Heimasíðan
 Fréttir  -   Úrslit  -   Næstu leikir  -   Deildin

    Fréttir                       Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar! 

Hafþór Vignisson með stórleik 11 mörk í leiknum

18. mars 2017 - Akureyri handboltafélag skrifar

Ungmennaliðið vann bardagann um bæinn

Það var í rauninni mikið undir þegar Ungmennalið Akureyrar og Hamrarnir mættust á föstudagskvöldið í Íþróttahöllinni. Eðlilega er töluverður metingur á milli liðanna þó allt sé í góðu. Þegar liðin mættust í heimaleik Hamranna lögðu Hamrarnir til farandbikar sem sigurvegarinn fengi til varðveislu og jafnframt titilinn Akureyrarmeistari.
Í þeim leik hafði Ungmennaliðið eins marks sigur eftir harða hríð Hamranna á lokakafla leiksins.

Föstudagsleikurinn var fjörugur og spennandi. Hamrarnir byrjuðu betur með Elfar Halldórsson í miklum ham en Elfar skoraði fjögur af fyrstu sjö mörkum Hamranna. Akureyri jafnaði í 5-5 en Hamrarnir héldu áfram frumkvæðinu. Akureyri náði einu sinni að komast yfir í fyrri hálfleiknum þegar Birkir Guðlaugsson kom liðinu yfir í 12-11 með marki úr hraðaupphlaupi.

Við tóku fjögur mörk í röð frá Hömrunum sem náðu þar með þriggja marka forystu 12-15 og leiddu með tveim mörkum í hálfleik 14-16.

Arnþór Gylfi Finnsson skoraði fimm mörk í hálfleiknum og Arnar Þór Fylkisson varði 9 skot í marki Akureyrar U. Hjá Hömrunum voru þeir Bjarni Jónasson og Elfar Halldórsson með 4 mörk hvor.

Ungmennaliðið kom hins vegar sterkt til seinni hálfleiksins jafnaði í 17-17 og komst tveim mörkum yfir 19-17. Hafþór Vignisson sem hafði frekar hægt um sig í fyrri hálfleiknum fór hreinlega á kostum og réðu Hamrarnir ekkert við hann.

Akureyri U var greinilega komið með örugg tök á leiknum og einhvernvegin virtust Hamrarnir ekki líklegir til að vinna upp forskotið. Munurinn varð fjögur mörk 25-21 en þá kviknaði á Hömrunum sem minnkuðu muninn í eitt mark, 26-25 þar sem Heimir Örn Árnason fór fyrir sínum mönnum og var stemmingin farin að minna á lokakafla fyrri leiksins.

En Hafþór Vignisson var ekki aldeilis á því að hleypa Hömrunum inn í leikinn og á lokakaflanum raðaði hann inn mörkum og forskot Akureyrar U varð fimm mörk, 30-25 áður en Gunnar Ernir Birgisson minnkaði muninn í 30-26 með marki úr vítakasti á lokasekúndunni.

Akureyri-U vann þar með báða leiki liðanna í vetur og heldur áfram varðveislu bikarsins góða og heldur Akureyrarmeistaratitlinum.

Eins og áður segir var Hafþór Vignisson yfirburðamaður á vellinum 11 mörk og sömuleiðis var Arnar Þór Fylkisson frábær í markinu með 20 skot varin. Hjá Hömrunum var Heimir Örn Árnason drífandi og Elfar Halldórsson drjúgur, þá var Bjarki Símonarson flottur í markinu, sérstaklega í fyrri hálfleiknum.

Mörk Akureyrar U: Hafþór Már Vignisson 11, Arnór Þorri Þorsteinsson 5, Arnþór Gylfi Finnsson 5, Heimir Pálsson 2 (1 úr víti), Jóhann Einarsson 2, Sigþór Gunnar Jónsson 2, Birkir Guðlaugsson 1, Garðar Már Jónsson 1 og Vignir Jóhannsson 1 mark.
Arnar Þór Fylkisson varði 20 skot eins og áður segir en Ásgeir Kristjánsson kom inná og reyndi við tvö vítaköst.

Mörk Hamranna: Heimir Örn Árnason 7 (1 úr víti), Bjarni Jónasson 6(5 úr vítum), Elfar Halldórsson 6, Hörður Másson 4, Hreinn Hauksson 2, Gunnar Ernir Birgisson 1(úr víti), Valdimar Þengilsson 1.
Bjarki Símonarson stóð í markinu nánast allan leikinn og varði 14 skot. Formaður Hamranna, Hjalti Þór Hreinsson stóð raunar vaktina síðustu andartökin og hélt hreinu.


Kátir sigurvegarar leiksins með Akureyrarmeistarabikarinn.
Aftasta röð: Jóhann Einarsson, Aron Tjörvi Gunnlaugsson, Birkir Guðlaugsson, Elvar Reykjalín, Sigþór Gunnar Jónsson, Arnór Þorri Þorsteinsson, Jason Orri Geirsson, Andri Snær Stefánsson þjálfari.
Miðröð: Arnar Þór Fylkisson, Ásgeir Kristjánsson, Garðar Már Jónsson, Vigniri Jóhannsson, Heimir Pálsson.
Fremstir: Arnþór Gylfi Finnsson og Hafþór Vignisson.

Segja má að leikklukkan og markataflan hafi þó verið í aðalhlutverki í leiknum. Stöðva þurfti leikinn fjórum sinnum af því að klukkan datt út og urðu langar tafir á leiknum meðan reynt var að koma henni í gang aftur. Loks misstu dómarar og raunar allir þolinmæðina og voru síðustu elleftu mínútum leiksins stjórnað með skeiðklukku með tilheyrandi óþægindum fyrir leikmenn og áhorfendur.
Því miður er þetta ekki einsdæmi og brýnt að koma klukkumálum í betra horf í íþróttahúsum bæjarins.
Fletta milli frétta Til baka    Senda á Facebook

Efst á síðu

Umsjón og hönnun:
Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson