Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15
Fyrsti sigur Akureyrar á tímabilinu staðreynd - Akureyri Handboltafélag
  Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Fyrri leiktímabil

Tímabilið 2009-10

Leikmenn meistarafl. karla
Úrslit leikja
Deild karla




Ljósmyndir frá leiknum     Tölfræði leiksins 
    Grótta - Akureyri  21-22 (11-9)
N1 deild karla
Seltjarnarnes
Fim 5. nóv. 2009 klukkan: 18:30
Dómarar: Gísli Hlynur Jóhannsson og Hafsteinn Ingibergsson
Umfjöllun

Hörður og Heimir voru yfirburðamenn í liðinu í kvöld



5. nóvember 2009 - Akureyri handboltafélag skrifar

Fyrsti sigur Akureyrar á tímabilinu staðreynd

Það var mikilvægur sigur sem Akureyri sótti á Seltjarnarnesið í kvöld og þar með er vonandi ísinn brotinn á þessu tímabili. Heimir Örn Árnason skoraði fyrsta mark leiksins og gaf þar með tóninn en Heimir átti flottan leik, sérstaklega í fyrri hálfleik þar sem hann sýndi allar sínar bestu hliðar.

Gróttumenn komu sprækir til leiks og tóku frumkvæðið í leiknum, komust í 5-2 á meðan fátt gekk upp hjá Akureyri. Heimir var nánast eini maðurinn sem hélt haus í sóknarleiknum og jafnaði í 6-6 og Akureyri komst yfir í 6-7 og aftur í 7-8 en Grótta var sterkari á lokamínútum hálfleiksins og leiddi með tveim mörkum, 11-9 í hálfleik.


Heimir skorar eitt af mörkum sínum í kvöld. Mynd: Fréttablaðið

Af þessum níu mörkum skoraði Heimir Örn sex en þeir Guðlaugur, Hreinn og Oddur eitt hver. Hafþór byrjaði í markinu og varði fjögur skot, þar af eitt vítakast en Hörður Flóki kom inná og byrjaði með tilþrifum.

Grótta jók muninn í þrjú mörk í upphafi seinni hálfleiks en þá tók Árni Sigtryggsson sig til og skoraði tvö góð mörk í röð og héldu menn að hann væri þar með að vakna til lífsins en því miður entist sá kippur ekki lengur.

Akureyri náði að jafna leikinn í 14-14 og komst loks yfir í 16-17. Tveggja marka forysta náðist 18-20 og Akureyri virtist hafa þokkaleg tök á leiknum án þess þó að hrista Gróttumenn af sér. Það var smá titringur í mönnum á lokasekúndunum, Grótta minnkaði muninn í 21-22 og fengu tækifæri til að jafna en Hörður Flóki varði síðasta skot þeirra og Akureyri hélt út síðustu andartökin.


Heimir og Hreinn standa vörnina í kvöld. Mynd: mbl.is

Kærkominn sigur en einhvernveginn finnst manni liðið ekki ná að sýna hvað í því býr. Eins og áður segir var Heimir Örn Árnason allt í öllu í fyrri hálfleik og Hörður Flóki varði vel í seinni hálfleik og eiginlega bjargaði sigrinum með mikilvægum vörslum úr opnum færum.

Mörk Akureyrar: Heimir Örn Árnason 6, Jónatan Magnússon 4 (2 víti), Heiðar Þór Aðalsteinsson 3, Árni Sigtryggsson 2, Guðlaugur Arnarsson 2, Oddur Gretarsson 2, Hreinn Hauksson 1 og Hörður Fannar Sigþórsson 1 mark.

Hörður Flóki Ólafsson varði 11 skot, þar af eitt vítakast.
Hafþór Einarsson 4, 1 vítakast.

Við vitum að liðið er vel mannað en eitthvað virðist vanta upp á hugarfarið. Maður saknar meiri grimmdar í varnarleiknum og sóknarleikurinn í kvöld var á löngum köflum alls ekki nógu árangursríkur.
Eftir sigurinn er Akureyri komið upp í 5. sæti deildarinnar. Næsti leikur er heimaleikur gegn Stjörnunni þann 12. nóvember og nú þurfa allir að leggjast á eitt og fylgja þessum sigri eftir.


Árni með góðar gætur á Jóni Karli hornamanni Gróttu Mynd: Valli visir.is

Jónatan Magnússon var tekinn tali af blaðamanni Vísis eftir leikinn og spurður hvort það hefði ekki orðið neyðarlegt að tapa fyrir eins þéttvöxnu liði og Grótta er?
„Jú, því er ekki að neita að það hefði verið neyðarlegt. Það er líka dapurt að skora ekki fleiri mörk á þá,“ sagði Jónatan sem vildi samt hrósa Gróttuliðinu.
„Þeir eru að spila mjög skynsamlega og vinna vel úr sínu. Eru ekki að henda frá sér boltanum í tíma og ótíma.
Við ætluðum að vinna þennan leik og Stjörnuna næst. Við höfum æft vel núna og menn að koma til eftir veikindi og meiðsli,“
sagði Jónatan og bætti við að liðið ætli sér stóra hluti þrátt fyrir brösuga byrjun.
„Við eigum möguleika á að gera einhverja hluti í vetur enda með hörkulið. Þessi sigur mun kveikja í okkur og við erum að styrkjast.“

Tengdar fréttir

Heimir Örn Árnason var öflugur gegn Gróttu

8. nóvember 2009 - Akureyri handboltafélag skrifar

Myndir frá sigurleik Akureyrar gegn Gróttu

Ómar, ljósmyndari Morgunblaðsins var á Seltjarnarnesinu á fimmtudaginn þegar Akureyri sigraði Gróttu og smellti af nokkrum myndum af leiknum. Mbl.is birti myndasyrpu frá leikjum kvöldsins og birtum við hér nokkrar þeirra um leið og við minnum á að næstkomandi fimmtudag mætir Akureyri liði Stjörnunnar hér í Íþróttahöllinni.


Höddi er ekkert á því að hleypa Gróttumönnum í gegn hjá sér


Geir stöðvar Pál Þórólfsson


Heimir og Oddur stöðva Anton Rúnarsson


Gestur Einarsson í ham á hliðarlínunni


Gróttumenn reyna að koma boltanum á Anton Rúnarsson


En Heimir og Jonni eru vandanum vaxnir með Anton í heljargreipum


Rúnar ræðir við sína menn í leikhléi.

Sjá fleiri myndir Ómars frá leikjunum 5. nóvember.


Nú krossum við fingur og vonum að tæknin bregðist ekki

5. nóvember 2009 - Akureyri handboltafélag skrifar

Bein útsending frá leik Gróttu og Akureyri

Leikur dagsins gegn Gróttu verður sýndur í beinni útsendingu á SportTV.is og hefst leikurinn klukkan 18:30 en útsendingin væntanlega tíu mínútum áður.

Smelltu hér til að horfa á útsendingu SportTV.is

Forsprakkar SportTV.is fullyrða að það sé allt klárt til útsendingar en í ljósi þess að útsending frá síðasta útileik brást þá reiknum við með því að bjóða upp á hafa beina textalýsingu frá leiknum ef svo ólíklega fer að allt fari úrskeiðis.

Ef um textalýsingu verður að ræða er smellt hér til að sjá textalýsinguna.

Minnum á að stuðningsmenn Akureyrar ætla að hittast á Stássinu á Greifanum til að fylgjast með útsendingunni.


Anton í leik með Akureyri í fyrravetur

5. nóvember 2009 - Akureyri handboltafélag skrifar

Hverju spáir Anton Rúnarsson um leik Gróttu og Akureyrar?

Leikur dagsins er útileikur gegn Gróttu sem hafa farið mikið betur af stað í deildinni heldur en þeim var spáð. Grótta er með marga reynslubolta í sínum röðum, síðast bættist markvörðurinn Magnús Guðbjörn Sigmundsson í Gróttuhópinn en hann er á láni frá FH.
Eins og komið hefur fram verður leikurinn í beinni útsendingu hjá SportTV.is og verður hægt að ná útsendingunni í gegnum heimasíðuna. En einnig ætla stuðningsmenn Akureyrar að hittast í Stássinu á Greifanum þar sem leikurinn verður sýndur á tjaldi.
Á heimasíðu Gróttu er viðtal við Anton Rúnarsson þar sem hann svarar nokkrum spurningum um leikinn gegn Akureyri. Anton lék sem kunnugt er með Akureyri um tíma í fyrravetur og er fróðlegt að sjá hans álit.

1. Núna er mikilvægur leikur á fimmtudaginn, hvernig leggst hann í þig ?
Hann leggst bara mjög vel í mig. Þetta verður klárlega hörkuleikur því bæði lið þurfa á stigi að halda

2. Nú ættir þú að þekkja vel til Akureyrar-liðsins þar sem þú varst leikmaður liðsins í fyrra, hverjir eru þeirra helstu styrkleikar ?
Ég myndi segja að styrkleikar þeirra liggi i varnarleiknum. Þeir hafa skipa góðum varnarmönnum ásamt Hafþóri í markinu og ef þeir ná vörninni upp þá gætu lið lent i vandræðum. Þeir eru með spræka hornamenn sem og marga unga leikmenn sem eru að stiga sin fyrstu skref í meistaraflokki og það þýðir ekkert að vanmeta þá. Einnig eru nokkrir reyndir leikmenn sem skila sinu ávallt.

3. Nú hafi þið tapað seinustu tveimur deildarleikjum, hafið þið notað fríið vel til að stilla ykkur vel saman og koma sterkir til baka ?
Já ,við höfum gert það. Það er aldrei gaman að vera í of löngu fríi. Maður vill spila handbolta sem oftast. Við fengum að sjálfssögðu smá frí og finnst mér það hafa skilað sér. Menn eru klárir í slaginn á fimmtudaginn og stefnum við að vinna þann leik fyrir þessa frábæru stuðningsmenn sem mættu á síðasta heimaleik. Maður fannst eins og það væru 10 þúsund manns á leiknum. Ég vil sjá alla á leiknum!! Hjálpar okkur gríðarlega mikið.

4. Hver myndir þú segja að ykkar styrkleikar lægju gegn Akureyrarliðinu?
Það sem við þurfum að gera á móti Akureyri er einfaldlega að spila gríðarlega sterka vörn og fá þannig „ódýr“ hraðaupphlaup sem skila góðum mörkum. Agaðir i sóknarleiknum og spila okkar handbolta eins og við gerum best. Ef við náum að fylgja þessu eftir og með fullt hús af fólki þá er ekki spurning hver vinnur leikinn. Áfram Grótta!!

Segir Anton Rúnarsson en nú er bara spurning hvort að gömlu félagarnir í Akureyri láti hann komast upp með einhver trix. Ef þú vilt lesa viðtalið við Anton á heimasíðu Gróttu skaltu smella hér.


Athugið að gengið er inn í Stássið Glerárgötumegin á Greifanum



4. nóvember 2009 - Akureyri handboltafélag skrifar

Grótta - Akureyri í beinni útsendingu á Greifanum

Leikur Gróttu og Akureyrar verður í beinni útsendingu á SportTV.is á fimmtudaginn. Stuðningsmenn Akureyrar ætla að koma saman og horfa á leikinn á Greifanum. Leikurinn sjálfur hefst eins og aðrir útileikir okkar klukkan 18:30 og því tilvalið að slá saman leiknum og pizzuhlaðborði Greifans.

Að þessu sinni verður leikurinn sýndur á neðri hæð Greifans í sal sem kallast Stássið og skal bent á að gengið er inn í Stássið Glerárgötumegin, en ekki um aðalinngang Greifans.

Aðgangseyririnn felst í því að áhorfendur kaupa í raun pizzuhlaðborð á afar hóflegu: leikurinn ásamt pizzahlaðborði og 0,5 lítra gosglasi á kr 1.200 fyrir 12 ára og eldri, 500 kr fyrir 6-12 ára og frítt fyrir 5 ára og yngri.

Mörgum er í fersku minni að síðasti útileikur Akureyrar sem var gegn Haukum átti einnig að vera í beinni útsendingu en tæknivandamál í Hafnarfirði komu í veg fyrir það. SportTV.is lofar því að slík uppákoma verði ekki á fimmtudaginn, þeir eru búnir að sannreyna að allar aðstæður eru í lagi á Seltjarnarnesinu og því getum við hlakkað til að fylgjast með leiknum.


Anton Rúnarsson hefur leikið vel með Gróttu í upphafi móts

4. nóvember 2009 - Akureyri handboltafélag skrifar

Næsti leikur: Grótta - Akureyri

Andstæðingar Akureyrar í þessari umferð eru lærisveinar Halldórs Ingólfssonar í Gróttu. Halldór er jafnframt farinn að spila með liðinu og þó að hann hafi verið búinn að leggja leikmannaskóna á hilluna þá hefur hann sýnt það sem af er mótinu að það lifir lengi í glæðunum hjá honum.
Gróttu var ekki spáð góðu gengi í upphafi móts en þeir hafa svo sannarlega komið á óvart. Unnu stórsigur á Fram á útivelli í fyrstu umferð, töpuðu reyndar fyrir HK á heimavelli í annarri umferð en síðan máttu Valsarar þakka fyrir eins marks sigur á Hlíðarenda í þriðju umferð.

Grótta sem lék í 1. deild á síðustu leiktíð fór mörgum að óvörum alla leið í úrslit bikarkeppninnar síðasta vor. Það var í fyrsta sinn í sögu félagsins sem karlalið félagsins kemst í úrslitaleikin. Þótt úrslitaleikurinn hafi tapast fyrir Val þá er ljóst að hann veitti leikmönnum liðsins mikilvæga reynslu.

Halldór sagði í viðtali við Morgunblaðið að markmið Gróttu fyrir leiktíðina í N1-deild karla vera einfalt og skýrt. „Við ætlum að halda sæti okkar í deildinni. Út frá þeirri stefnu er unnið.“
Halldór segir mikinn hug vera í Gróttumönnum og þeim sem að liðinu standa að gera vel í vetur. Langt sé um liðið frá því að Grótta var síðast með sjálfstætt lið í úrvalsdeild karla. Þá segir Halldór að stuðningur Seltirninga skipti einnig miklu máli en þeir studdu vel við bakið á liðinu á síðustu leiktíð þegar þeir fjölmenntu á heimaleiki liðsins í íþróttamiðstöðinni á Seltjarnanesi sem getur verið mikil og erfið gryfja heim að sækja.

„Það er stefnt á að bæta í umgjörðina í kringum leikina í vetur og hafa hana eins góða og hugsast getur. Vonandi verður það enn til þess að efla stuðninginn við okkur.
Við stefnum ótrauðir á að halda sæti í úrvalsdeildinni og teljum okkur hafa alla burði til þess,“ segir Halldór Ingólfsson, þjálfari Gróttu.

Leikmannahópur Gróttu
Anton Rúnarsson 21 árs leikstjórnandi
Arnar Freyr Theodórsson 27 ára leikstjórnandi
Aron Valur Jóhannsson 17 ára línumaður
Atli Rúnar Steinþórsson 28 ára línumaður
Davíð Örn Hlöðversson 26 ára leikstjórnandi
Einar Rafn Ingimarsson 23 ára markvörður
Finnur Ingi Stefánsson 22 ára hægri hornamaður
Gísli Guðmundsson 31 árs markvörður
Hilmar Kristinsson 18 ára vinstri hornamaður
Hjalti Pálmason 28 ára skytta vinstra megin
Jón Karl Björnsson 34 ára vinstri hornamaður
Júlíus Stefánsson 17 ára vinstri hornamaður
Matthías Árni Ingimarsson 26 ára línumaður
Óli Björn Vilhjálmsson 18 ára skytta vinstra megin
Páll Þórólfsson á besta aldri vinstri hornamaður
Sverrir Friðþjófsson 17 ára skytta vinstra megin
Sverrir Pálmason 28 ára hægri hornamaður
Þorleifur Árni Björnsson 28 ára skytta vinstra megin
Ægir Hrafn Jónsson 30 ára línumaður

Helstu mannabreytingar
Helstu breytingar á liði Gróttu frá síðasta keppnistímabili þegar það vann 1. deild nokkuð örugglega eru eins og áður segir að Halldór Ingólfsson kom í stað Ágúst Jóhannsson þjálfara og hefur reyndar lekið með í öllum leikjum liðsins til þessa

Gísli Guðmundsson markvörður kom til Gróttu frá Haukum líkt og Jón Karl Björnsson hornamaður (og dómari) ásamt Matthías Ingimarssyni línumanni.

Anton Rúnarsson sem lék með Akureyri í fyrra leikur nú með Gróttu og hefur verið leikið mjög vel með liðinu og er þeirra markhæsti maður sem stendur með 21 mark í þremur leikjum.

Hjalti Pálmason kom til Gróttu frá Val en Hlynur Morthens markvörður fór hins vegar frá Gróttu og yfir í Val.


Það er pottþétt netsamband á Seltjarnarnesinu

2. nóvember 2009 - Akureyri handboltafélag skrifar

Grótta og Akureyri Handboltafélag í beinni á SportTV.is

Næstkomandi fimmtudag heldur Akureyrarliðið suður á Seltjarnarnes og leikur þar við spútniklið Gróttu sem hefur svo sannarlega sýnt það sem af er að þeir eru sýnd veiði en ekki gefin. Þeir félagar á SportTV.is hafa nú tilkynnt að leikurinn verði í beinni útsendingu hjá þeim og er ástæða til að fagna þeim tíðindum.

Leikurinn hefst klukkan 18:30 á fimmtudaginn og munum við færa nánari fréttir fljótlega af viðbúnaði okkar hér norðanheiða til að fylgjast með útsendingunni.

Til baka    Senda á Facebook

Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson