Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15
Hörður Fannar með sigurmarkið á lokasekúndunni - Akureyri Handboltafélag
  Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Fyrri leiktímabil

Tímabilið 2011-12

Leikmenn meistarafl. karla
Úrslit leikja
Deild karla




Ljósmyndir frá leiknum     Myndband frá leiknum      Textalýsing frá leiknum     Tölfræði leiksins 
    Akureyri - Haukar  20-19 (11-9)
N1 deild karla
Íþróttahöllin
Fim 8. desember 2011 klukkan: 19:00
Dómarar: Ingvar Guðjónsson og Jónas Elíasson. Eftirlitsmaður Helga Magnúsdóttir
Umfjöllun

Hörður Fannar skorar sigurmarkið





8. desember 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar

Hörður Fannar með sigurmarkið á lokasekúndunni

Við vorum búin að lofa mögnuðum leik í kvöld og það gekk svo sannarlega eftir, háspenna og dramatík fram á allra síðustu sekúndu leiksins. Akureyrarliðið hóf leikinn af gríðarlegum krafti og skoraði fyrstu fjögur mörk leiksins á tæpum fjórum mínútum. Þá leist Aroni Kristsjánssyni ekki á blikuna, tók leikhlé og las yfir sínum mönnum.

Í kjölfarið komust Haukar inn í leikinn en Akureyri hafði þó alltaf örugg tök á leiknum. Haukar fengu tækifæri til að jafna úr vítakasti í 7-7 en Sveinbjörn Pétursson gerði sér lítið fyrir og varði vítið. Haukarnir fengu annað tækifæri til að jafna í 9-9 þegar þeir fengu aftur vítakast. Sveinbjörn var ósáttur við þann dóm enda kom það upp úr hornkasti sem Haukar áttu aldrei að fá enda blakaði Sveinbjörn þeim bolta afturfyrir. Líkt og áður þá varði Sveinbjörn vítakastið með tilþrifum og má segja að þar með hafi réttlætinu verið fullnægt.


Sveinbjörn varði tvö víti með stuttu millibili

Oddur Gretarsson kórónaði frábæran fyrri hálfleik með tveim mörkum og Akureyri leiddi með tveim mörkum í hálfleik 11-9.


Oddur var frábær í fyrri hálfleiknum

Sveinbjörn var magnaður í markinu, ellefu skot varin í fyrri hálfleik og þar af tvö vítaköst. Hjá Haukum var Birkir Ívar sömuleiðs góður með tíu skot varin.

Seinni hálfleikur hófst svipað og sá fyrri, Hörður Fannar jók muninn í þrjú mörk með fyrsta marki hálfleiksins og skömmu síðar varð munurinn mestur þegar Akureyri náði fjögurra marka forskoti 15-11 og 16-12. Þá kom slakur kafli hvað sóknarleikinn varðar, Haukarnir unnu boltann hvað eftir annað og skoruðu nokkur hraðaupphlaupsmörk og jöfnuðu í 16-16.

Jafnt var á næstu tölum og Haukarnir komust yfir í fyrsta sinn í leiknum 17-18 og aftur í 18-19 og farið að fara um stuðningsmenn Akureyrar. Í næstu sókn fór Bjarni Fritzson inn úr hægra horninu alveg út við endalínu og sneri boltann með ótrúlegum hætti í netið. Staðan jöfn 19-19 og rétt rúm mínúta eftir af leiknum.

Sú mínúta var heldur betur dramatísk. Haukarnir komust ekkert áleiðis gegn frábærri vörn Akureyrar. Þeir fengu reyndar aukaköst á færibandi, sum fyrir litlar sakir og fékk Atli Hilmarsson að líta gula spjaldið fyrir að tjá sig um dómgæsluna.
Að lokum neyddust Haukarnir til að taka skot sem fór langt framhjá og Akureyri geystist í sókn þegar 15 sekúndur voru eftir af leiknum. Hún virtist ætla að verða árangurslaus en Bjarni Fritzson átti snilldarlínusendingu á Hörð Fannar sem reif sig lausan á línunni og skoraði sigurmarkið á lokasekúndu leiksins.


Hörður Fannar skorar sigurmarkið og ...


... fagnar að vonum gríðarlega


Frábærum sigri fagnað að hætti hússins

Það má svo sannarlega segja að áhorfendur hafi fengið frábæra skemmtun fyrir sinn snúð í kvöld enda stóðu þeir sig frábærlega eins og liðið allt.


Stemmingin var rafmögnuð í stúkunni

Í leikslok var tilkynnt um menn leiksins og að þessu sinni voru það markverðirnir, Birkir Ívar Guðmundsson hjá Haukum og Sveinbjörn Pétursson hjá Akureyri. Að vanda fengu þeir veglegar matarkörfur frá Norðlenska að launum.


Hannes Karlsson afhendir Sveinbirni körfuna góðu, greinilega sáttir með tilveruna

Frábær sigur staðreynd og ljóst að Akureyrarliðið er komið á fulla ferð og ætlar að blanda sér í toppbaráttuna í deildinni.

Mörk Akureyrar: Oddur Gretarsson 6 (1 úr víti), Bjarni Fritzson 6 (1 úr víti), Hörður Fannar Sigþórsson 4, Geir Guðmundsson 2 og Guðmundur Hólmar Helgson 2.

Markvarsla: Sveinbjörn Pétursson stóð í markinu allan tímann og varði 21 skot, þar af 2 vítaköst.

Mörk Hauka: Freyr Brynjarsson 4, Stefán Rafn Sigmannsson 4, Gylfi Gylfason 3 (2 úr vítum), Tjörvi Þorgeirsson 3, Heimir Óli Heimisson 2, Árni Steinn Steinþórsson 1, Matthías Árni Ingimarsson 1 og Nemanja Malovic 1.
Markvarsla: Birkir Ívar Guðmundsson varði 18 skot, þar af 1 vítakast og Aron Rafn Eðvarðsson kom inná til að reyna við 1 víti og varði það.

Þetta var síðasti heimaleikur Akureyrar á árinu, eftir er útileikur gegn Val sunnudaginn 18. desember og verður hann sýndur beint á RÚV.

Tengdar fréttir

Hörður Fannar skoraði sigurmarkið á lokasekúndunni

24. mars 2015 - Akureyri handboltafélag skrifar

Þegar Akureyri vann Hauka á lokasekúndunni

Akureyri og Haukar mætast á Ásvöllum á laugardaginn í gríðarlega mikilvægum leik. Haukar, ÍBV og Akureyri eru að berjast um 5. sætið í deildinni en aðeins 1 stig skilur liðin þrjú að. Það eru því gríðarlega mikilvæg 2 stig í boði á laugardaginn sem bæði lið virkilega þurfa á að halda.

Akureyri og Haukar mættust í hörkuleik þann 8. desember 2011. Þegar aðeins ein og hálf mínúta er eftir af leiknum eru Haukar yfir 18-19 en Akureyri hinsvegar gafst ekki upp og kláraði leikinn með stæl! Bjarni Fritz skoraði magnað mark í horninu áður en Hörður Fannar skoraði af línunni á lokasekúndunni og allt gjörsamlega tryllist í Höllinni!

Sjón er sögu ríkari en hér má sjá myndband af þessum lokaatvikum leiksins og mögnuðum fagnaðarlátum okkar manna!



Frábær skemmtun í Höllinni

10. desember 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar

Mynband frá leik Akureyrar og Hauka

Nú er tilbúið myndband frá leik Akureyrar og Hauka frá því á fimmtudaginn. Hákon Ingi Þórisson klippti þetta saman líkt og hann hefur gert fyrir alla heimaleikna í vetur. Smelltu á myndina til að spila myndbandið.




Ljósmyndir Þóris frá leiknum eru einnig komnar hér á síðuna.


Sveinbjörn átti frábæran leik í gær

9. desember 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar

Ljósmyndir frá leik Akureyrar og Hauka

Þórir Tryggvason var að senda okkur enn fleiri myndir frá leiknum í gærkvöldi. Nú er langt í næsta heimaleik því að eftir útileikinn gegn Val þann 18. desember tekur við hið árvissa hlé vegna landsliðsverkefna. Næsti heimaleikur er ekki fyrr en 2. febrúar en þá kemur HK í heimsókn.

Þangað til er kærkomið að skoða myndir frá því í gær.


Oddur Gretarsson og Heimir settu upp flott sirkusmark


Haukar fengu aukakast í lok fyrri hálfleiks en varnarmúrinn stóð fyrir sínu


Mögnuð stemming í stúkunni, Bjarni Sigurðsson hvetur menn áfram


Svarta áttan fór mikinn og átti sinn þátt í stemmingunni


Leiknum lokið og sigurgleðin leynir sér ekki út um allan völl

Þetta er bara örlítið brot af myndunum frá Þóri, smelltu hér til að skoða þær allar.

Einnig er slatti af myndum frá Sævari Geir Sigurjónssyni á sport,is smelltu hér til að skoða þær.

Þar að auki eru nokkrar myndir frá leiknum inni á Vikudagur.is sem er hægt að skoða hér.


Atli var brosmildur eftir leikinn

9. desember 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar

Hvað sögðu menn eftir leik Akureyrar og Hauka?

Það eru að vanda fjölmörg viðtöl í fjölmiðlum við leikmenn og þjálfara Akureyrar og Hauka eftir stórleikinn í gærkvöldi. Að sjálfsögðu voru Akureyringar kampakátir en Haukamenn frekar súrir enda var hlutskipti liðanna misjafnt eins og gengur.

Andri Yrkill Valsson blaðamaður Morgunblaðsins er fyrstur í röðinni en hann ræddi við hetju Akureyrarliðsins.

Hörður Fannar Sigþórsson: Tilfinningin er bara fín

„Tilfinningin er bara fín sko, það er alltaf gaman að sjá hann inni,“ sagði Hörður Fannar Sigþórsson, leikmaður Akureyrar, yfirvegaður í leikslok er hann var spurður hvernig það væri að skora sigurmarkið á þennan hátt. Hörður tryggði liðinu dramatískan sigur á Haukum með marki af línunni rétt áður en leiktíminn rann út, lokatölur 20:19.

Spurður hvort það hafi verið stressandi að komast í gegn til þess að tryggja sigurinn segir Hörður: „Það er ekki tími til að hugsa um það, maður dúndrar bara eitthvað á markið. Ég var ekki sáttur við mig eftir síðasta leik og fannst ég skulda félögunum svolítið. Ég held að mér hafi tekist að bæta það aðeins upp í þessum leik.“


Hörður Fannar skorar sigurmarkið

Þrátt fyrir köflótta spilamennsku liðsins gekk Hörður Fannar sáttur frá borði eftir leikinn. „Þetta var svona upp og ofan hjá okkur. Við náðum tvisvar góðum köflum þar sem við náðum ágætu forskoti en við misstum þá alltaf inn í leikinn. Þeir komust meira að segja yfir þegar skammt var eftir en við sýndum frábæran karakter með að klára þetta í lokin. Það var lítið um markaskorun enda spiluðu bæði lið hörkuvarnarleik. Við áttum í miklum erfiðleikum með að koma boltanum á markið á kafla í síðari hálfleik, en báðir markmenn áttu einnig frábæran leik og það má ekki taka það frá þeim. Við sýndum það með þessum sigri að við erum komnir á fullt í toppbaráttuna og þar ætlum við að vera.“

Skapti Hallgrímsson kollegi Andra Yrkils á Morgunblaðinu tók vídeóviðtöl við Heimi Örn Árnason og Birki Ívar Guðmundsson eftir leikinn.

Heimir Örn Árnason: Stórkostlegur sigur

„Þetta var stórkostlegur sigur,“ sagði Heimir Örn Árnason, fyrirliði Akureyrarliðsins í handbolta, eftir að norðanmenn lögðu topplið Hauka, 20:19, á heimavelli í kvöld. Hann þakkaði frábærri vörn sigurinn.

„Þeir hafa verið sjóðandi heitir í sókninni. Virtust óstöðvandi miðað við síðustu leiki en við náðum að gíra okkur vel í gang og sýna gamalkunna takta í vörninni,“ sagði Heimir. Hér er hægt að horfa á viðtalið við Heimi:

Birkir Ívar Guðmundsson: Á að vera nóg til að vinna

„Það að fá 20 mörk á sig á að vera nóg til að vinna leik,“ sagði Birkir Ívar Guðmundsson, markvörður Hauka, eftir tapið fyrir Akureyringum nyrðra í kvöld. Hann sagðist telja að sumir sinna manna hefðu ekki verið andlega tilbúnir í viðureignina.

Birkir sagði auðvitað mjög svekkjandi að tapa eins og í kvöld; Hörður Fannar Sigþórsson gerði sigurmark heimamanna á síðustu sekúndunni. En markvörðurinn óskaði Akureyringum til hamingju með sigurinn, sagði þá hafa unnið vel fyrir stigunum, en Haukar hefðu þó í raun gert það líka, enda sigurinn eins getað fallið þeim í skaut, svo jafn var leikurinn.



Þröstur Ernir Viðarsson blaðamaður Vikudags ræddi við þjálfara liðanna, annan brosmildan en hinn í súrari kantinum:

Atli Hilmarsson: Við áttum þetta inni

Atli Hilmarsson þjálfari Akureyrar var brosmildur eftir afar mikilvægan og dramatískan eins marks sigur gegn Haukum. „Mér fannst við eiga þetta inni eftir því hvernig veturinn hefur þróast. Nú var kominn tími á okkur að fá smá heppni. Við spiluðum frábæra vörn nánast allan tímann og heilt yfir að spila mjög vel. Þeir komu okkur á óvart þegar þeir skiptu út í 6-0 vörn og við vorum lengi að átta okkur á því. En það var frábær karakter í þessu liði í kvöld. Við gáfumst aldrei upp og börðumst um hvern bolta. Það er góður stígandi í liðinu og við erum á góðu róli og til alls líklegir,“ sagði Atli eftir leik.

Hann viðurkenndi að lokamínúturnar voru taugatrekkjandi. „Mér leið ekkert svakalega vel en ég held að við hefðum fengið dæmt víti ef hann hefði klikkað hann Hörður Fannar (Sigþórsson) í lokin. En þessi síðasta sókn var svakalega vel kláruð.“

Aron Kristjánsson: Hrikalega súrt

Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, var að vonum súr í leikslok en hann hrósaði meðal annars áhorfendum í Höllinni sem létu vel í sér heyra og mynduðu mikla stemmningu á vellinum. „Þetta var alveg hrikalega súrt að tapa þessu svona. Við vissum að þetta yrði erfiður leikur enda Akureyri með frábært lið og frábær stemmning í húsinu. Akureyringar eiga hrós skilið fyrir þessa umgjörð. Við vorum að spila góða vörn og Birkir Ívar (Guðmundsson) að verja vel í markinu en sóknarleikur var alveg í molum. Við vitum að við erum með unga leikmenn sem geta verið upp og niður. Þeir áttu kannski aðeins of góðan leik gegn Val í bikarnum en þessi leikur ætti að taka menn heldur betur niður á jörðina. En þrátt fyrir þetta vorum við alltaf inni í leiknum og áttum sjens á að klára leikinn í lokin. En það var kannski röð rangra ákvarðanna í lokamínútunum sem varð okkur að falli,“ sagði Aron.

Hjalti Þór Hreinsson og Birgir H. Stefánsson blaðamenn visir.is og Fréttablaðsins ræddu við Heimi, Atla og Aron:

Heimir Örn Árnason: Eins og í KA-heimilinu í gamla daga

„Þetta minnti mann bara á það þegar maður var í KA heimilinu að horfa á leiki sem fóru 20-19. Bæði lið voru að spila frekar lélegan sóknarleik og skjóta mjög illa. Sveinbjörn „klikk“" var frábær í markinu og Bjarni malar og malar, sendir þarna frábæra sendingu undir lokin,“ sagði Heimir.


Dagur Árni Heimisson fagnar sigri með föður sínum

„Við mættum þarna lang heitasta liðinu í deildinni en í dag var munurinn bara hausinn. Varnarleikur eins og hann gerist bestur,“ sagði Heimir sem var augljóslega orðinn þreyttur, enda ekkert að yngjast.

Atli Hilmarsson: Við áttum þetta inni

„Við erum búnir að vera að tapa svona leikjum í vetur en það kom að því að við vorum svolítið heppnir,“ sagði Atli Hilmarsson eftir leikinn.
„Við byrjum þetta vel, komumst í 4-0 og svo vorum við komnir í 16-12 í seinni hálfleik en svo misstum við þetta alltaf niður. Við vorum að spila svolítið mikið á sama mannskapnum og vorum orðnir þreyttir þarna undir restina.

Þegar þeir breyttu um varnarleik og fóru í 6-0 þá vorum við svolítið lengi að átta okkur á því þótt að það hafi ekkert komið okkur á óvart. Við fórum að henda boltanum í hendurnar á þeim og fá á okkur hraðaupphlaup en svo þegar við náðum að koma okkur fyrir í vörn þá stóð hún frábærlega vel.“

Hvað með áframhaldið á mótinu? „Við erum á lífi og við erum tilbúnir að fara í þessa úrslitakeppni sem er okkar markmið. Við lentum í smá brekku þarna fyrst en erum komnir á gott skrið,“ sagði Atli að lokum.

Aron Kristjánsson: Sjálfir okkur verstir

„Við vorum að spila mjög góða vörn og Birkir að verja vel í markinu en sóknarlega þá erum við bara að gera ótrúleg mistök,“ sagði Aron ósáttur.

„Við misstum einbeitninguna og tókum of marga sénsa og það gengur ekki upp. Við vorum samt aldrei langt á eftir þeim, bara 2-3 mörkum. Við vinnum okkur svo inn í þetta og komumst yfir. Við vorum með undirtökin en einstaklingsmistök í vörn voru dýr.

Sóknarlega tókum við sénsa sem er ekki í lagi ef menn vilja vinna leikinn svo er þetta bara að heppnin dettur þeirra megin undir lokin.“

„Þetta var bara rugl, það skýtur ekki neinn á þessum tíma. Það var jafntefli og þarna spilar maður bara,“ sagði Aron um skotið hjá Stefáni í lokin. „Við vorum að spila mjög góða vörn og Birkir að verja vel í markinu en sóknarlega þá erum við bara að gera ótrúleg mistök. Við misstum einbeitinguna og erum að taka of mikla sénsa. Það gengur bara ekki upp. Einbeitingarfeilar og of miklir sénsar sem ganga ekki upp. Ég óska bara Akureyringum til hamingju með sigurinn, það var frábær stemming í húsinu og þeir vildu þetta bara meira en við,“ sagði Aron.

Vídeóviðtöl af sport.is

Við endum þessa samantekt á vídeóviðtölum Þrastar Ernis Viðarssonar við þjálfarana en þau birtust á sport.is. Smelltu á myndirnar til að sjá og heyra viðtölin:





Þessir leikir hafa alltaf verið stórleikir



8. desember 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar

Akureyri - Haukar í Íþróttahöllinni í kvöld, fimmtudag

Þá er komið að síðasta heimaleik Akureyrar á þessu ári og það er enginn smáleikur. Haukar, topplið N1 deildarinnar kemur í heimsókn og engum blöðum um að fletta að þetta er einn af stórleikjum deildarinnar.
Undanfarin ár hafa leikir Akureyrar og Hauka dregið að sér flesta áhorfendur í deildarkeppninni hér í Íþróttahöllinni og viðbúið að sama staða verði uppi í kvöld.

Lið Akureyrar hefur verið að finna sig betur og betur í undanförnum leikjum og er skemmst að minnast sigursins á Fram í síðustu umferð.

Haukaliðið hefur smollið mjög vel saman í vetur og hefur þægilega forystu á toppi N1 deildarinnar og á þó einn leik til góða, gegn nágrönnum sínum í FH. Nú síðast völtuðu Haukarnir yfir bikarmeistara Vals í 8-liða úrslitum bikarkeppninnar, unnu ellefu marka sigur á þeim í Vodafonehöllinni þannig að við getum verið viss um að Akureyrarliði þarf á öllu sínu að halda í kvöld.

„Þetta er liðið sem er búið að spila langbest í allan vetur og þetta verður örugglega hörkuleikur. Þarna mætast tvö lið á góðu róli,“ segir Atli Hilmarsson þjálfari Akureyrar í spjalli við Vikudag. „Þeir hafa verið svakalega stapílir og hafa komið mjög sterkir inn. Þetta er lið sem er gott varnarlega og sóknarlega og hefur þess utan tvo frábæra markmenn. Þeir eru núna að springa út þessir ungu strákar og hafa líka fengið góða menn til liðs við sig þótt þeir hafi misst menn líka,“ segir Atli.

Leikurinn í kvöld hefst klukkan 19:00 en Höllin verður opnuð klukkan 18:15 og að sjálfsögðu verða hefðbundnar veitingar fyrir leik í stuðningsmannaherberginu.

Leikurinn verður í beinni textalýsingu hjá okkur hér á síðunni.
Smelltu hér til að fylgjast með lýsingunni.

Auk þess verður leikurinn sýndur beint á SportTV.is, þú getur fylgst með útsendingunni með því að smella hér.

Jólagjöfin í ár – Akureyrarkönnur og glös
Minnum á nýju könnurnar og glösin. Oft vantar eitthvað smávegis til að bæta í jólapakkana og nú er einmitt komin tilvalin tækifærisgjöf. Kanna eða glas með merki Akureyrar Handboltafélags. Eftir leik Akureyrar og Hauka í kvöld verða glösin og könnurnar til sölu í Íþróttahöllinni og kostar stykkið 1.000 krónur.



Heiðar Þór og Jón Heiðar með könnur og glös

5. desember 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar

Jólagjöfin í ár – Akureyrarkönnur og glös

Okkur var að berast fyrsta sending af könnum og glösum með merki Akureyrar Handboltafélags. Oft vantar eitthvað smávegis til að bæta í jólapakkana og hér er einmitt komin tilvalin tækifærsgjöf. Á fimmtudagskvöldið eftir leik Akureyrar og Hauka verða glösin og könnurnar til sölu í Íþróttahöllinni og kostar stykkið 1.000 krónur.




Þessi mynd var tekin á æfingu í kvöld þar sem leikmenn og þjálfarar tóku við könnu og glasi.




Það hafa alltaf verið háspennuleikur þegar Haukarnir koma í heimsókn

5. desember 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar

Síðasti heimaleikur ársins á fimmtudaginn

Það eru ekkert nema stórleikir framundan hjá Akureyri Handboltafélagi á næstunni. Á fimmtudaginn verður einmitt einn af þeim stærstu þegar topplið N1 deildarinnar, Haukar mæta til leiks í Íþróttahöllinni.

Síðasta tímabil var eitt það slakasta í sögu Hauka, að minnsta kosti ef horft er til síðustu áratuga en liðið komst ekki í úrslitakeppnina og þarf að fara langt aftur í tímann til að finna slíkt. En Haukarnir hafa sýnt mátt sinn og megin á þessu tímabili og greinilegt að endurkoma þjálfarans, Arons Kristjánssonar hefur heldur betur eflt sjálfstraust liðsins.

Liðsheild Haukanna er ótrúlega sterk og öguð um leið og hún byggir ekki síst á sterkri vörn og öflugri markvörslu. Í markinu standa reynsluboltinn Birkir Ívar Guðmundsson og unglingurinn Aron Rafn Eðvarðsson sem mynda eitt öflugasta markvarðapar landsins.


Aron Kristjánsson, Birkir Ívar og Aron Rafn

Í sóknarleiknum ber mikið á ungum en öflugum strákum þar sem Stefán Rafn Sigurmannsson og Tjörvi Þorgeirsson hafa verið mjög aðsópsmiklir fyrir utan ásamt Nemanja Malovic sem kom til liðs við Hauka fyrir þetta tímabil.


Stefán Rafn,Tjörvi og Nemanja

Í hornunum eru reyndir menn, Freyr Brynjarsson og Gylfi Gylfason sem kom heim úr atvinnumennsku í haust en báðir skora mikið fyrir Haukana. Á línunni er stór og kraftmikill strákur, Heimir Óli Heimisson sem hefur reynst andstæðingum Haukanna illviðráðanlegur í vetur.


Freyr Brynjarsson, Gylfi Gylfason og Heimir Óli

Vörnin er aðalsmerki Haukanna og þar bætast við jaxlar eins og Matthías Árni Ingimarsson og Sveinn Þorgeirsson sem bregður sér einnig í sóknarleikinn og leiðist ekki að dúndra á markið.


Matthías og Sveinn

Haukaliðið hefur sem sé smollið mjög vel saman í vetur og hefur þægilega forystu á toppi N1 deildarinnar og á þó einn leik til góða, gegn nágrönnum sínum í FH. Nú síðast völtuðu Haukarnir yfir bikarmeistara Vals í 8-liða úrslitum bikarkeppninnar, unnu ellefu marka sigur á þeim í Vodafonehöllinni þannig að við getum verið viss um að Akureyrarliði þarf á öllu sínu að halda á fimmtudaginn.

Snorri Sturluson, blaðamaður á sport.is lýkur umfjöllun sinni um leik Hauka og Vals að þar hafi Haukarnir sýnt það og sannað að á góðum degi er ekkert handboltalið á Íslandi sem stenst þeim snúning. Akureyringar fá því það verðuga verkefni, jafnt innan vallar sem í stúkunni að afsanna þessa fullyrðingu Snorra Sturlusonar.


Heiddi fórnaði sér í lok leiksins gegn FH

3. desember 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar

Heiðar Þór Aðalsteinsson í banni gegn Haukum

Eins og flestir muna þá fékk Heiðar Þór Aðalsteinsson beint rautt spjald undir lok jafnteflisleiksins gegn FH. Aganefnd HSÍ hefur nú dæmt Heiðar Þór í eins leiks bann fyrir brotið og verður hann því í leikbanni á fimmtudaginn þegar Akureyri fær Hauka í heimsókn. Í sama leik fékk Ari Magnús Þorgeirsson leikmaður FH einnig rautt spjald á lokasekúndunum og fékk hann sömuleiðis eins leiks bann.

Til baka    Senda á Facebook

Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson