Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15
Góður útisigur á HK - Akureyri Handboltafélag
  Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Fyrri leiktímabil

Tímabilið 2013-14

Leikmenn meistarafl. karla
Úrslit leikja
Deild karla




Ljósmyndir frá leiknum     Tölfræði leiksins 
    HK - Akureyri  21-27 (9-12)
Olís deild karla
Digranes
Fim 10. okt 2013 klukkan: 18:00
Dómarar: Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson
Umfjöllun

Vladi sýndi að hann getur bombað á markið

10. október 2013 - Akureyri handboltafélag skrifar

Góður útisigur á HK

Akureyrarliðið komst á sigurbraut á ný með góðri ferð í Kópavoginn. Akureyri skoraði fyrstu þrjú mörk leiksins og létu ekki þar við sitja og náðu fimm marka forskoti 2-7 eftir rúmlega tólf mínútna leik. Þrándur Gíslason fékk þá brottvísun og hana nýttu HK menn vel og skoruðu þrjú mörk manni fleiri. Þeir voru ekki af baki dottnir og bættu við tveim mörkum og jöfnuðu þar með leikinn í 7-7.

Þá var Heimi nóg boðið og tók leikhlé. Það skilaði góðum árangri því Akureyri vann seinni hluta hálfleiksins með fimm mörkum gegn tveim og leiddu í hálfleik 9-12.

Kristján Orri fór mikinn í fyrri hálfleik og skoraði fimm mörk og Jovan Kukobat með fína markvörslu, auk þess kom Tomas Olavsson inná og varði vítakast.


Kristján Orri með eitt af níu mörkum sínum. Mynd: Ómar Örn Smith sport.is


Ókleyfur varnarmúr Akureyrar. Mynd: Ómar Örn Smith sport.is

HK hóf seinni hálfleikinn með tveim fyrstu mörkunum en þar með tók Akureyrarliðið öll völd á vellinum. Þegar tíu mínutur voru búnar af seinni hálfleik var Akureyri komið sex mörkum yfir, 13-19 og þann mun átti HK aldrei möguleika á að jafna. Þó náðu þeir að minka muninn niður í þrjú mörk áður en Akureyri gaf í aftur.

Lokakaflinn var síðan eign Akureyrar sem jók forskotið upp í sjö mörk áður en HK skoraði lokamark leiksins sem lauk með sex marka sigri 21-27.

Það var allt annað að sjá til Akureyrarliðsins í dag, vörnin var lengst af mjög góð og Jovan Kukobat í miklum ham þar fyrir aftan. Sóknarleikurinn var dálítið köflóttur en fínn í heildina samt var fullmikið af töpuðum boltum.
Kristján Orri Jóhannsson hélt áfram markaskoruninni og bætti við fjórum mörkum í seinni hálfleik einnig var jákvætt að Vladimir Zejak fann leiðina í netið og sýndi nokkrar flottar sleggjur. Þá var Halldór Logi Árnason öflugur á línunni. Jovan var síðan frábær í markinu allan leikinn.


Halldór Logi Árnason var sterkur á línunni með þrjú mörk. Mynd: Ómar Örn Smith sport.is


Það var ástæða til að fagna í leikslok. Mynd: Ómar Örn Smith sport.is

Mörk Akureyrar: Kristján Orri Jóhannsson 9, Bjarni Fritzson 5 (1 úr víti), Vladimir Zejak 5, Halldór Logi Árnason 3, Gunnar Malmquist Þórsson 2, Sigþór Heimisson 2 og Þrándur Gíslason 1.
Jovan Kukobat varði 19 skot og Tomas Olason varði 1 víti.

Mörk HK: Leó Snær Pétursson 6 (2 úr vítum), Jóhann Reynir Gunnlaugsson 5 (1 úr víti), Atli Karl Bachmann 4, Garðar Svansson 3, Andri Þór Helgason 1, Ólafur Víðir Ólafsson 1, Tryggvi Þór Tryggvason 1.
Björn Ingi Friðþjófsson varði 10 skot og Helgi Hlynsson 3.

Hægt er að skoða ljósmyndir frá leiknum á sport.is

Næsti leikur Akureyrar er einnig útileikur gegn Val föstudaginn 18. október.

Tengdar fréttir

Léttari brúnin á Heimi

11. október 2013 - Akureyri handboltafélag skrifar

Viðtöl eftir leik HK og Akureyrar

Nokkur viðtöl eru komin í fjölmiðla eftir sigur Akureyrar á HK í gærkvöld. Eins og oft vill verða liggur leikmönnum Akureyrar á að drífa sig út á flugvöll strax eftir leik og sú var raunin í gærkvöld en það stress varð þó óþarft því að flug norður féll niður vegna veðurs og drengirnir því veðurtepptir í borginni.
Byrjum á viðtölum Sigmars Sigfússonar við þjálfara liðanna sem birtust á visir.is

Heimir: Spilamennskan var ekkert frábær


„Mér fannst við klaufar að klára þetta ekki fyrr. Það datt allur kraftur úr þeim þegar að Atli Karl Bachmann meiddist. Hann er þeirra besti maður eins og staðan er í dag og þá var þetta orðið erfitt fyrir þá,“ sagði Heimir Árnason, þjálfari Akureyrar, eftir leikinn.

Þið misstu niður fimm marka forskot í fyrri hálfleik. Hvað gerðist hjá ykkur þar?
„Ég held að sjálfstraustið hafi verið í molum eftir leikinn í síðustu umferð þar sem við fengum einn mesta skell sem ég hef fengið á ferlinum. En við kláruðum þetta svo mér er eiginlega alveg sama. Þetta eru tvö stig hérna í kvöld.
Við spiluðum fína vörn í dag. Vörnin sem við sýndum fyrir Norðan um daginn var neyðarleg. Spilamennskan var fín hérna í dag. Ekkert frábær, heldur fín,“ sagði Heimir að lokum, ánægður að hafa bætt fyrir leikinn á móti ÍBV.


Heimir fer yfir málin í leikhléi. Mynd: Ómar Örn Smith sport.is

Samúel: Vandamálið hjá okkur í vetur hingað til er sóknarleikurinn

„Við töpuðum leiknum þar sem að baráttan hjá okkur var ekki eins mikil og hjá þeim. Sérstaklega í vörninni og þá hversu slakir við vorum að hlaupa tilbaka. Við hleyptum þeim líka allt of mikið framhjá einn á einn,“ sagði Samúel Ívar Árnason, þjálfari HK eftir leikinn.

„Það sem gerist í þessum kafla þegar við settum fimm mörk í röð á þá var að Óli Víðir kom inn með reynslu. Hann kann þennan leik, hefur gott auga fyrir spili og Þá náðum við að leysa sóknarleikinn vel. Í framhaldi breyttum við líka í 6-0 vörn sem virkaði vel og strákarnir að standa vaktina mjög vel.
Óli er samt að spila sig inn í liðið hægt og rólega. Hann er ekki í neinu standi til þess að spila heilan leik. Við þurfum að fara varlega í það spila honum þar sem við megum ekki við frekari meiðslum í okkar hóp.
Við erum alltaf að reyna að vinna í okkar leik og þróa hann áfram. Vandamálið hjá okkur í vetur hingað til er sóknarleikurinn. En eins og fólk veit erum við með nýjan hóp og nýja leikmenn. Það tekur alltaf tíma að læra inn á hvor aðra og ég er sjálfur að læra inn á þá.
Við höldum áfram með okkar leik. Það eru fjórir leikir búnir og ég hefði helst viljað vera með meira en eitt stig en við erum ekkert búnir að gefast upp,“ sagði Samúel að lokum.


Samúel mikið niðri fyrir í leikhléi. Mynd: Ómar Örn Smith sport.is



Morgunblaðið birti viðtöl Tómasar Þórs Þórðarsonar við leikmennina Kristján Orra Jóhannsson og Ólaf Víði Ólafsson.

Kristján Orri: Sissi og Bjarni hjálpuðu til

„Þetta var fínt. Við náðum alltaf að koma til baka og endum með öruggan sex marka sigur,“ sagði Kristján Orri Jóhannsson, hægri hornamaður Akureyrar, við mbl.is eftir sigurinn á HK í 4. umferð Olís-deildarinnar í kvöld.
„Við vorum að spila góðan sóknarleik. Vörnin var líka góð. Við vorum að fara í mennina en við höfum verið að reyna taka einhverja blokk í undanförnum leikjum sem hefur ekki verið að virka.
Ég hef verið að finna mig þokkalega. Þegar hornamenn skora er það vanalega því undirbúningurinn hefur verið góður. Sissi (Sigþór Heimisson)og Bjarni (Fritzsson) voru að draga aðra menn í sig og þá losnaði fyrir mig í horninu,“ sagði Kristján Orri.

Ólafur Víðir: Verða taka ábyrgð á sjálfum sér

„Þetta var mjög erfitt,“ sagði Ólafur Víðir Ólafsson, leikstjórnandi HK, við mbl.is eftir sex marka tapið gegn Akureyri , 27:21, í Olís-deildinni í handbolta í kvöld.
„Fyrri hálfleikurinn var allt í lagi. Við byrjum illa og lendum undir, 7:2. Erum orðnir nokkuð vanir því. Svo jöfnum við en erum svo að elta allan leikinn. Svo um miðbik seinni hálfleiksins þá bara fer þetta.
Við eigum erfitt með að koma boltanum í markið. Við vorum að skjóta mikið í markvörðinn í dag og ekki þægilegum skotum. Við erum heldur ekki að vinna maður á mann og gerum okkur þetta erfitt fyrir. Svo dettur Atli út og þá kemur síðasti naglinn í kistuna,“ sagði Ólafur Víðir en Atli Karl Bachman fór af velli meiddur undir lok fyrri hálfleiks. Hann var þá markahæstur í liðinu.
Ólafi líst ágætlega á framhaldið hjá HK þrátt fyrir erfiða stöðu en hann vill ekki að menn séu að missa hausinn í svona leikjum.
„Þetta er ungt lið og öll þessi tugga og við erum að spila okkur saman og allt þetta. Menn verða samt að taka smá ábyrgð á sjálfum sér. Hausinn á bara vera uppi og við eigum að hafa gaman af þessu og vinna í ákveðnum háttum. Þegar hausinn dettur þá lærum við ekkert. Við eigum bara gera okkar besta eins og við sýndum á móti FH.“



Á handbolti.org er að finna vídeóviðtöl við leikmennina Þránd Gíslason og
Leó Snæ Pétursson:

Þrándur Roth: Mjög sætur sigur


Leó Snær: Í HK búningnum spilum við fyrir hjartað



Mikilvægur leikur í Kópavoginum í dag

10. október 2013 - Akureyri handboltafélag skrifar

Leikur dagsins: Útileikur gegn HK

Nú reynir á liðsmenn Akureyrar að sýna sitt rétt andlit eftir afspyrnuslakan leik í síðustu umferð. Mótherjinn er HK sem sýndu það í fyrstu umferðinni að þeir eru sýnd veiði en ekki gefin þegar þeir þvert á allar spár náðu jafntefli gegn FH.

HK-liðið varð fyrir óhappi að missa einn sinn besta mann, Daníel Berg Grétarsson í slæm meiðsli strax í annarri umferð Olís-deildarinnar og líkur á að hann verði lengi frá af þeim sökum. HK liðið hefur gengið í gegnum töluverðar breytingar frá síðasta tímabili. Fjórir leikmenn héldu erlendis í atvinnumensku, þeir Tandri Már Konráðsson í Tönder, Bjarki Már Gunnarsson til Aue, Bjarki Már Elísson til Eisenach og Jóhann Karl Reynisson til Ajax. Þá fór markvörðurinn Arnór Freyr Stefánsson til ÍR, Daníel Örn Einarsson til KR og skyttan Vladimir Duric er kominn til Tyrklands. Auk þess lagði Vilhelm Gauti Bergsveinsson skóna á hilluna.

Þetta er vissulega mikil blóðtaka en á móti fékk HK Helga Hlynsson frá Selfossi, Baldur Inga Agnarsson frá Fylki, Jóhann Reyni Gunnlaugsson frá Víkingi og Sigurð Má Guðmundsson frá Selfossi, Aðalstein Gíslason frá FH, Davíð Ágústsson frá ÍR ásamt Eyþóri Snæland frá Þrótti.
Þá er nýr þjálfari með liðið, sá er ekki alveg ókunnur Akureyringum, Samúel Ívar Árnason.

Lið HK er tiltölulega ungt en þar hafa Leó Snær Pétursson, Atli Karl Bachmann hafa verið atkvæðamestir það sem af er vetri en þar fyrir utan eru reynsluboltar sem alltaf standa fyrir sínu eins og Ólafur Víðir Ólafsson og frábær markvörður Björn Ingi Friðþjófsson.

HK hefur alltaf verið erfitt heim að sækja og aðalsmerki þeirra hefur verið gríðarleg barátta og stemming sem hefur fleytt liðinu langt á undanförnum árum.

Leikurinn hefst klukkan 18:00 í Digranesinu og hvetjum við alla stuðningsmenn á höfuðborgarsvæðinu til að mæta og styðja Akureyrarliðið í þessari baráttu. Óvíst er með þátttöku Valþórs Guðrúnarsonar í liði Akureyrar en hann meiddist illa á öxl í síðasta leik og er þar skarð fyrir skildi.

Smelltu hér til að fylgjast með textalýsingu Vísir.is.


Kópavogsbúar eru harðir heim að sækja

8. október 2013 - Akureyri handboltafélag skrifar

Útileikur gegn HK á fimmtudaginn

Þá er komið að næsta útileik. Eftir slæma útreið gegn ÍBV þurfa okkar menn að mæta klárir í slaginn í Digranesið. HK hefur tapað síðustu tveimur leikjum í deildinni rétt eins og Akureyri og því má búast við miklum baráttuleik. Fjölmennum í Kópavoginn á fimmtudaginn, áfram Akureyri!

Leikurinn hefst klukkan 18:00.


Til baka    Senda á Facebook

Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson