Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15
Háspennujafntefli hjá Akureyri og Haukum - Akureyri Handboltafélag
  Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Fyrri leiktímabil

Tímabilið 2010-11

Leikmenn meistarafl. karla
Úrslit leikja
Deild karla




Ljósmyndir frá leiknum     Textalýsing frá leiknum     Tölfræði leiksins 
    Akureyri - Haukar  29-29 (18-18)
N1 deild karla
Íþróttahöllin
Fim 24. mars 2011 klukkan: 19:00
Dómarar: Gísli Jóhannsson og Hafsteinn Ingibergsson
Umfjöllun

Bjarni var valinn maður leiksins hjá Akureyri enda með flottan leik í dag

25. mars 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar

Háspennujafntefli hjá Akureyri og Haukum

Akureyri og Haukar skildu jöfn í N1-deild karla í handbolta á Akureyri í kvöld. Leikurinn var æsispennandi allan leikinn og úrslitin réðust ekki fyrr en á lokasekúndunum en úrslitin voru 29-29.
Fyrri hálfleikur var mjög jafn. Akureyri skoraði fyrst og reyndar gekk sókn liðsins ágætlega. Birkir Ívar varði nokkur skot og virtist ætla að hrökkva í gang, en gerði það ekki. Aron kom inn og varði nokkur skot, þrjú af fjórum fóru aftur til Akureyrar í fyrri hálfleiknum.

Það er Hjalti Þór Hreinsson, blaðamaður visir.is og Fréttablaðsins sem á þessa umfjöllun um leikinn.
Sókn Hauka var góð en vörn Akureyringa að sama skapi engin. Megineinkenni liðsins var týnt og markvarslan nánast engin, rétt undir lokin vaknaði Sveinbjörn eftir að hafa kælt sig niður. Haukar áttu þó að koma sér langt yfir með þessa vörn fyrir framan sig en klaufaskapur kom í veg fyrir það.

Hvað eftir annað sýndi liðið kæruleysi í sókninni, skaut langt framhjá og yfir, meðal annars hátt yfir úr víti, auk þess sem það kastaði boltanum nokkrum sinnum frá sér.

Staðan í hálfleik var 18-18.

Það var enginn eftirlitsdómari á leiknum í kvöld en hann ku hafa forfallast. Það var verra því dómararnar í kvöld áttu ekki sinn besta dag. Bæði lið voru mjög ósátt, þeir slepptu nokkrum augljósum atriðum sem átti að dæma á. Gunnar Berg Viktorsson fékk tvær mínútur fyrir kvart af bekknum og Atli Hilmarsson tiltal. Bæði í fyrri hálfleik. Þá þurfti að áminna stuðningsmenn Akureyringa sem sátu með trommur við völlinn að hætta að öskra á dómarana, slíkur var atgangurinn.

Sveinbjörn byrjaði að verja betur í seinni hálfleik og Akureyri komst aðeins fram úr. Þó aðeins tveimur mörkum og um miðbik hálfleiksins var staðan 27-26. Leikurinn var hraður og spennandi. Níu mínútum fyrir leikslok leiddi Akureyri með einu marki en liðin skiptust á að skora. Haukar fengu meðal annars tækifæri til að komast yfir en Sveinbjörn varði þá vel.

Sjö mínútum fyrir leikslok náði Akureyri tveggja marka forystu en Haukar jöfnuðu alltaf. Þegar rúm ein mínúta var eftir var staðan 29-29 og Sveinbjörn varði þá frá Björgvini Hólmgeirssyni, sem hann var með í vasanum nánast allan leikinn.

Akureyri fór í sókn þegar mínúta var eftir. Heimir fiskaði strax víti sem Bjarni tók en Birkir Ívar varði. Akureyringar náðu þó frákastinu á ótrúlegan hátt á miðjum vellinum, það gerði Halldór Logi með því að kasta sér á boltann, og 20 sekúndur eftir. Akureyri með boltann og tók leikhlé.

Eftir töf með boltann skaut Heimir en Birkir varði. Akureyri átti aukakast þegar leiktíminn var liðinn, Oddur tók skotið en það fór í vegginn.

Leiknum lauk því með sanngjörnu jafntefli, 29-29, í æsispennandi og skemmtilegum leik.

Sveinbjörn varði sæmilega í seinni hálfleik en vörn Akureyrar var miklu betri í seinni hálfleiknum. Bjarni var góður í sókninni og bar af.

Tjörvi var góður hjá Haukum og Birkir varði vel undir lokin.

Mörk Akureyrar: Bjarni Fritzson 11 (4 úr vítum), Guðmundur Hólmar Helgason 5, Oddur Gretarsson 4, Heimir Örn Árnason 4, Hörður Fannar Sigþórsson 3, Daníel Einarsson 2.

Varin skot: Sveinbjörn Pétursson 16 en Stefán Guðnason náði ekki að verja að þessu sinni.

Hraðaupphlaup: 6 (Oddur 2, Heimir 2, Guðmundur, Hörður).
Fiskuð víti: 5 (Oddur 2, Heimir 2, Daníel).
Utan vallar: 0 mínútur.

Mörk Hauka: Freyr Brynjarsson 9, Stefán Rafn Sigurmannsson 6 (2 úr vítum), Tjörvi Þorgeirsson 5, Þórður Rafn Guðmundsson 3, Björgvin Hólmgeirsson 3, Sveinn Þorgeirsson 1, Heimir Óli Heimisson 1, Guðmundur Ólafsson 1.

Varin skot: Birkir Ívar Guðmundsson 12 (1 víti), Aron Eðvarðsson 5.

Hraðaupphlaup: 7 (Freyr 3, Björgvin 2, Heimir, Þórður).
Fiskuð víti: 4 (Heimir, Freyr, Þórður, Sveinn).
Utan vallar: 4 mínútur.

Dómarar: Gísli Jóhannsson og Hafsteinn Ingibergsson. Mjög slakir.

Eftir leiki kvöldsins er staðan í deildinni þannig:
Nr. FélagLeikir  U  J  TMörkHlutfallStig-
1.  Akureyri181332521 : 4734829:7
2.  FH181215528 : 4715725:11
3.  Fram181017568 : 5353321:15
4.  HK181008542 : 542020:16
5.  Haukar18846475 : 467820:16
6.  Valur187011472 : 500-2814:22
7.  Afturelding184014456 : 513-578:28
8.  Selfoss182313509 : 570-617:29

Tengdar fréttir

Rætt var við Gumma og Heimi eftir leikinn

25. mars 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar

Ummæli eftir leik Akureyrar og Hauka

Eftir leik Akureyrar og Hauka hafa fjölmiðlamenn rætt við ýmsa sem tóku þátt í hasarnum og svo virðist sem flestir séu tiltölulega sáttir við niðurstöðuna þó svo að sjálfsögðu hefði enginn slegið hendinni á móti báðum stigunum.
Byrjum á viðtölum Þrastar Ernis Viðarssonar á Vikudegi sem ræddi við Guðmund Hólmar og Birki Ívar:

Guðmundur Hólmar: Sanngjörn niðurstaða

Guðmundur Hólmar Helgason átti fínan leik í liði Akureyrar í kvöld og skoraði 5 mörk. „Þetta var hörkuleikur og alveg stál í stál og hefði alveg getað dottið beggja veginn. Þannig að jafntefli er held ég bara sanngjörn niðurstaða,“ sagði Guðmundur eftir leik.
„Það voru ekki góðar varnir sem liðin buðu upp á kvöld og okkar varnarleikur var góður á köflum. Bubbi (Sveinbjörn Pétursson) varði nokkur fín skot en heilt yfir var hann alls ekki góður. Við erum hins vegar búnir að spila mjög góðan sóknarbolta í síðustu tveimur leikjum og ef vörnin hefði verið betri í kvöld hefðum við unnið. Vörnin er hins vegar ekki alveg að ganga sem skyldi núna og við þurfum að finna lausnir við því,” sagði Guðmundur sem var þokkalega sáttur við stigið í kvöld.
„Maður hefði svo sem viljað taka bæði stigin en stig er alltaf stig. Sérstaklega þegar það er svona stutt eftir og við verðum bara að reyna að klára þetta sem fyrst. Haukar eru hins vegar með hörkulið og það er ekki hægta að kvarta yfir stigi á móti þeim.“


Guðmundur Hólmar sækir á Haukavörnina í leiknum

Birkir Ívar: Sáttur við stigið

Birkir Ívar Guðmundsson sýndi ágætis takta á köflum í marki Hauka í kvöld og varði síðasta skotið í venjulegum leiktíma frá Heimi Erni Árnasyni.
„Ég held að þegar upp er staðið hafi þetta verið nokkuð sanngjörn úrslit þó ég hefði viljað sjá okkur taka bæði stigin. Við áttum sannarlega mjög góða sjensa á að taka stigin tvö en á móti kemur að það gátu Akureyringarnir líka. Þetta var hörkuleikur og mjög skemmtilegt að spila hérna fyrir norðan, frábært fólk og frábær höll og ekki skemmir fyrir þegar maður tekur punkt með sér heim,“ sagði Birkir sem varði 11 skot í leiknum.

„Þetta var heldur betur kvöld sóknarleiksins og ég held líka að leikurinn hafi verið mjög skemmtilegur á að horfa. Það má hins vegar ekki taka það af liðunum og vörnin var að berjast en það fór vissulega meira fyrir sóknartilburðum,” sagði Birkir og var sáttur með stigið, sem getur vegið þungt fyrir Hauka í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni þegar upp er staðið.

„Akureyringar hafa verið frábærir í vetur og því gott að ná stigi gegn þeim á þeirra heimavelli og við förum héðan þokkalega sáttir."


Birkir Ívar tók mikilvæga bolta í lok leiksins



Grípum næst niður í viðtöl Andra Yrkils Valssonar á Morgunblaðinu:

Heimir Örn: Hljótum að fara að gíra okkur upp

„Ég legg skóna á hilluna ef við tökum ekki deildina,“ sagði hinn síkáti Heimir Örn Árnason, fyrirliði Akureyrar, eftir jafnteflið við Hauka fyrir norðan, 29:29 í miklum háspennuleik.
Úrslit annarra leikja þýða að Akureyringar þurfa einn sigur í síðustu þremur leikjunum til þess að tryggja sér deildarmeistaratitilinn. Heimir segir að liðið sé þó enn í sárum eftir að hafa tapað í úrslitum bikarsins fyrir skömmu.
„Spilamennskan hjá okkur er því miður ekki nægilega góð eftir bikarúrslitaleikinn og við þurfum að fara að taka okkur saman í andlitinu til að komast upp úr því. Það er sérstaklega varnarlega sem við erum slakari, að mér meðtöldum. Svo þegar vörnin nær sér ekki á strik hrekkur markvarslan seint í gang. En við höfum verið að spila góðan sóknarleik í undanförnum leikjum, svo ef við náum að keyra vörnina aftur upp þá hef ég engar áhyggjur.

Í þessum leik vorum við alltaf tveimur mörkum yfir síðasta korterið en okkur vantaði alltaf þetta þriðja mark til þess að við myndum klára þá. En þeir eiga hrós skilið enda gáfust þeir aldrei upp. En þetta er ekkert búið og við hljótum að fara að gíra okkur upp, við þurfum bara einn góðan sigur og þá hrekkur þetta allt í gang,“ sagði Heimir Örn.


Heimir Örn brýst í gegn og þá er ekki að sökum að spyrja

Atli Hilmarsson: Klúður ef við missum titilinn

Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar, var einstaklega sáttur við sóknarleik liðsins þrátt fyrir að vörnin hafi aðeins setið á hakanum. „Við vorum slakir varnarlega í þessum leik, sérstaklega í fyrri hálfleik en náðum að laga það aðeins í síðari hálfleik. Sóknarleikurinn var hins vegar mjög góður allan leikinn og það er nokkuð sem við munum byggja á. Ég hef engar áhyggjur varðandi vörnina, hún kemur aftur enda erum við búnir að spila svo góða vörn í allan vetur að hún er ekki langt undan.“

Úrslit annarra leikja í umferðinni þýða að Akureyringar þurfa einn sigur í viðbót til að tryggja sér deildarmeistaratitilinn, en einungis FH-ingar hafa möguleika á að komast upp í efsta sætið. Atli er að vonum bjartsýnn á framhaldið. „Á meðan við erum ekki að tapa hölum við inn stig og það er mikilvægt. Við erum svolítið eftir okkur ennþá eftir bikarúrslitaleikinn og höfum fengið að meðaltali 30 mörk á okkur í síðustu tveimur leikjum, sem er auðvitað alltof mikið fyrir okkar lið. Við lifum á því að varnarleikur og markvarsla séu til staðar ásamt mörkum úr hraðaupphlaupum út frá því. En nú þarf að ná í einn sigur í viðbót í síðustu þremur leikjunum til að gulltryggja deildarmeistaratitilinn og það er nokkuð sem við verðum að klára,“ sagði Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar.


Atli ræðir málin við Hafstein dómara

Birkir Ívar: Frábær leikur

„Þetta var frábær leikur fyrir áhorfendur og bara algjör háspenna, lífshætta,“ sagði Birkir Ívar Guðmundsson, markvörður Hauka eftir jafnteflið við Akureyri fyrir norðan, 29:29. „Bæði lið voru að sýna fín sóknartilþrif meira og minna allan leikinn en á móti fékk varnarleikurinn að sitja á hakanum. Við höfum verið að sýna hörku baráttu í síðustu leikjum. Við erum að gera mikið af mistökum en á meðan við höldum áfram að berjast eigum við alveg séns. Við sýndum það í þessum leik og eins í undanförnum leikjum að við erum að berjast til síðasta manns. Á meðan það er til staðar fylgir hitt yfirleitt svo við þurfum ekki að hafa miklar áhyggjur af framhaldinu,“ sagði Birkir Ívar.

Freyr Brynjarsson: Eigum skilið að vera í toppbaráttu

„Þetta var alvöru slagur milli tveggja góðra liða,“ sagði Freyr Brynjarsson, leikmaður Hauka, eftir háspennujafnteflið við Akureyri. „Við eigum alveg skilið að vera í toppbaráttunni og vildum sýna það í þessum leik. Í fyrri hálfleik vorum við ekki nægilega góðir varnarlega þar sem við náðum ekki að loka nægilega vel á þá enda sést það, 18 mörk í fyrri hálfleik er svolítið mikið. En við náðum að halda okkur inni í leiknum með góðum hraðaupphlaupum og sóttum hratt á þá. Í síðari hálfleik stórlagaðist vörn og markvarsla en það hægðist á móti í sókninni þar sem við náðum ekki að sækja af nægilega miklum krafti,“ sagði Freyr Brynjarsson.


Freyr Brynjarsson í einu af óteljandi hraðaupphlaupum í leiknum



Að lokum skoðum við hvað Hjalti Þór Hreinsson á visir.is og Fréttablaðinu fékk upp úr mönnum í leikslok:

Guðlaugur Arnarsson: Hef ekki áhyggjur af vörninni

Guðlaugur Arnarsson var í baráttunni í miðri vörn Akureyrar í kvöld og viðurkennir að varnarleikurinn hafi alls ekki verið nógu góður.

„Við vorum ekki að spila vel til baka. Þeir eru að skora of mikið úr hraðaupphlaupum og úr seinni bylgjunni. Þeir skjóta líka of mikið yfir okkur. Við hjálpuðum Bubba alls ekki nóg og því náði hann ekki að taka sína bolta. Sóknin var að sama skapi góð.

Bæði lið eru auðvitað í þvílíkri baráttu og þetta var hörkuleikur. Allt tal um titilinn er ekkert að trufla okkur þó svo að mikið sé talað um þetta. Við þurfum bara að spila handboltann okkar til að klára þetta.

Ég held að jafntefli sé sanngörn niðurstaða þrátt fyrir að við hefðum getað stolið þessu. Þetta var fram og til baka allan leikinn og bæði lið hefðu raunar getað unnið.

Þetta hefði verið alveg eins hefðum við spilað í hálftíma til viðbót, áhorfendum til ama,“ sagði Guðlaugur og hló við.
Hann hefur engar áhyggjur af vörninni sem hefur ekki verið góð síðustu tvo leiki. „Alls ekki, við kunnum þetta og ætlum að sýna það næst,“ sagði Húsvíkingurinn.


Gulli sestur í lok leiksins og skilur ekki frekar en aðrir í dómgæslunni

Atli Hilmarsson: Engar stórkostlegar áhyggjur

„Varnarleikurinn er ekki góður en sóknarleikurinn frábær. Það er áhyggjuefni að fá á okkur svona mörg mörk tvo leiki í röð, okkar aðalsmerki er vörn, markvarsla og að skora ódýr mörk. Ég hef samt engar stórkostlegar áhyggjur af þessu, við kunnum alveg að spila góða vörn ennþá. Það eru öll lið að berjast gríðarlega og ekki hægt að bóka eitt né neitt gegn neinum. Við erum enn í lykilstöðu, en ég held að það trufli okkur ekkert að við þurfum bara tvö stig til að taka titilinn,“ sagði Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar.

Gunnar Berg Viktorsson: Baráttan var til fyrirmyndar

„Við skoruðum mikið af ódýrum mörkum og stóðum eflaust bara í vörn í 20 mínútur í fyrri hálfleik. Við vorum klaufar að vera ekki yfir eftir fyrri hálfleik en við fengum á okkur of mörg mörk. Þetta var barátta allan leikinn og þetta gat dottið hvoru megin sem var. Ég er sáttur við stigið, hefði auðvitað viljað tvö, en baráttan var til fyrirmyndar,“sagði Gunnar Berg Viktorsson, þjálfari Hauka, sem horfði á jákvæðu punktana úr leiknum.


Gunnar Berg tilbúinn með græna kortið á hliðarlínunni

Freyr og Tjörvi: Sanngjarnt jafntefli

Tveir bestu menn Hauka voru nokkuð sáttir eftir jafntefli við Akureyri í kvöld.
„Þetta var fínt stig en við hefðum getað klárað þennan leik. Við náðum að halda í við þá og við sýndum karakter að fá stig. Við vorum klaufar að vera ekki yfir eftir fyrri hálfleikinn. Vörnin var ekki nógu þétt og markvarslan kom því ekki inn. Þetta var bara stál í stál og niðurstaðan sanngjörn. Þetta er mikilvægt stig í baráttunni framundan,“ sagði Freyr Brynjarsson.

Tjörvi Þorgeirsson var á svipuðu máli. „Það er gott að fá eitt stig á Akureyri, en miðað við allt hefðum við líklega átt að vinna. Það hægði á leiknum í seinni hálfleik en niðurstaðan er líklega sanngjörn. Þetta er svakaleg barátta framundan, hvert stig er mikilvægt,“ sagði Tjörvi.


Tjörvi Þorgeirsson valinn besti maður Hauka í leiknum



Það verður ekkert gefið eftir í kvöld

24. mars 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar

Leikur dagsins: Akureyri - Haukar í beinni textalýsingu

Heil umferð verður leikin í N1 deildinni í kvöld. Augu okkar Akureyringa beinast fyrst og fremst að tveimur leikjum, það er að segja okkar leik Akureyri – Haukar og hins vegar leik FH og Vals. Akureyri og FH eru einu liðin sem eiga fræðilegan möguleika á að verða deildarmeistarar þrátt fyrir að það séu fjórar umferðir eftir í deildinni.

Fyrir þá sem hafa gaman að því að spá í stöðuna þá má benda á að með hagstæðum úrslitum leikja kvöldsins gæti Akureyri náð deildarmeistaratitlinum í kvöld. Ef Valur vinnur FH í kvöld þá þarf Akureyri einungis eitt stig til viðbótar til að hampa titlinum. En hvernig sem sá leikur endar þá eru Akureyringar staðráðnir í að krækja í stigin tvö sem eru í boði gegn Haukunum.

Eins og venjulega þá verðum við með beina textalýsingu frá leiknum. Textalýsingin opnast í sérstökum glugga og uppfærist sjálfkrafa með 15 sekúndna millibili.
Smelltu hér til að opna textalýsinguna.

Þá höfum við upplýsingar um að Haukar ætli að sýna leikinn á netinu. Smelltu hér til að fylgjast með HaukaTV.


Seiglan í Haukaliðinu hefur fleytt þeim langt í gegnum tíðina

22. mars 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar

Leikur gegn stórveldi Hauka á fimmtudaginn

Á fimmtudaginn verður einn af stóru leikjum N1 deildarinnar þegar stórveldið Haukar úr Hafnarfirði mæta til leiks í Íþróttahöllinni. Í gegnum tíðina hafa Haukar verið einn erfiðasti mótherji Akureyrarliðsins og þá sérstaklega hér á heimavelli. Þegar liðin mættust í Íþróttahöllinni þann 22. október síðastliðinn tókst Akureyri reyndar í fyrsta sinn í sögunni að leggja Haukana að velli og þar með er búið að sýna fram á að slíkt er vel hægt.

Gengi Hauka hefur verið dálítið upp og niður í vetur, þeir hafa hitt á nokkra afbragðsleiki en verið slakari þess á milli. Haukarnir unnu góðan sigur á Fram og sömuleiðis á FH síðast þegar liðin mættust en hafa átt í nokkrum erfiðleikum í allra síðustu leikjum. Reyndar unnu þeir HK með einu marki í síðustu umferð en þar á undan töpuðu Haukar fyrir Aftureldingu og gerðu jafntefli á Selfossi 31-31, sem er reyndar nákvæmlega sömu úrslit og okkar menn náðu gegn Selfyssingum í síðustu umferð.

Haukar sitja sem stendur í 3. sæti N1 deildarinnar með 19 stig líkt og Fram sem er í 4. sætinu. HK er síðan í 5. sæti aðeins einu stigi á eftir þannig að Haukarnir leggja allt í sölurnar til að reyna að tryggja stöðu sína meðal fjögurra efstu og þar með sæti í úrslitakeppninni.

Á dögunum var Halldóri Ingólfssyni sagt upp sem þjálfara Hauka en Gunnar Berg Viktorsson ráðinn þjálfari út leiktíðina og markvörðurinn Birkir Ívar Guðmundsson honum til aðstoðar. Gunnar Berg á sér langa sögu með Haukum, fyrst sem stórskytta en seinustu árin sem varnartröll enda hávaxinn maður þar á ferð. Gunnar Berg hefur lítið sem ekkert leikið í vetur þar sem hann gekkst undir aðgerð sem hann er að jafna sig eftir. Hann er að stíga sín fyrstu skref sem þjálfari í meistaraflokki en hefur undanfarin misseri þjálfað unglingaflokka hjá Haukum.

Það fer ekkert á milli mála að Haukaliðið er gríðarlega öflugt og reynsluboltar þar innanborðs. Þar nægir að nefna markvörðinn og þjálfarann Birki Ívar Guðmundsson, hornamennina Frey Brynjarsson og Einar Örn Jónsson og markamaskínuna Björgvin Hólmgeirsson.



Síðan eru fjölmargir ungir strákar sem hafa þó fengið mikla reynslu og eru vanir að taka af skarið þegar á þarf að halda. Til dæmis nefnum við markvörðinn unga Aron Rafn Eðvarðsson sem hefur fengið tækifæri með íslenska landsliðinu, hornamanninn Guðmund Árna Ólafsson og skytturnar þrjár: Þórð Rafn Guðmundsson, Tjörva Þorgeirsson og Stefán Rafn Sigurmarsson. Auk þess sem Heimir Óli Heimisson er öflugur á línunni.



Í síðasta leik Hauka gegn HK var Björgvin markahæstur að vanda með 9 mörk, Tjörvi með 5 og Einar Örn með 4. Guðmundur og Þórður með 3 mörk hvor. Á lokamínútum leiksins fékk Einar Örn reyndar beint rautt spjald og spurning hvort hann verði dæmdur í leikbann fyrir vikið?

Allavega er ljóst að Haukar munu leggja allt í sölurnar í leiknum, hjá þeim er sæti í úrslitakeppninni í húfi og því þarf Akureyrarliðið að spýta í lófana og mæta til leiks af sama krafti og þegar liðin mættust í október. Við treystum á dyggan stuðning áhorfenda sem hafa ávallt fyllt Höllina þegar Haukarnir hafa mætt á staðinn enda eru viðureignir þessara liða ávallt einhverjir stærstu leikir tímabilsins. Á því verður engin breyting á fimmtudaginn.


Til baka    Senda á Facebook

Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson