Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15
Jafntefli 24-24 í dramatískum leik hjá Haukum og Akureyri - Akureyri Handboltafélag
  Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Fyrri leiktímabil

Tímabilið 2009-10

Leikmenn meistarafl. karla
Úrslit leikja
Deild karla




Tölfræði leiksins 
    Haukar - Akureyri  24-24 (13-12)
N1 deild karla
Ásvellir
Mið 14. október 2009 klukkan: 18:30
Dómarar: Jónas Elíasson og Ingvar Guðjónsson
Umfjöllun

Oddur, Heimir og Guðmundur voru drjúgir í leiknum í dag





14. október 2009 - Akureyri handboltafélag skrifar

Jafntefli 24-24 í dramatískum leik hjá Haukum og Akureyri

Leik Hauka og Akureyri var að ljúka með jafntefli 24-24. Heimildir okkar segja að Akureyri hafi verið betra liðið lengst af í leiknum og á æsispennandi lokamínútum var jafnt á öllum tölum en Akureyri ávallt með frumkvæðið. Það voru Haukar sem jöfnuðu með síðasta marki leiksins úr vítakasti.

Lið Akureyrar kom öflugt til leiks og komst í 1-3 áður en Haukar jöfnuðu. Vörn Akureyrar var öflug og liðið hafði góð tök á leiknum, var yfir 5-8 og 8-10 en Haukar náðu að jafna í lok hálfleiksins og skoruðu síðasta mark fyrri hálfleiks þannig að þeir fóru með 13-12 forystu til hálfleiks. Árni Þór Sigtryggsson og Oddur Gretarsson voru drýgstir í markaskoruninni með 3 mörk hvor.

Í upphafi seinni hálfleiks komust Haukarnir í 16-14 en Akureyri var ekkert á því að gefast upp og með góðri vörn og fínum sóknarleik sneru þeir taflinu við og náðu tveggja marka forystu 19-17. Haukar jöfnuðu í 19-19 og lokakaflinn var sannkölluð háspenna.

Birkir Ívar var hetja Haukanna og hélt þeim á floti með stórbrotinni markvörslu og Hafþór Einarsson sýndi raunar líka að hann kann ýmislegt fyrir sér í Akureyrarmarkinu. Akureyri hélt frumkvæðinu í leiknum en Haukarnir náðu alltaf að jafna.


Halldór Logi Árnason skorar fyrir Akureyri í leiknum í kvöld
hjá Birki Ívari Guðmundssyni, sem kemur engum vörnum við að þessu sinni. Mynd: mbl.is/Kristinn

Heimir Örn Árnason kom Akureyri í 23-24 þegar tvær mínútur voru til leiksloka en Sigurbergur Sveinsson sem oft hefur reynst okkur erfiður jafnaði úr vítakasti í 24-24. Akureyri fékk upplagt tækifæri til að komast yfir en Birkir Ívar varði dauðafæri af línunni þegar 15 sekúndur voru til leiksloka. Haukar tóku leikhlé en Hafþór Einarsson varði síðasta skot þeirra með tilþrifum og jafntefli því niðurstaðan í hreint mögnuðum spennuleik.

Hörður Fannar og Guðlaugur Arnarsson voru báðir veikir og má segja að meðalhæðin í vörninni hafi því lækkað töluvert.

Unga skyttan, Guðmundur Hólmar Helgason missti af Valsleiknum en kom sterkur inn að þessu sinni og Jónatan Magnússon spilaði einnig í dag. Jonni var í viðtali við blaðamann mbl eftir leikinn og sagði þar: „Fyrirfram hefði maður verið mjög ánægður að ná jafntefli við Hauka á Ásvöllum en mér fannst að við hefðum átt að vinna. Við vorum skrefinu á undan nær allan tímann og fengum dauðafæri undir lokin til að gera út um leikinn. Ég var virkilega ánægður með vörnina og sóknarleikurinn var betri núna en í leiknum á móti Val. Við ætlum okkur að vera með í toppbaráttunni í vetur og við getum svo sannarlega byggt ofan á þetta stig. Okkar stuðningsmenn eru búnir að bíða lengi eftir fyrsta heimaleiknum og með þessum úrslitum held ég að við fáum fulla höll í leiknum á móti FH,“ sagði Jónatan.

Hornamaður Hauka, Einar Örn Jónsson var einnig í viðtali við mbl og sagði sína menn hafa mátt þakka fyrir stigið: „Miðað við hvernig leikurinn þróaðist þá getum við verið sáttir með þessi úrslit en það er klárt að við ætluðum ekki að tapa stigum á heimavelli í vetur og því erum við svekktir. Sóknarleikurinn hjá okkur er vandamálið. Við náum að gera allar mögulegar útgáfur af feilum í sókninni. Það gerðum við ekki í Evrópuleiknum í Póllandi en þetta er eitthvað sem menn verða að vinna með sjálfum sér. Aron getur ekki lagað þetta. Akureyrarliðið er mjög sterkt sem hefur í sínum röðum reynslubolta og mjög klóka leikmenn. Það er erfitt að spila gegn þeim,“ sagði Einar Örn.

Mörk Akureyrar skoruðu:
Oddur Gretarsson 7 (3 úr vítum), Heimir Örn Árnason 6, Árni Þór Sigtryggsson 3, Guðmundur Hólmar Helgason 3, Jónatan Þór Magnússon 2, Heiðar Þór Aðalsteinsson 1, Halldór Logi Árnason 1 og Hreinn Þór Hauksson 1
Hafþór Einarsson stóð í markinu og varði 11 skot

Markahæstir hjá Haukum: Sigurbergur Sveinsson 7 (3 úr vítum), Björgvin Hólmgeirsson 5 og Pétur Pálsson 5.

Eins og fram hefur komið þá er næsti leikur hér heima fimmtudaginn 22. október en þá kemur hitt Hafnarfjarðarliðið, FH í heimsókn og geta menn svo sannarlega farið að hlakka til þess leiks.

Því miður brást bein útsending hjá sportTV.is þar sem netsamband var ekki í lagi á Ásvöllum. Fjölmargir stuðningsmenn Akureyrar voru samankomnir á Greifanum til að fylgjast með útsendingunni en því miður varð ekkert af henni.

Samkvæmt upplýsingum þeirra á sportTV.is var leikurinn þó tekinn upp og verður væntanlega fljótlega hægt að horfa á hann á síðu þeirra.

SportTV.is biður fyrir kveðjur til stuðningsmanna Akureyrar og segjast munu gera allt hvað þeir geta til að bæta okkur skaðann.

Tengdar fréttir

Vonumað Höddi og Gulli hressist sem fyrst



14. október 2009 - Akureyri handboltafélag skrifar

Leikur dagsins: Haukar - Akureyri sýndur á Greifanum

Akureyrarliðið flýgur suður í dag og leikur við Hauka í Hafnarfirði. Ljóst er að tveir jaxlar í Akureyrarliðinu eru forfallaðir vegna veikinda en það eru þeir Hörður Fannar Sigþórsson og Guðlaugur Arnarsson sem báðir eru rúmliggjandi. Góðu tíðindin eru hins vegar að Jónatan Magnússon verður með í dag en hann missti sem kunnugt er af Valsleiknum í síðustu viku.

Við hvetjum að sjálfsögðu alla stuðningsmenn Akureyrar á suðvesturhorninu að fjölmenna á Ásvelli og styðja strákana. Sömuleiðis er ljóst að það er gríðarlegur áhugi á Akureyri að koma á Greifann og fylgjast með leiknum í beinni útsendingu á stórum tjöldum.

Leikurinn hefst klukkan 18:30 og útsendingin fimmtán mínútum fyrr eða klukkan 18:15.

Þar sem leikurinn er í beinni útsendingu á netinu verðum við ekki með textalýsingu að þessu sinni.

Smelltu hér til að sjá útsendinguna á sportTV.is

Stjarnan og Fram mætast sömuleiðis í kvöld en þeirra leikur hefst klukkan 19:30 og er líka sýndur á sportTV.is.


Haukar eru klárlega eitt stærsta liðið í boltanum í dag

14. október 2009 - Akureyri handboltafélag skrifar

Kynning á Haukum - andstæðingum okkar í dag

Það er sannkallaður stórleikur á dagskrá í dag þegar Akureyri Handboltafélag heldur suður í Hafnarfjörð til að leika við Íslandsmeistara Hauka. Haukum var spáð toppsæti deildarinnar í ár og þrátt fyrir að tefla fram býsna breyttu liði frá því í fyrra þá er hefðin sterk hjá Haukunum og öruggt að á þeim bænum er ávallt krafa um sigur.
Við grípum hér hluta úr kynningu Morgunblaðsins á liði Hauka sem skrifuð var af Guðmundi Hilmarssyni blaðamanni mbl.

Haukar mæta til leiks sem ríkjandi Íslandsmeistarar en undir stjórn Arons Kristjánssonar hafa Haukarnir hampað Íslandsmeistaratitlinum tvö ár í röð.

Það er engum blöðum um það að fletta að Haukarnir eru stórveldi í karlahandboltanum en frá því að annar titill félagsins kom í hús árið 2000, eftir 57 ára bið, hefur verið nær óslitin sigurganga hjá Hafnarfjarðarliðinu. Guðmundur Karlsson stýrði Haukunum til sigurs árið 2000, sem dugði þó ekki til að hann héldi starfi sínu, og síðan hafa Haukarnir bætt sex Íslandsmeistaratitlum við, 2001, 2003, 2004, 2005, 2008 og 2009. Liðið hefur fjórum sinnum orðið bikarmeistari, 1980, 1997, 2001 og 2002. Þá hafa Haukar fimm sinnum verið krýndir deildarmeistarar þegar úrslitakeppnin var við lýði en Haukar urðu deildarmeistarar, 1994, 2002, 2003, 2004 og 2005.

Erfitt að fylla í skörðin
Ákveðið uppbyggingarstarf er hafið hjá Haukunum og í vetur munu nokkrir ungir og uppaldir Haukastrákar stíga fram á sviðið. Haukar hafa orðið fyrir töluverðri blóðtöku en aðalleikstjórnandi liðsins undanfarin ár og einn þeirra besti leikmaður, Andri Stefan, er kominn til Noregs og þá eru Eyjamennirnir Kári Kristján Kristjánsson og Arnar Pétursson horfnir á braut. Báðir skilja þeir eftir sig stór skörð sem ekki verður auðvelt að fylla. Kári nautsterkur línumaður og Arnar mikill leiðtogi og gríðarlegur varnarjaxl.

En með hinn afar færa Aron Kristjánsson í „brúnni“ og þá sigurhefð sem skapast hefur hjá Haukunum er ekki annað hægt en að reikna með þeim í titilbaráttu þó svo að á pappírunum mæti þeir til leiks með veikara lið en undanfarin ár.

Um markmið Haukaliðsins í vetur sagði Aron: „Við eigum svo sem eftir að setjast niður og setja okkur markmið. Stefnan hjá Haukum á hverju ári er að vera í toppbaráttunni og það verður engin undantekning gerð á því í ár. Við mætum með mikið breytt lið til leiks, höfum misst mikilvæga pósta í okkar liði svo nú munu ungir leikmenn taka meiri ábyrgð, bæði í varnarleik og sóknarleik.“

Ætlar að nota Björgvin mikið á miðjunni
„Ég kem til með að nota menn í stöðum sem þeir eru ekki vanir að spila og til að mynda ætla ég að nota Björgvin Hólmgeirsson mikið á miðjunni. Þrátt fyrir þessar breytingar tel ég að við séum með nægilega gott lið til að vera með í toppbaráttunni. Gæðin eru til staðar og ég held að okkur muni vaxa ásmegin eftir því sem líður á tímabilið og við náum betur saman sem lið. Það eiga margir ungir uppaldir Haukastrákar eftir að láta ljós sitt skína í vetur,“ segir Aron, sem hafnaði þjálfaratilboði frá danska liðinu Århus GF í maí og ákvað að gera nýjan tveggja ára samning við Haukana.

Hverjir telur þú að verði ykkar helstu keppinautar í vetur?
„Það er erfitt að segja til um það á þessari stundu en mér sýnist FH-ingarnir vera mjög sterkir, Valsmenn verða harðir í horn að taka og lið Akureyrar verður betra en í fyrra. Þessi lið ásamt okkur eru kannski þau sterkustu. Lið eins og Fram og HK koma skammt á eftir. Bæði hafa góð byrjunarlið en vantar kannski aðeins upp á breiddina. Ég held að mótið eigi að geta orðið jafnt og skemmtilegt,“ sagði Aron.


Sigurbergur og Birkir Ívar eru ávallt erfiðir viðureignar

Leikmannahópur Hauka 2009-2010
Aron Rafn Eðvarðsson 20 ára markvörður
Birkir Ívar Guðmundsson 33 ára markvörður
Björgvin Hólmgeirsson 22 ára leikstjórnandi/bakvörður
Einar Örn Jónsson 33 ára hægri hornamaður
Elías Már Halldórsson 26 ára hægri bakv./hornamaður
Freyr Brynjarsson 32 ára vinstri hornamaður
Gísli Jón Þórisson 23 ára bakvörður/leikstjórnandi
Guðmundur Árni Ólafsson 19 ára hægri hornamaður
Gunnar Berg Viktorsson 33 ára Vinstri/hægri bakvörður
Heimir Óli Heimisson 19 ára línumaður
Jónatan Jónsson 22 ára línumaður
Pétur Pálsson 24 ára línumaður
Sigurbergur Sveinsson 22 ára vinstri bakvörður
Sigurður Guðjónsson 19 ára línumaður
Stefán Huldar Stefánsson 19 ára markvörður
Stefán Rafn Sigurmannsson 19 ára vinstri hornamaður
Tjörvi Þorgeirsson 19 ára leikstjórnandi
Þórður Guðmundsson 20 ára vinstri bakvörður

Helstu breytingar á leikmannahópnum frá því í fyrra
Kári Kristján Kristjánsson, línumaðurinn sterki, yfirgaf Haukana í sumar og er genginn í raðir svissneska liðsins Amicitia Zürich. Kári var þriðji markahæstur hjá Haukunum í úrvalsdeildinni í fyrra, lék alla leikina, 21 talsins, og skoraði 79 mörk.

Leikstjórnandinn Andri Stefan spilar í Noregi í vetur en hann gekk í raðir norska meistaraliðsins Fyllingen. Andri hefur verið lykilmaður í Haukaliðinu undanfarin ár og spurning hvernig Íslandsmeisturunum gengur að fylla skarð hans. Andri var næstmarkahæstur Haukanna í deildinni í fyrra með 82 mörk í 21 leik.

Arnar Pétursson sem hefur verið fyrirliði Haukaliðsins undanfarin ár er kominn til sinna gömlu félaga í ÍBV.

Gísli Guðmundsson markvörður yfirgaf Haukana í sumar og gekk til liðs við nýliða Gróttunnar.

Arnar Jón Agnarsson vinstrihandarskytta fór frá Haukunum til þýska 2. deildarliðsins Aue þar sem hann hefur farið mjög vel af stað í haust.

Björgvin Hólmgeirsson, yngri bróðir landsliðsmannsins Einars Hólmgeirssonar, er kominn til Hauka. Hann er uppalinn hjá ÍR en lék með Stjörnunni á síðustu leiktíð.

Haukar fengu í sumar Guðmund Árna Ólafsson frá Selfyssingum og sömdu við hann til þriggja ára. Guðmundur er 19 ára gamall unglingalandsliðsmaður, örvhentur hornamaður.


Það var frábær stemming á Greifanum á síðasta leik



12. október 2009 - Akureyri handboltafélag skrifar

Leikur Hauka og Akureyrar sýndur beint á sportTV.is

Þeir bregðast ekki frekar en fyrri daginn snillingarnir á sportTV.is og Greifanum, þeir ætla að sýna leik Hauka og Akureyri Handboltafélag beint á netinu líkt og í síðustu viku. Það hefur orðið að samkomulagi við veitingahúsið Greifann að sýna leikinn á stórum tjöldum í veislusalnum á 2. hæð líkt og í síðustu viku.

Leikurinn hefst klukkan 18:30 á miðvikudaginn og útsendingin væntanlega 10 mínútum áður. Það var frábær stemming á Greifanum á Valsleiknum, mæting fór fram úr björtustu vonum, c.a. 90 manns komu enda aðstæður allar hinar bestu.

Útsendingin er í miklum gæðum og því þarf öflugt netsamband til að hún njóti sín sem best. Myndgæðin voru með miklum ágætum á Greifanum þannig að við hvetjum alla til að koma og njóta leiksins í hópi annarra stuðningsmanna.

Aðgangseyririnn felst í því að áhorfendur kaupa í raun pizzuhlaðborð á afar hóflegu verði eins og kemur fram hér að neðan.

Í boði er spennandi pakki á afar hóflegu verði: leikurinn ásamt pizzahlaðborði og 0,5 lítra gosglasi á kr 1.200 fyrir 12 ára og eldri, 500 kr fyrir 6-12 ára og frítt fyrir 5 ára og yngri.

Það er því upplagt að mæta á Greifann og slá saman kvöldverðinum og handboltaleiknum í beinni útsendingu.

Að sjálfsögðu verður hægt að tengjast útsendingu þeirra sportTV.is manna af heimasíðu Akureyrar Handboltafélag.

Það styttist í fyrsta heimaleik Akureyrar sem verður gegn FH fimmtudaginn 22. október klukkan 19:00. Sala á stuðningsmannakortum og ársmiðakortum er hafin og verður hægt að kaupa kortin á Greifanum meðan á Haukaleiknum stendur svo og annan varning tengdum Akureyri Handboltafélagi.


Væntanlega verður hægt að kaupa þessa svörtu boli merktir AHF á miðvikudaginn.


Til baka    Senda á Facebook

Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson