Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15
Góður sigur á Selfyssingum - Akureyri Handboltafélag
  Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Fyrri leiktímabil

Tímabilið 2010-11

Leikmenn meistarafl. karla
Úrslit leikja
Deild karla




Tölfræði leiksins 
    Selfoss - Akureyri  28-36 (13-16)
N1 deild karla
Selfoss
Fim 10. febrúar 2011 klukkan: 18:30
Dómarar: Arnar Sigurjónsson og Svavar Pétursson
Umfjöllun

Sveinbjörn, Bjarni og Oddur stóðu sig með prýði í kvöld að vanda





10. febrúar 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar

Góður sigur á Selfyssingum

Það var ekki laust við að það væri smáhnútur í maganum á mönnum vegna leiksins í kvöld, Selfyssingar hafa verið erfiðir heim að sækja og því mátti búast við hverju sem er. Það var gaman að fylgjast með útvarpslýsingu Arnars Gunnarssonar (Adda Gunn) en hann fór á kostum í lýsingunni og þökkum við honum og útvarpi Suðurland FM 96.3 kærlega fyrir góða þjónustu hvað þetta varðar.

En aftur að leiknum, Selfyssingar byrjuðu betur í leiknum, komust í 4-1 og 6-3 en þar með hrökk Akureyrarliðið í gang og jafnaði leikinn í 6-6 eftir tíu mínútna leik. Næstu mínútur var jafnræði með liðunum og jafnt á öllum tölum upp í 11-11. Akureyri komst fyrst yfir í stöðunni 8-9 en Selfyssingar jöfnuðu alltaf samstundis. Í stöðunni 11-11 komu þrjú Akureyrarmörk í röð og staðan orðin 11-14 en sá munur hélst fram að hálfleik en forysta Akureyrar í hálfleik var þrjú mörk 13-16.
Eftir stirða byrjun small vörnin vel saman og Sveinbjörn varði 9 skot í fyrri hálfleiknum og fyrir vikið fengust mörg hraðaupphlaup sem gáfu auðveld mörk. Bjarni Fritzson var drjúgur við markaskorun og var kominn með sjö mörk í hálfleik.

Seinni hálfleikur hófst með svipuðu sniði og sá fyrri endaði en eftir átta mínútna leik má segja að Akureyri hafi keyrt yfir lánlausa heimamenn. Sveinbjörn fór hamförum í markinu og staðan breyttist úr 19-22 í 19-26 og nokkru síðar var munurinn orðinn níu mörk, 20-29.
Engu skipti þó Akureyri léki langtímum einum færri, slíkir voru yfirburðirnir í leiknum. Oddur Gretarsson lét mikið að sér kveða og skoraði sjö mörk í seinni hálfleik og Daníel Einarsson og Bergvin Gíslason skoruðu þrjú mörk hvor.

Leiknum lauk með góðum átta marka sigri Akureyrar. Það var fyrst og fremst frábær vörn og klassa markvarsla sem skóp sigurinn en sóknarleikurinn gekk einnig vel eftir að liðið hrökk í gang.

Mörk Akureyrar: Bjarni Fritzson 10 mörk (1 víti), Oddur Gretarsson 10 (2 úr vítum), Daníel Einarsson 5, Guðmundur Hólmar Helgason 4, Bergvin Gíslason 3, Heimir Örn Árnason 2, Halldór Logi Árnason og Hörður Fannar Sigþórsson 1 mark hvor.
Sveinbjörn Pétursson stóð í markinu allan tímann og varði frábærlega, 24 skot alls, þar af eitt vítakast.

Mörk Selfoss: Ragnar Jóhannsson 6, Atli Kristinsson 6, Andrius Zigelis 4, Milan Ivancev 4, Guðjón Drengsson 4, Einar Héðinsson 2, Atli Hjörvar Einarsson 1, Helgi Héðinsson 1.
Varin skot: Helgi Hlynsson 11 (þar af 1 vítakast), Birkir Fannar Bragason 5.

Úrslit annarra leikja í umferðinni urðu þannig að FH vann stórsigur á Val, 34-24, Fram vann Aftureldingu með einu marki, 27-28 og HK lagði Hauka með einu marki, 22-23. Að loknum þrettán umferðum er staðan í deildinni sem hér segir:

Staðan í deildarkeppni karla
Nr. FélagLeikir U J TMörkHlutfallStig-
1. Akureyri131111390 : 3395123:3
2. Fram13913426 : 3715519:7
3. FH13814377 : 3473017:9
4. HK13805390 : 399-916:10
5. Haukar13625329 : 326314:12
6. Valur13409331 : 369-388:18
7. Afturelding132011324 : 363-394:22
8. Selfoss131111361 : 414-533:23

Framundan eru tveir heimaleikir gegn FH í næstu viku. Á mánudaginn mætast liðin í Eimskipsbikarnum og á fimmtudaginn leika liðin í N1-deildinni. Báðir leikirnir verða í Íþróttahöllinni og hefjast klukkan 19:00.

Tengdar fréttir

Að vonum eru þeir miskátir Atli og Alexander



11. febrúar 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar

Hvað sögðu þjálfararnir eftir leikinn á Selfossi?

Gestur Einarsson, fréttaritari sport.is ræddi við þjálfara liðanna, þá Atla Hilmarsson og Sebastian Alexandersson eftir leikinn.
Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyringa, var að vonum ánægður með sigur sinna manna sem voru þó frekar lengi í gang í leiknum á Selfossi í kvöld.
„Ég er bara mjög ánægður með mitt lið, við spiluðum fanta vel og þó að við höfum kannski verið slakari fyrstu tíu mínúturnar í leiknum, þá voru þeir góðir þannig að maður verður samt sáttur með leikinn.“

Sveinbjörn Pétursson, markvörður Akureyringa, gerði sér lítið fyrir og varði 24 bolta í leiknum ásamt því að vörnin var mjög góð og í kjölfarið fengu gestirnir mörg auðveld mörk úr hraðaupphlaupum.
„Við fengum þarna fína vörn og fína markvörslu, með því fáum við hraðaupphlaup sem við erum góðir í, og erum gjarnan svakalega fljótir. Þó ég sé svona ánægður með fína markvörslu og hrósa vörninni, þá er ég ánægður með sóknarleikinn allan tímann. En vörnin var þétt en vorum seinir í gagn, þar sem fyrstu 10-12 mínúturnar voru lélegar en sem betur fer tókst okkur að vinna þetta“

Sebastian Alexandersson, þjálfari Selfyssinga var ekki sáttur með hversu mörg hraðaupphlaup Selfyssingar fengu á sig í leiknum gegn Akureyri í kvöld. Hann sagði vörn Akureyringa vera mjög góða sem þeir þyrftu virkilega á að halda til að bæta upp aðra hluti í sínum leik.
„Samkvæmt tölfræðinni okkar þá fáum við á okkur 20 mörk úr hraðaupphlaupum af 36 og létum taka af okkur eða verja frá okkur, hvað á maður að segja, 15-16 dauðafæri, og margar marvörslunar voru bara á heimsmælikvarða hjá honum og þeir eru alveg svakalega góðir í hraðaupphlaupunum, ekki bara í því, heldur þegar kemur að því að keyra fram. Þeir þurfa líka á því að halda því aðrir þættir í leik þeirra eru ekki góðir.“

Sveinbjörn Pétursson sýndi hverja frábæru markvörsluna á fætur annarri í leiknum og varði hann 24 bolta. Sumir vilja meina að nýstárlega tíska hans að klæðast stuttbuxum í markinu sé að skila þessari góðu vörslu.

„Sveinbjörn, hann ver þarna trekk í trekk dauðafærin, mér fannst vörnin hjá þeim alveg svaðaleg. Það kemur þarna fimm mínúta kafli eftir að við byrjuðum leikinn mjög vel. Eftir að þeir komust yfir þá erum við bara að spila eftir þeirra getu. Við náðum bara ekki að vinna okkur aftur almennilega inn í leikinn, vorum að klikka á of mörgum dauðafærum og náðum ekki að hlaupa tímalega til baka.“

Útlendingarnir tveir sem Selfoss fékk til að styrkja liðið voru ekki upp á marga fiska í kvöld en Sebastian segir að það sé stígandi hjá þeim með hverrri æfingunni.

„Þó að útlendingarnir hafi ekki átt sinn besta leik, þá eru þeir alltaf að verða betri og betri með hverri æfingunni svo ég vona þetta verði komið fyrir næsta leik.“


Flott framtak hjá útvarpi Suðurland FM96,3

10. febrúar 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar

Leikur dagsins: Selfoss - Akureyri í beinni útvarpslýsingu

Okkur voru að berast þær frábæru fréttir að útvarp Suðurland FM96.3 verður með stórleik Selfoss og Akureyrar í beinni útsendingu. Það er enginn annar en góðvinur okkar Arnar Gunnarsson sem verður við hljóðnemann og lýsir því sem fyrir augu ber þegar leikurinn hefst klukkan 18:30, kveiktu bara á hátölurunum.

Þetta er sem sé gamla góða útvarpsstemmingin Ef útsendingin hljómar ekki nú þegar í tölvunni skaltu prófa að smella hér og að sjálfsögðu kveikja á hátölurunum.

Ef spilarinn opnast ekki beint þarf hugsanlega að samþykkja að keyra viðbótarforrit sem boðið er upp á.

Einnig er hægt að fara á heimasíðu þeirra sem er http://963.is/ og smella síðan á myndina efst á síðunni til að hlusta.

Arnar eða Addi Gunn eins og við könnumst best við hann er að sjálfsögðu Akureyringum að góðu kunnur en hann lék hér bæði með Þór og raunar einnig með KA á árum áður en hefur undanfarin ár leikið með Selfyssingum og þjálfað með góðum árangri.


Arnar er hér með stráka úr 4. flokki sem hann gerði að deildarmeisturum árið 2007



Bjarni Fritzson er búinn að vera marksækinn í vetur

10. febrúar 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar

Leikur dagsins: Hörkuútileikur gegn Selfyssingum

Í kvöld fer fram heil umferð í N1 deild karla, sú næstsíðasta í öðrum hluta deildarinnar. Akureyri heimsækir Selfyssinga og hefst sá leikur klukkan 18:30. Aðrir leikir eru: FH – Valur, Afturelding – Fram og loks Haukar – HK en allir þessir leikir hefjast klukkan 19:30.

Við höfum að sjálfsögðu fyrst og fremst áhuga á leik Selfoss og Akureyrar. Eins og við fjölluðum um áður þá hafa Selfyssingar náð sér í liðsauka í tveim erlendum leikmönnum. Þeir tryggðu sér jafntefli gegn Haukum í síðustu umferð og ætla sér mikið meira eins og kemur fram í eftirfarandi viðtali við Sebastian Alexandersson:

„Þetta er upphafið að einhverju frábæru hjá okkur. Þetta var ekki fallegt stig en það telur og er mjög langþráð fyrir okkur,“ sagði Sebastian Alexandersson, þjálfari Selfoss, í leikslok. Þetta er þriðja stig Selfoss í vetur og það fyrsta í tæpa fjóra mánuði. „Við fórum í leikinn með það að markmiði að spila góða vörn og það tókst. Við erum með tvo nýja leikmenn og það tekur tíma að slípa sóknarleikinn en þetta er bara byrjunin. Við erum búnir að brjóta ísinn og ég hef ekki áhyggjur af næstu leikjum,“ sagði Sebastian að lokum.

Þá vitum við það, Selfyssingar hafa ekki áhyggjur af þessum leik en leikmenn Akureyrar ætla örugglega að láta finna fyrir sér og gefa ekkert baráttulaust. Enda er mikið í húfi, með sigri er Akureyri öruggt með að halda efsta sæti deildarinnar þegar öðrum hluta N1 deildarinnar lýkur en röð liðanna skiptir máli þegar raðað verður upp leikjum í þriðja og síðasta hluta deildarinnar.

Í leiknum mætast markakóngar N1 deildarinnar, stórskytta heimamanna Ragnar Jóhannsson sem er búinn að skora 109 mörk í deildinni en Bjarni okkar Fritzson er í öðru sæti með 90 mörk.

Því miður eru ekki miklar líkur á að við getum haldið úti beinni lýsingu frá leiknum en þó ekki alveg útilokað. Áhugasamir verða bara að fylgjast með hér á síðunni þegar líður á daginn.


Oddur búinn að snúa á vörn Selfyssinga í leik liðanna hér í Höllinni

Sjá fyrri umfjöllun um lið Selfoss.


Sebastian þjálfari Selfoss gefst aldrey upp



6. febrúar 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar

Útileikur á fimmtudag gegn Selfyssingum

Næsta verkefni Akureyrarliðsins er ekki af léttara taginu en á fimmtudaginn halda strákarnir á Selfoss til að glíma við heimamenn. Þrátt fyrir að Selfoss vermi botnsæti deildarinnar skyldi enginn láta sig dreyma um að verkefnið verði auðvelt. Haukar fengu að finna fyrir því í síðustu viku þegar þeir máttu sætta sig við jafntefli á Selfossi og voru raunar stálheppnir að fara þaðan með eitt stig meðferðis.

Selfoss er lið sem aldrei gefst upp. Í leiknum gegn Haukum voru þeir til dæmis fjórum mörkum undir þegar átta mínútur voru til leiksloka en þá sneru þeir taflinu við, jöfnuðu og fengu tækifæri til að sigra.

Selfyssingar spiluðu hörkuvörn í leiknum, þá bestu sem þeir hafa sýnt til þessa að sögn heimamanna. Selfyssingar náðu sér í tvo erlenda leikmenn í janúar þannig að þeir hafa styrkt lið sitt verulega. Báðir eru þeir 25 ára gamlir, Milan Ivancev miðjumaður frá Serbíu og Andrius Zigelis hornamaður frá Litháen.


Erlendu leikmennirnir mættir til leiks

Ivancev lék með liði í króatísku 1. deildinni og var í unglingalandsliði Serbíu, árgangi 1986 sem varð heims- og Evrópumeistari.
Andrius Zigelis kemur sem lánsmaður frá liði í Hvíta Rússlandi en hefur annars leikið með Granitas Kaunas í Litháen en einhverjir Akureyringar muna eflaust eftir Andreas Stelmokas fyrrum leikmanni Þór og KA en hann kom einmitt frá Granitas Kaunas í Litháen.

Útlendingarnir léku með Selfoss liðinu gegn Haukum þrátt fyrir að hafa aðeins tekið þátt í tveim æfingum og settu sitt mark á leikinn, Andrius Zigelis skoraði 3 mörk og Milan Ivancev 2.

Samkvæmt fréttum frá Selfyssingum hafa margir leikmenn þeirra glímt við meiðsli og því brugðu þeir á þetta ráð til að styrkja og stækka leikmannahópinn. Guðjón Drengsson er með rifinn liðþófa og Atli Kristinsson handarbrotinn. En það er ljóst að Selfyssingar eru harðir naglar og láta smávægileg meiðsli ekki halda aftur af sér, þannig var Guðjón markahæstur gegn Haukum með 8 mörk (6 úr vítum) og Atli skoraði 4 mörk einkum á lokakaflanum þegar þeir unnu upp forskot Haukanna.

Þá er rétt að hafa í huga að Selfoss liðið hefur innanborðs markahæsta leikmann N1 deildarinnar, stórskyttuna Ragnar Jóhannsson sem hefur skorað 109 mörk í tólf leikjum eða rúmlega 9 mörk að meðaltali í leik. Ragnar hefur að sjálfsögðu vakið athygli erlendis og var til dæmis í herbúðum þýska liðsins Gummersbach í janúar.


Ragnar var valinn besti leikmaður Selfoss þegar liðin mættust hér á Akureyri


Guðjón Drengsson lék lausum hala í horninu hér í Höllinni


Heimir með Ragnar í strangri gæslu, ekki veitir af

Það er því ljóst að Akureyrarliðið þarf að taka á öllu sínu á fimmtudaginn og spila af fullum krafti allan leikinn, Haukarnir fengu að kenna á því um daginn að ekkert fæst ókeypis á Selfossi.

Leikurinn hefst klukkan 18:30 á fimmtudaginn, á þessu stigi vitum við ekki hvaða möguleika við höfum á að lýsa leiknum, allavega virðist ljóst að hann er ekki á dagskrá hjá sportTV.is.

Til baka    Senda á Facebook

Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson