af síðustu sex mögulegum í deildinni. „Þetta er allt að þokast í rétta átt hjá okkur og ég er ánægður með hvernig við höfum farið vaxandi eftir skellinn í bikarnum. Við þurfum núna að fara að lengja góðu kaflann. Fram liðið hefur gríðarlega sterkan hóp og ef einhver dettur út hjá þeim kemur góður maður inn í staðinn. Þetta verður vonandi hörkuleikur og við ætlum okkur klárlega tvö stig í kvöld.“ segir Atli, sem reiknar með hörkuleik í Höllinni í kvöld.

Við minnum handhafa stuðningsmannaskírteinanna á gómsæta fiskisúpu fyrir leik og fyrir þá sem ekki komast á leikinn þá verðum við að venju með beina textalýsingu frá leiknum.
Smelltu hér til að opna textalýsinguna.

Einnig verður leikurinn í beinni útsendingu hjá SportTV.is og reikna þeir með að hefja útsendinguna klukkan 18:50, tíu mínútum fyrir leik.
Smelltu hér til að fylgjast með útsendingu SportTV.


Það verður gómsæt fiskisúpa í boði fyrir stuðningsmannaklúbbinn

29. nóvember 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar

Stuðningsmannaklúbburinn hittist fyrir leikinn gegn Fram

Við ætlum að gera sérstaklega vel við meðlimi stuðningsmannaklúbbsins að þessu sinni í tengslum við stórleikinn gegn Fram á miðvikudaginn. Venjulega er standandi borðhald fyrir leik en að þessu sinni verða dúkuð borð og menn geta setið og gætt sér á dýrindis fiskisúpu og eitthvað hressandi með. Kaffimeðlætið í hálfleik verður líka í veglegri kantinum.

Gleymið ekki að hafa með ykkur stuðningsmannaskírteinið og betra að mæta tímanlega!

Þetta verður síðan endurtekið á einhverjum heimaleik í seinni umferðinni, nánar um það síðar.


Það eru alltaf baráttuleikir þegar Fram kemur í heimsókn

28. nóvember 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar

Akureyri - Fram í Íþróttahöllinni á miðvikudaginn

Það gengur ekki lítið á í handboltanum þessa dagana, magnaður leikur gegn FH í síðustu viku og á miðvikudaginn er komið að stærsta heimaleiknum til þessa þegar Fram liðið mætir í Íþróttahöllina. Að þessu sinni er brugðið út af vananum og leikið á miðvikudegi, það er því rétt að hnippa í kunningjana og minna þá á breytingu frá venjunni.

Fram liðið byrjaði N1 deildina með miklum látum og hefur setið í toppsætinu allt fram í síðustu umferð þannig að það er ekkert smálið sem er væntanlegt í Höllina.

Framliðið fékk nýjan þjálfara fyrir tímabilið, Einar Jónsson sem hefur undanfarin ár stýrt kvennaliði Fram með miklum glæsibrag og gerir raunar enn. Þá fékk Fram liðið öfluga leikmenn í hópinn fyrir tímabilið. Þar skal fyrstan nefna landsliðsmanninn Ingimund Ingimundarson sem hefur heldur betur rifjað upp þekkta sóknartakta upp á síðkastið til viðbótar við kröftugan varnarleik sem alþjóð þekkir með landsliðinu.

Þá komu tveir lykilmenn Gróttu í herbúðir Framara, þeir Sigurður Eggertsson sem er einn alskemmtilegasti leikmaður deildarinnar og línutröllið Ægir Hrafn Jónsson en báðir hafa áður komið við sögu með Valsliðinu.

Ekki má gleyma markverðinum gamalkunna Sebastian Alexanderssyni sem hefur sýnt í vetur að lengi lifir í gömlum glæðum.


Ingimundur, Sigurður, Ægir Hrafn og Sebastian

Fram liðið er sem sé geysilega vel skipað og hefur á að skipa mjög breiðum leikmannahópi. Fyrir utan þá sem áður eru nefndir hafa skyttan Róbert Aron Hostert og hornamaðurinn Einar Rafn Eiðsson verið atkvæðamestir í markaskorun liðsins.
Leikstjórnandinn Halldór Jóhann Sigfússon er reynsluboltinn í liðinu og þá hefur liðið endurheimt úr meiðslum Sigfús Pál Sigfússon, betur þekktur sem Siffi en hann er einn alskemmtilegasti leikstjórnandinn í íslenska boltanum þegar hann er heill heilsu.

Það er því hægt að lofa fjörugum leik á miðvikudaginn þar sem ekkert verður gefið eftir, Akureyri ætlar sér klárlega að klifra upp stigatöfluna og mun ekki sætta sig við neitt nema sigur í þessum leik.


Til baka    Senda á Facebook

Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson