Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15
Æsispennandi lokasekúndur gegn HK - Akureyri Handboltafélag
  Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Fyrri leiktímabil

Tímabilið 2007-08

Leikmenn meistarafl. karla
Úrslit leikja
Deild karla
Deild kvenna
Leikmenn meistarafl. kvenna




Textalýsing frá leiknum     Tölfræði leiksins 
    Akureyri - HK  26-27 (11-11)
N1 deild karla
KA heimilið
21. nóvember 2007 klukkan: 19:00
Dómarar: Valgeir Ómarsson og Þorlákur Kjartansson
Umfjöllun

Einar Logi átti stórleik í dag










22. nóvember 2007 - Akureyri handboltafélag skrifar

Æsispennandi lokasekúndur gegn HK

Það var svo sannarlega háspennuleikur sem Akureyri og HK buðu upp á í gærkvöldi. Eftir að HK hafði skorað fyrsta mark leiksins tóku leikmenn Akureyrar völdin á vellinum og breyttu stöðunni í 4-1 með hörku góðum leik. Þegar hér var komið sögu voru liðnar rétt rúmar fjórar mínútur af leiknum en þá tók við vægast sagt einkennilegur kafli því að á næstu fjórtán mínútum skoraði liðið ekki mark! Sem betur fer gekk HK ekkert sérstaklega heldur á þessum tíma en tókst þó að jafna leikinn þannig að eftir átján mínútna leik var staðan 4-4, aðeins átta mörk skoruð!

Þrátt fyrir fá mörk var leikurinn býsna hraður á þessum kafla, okkar menn með ein átta skot framhjá eða í stangirnar. Það sem eftir lifði fyrri hálfleiks var jafnt á öllum tölum en Akureyri þó alltaf með frumkvæðið í leiknum. HK náði að jafna 11-11 rétt fyrir lok fyrri hálfleiks.

Magnús var tekinn úr umferð mestallan hálfleikinn og eins og áður segir gekk sóknarleikurinn treglega um tíma en hrökk í gang síðustu tíu mínúturnar, þar munaði ekki síst um framtak Einars Loga sem ógnaði vel, skoraði þrjú mörk og fiskaði vítakast.

HK menn komu sterkari inn í seinni hálfleikinn og höfðu náð fimm marka forystu, 14-19 á fyrstu tíu mínútunum. Á þessum kafla fóru þó nokkur dauðafæri forgörðum eftir að búið var að galopna HK vörnina.

Í stað þess að brotna undan mótlætinu bitu okkar menn frá sér, skoruðu næstu þrjú mörk og leikurinn orðinn æsispennandi á ný. Þegar þrjár og hálf mínúta var eftir af leiknum minnkar Ásbjörn muninn í eitt mark, 25-26 og Goran minnkar aftur muninn í 26-27 eftir vítakast þegar ein og hálf mínúta var eftir af leiktímanum. Þessi síðustu andartök leiksins voru sannarlega taugatrekkjandi, HK fékk að hanga á boltanum ótrúlega lengi, manni færri fengu þeir hvert aukakastið á fætur öðru, Hörður Flóki varði þrívegis og loks þegar tuttugu sekúndur voru eftir komst Akureyri í sókn. Bætt var aukamanni í sóknina og á síðustu stundu átti Magnús hörkuskot sem small í stöng og því miður út og þar með rann leiktíminn út.

Það verður að segjast að það var verulega ósanngjart að fá ekki stig út úr þessum leik. Liðið sýndi á löngum köflum skínandi leik bæði í sókn og vörn og sýndi virkilegan karakter þegar það vann sig inn í leikinn eftir að hafa lent fimm mörkum undir. Ég held að það megi segja með fullum rétti að HK geti þakkað dómurum leiksins að þeir fóru með bæði stigin úr þessum leik, því að verulegt ósamræmi var lengst af í dómum þeirra, HK í vil.

Markalausa korterið í fyrri hálfleik reyndist dýrt þegar upp var staðið svo og alltof mörg dauðafæri sem fóru í súginn. Þorvaldur Þorvaldsson lék ekki með í dag þar sem hann nefbrotnaði í síðasta leik og þá var Hörður Fannar ekki heldur með vegna veikinda. Í þeirra stað lék Björn Óli á línunni lengst af.

En hvað um það þá sýndi liðið mikil batamerki frá síðustu leikjum og ástæða til að hrósa leikmönnum, ef strákarnir taka þessa grimmd og baráttu með sér í næstu leiki ættu svo sannarlega að nást hagstæð úrslit. Sérstaklega verður þó að geta framgöngu Einars Loga Friðjónssonar sem virkilega blómstraði í leiknum og skoraði sjö mörk, flest með sannkölluðum þrumufleygum, fiskaði tvö víti og sýndi nú svo sannarlega hvað í honum býr.

Mörk Akureyrar: Einar Logi 7, Magnús 5, Goran og Ásbjörn 3 hvor, Heiðar, Jónatan og Rúnar 2 hver, Andri Snær og Jankovic 1 hvor.

Markvarslan var þokkaleg lengst af en Hörður Flóki, sem stóð lengst af í markinu, sýndi sérstaklega frábæran leik síðustu tuttugu mínútur leiksins.

Tengdar fréttir

Allir að mæta í kvöld



21. nóvember 2007 - Akureyri handboltafélag skrifar

Valdi ekki með gegn HK í kvöld

Það hefur vonandi ekki farið framhjá neinum að í kvöld fáum við sterkt lið HK í heimsókn norður yfir heiðar. Það sem af er deildinni er HK búið að spila níu leiki, vinna sex, gera eitt jafntefli og tapa tveim. Þeir eru því með 13 stig, jafnmörg og Fram og Stjarnan og eru þessi lið í 2-4 sæti deildarinnar.

Akureyri á harma að hefna frá fyrstu umferðinni en sá leikur var í Digranesi og tapaðist með tíu mörkum, 34-24.

Í HK liðinu eru fjórir fyrrum leikmenn KA sem ættu að þekkja sig býsna vel í KA-heimilinu, þetta eru: Arnar Þór Sæþórsson, Árni Björn Þórarinsson, Egidijus Petkevicius og Ragnar Snær Njálsson.

Arnar Þór Sæþórsson Árni Björn Þórarinsson
Egidijus Petkevicius Ragnar Snær Njálsson

HK lék um síðustu helgi við FCK í Evrópukeppninni og var leikur þeirra mjög sveiflukenndur eins og sjá mátti í útsendingu sjónvarpsins frá leiknum.
Af einstökum leikmönnum má nefna markvörðinn, fyrrnefndan Egidijus Petkevicius en hann er án vafa einn albesti markmaður deildarinnar. Akureyri hreinlega verður að finna leið framhjá Petkevicius, sem á það til að loka markinu, en hann var lykilmaður HK í leiknum gegn FCK.

Tomas Eitutis er öflug örvhent skytta sem getur reynst afar drjúgur detti hann í sitt besta form. Hann kemur frá Litháen og hefur verið að finna markið ágætlega í vetur.

Augustas Strazdas hefur leikið með HK í nokkur ár, hann kemur frá Litháen, er öflugur leikmaður jafnt í vörn og sókn.

Ragnar Hjaltested er í hægra horninu en það er snöggur leikmaður sem hefur verið að skora mikið af mörkum fyrir HK í vetur.

Línumaðurinn Sergey Petraytis er afar öflugur, stór og sterkur.

Þá átti Ólafur Bjarki góða innkomu í leiknum gegn FCK og þarf að hafa góðar gætur á honum.

Þær fréttir eru úr herbúðum Akureyrar að jaxlinn, Þorvaldur Þorvaldsson, verður ekki með í kvöld en hann fékk óblíðar viðtökur í síðasta leik gegn Fram og nefbrotnaði. Þorvaldur gekkst undir aðgerð í gær en verður frá æfingum og keppni í einhverjar vikur.
Þá er tvísýnt með Hörð Fannar en hann hefur átt við veikindi að stríða. En maður kemur í manns stað og sendum við strákunum baráttukveðjur í leikinn og hvetjum alla til að mæta tímanlega í KA-heimilið kvöld þannig að áhorfendur taki virkan þátt í leiknum strax frá upphafi.

Annars minnum við á beina lýsingu frá leiknum


Strákarnir úr Kópavoginum koma í dag

21. nóvember 2007 - Akureyri handboltafélag skrifar

Bein Lýsing: Akureyri - HK

Í dag kl. 19:00 tekur Akureyri á móti sterku liði HK í KA-heimilinu. HK er í toppbaráttunni í N1-deildinni og ætlar sér áreiðanlega að vera þar áfram. Það er hins vegar brýnt fyrir okkar menn að ná sér í stig í dag og engin ástæða til að ætla annað en okkar menn ætli að selja sig dýrt. Heimasíðan býður upp á beina textalýsingu frá leiknum. Hún hvetur þó alla sem geta til að mæta á leikinn en þið sem komist ekki á leikinn getið fylgst með beinu lýsingunni.

Það er virkilega auðvelt að fylgjast með leiknum í gegnum Beinu Lýsinguna.

Smellið hér til að opna Beina Lýsingu

Beina Lýsingin opnast í nýjum glugga sem uppfærist af sjálfu sér á 15 sekúndna fresti. Það er því ekkert mál að fylgjast með. Leikurinn hefst eins og fyrr kom fram klukkan 19:00 og við hvetjum alla til að fylgjast vel með.


Rúnar rýnir í stöðu liðsins





21. nóvember 2007 - Akureyri handboltafélag skrifar

Risastórt tækifæri – en sameiningin hefur enn ekki skilað því sem ég hafði vænst

AKUREYRI tekur á HK á Íslandsmóti karla, N-1 deildinni, í KA-heimilinu í kvöld. Leikurinn hefst kl. 19 og ljóst að þar verður við ramman reip að draga. En Akureyringar hafa sýnt að þegar liðinu tekst vel upp getur það spilað mjög vel og með góðum stuðningi áhorfenda er allt hægt á heimavelli – alltaf. Menn verða bara að trúa því. Rúnar Sigtryggsson, þjálfari og leikmaður Akureyrar, segir það vissulega vonbrigði að vera aðeins í 7. sæti eftir fyrstu umferðir mótsins.

"Auðvitað er staða liðsins vonbrigði, en við náum ekki 6. sætinu fyrr en "einu sinni var" dettur úr hausnum á leikmönnum," segir Rúnar. Hann var ekki ánægður með tvo síðustu leiki. "Afturelding hefur að vísu komið á óvart. Þetta eru baráttuglaðir og frískir strákar sem eru á góðri siglingu undir stjórn Bjarka Sigurðssonar," sagði Rúnar. "Byrjunin gegn UMFA var mjög góð af okkar hálfu, sérstaklega varnarlega. Eftir að mönnum fannst að þetta yrði leikur kattarins að músinni slökuðum við á klónni og hleyptum Aftureldingu aftur að okkur og menn hreinlega vanmátu þá, þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir um annað. Í lokin erum við bara heppnir að ná einu stigi, þrátt fyrir að leiða leikinn í 58 mínútur."

Mjög sterkt mót

Í síðasta leik tapaði Akureyri svo fyrir Fram í Reykjavík. "Við breyttum byrjunarliðinu frá síðustu leikjum, með Ása á miðjunni og Einar Loga hægra megin en því miður skilaði það ekki tilætluðum árangri," segir Rúnar um þann leik. "Ég get ekki útskýrt lélega nýtingu í upplögðum færum, né það að menn grípi ekki boltann, öðru vísi en að menn eru ekki með hugann við verkefnið og þar af leiðandi huglausir í sínum aðgerðum. Staðan er sú hjá okkur að við höfum ekki pláss fyrir leikmenn sem eru ekki í þessu af áhuga og vilja, en á meðan leikmenn gera það upp við sig hvort þeir ætli að vera 100% í þessu þá verðum við með kasta og grípa æfingar, á æfingum," segir Rúnar.

Þegar talið best að handboltanum í vetur segir Rúnar að hann sé betri nú en áður. "Það er mjög sterkt mót í gangi þetta árið, enda styrktu sig langflest liðin í deildinni frá því sem áður var og úrslit Vals í Meistaradeildinni, sérstaklega sigurinn á Celje Lasko nýlega, sýna að íslenskur handbolti þolir samanburð við útlönd."

Rúnar er hins vegar ekki nógu ánægður með alla fjölmiðlana. "Ég skil ekki skekkjuna í umfjölluninni um N1 deildina í prentmiðlunum annars vegar og hins vegar í ljósvakamiðlunum, mér finnst prentmiðlarnir sinna deildinni vel. En ég ásamt mörgum öðrum skiljum ekkert í hinum svokallaða "rétti" sem RÚV hefur á handboltanum, það virðist vera algerlega einhliða samningur RÚV við HSÍ."

Framfarir Magnúsar

Eins og áður sagði er Rúnar að sjálfsögðu ekki ánægður með stöðu Akureyrarliðsins nú þegar rúmlega fjórðungur Íslandsmótsins er að baki. En hann er ánægður með sumt. "Það er ánægjulegt að sjá hvaða framförum Magnús Stefánsson hefur tekið síðastliðið ár og nú þegar eru farnar að berast fyrirspurnir í hann erlendis frá. Hann er samningsbundinn Akureyri til 2009, en ég vænti þess að einhver lið muni kaupa hann eftir þetta tímabil. Andri Snær hefur ekki náð sér á það flug sem hann fór á í nóvember í fyrra, en það orsakast af því að hann hefur verið að bjarga okkur í hægra horninu, þar sem hægri vængurinn hefur verið afspyrnu slakur í upphafi móts. Miðja liðsins sem er hryggsúla hvers handboltaliðs, þ.e.a.s. markvörður, miðjumaður og línumaður er sett saman hjá okkur úr stráklingum og skjúklingum og því eigum við oft erfitt uppdráttar þó svo að við séum að gera fína hluti á vellinum."

Og áfram heldur Rúnar um handboltann á Akureyri.

"Sameiningin er ekki að skila því sem ég hafði vænst, í stað styrkingar á leikmannahóp þá veikist hann á milli ára. En það verður e.t.v. í framtíðinni hægt að hlúa betur að þessu liði, því að þetta er risastórt tækifæri. Það er mín skoðun að það þurfi að losa Akureyri – handboltafélag frá Þór og KA og það þarf að fá sjálfstæði og heyra beint undir ÍBA í stað þess að fara í gegnum félögin þar sem menn eru ýmist með eða á móti því að gera eitt lið út frá Akureyri. Einnig ætti Akureyri - handboltafélag að fá Íþróttahöllina til afnota og gera rekstrarsamnning um hana við Akureyrarbæ, það væri báðum aðilum til bóta. Höllin mundi væntanlega fá nýtt líf, en þar vilja félögin í bænum ekki spila leiki sína. Það væri t.d. upplagt að breikka salinn með smávægilegu niðurrifi og geta því komið fyrir tveimur handboltavöllum þversum á æfingartíma og síðan yrði keppt langsum í salnum með útdregna bekki þegar leikir færu fram. Þess konar salir eru t.d. í Garðabæ og Hafnarfirði. Þarna kæmi eitt stykki nýtt íþróttahús í bæinn án þessa að kosta miklu til þar sem öll aðstaða og ytri byrði eru til staðar. Ef menn ætla sér eitthvað með þessu liði, annað en að bjarga Þór og KA fjárhagslega tímabundið, þá er þetta leið sem forsvarsmenn félagsins og Akureyrarbær ættu að skoða. Annars á íþróttalífið í bænum á hættu að fletjast enn meira út", segir Rúnar Sigtryggsson.

Til baka    Senda á Facebook

Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson