Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15
Vinnusigur á Fylki (umfjöllun) - Akureyri Handboltafélag
  Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Fyrri leiktímabil

Tímabilið 2006-07

Leikmenn meistarafl. karla
Úrslit leikja
Deild karla
Deild kvenna
Leikmenn meistarafl. kvenna




Textalýsing frá leiknum     Tölfræði leiksins 
    Akureyri - Fylkir  30-27 (13-16)
DHL deild karla
KA-Heimilið
6. nóvember 2006 klukkan: 18:45
Dómarar: Ingvar Guðjónsson og Jónas Elíasson
Umfjöllun

Hinn 18 ára Ásbjörn var maður leiksins í dag

6. nóvember 2006 - SÁ skrifar

Vinnusigur á Fylki (umfjöllun)

Fylkir mætti í KA-Heimilið í kvöld og tók á móti Akureyri. Bæði lið höfðu farið nokkuð vel af stað í deildinni og var nokkur eftirvænting að fá Akureyrarliðið Fylki í heimsókn. Gestirnir voru öflugir framan af og yfir mikinn hluta leiksins en leikmenn Akureyrar voru mun sterkari í restina og unnu góðan vinnusigur þrátt fyrir að eiga mikið inni.

Þá Rúnar Sigtryggsson og Hörð Fannar Sigþórsson vantaði í lið Akureyrar og háði það okkar mönnum mikið framan af. Vörnin var langt frá því að vera góð í fyrri hálfleik og röðuðu Fylkismenn, aðallega Ðuric og Ingólfur Axelsson, inn mörkum af 8-9 metrum. Akureyri átti engin svör við þessum skotum og fengu Fylkismenn að taka þau oftast algjörlega óáreittir en maður hefði þó viljað sjá markmennina taka eitthvað ef þessum boltum.
Fylkir náði strax yfirhöndinni og komust í 7-4 eftir 13 mínútna leik. Þá kom Hreiðar Levý Guðmundsson, sem er að koma aftur í meiðslum, inn í markið eftir að Akureyri hafi fengið á sig fimm af þessum sjö mörkum með langskotum. Hreiðar byrjaði ekki vel og var afar lengi í gang.
Fylkirmenn héldu áfram og bættu við muninn næstu mínúturnar en staðan var 5-9 fyrir Fylki eftir 19 mínútur. Sóknarleikur Akureyrar hafði verið afar slakur þangað til en hann var hægur og virtust menn ekki vita hvað þeir væru að gera. Þar rétt á undan hafði Ásbjörn Friðriksson komið inn á miðju Akureyrar og átti hann eftir að verða maðurinn sem gerði sóknarleik liðsins betri og bar hann uppi löngum stundum.
Akureyri kemur með góðan kafla og fer Magnús Stefánsson þá í gang. Hann skorar næstu fjögur mörk Akureyrar en hann hafði verið nánast meðvitundarlaus fram af því. Magnús sýndi með þessari sýningu sinni hvers hann er megnugur og gerði nákvæmlega það sem maður vill sjá af honum. Akureyri minnkar muninn smám saman og staðan orðin 12-13 þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Fylkismenn klára hálfleikinn hins vegar betur og leiða 13-16 þegar gengið var til búningsherbergja.

Akureyri lék alls ekki vel í fyrri hálfleik og vörnin hreint út sagt afleit. Eins og áður kom fram þá fengu gestirnir að taka ótrúlegan fjölda skota fyrir utan án þess að nokkuð hefði verið gert. Þá hefði maður viljað sjá markmennina taka þessa bolta einnig en Hreiðar var ekkert skárri en Sveinbjörn þegar hann var kominn inná. Þá var sóknin ekki góð að undanskildum góðum sex mínútna kafla í hálfleiknum þar sem liðið skorar heil sjö mörk.
Fylkismenn hins vegar spiluðu nokkuð skynsamlega og voru að nýta sér mistök Akureyrar afar vel. Þá var vörnin hjá þeim, 3-2-1, að virka vel löngum stundum.

Akureyri byrjar seinni hálfleikinn vel og jafnar í 17-17 eftir einungis fimm mínútna leik í seinni hálfleik. Fylkir kemst í 17-18 og meiðist þá Arnar Sæþórsson en hann kom ekkert meira inná. Það átti eftir að reynast Fylkismönnum afar erfitt en varnarleikur liðsins hreinlega hrynur við það og náði aldrei að komast í líkingu við það sem liðið var að sýna í fyrri hálfleiknum.
Fylkismenn eru þó alltaf skrefinu á undan Akureyri næstu mínútur en það var einhvern veginn eins og Akureyri væri bara ekki á fullum krafti. Í stöðunni 21-23 fyrir Fylki þá stíga Akureyringar upp svo um munar en sá karakter sem liðið sýndi það sem eftir var leiks einfaldlega vann leikinn fyrir þá. Þeir minnka í 23-24, jafna í 24-24 og skora svo næstu þrjú mörk þar á eftir. Staðan var því orðin 27-24 þegar þrjár mínútur voru eftir.
Á þessum tíma var Ásbjörn Friðriksson að stjórna ótrúlega skynsömum og öguðum sóknarleik Akureyrar. Það sem samt mestu munaði frá því fyrr í leiknum var að loksins vaknaði Hreiðar Levý Guðmundsson. Hreiðar hafði verið að tína einn og einn bolta í seinni hálfleik en hann hreinlega lokaði markinu seinustu mínúturnar og varði 4 crucial bolta undir lok leiksins sem hann hélt öllum.
Fylkir skorar næstu tvö mörk og minnkar muninn í 27-26 en þá skorar Magnús afar mikilvægt mark af línunni eftir góða sendingu Ásbjarnar. Leiknum lýkur svo með þriggja marka sigri Akureyrar, 30-27.

Ef orðið vinnusigur hefur einhvern tíman átt við þá er það núna. Akureyri var langt frá því að leika þennan leik neitt svakalega vel þó seinni hálfleikurinn hafi verið mun betri en sá fyrri og í heildina góður. Það jákvæðasta við þennan leik er karakterinn sem Akureyri sýndi í þessum leik en þegar á móti blés tóku menn einfaldlega ábyrgð og stigu upp svo um munaði. Það skilaði sér í góðum mörkum í sókninni og frábærri vörn lengst af í seinni hálfleik en Akureyri fær einungis 11 mörk á sig í seinni hálfleik.
Fylkismenn aftur á móti virtust bara ekki höndla það þegar leikurinn fór út í það að vera með taugarnar þá var Akureyri bara miklu sterkara en skynsemin í sókn Fylkis þegar mest á reyndi var ekki mikil.

Til að byrja með verð ég að minnast á þátt Ásbjörns Friðrikssonar sem var afar stór í dag en þessi 18 ára strákur kom inn á miðjuna og var gríðarlega öflugur. Hann var óragur og tók hreinlega stjórnina á liðinu í dag en það sést best hve vel hann spilaði að það var hann sem spilaði mikilvægustu mínútur leiksins á miðjunni og Kuzmins í hægri skyttunni. Haldi þessi strákur áfram að vera þetta ákveðinn og óragur mun hann gera afar góða hluti í vetur en Ási setti 6 mörk í dag. Þá verður að minnast á það að Ásbjörn komst vel frá hlutverki sínu varnarlega en hann spilaði lengi fyrir framan í 5+1 vörn.
Magnús átti nokkuð góðan dag en þegar hann var á fullu í dag þá var hann óstöðvandi. Hann byrjaði leikinn afar rólega en síðan kemst hann í gang og skorar fjögur mörk í röð en Maggi endaði með 7 öflug mörk í dag og lék afar góða vörn í seinni hálfleik. Kuzmins átti ágætis spretti inn á milli og átti flott skot utan af velli í dag sem er eitthvað sem mann hefur lengi langað að sjá frá honum. Aigars var slakur sóknarlega sem og Nikolaj sem átti afleitan dag í dag. Goran nýtti vítin vel og var ágætur í horninu. Þorvaldur stjórnaði vörninni frábærlega í seinni hálfleik og var þar akkeri hennar. Í sókninni hafði hann sig lítið í frammi en skoraði þó afar mikilvægt mark í leiknum þegar hann kom Akureyri í 26-24.
Þá var afar gaman að sjá Andra Snæ í vinstra horninu en hann lék frábærlega í dag. Það skein áræðni af Andra í dag og var hann afar virkur. Andri skoraði fimm mörk í fyrri hálfleik og endaði leikinn með sex en þetta er nákvæmlega ógnin sem maður hefur svo sárlega beðið eftir frá vinstra horninu.
Í markinu fór Sveinbjörn vel af stað og varði 3 skot fyrstu fimm mínúturnar en ekkert næstu átta og spilaði Hreiðar svo rest. Hreiðar var afar lengi í gang en seinustu 8 mínútur leiksins var hann afar þýðingarmikill en hann ver fjóra afar stóra bolta í lokinn og endar með 11 bolta varða.

Maður leiksins: Það bar enginn af í dag og í raun enginn með neinn stjörnuleik. Ásbjörn Friðriksson fær titilinn að þessu sinni fyrir sína innkomu. Það sem hann sýndi í dag voru mikil þroskamerki en hann er greinilega klár í að spila hörkuleiki á þessum tímapunkti.

Tengdar fréttir

Siggi Sveins var ekki sáttur með sína menn



7. nóvember 2006 - SÁ skrifar

Siggi Sveins: Vorum eins og höfuðlaus her

Fylkir kom til Akureyrar og lék við Akureyri í DHL-Deildinni. Leikurinn var spennandi en Akureyri hafði sem kunnugt er sigur eftir að Fylkir hafi leitt lengst af. Við tókum viðtal við Sigurð Sveinsson þjálfara Fylkis eftir leikinn en Siggi var alls ekki sáttur.

SÁ: Sigurður, hvernig fannst þér leikurinn?
Sigurður: Við vorum að spila alveg ágætlega framan af og við erum yfir mest allan leikinn. Hann skipist aðeins þegar við vorum 24-23 yfir og þá var eins og við fengjum loft í hausinn og það var enginn til að taka af skarið eða róa okkar leik. Við vorum full æstir. Akureyri barðist fyrir lífi sínu og má segja að þeir hafi verið skynsamari en við í lokinn og unnið þessa vegna leikinn.

SÁ: Ertu sáttur með leik þinna manna?
Sigurður: Nei, nei. Síðasta korterið í leiknum vorum við eins og höfuðlaus her, bæði í vörn og sókn. Það er ófyrirgefanlegt.

SÁ: Þið misstuð Arnar í meiðsli, hafði það mikið að segja?
Sigurður: Auðvitað er það slæmt en það á ekki að skipta neinu máli. Það kemur maður í manns stað en eins og ég sagði þá vantaði smá einbeitingu og hugsun í okkar bæði sóknar- og varnarleik.

SÁ: Hvað fannst þér um Akureyrarliðið?
Sigurður: Þeir voru að berjast fyrir lífi sínu og það dugði í dag.

Við þökkum Sigurði innilega fyrir spjallið.


Það einkenndi kraftur Andra í dag

6. nóvember 2006 - SÁ skrifar

Andri Snær: Þessi tvö stig eru gríðarlega mikilvæg

Andri Snær Stefánsson átti flottan leik gegn Fylki í kvöld og skoraði 6 mörk í karakterssigri Akureyrar. Heimasíðan stökk á Andra eftir leik og fékk hann til að segja okkur hvernig hans taka á leikinn var en hann var vitaskuld sáttur með sigurinn.

SÁ: Andri, hvað getur þú sagt okkur um þessa tvo punkta sem liðið tók hér í kvöld?
Andri: Það er óhætt að segja að þessi tvö stig eru gríðarlega mikilvæg og sérstaklega í ljósi þess að við vorum án tveggja helstu varnarjaxla okkar í dag. Samt sem áður kom ekkert annað til greina en að taka tvö stig hérna á heimavelli og ég get ekki annað en verið gríðarlega sáttur með það.

SÁ: Þetta var vinnusigur...
Andri: Það er óhætt að segja það og það sást best í seinni hálfleik þar sem menn voru að djöflast og leggja sig fram í vörninni. Þá fór Hreiðar í gang og við fengum nokkur auðveld mörk. Bara vinnusigur og þetta hafðist.

SÁ: Ertu sáttur með leik liðsins í heildina?
Andri: Nei, það er í raun margt sem var ekkert frábært í þessum leik. Ég held að við getum allir tekið undir það. Sérstaklega fyrri hálfleikur sem var ekki beysinn varnarlega og boltinn hefði getað gengið betur í sókninni. Menn voru ekki að taka alltaf bestu sénsana en þessa stundina er mér drullusama um það og er ég ógeðslega ánægður að hirða þessi tvö stig sem voru í boði.

SÁ: Það er ansi sterkt að sýna þann karakter að klára þetta, sérstaklega varnarlega, þegar það vantar Rúnar og Hörð Fannar, ekki satt?
Andri: Já, ég er alveg sammála því. Við sýndum það bara að við höfum miklu meiri breidd en margir halda. Okei, þeir voru ekki með í dag en það var ekki að sjá í dag - sérstaklega í seinni hálfleik. Vörnin var að mínu mati mjög massív og þeir áttu í miklu basli með að skora.

Við þökkum Andra kærlega fyrir.


Akureyri-Fylkir í Beinni Lýsingu í kvöld

6. nóvember 2006 - ÁS skrifar

Bein Lýsing: Akureyri-Fylkir

Leikur Akureyrar Handboltafélags og Fylkis fer fram í kvöld í KA-Heimilinu klukkan 18:45. Þetta er gríðarlega mikilvægur leikur fyrir bæði lið en bæði lið hafa misst af 3 stigum það sem af er tímabilinu. Heimasíðan býður upp á beina textalýsingu frá leiknum og hvetur hún alla til að fylgjast grannt með þegar leikurinn hefst ef það kemst ekki á leikinn. Mjög auðvelt er að fylgjast með í gegnum Beinu Lýsinguna.

Smellið hér til að opna Beina Lýsingu

Beina Lýsingin opnast í nýjum glugga sem uppfærist af sjálfu sér á 15 sekúndna fresti. Það er því ekkert mál að fylgjast með. Leikurinn hefst eins og fyrr kom fram klukkan 18:45 en við hvetjum alla til að fylgjast vel með.


Leiknum líst live hér á síðunni

5. nóvember 2006 - SÁ skrifar

Akureyri - Fylkir í Beinni Lýsingu

Það er gleðiefni að segja frá því að hinn frestaði leikur Akureyrar og Fylkis verður í Beinni Lýsingu hér á síðunni á morgun, mánudag. Eins og fram hefur komið fer leikurinn fram 18:45 í KA-Heimilinu.
Heimasíðan hvetur fólk eindregið til að mæta og sjá Akureyrarliðið sem er ansi heitt um þessar mundir.


Leiknum frestað þar til á morgun

5. nóvember 2006 - SÁ skrifar

Leik Akureyrar og Fylkis frestað (uppfært)

Sökum veðurs hefur leik Akureyrar og Fylkis í DHL-deild karla verið frestað en Fylkismenn gátu ekki komið til Akureyrar í dag með flugi eins og gert var ráð fyrir. Leikurinn verður leikinn á morgun, mánudag, klukkan 18:45 í KA-Heimilinu.


Hvað gera Alex og félagar í öðrum heimaleik Akureyrar á morgun?

4. nóvember 2006 - SÁ skrifar

Annar heimaleikur vetrarins á morgun

Eins og allir ættu að vita leikur Akureyri annan heimaleik sinn í vetur en að þessu sinni kemur Akureyrar-liðið Fylkir í heimsókn. Leikurinn, sem er 16:00 í KA-Heimilinu, verður því miður ekki í beinni lýsingu hér á síðunni en þar koma nokkrar ástæður inní. Því verður fólk bara enn fremur að mæta á leikinn og sjá okkar menn sem hafa verið að leika afar vel að undanförnu. Seinast þegar liðið lék á Akureyri var boðið upp á sannkallaða flugeldasýningu og algjöra toppskemmtun. Nú er bara spurning hvað gerist á morgun en okkar lið verður án Rúnars og Hödda eins og fram hefur komið.

Að lokum koma myndir frá fyrsta heimaleik Akureyrar, gegn ÍR.









Hvað gerist á morgun? Ekki láta þig vanta.


Hörður Fannar verður ekki með gegn Fylki

4. nóvember 2006 - ÁS skrifar

Hörður og Rúnar ekki með gegn Fylki

Rúnar Sigtryggsson og Hörður Fannar Sigþórsson verða ekki með liði Akureyrar sem tekur á móti Fylki á sunnudaginn. Þeir félagar fengu báðir beint rautt gegn Haukum á Ásvöllum og fengu þar af leiðandi eins leiks bann hvor. Ljóst er að þeir Hörður og Rúnar skilja eftir sig skörð í liðinu en Hörður hefur farið á kostum bæði í vörn og sókn og þá hefur Rúnar verið mjög góður í vörn liðsins, en hann hefur leikið lítið í sókninni.

Þótt það sé slæmt að missa þá tvo úr hópnum er alveg víst að maður kemur í manns stað og verður gaman að sjá hverjir fá sénsinn á að sýna sig í leiknum gegn Fylki.

Heimasíðan hvetur fólk eindregið til að mæta í KA-Heimilið og hvetja Akureyri Handboltafélag til sigurs gegn Fylki. Leikurinn hefst klukkan 16:00.


Ingó segist spenntur fyrir Sálinni og leiknum

3. nóvember 2006 - SÁ skrifar

Ingólfur: Ætla að æsa mig á sunnudaginn

Næstkomandi sunnudag, klukkan 16:00, tekur Akureyri á móti Fylki í KA-Heimilinu. Heimasíðan ræddi við Ingólf Ragnar Axelsson, leikmann Fylkis og fyrrum leikmann KA, í sambandi við leikinn og spurði hann ýmissa spurninga. Eins og við mátti búast var átti Ingó ekki erfitt með að svara þeim. Kíkjum á viðtalið.

SÁ: Jæja Ingólfur, hvernig leggst það í þig að koma til Akureyrar og leika?
Ingólfur: Það leggst mjög vel í mig að koma norður að spila. Ég er að vísu pínu hræddur við þennan leik, Akureyri búnir að vera í fanta formi í síðustu leikjum. Það er alltaf mjög gaman að spila í KA heimilinu þó svo ég æsi mig oftast aðeins of mikið þar. Ég ætla að æsa mig á sunnudaginn, a.m.k. svo mikið að Jón Þengill reiðist við mig meðan á leik stendur.

SÁ: Þið Fylkismenn hafið náð að taka fimm af átta mögulegum stigum til þessa. Ertu sáttur með byrjunina í vetur?
Ingólfur: Nei ég er ekki sáttur við byrjunina í vetur. Við vorum ekki byrjaðir að æfa fyrir leikinn á móti HK, þannig að það tap var viðbúið og það var alger skandall að gera jafntefli við slakt lið Hauka.

SÁ: Þið misstuð nýlega varnartröllið Guðlaug Arnarson en fenguð þó staðinn Hauk Sigurvinsson. Veikir það ekki liðið að missa jafn sterkan mann og Guðlaugur er?
Ingólfur: Arnar Sæþórsson hann leysir Gulla af í center og hef ég engar áhyggjur af honum þar en það veikir okkur að sjálfsögðu að missa eina af stoðum liðsins, Gulli er frábær karakter og góður handboltamaður og ég á ekki von á honum eftir áramót í Fylki.

SÁ: Hvernig finnst þér hópur ykkar miðað við hin liðin?
Ingólfur: Mér finnst við vera með skemmtilegasta hópinn af öllum liðinum í deildinni. Höfum tvo menn í allar stöður um leið og við fáum alla heila. Þangað til verður þetta smá púsluspil. Mér finnst deildin vera mjög jöfn og skemmtileg, þannig að erfitt er að bera saman liðin svona snemma á tímabilinu. Haukur Steindórsson er allur að komast í sitt fyrra form frá því að hann var að æfa með KA.

SÁ: Hvað með þig sjálfan, hvernig standi ert þú í?
Ingólfur: Ég fór í aðgerð í sumar á hné og er ekki í góðu líkamlega formi. Held ég hafi ekki verið verri á minni stuttu ævi, en vonum að ég nái að nota janúar vel og koma mér í form fyrir næsta hluta keppnistímabilsins.

SÁ: Nú ert þú gamall KA-maður, hvað finnst þér um að KA og Þór hafi sameinast í nýtt lið, Akureyri, fyrir þetta tímabil?
Ingólfur: Mér er alveg sama um Handboltafélagið Akureyri en mér finnst þetta bæði jákvætt og neikvætt fyrir íþróttalíf bæjarins. Neikvætt að við getum ekki haldið úti tveimur góðum handboltaliðum og jákvætt að við náum að moða saman eitt gott lið til að keppa meðal þeirra bestu.

SÁ: Hvar heldur þú að Akureyri verði að berjast í deildinni í vetur?
Ingólfur: Þeir verða í 5. sæti í vetur, sem er ásættanlegur árangur.

SÁ: Að leiknum á sunnudaginn næsta, hvernig líst þér á hann?
Ingólfur: Mér líst rosalega vel á að koma norður á laugardaginn kíkja á Sálina spila fyrir 1000 manns um kvöldið og mæta síðan sjálfur og spila fyrir 500 manns daginn eftir. Þetta verður góð helgi. Leikurinn verður ekki hraður en skemmtilegur engu að síður.

Við þökkum Ingó kærlega fyrir þessi skemmtilegu svör.


Akureyri tekur á móti Fylki á sunnudaginn klukkan 16:00

2. nóvember 2006 - ÁS skrifar

3 dagar í leik: Allt um lið Fylkis

Á sunnudaginn klukkan 16:00 leikur karlalið Akureyrar sinn leik í 5. umferð DHL-Deildarinnar. Leikur liðsins í 4. umferð sem er gegn Fram var frestað og verður leikinn 22. nóvember. Akureyri tekur á móti Fylki á sunnudaginn og verður virkilega áhugavert að sjá hvernig okkar mönnum mun vegna á móti varnarliði Fylkis. Fylkir hefur 5 stig eftir 4 leiki í deildinni en Akureyri er með 3 stig eftir 3 leiki. Við skulum hinsvegar kíkja aðeins á lið Fylkis.

Lið Fylkis var spáð 7. sæti deildarinnar og þar með falli, hinsvegar hefur liðið sýnt með góðri frammistöðu að leikmenn liðsins eru staðráðnir í að láta spána ekki rætast.

Tímabilið til þessa
Fylkir byrjaði tímabilið illa en liðið tapaði 31-24 í Digranesi gegn HK. Liðið reif sig svo upp í næsta leik sem var gegn Valsmönnum og Fylkir sigraði 28-26. Í 3. umferð lagði Fylkisliðið svo ÍR á útivelli 27-29. Í síðasta leik voru leikmenn Hauka heppnir að ná jafntefli gegn Fylki á heimavelli Fylkis, 23-23.
Leikmenn Fylkis slógu svo út Aftureldingu í SS-Bikarnum, 25-34.

Sigurður Valur Sveinsson þjálfari Fylkis leggur mikið upp úr varnarleik og bæði í ár og í fyrra hefur liðið verið að fá á sig fá mörk og er það svo sannarlega sterki hluti liðsins. Sóknarlega er liðið einnig sterkt og má þar nefna menn eins og Vladimir Ðuric og Arnþór Eymar Sigurðsson.

Árangur Fylkis á síðustu leiktíð
Fylkir endaði í 4. sæti DHL-Deildar í fyrra með 33 stig.
Fylkir komst í 8-liða úrslit SS-Bikarsins þar sem það tapaði fyrir Fram, áður hafði Fylkir slegið út ÍR og KR.
Fylkir náði svo að komast í úrslit Deildarbikarsins eftir að hafa slegið út nýkrýnda Íslandsmeistara Fram. Haukar unnu hinsvegar Fylki í úrslitum keppninnar.

Helstu leikmenn liðsins
Vladimir Ðuric er miðjumaður Fylkis, hann lék með Selfoss í fyrra og er ótrúlega öflugur. Hann getur skorað ógurlegan fjölda af mörkum en einnig býr hann til fyrir aðra. Vladimir er maðurinn sem stjórnar sóknarleik Fylkis og það þarf klárlega að stöðva hann til að fá tvö stig úr leiknum við Fylki.

Hlynur Morthens er markvörður liðsins, hann hefur verið að verja gríðarlega vel fyrir liðið bæði í fyrra og í ár. Hann nýtur góðs af því hversu góða vörn liðið leikur en Fylkir fékk á sig fæst mörk í deildinni í fyrra.

Arnþór Eymar Sigurðsson er skytta í liði Fylkis og er gríðarlega öflugur. Þegar hann kemst í gang þá getur það verið gríðarlega erfitt að stöðva hann. Hann skoraði 14 mörk gegn Valsmönnum í sigurleik Fylkis. Ef hann verður ekki stöðvaður þá getur leikurinn tapast.

Arnar Þór Sæþórsson leikur á línunni en er fyrrum leikmaður KA. Arnar er mjög mikilvægur í liði Fylkis og hefur skorað vel fyrir liðið og leikið ákaflega vel í vörn. Þegar hann heldur ró sinni sigrar liðið yfirleitt en þegar hann nær ekki að halda ró sinni fer leikur liðsins oft út um þúfur.

Ingólfur Ragnar Axelsson leikur á miðju og er fyrir aftan Ðuric í goggunaröðinni. Ingó er þannig leikmaður að þegar hann kemur inn á getur hann bjargað leiknum fyrir lið eða hugsanlega tapað honum. Ingó er ákaflega skemmtilegur leikmaður en hann vill alltaf fá boltann og reynir alltaf að sækja á markið. Þegar hann er heitur þá skorar hann af vild, Ingó er svokallaður "súpersub" eins og það er kallað.

Til að Akureyri nái tveimur stigum gegn Fylki í KA-Heimilinu á sunnudaginn þarf vörnin að halda og sóknin þarf að finna svör við frábærri vörn Fylkisliðsins.

Akureyri - Fylkir, KA-Heimilið 5. nóvember klukkan 16:00.

Heimasíðan hvetur alla til að mæta í KA-Heimilið og fylgjast með þessum stórleik. Þið sem komist ekki á leikinn getið fylgst með Beinni Lýsingu af leiknum hér á heimasíðunni.

Til baka    Senda á Facebook

Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson