Heimasíðan
 Fréttir  -   Úrslit  -   Næstu leikir  -   Deildin

    Fréttir                       Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar! 

Sverre fagnar með sínum mönnum í leikslok

29. mars 2017 - Akureyri handboltafélag skrifar

Rándýrt stig á lokasekúndunum í Eyjum

Líklega voru það ekki margir utan leikmannahóps Akureyrar sem gerðu sér vonir um stig gegn ofurliði ÍBV í Eyjum í kvöld. ÍBV búið að spila frábærlega í síðustu leikjum og í toppsæti deildarinnar. Akureyri hins vegar búið að fara illa að ráði sínu í síðustu tveim leikjum og í vægast sagt afar þröngri stöðu í neðsta sæti deildarinnar.

Leikmenn Akureyrar mættu hins vegar fullir sjálfstrausts í leikinn og óhætt að segja að þeir hafi tekið heimamenn í bólinu í upphafi leiks. Eyjamenn skoruðu reyndar fyrsta mark leiksins en því var svarað með fjórum norðlenskum mörkum á móti. Áfram héldu Akureyringar og eftir fimmtán mínútna leik var staðan 2-7 fyrir gestina.


Pókerinn spilaður á hliðarlínunni. Ljós­mynd/​Sig­fús Gunn­ar mbl.is

Eyjamenn tóku leikhlé og skiptu yfir í 5+1 vörn sem riðlaði nokkuð sóknarleik Akureyrar og í kjölfarið komu fimm Eyjamörk og staðan orðin 7-7 eftir fimm mínútna leik. En Akureyri lagði ekki árar í bát og náðu vopnum sínum á ný og leiddu með þrem mörkum, 9-12 í hálfleik.

Vörn Akureyrar var mögnuð og leikur liðsins raunar frábær. Andri Snær kominn með fjögur mörk og Mindaugas þrjú. Þá var Tomas flottur í markinu, kominn með átta skot varin.


Mindaugas og Kristján Orri Jóhannsson stöðva Sigurberg Sveinsson.
Ljós­mynd/​Sig­fús Gunn­ar mbl.is

Akureyri hélt uppteknum hætti í seinni hálfleiknum og leiddi með tveim til þrem mörkum og leiddi 16-18 þegar fimmtán mínútur voru til leiksloka. Þá kom annar slæmur kafli þar sem Eyjamenn tóku öll völd á vellinum og áttu næstu fimm mörk og staðan orðin uggvænleg 21-18 og tæpar tíu mínútur eftir af leiknum.

En af miklu harðfylgi minnkuðu Friðrik og Kristján Orri muninn í eitt mark áður en Róbert Sigurðarson jafnaði í 21-21 með skoti þvert yfir völlinn í autt mark heimamanna og allt á suðupunkti. Eyjamenn komust yfir á ný þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir af leiknum og fengu upplögð tækifæri til að gera út um leikinn en Tomas var heldur betur betri en engin í markinu og Kristján Orri komst inn í sendingu Eyjamanna þegar 27 sekúndur voru eftir af leiknum. Akureyri geystist í sókn en fékk aukakast út við hliðarlínu þegar fimm sekúndur voru til leiksloka og Ingimundur tók leikhlé.

Óhætt er að segja að liðið hafi spilað meistaralega úr stöðunni sem endaði með því að Andri Snær fékk boltann í raunar vonlausu færi lengst út í horni en hann leysti það meistaralega og lagði boltann í færhornið fram hjá Stephen Nielsen markverði ÍBV.

Jafntefli staðreynd en á þeirri stundu ekki ljóst hvaða þýðingu þetta stig hefði fyrir stöðu liðsins.


Dýrmætu stigi fagnað í leikslok. Ljós­mynd/​Sig­fús Gunn­ar mbl.is

Mörk Akureyrar: Andri Snær Stefánsson 6 (2 úr vítum), Brynjar Hólm Grétarsson 4, Kristján Orri Jóhannsson 4, Mindaugas Dumcius 4, Friðrik Svavarsson 2, Bergvin Þór Gíslason 1 og Róbert Sigurðarson 1 mark.
Tomas Olason átti prýðisgóðan leik í markinu og varði 17 skot.

Mörk ÍBV: Theodór Sigurbjörnsson 7 (2 úr vítum), Sigurbergur Sveinsson 5, Róbert Aron Hostert 4, Agnar Smári Jónsson 2, Magnús Stefánsson 2, Dagur Arnarsson 1 og Grétar Þór Eyþórsson 1 mark.
Í markinu stóð Stephen Nielsen og varði 12 skot.

Tveir slakir kaflar í leiknum kostuðu liðið annað stigið í dag en það var frábært að sjá spilamennskuna hjá liðinu lengst af. Andri Snær með frábæran leik og steig ekki feilspor en annars óhætt að hrósa liðinu í heild fyrir frábæra baráttu og trú á sjálft sig.
Fletta milli frétta Til baka    Senda á Facebook

Efst á síðu

Umsjón og hönnun:
Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson