Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15
Frábær sjö marka sigur á Val - Akureyri Handboltafélag
  Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Fyrri leiktímabil

Tímabilið 2011-12

Leikmenn meistarafl. karla
Úrslit leikja
Deild karla




Ljósmyndir frá leiknum     Tölfræði leiksins 
    Valur - Akureyri  23-30 (11-11)
N1 deild karla
Vodafone höllin
Sun 18. desember 2011 klukkan: 15:45
Dómarar: Gísli H. Jóhannsson og Hafsteinn Ingibergsson
Umfjöllun

Bjarni Fritzson átti frábæran leik í dag

18. desember 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar

Frábær sjö marka sigur á Val

Akureyrarliðið sýndi heldur betur hvað í það er spunnið í dag með góðum sigri á Valsmönnum í Vodafonehöllinni. Í fyrri hálfleik var jafnræði með liðunum þó að Akureyri væri skrefinu á undan lengst af. Valsmenn komust einu sinni yfir í hálfleiknum í stöðunni 6-5.

Sveinbjörn Pétursson var frábær í markinu í fyrri hálfleik með níu skot varin og nokkrar frábærar stoðsendingar sem gáfu hraðaupphlaupsmörk. Markaskorunin dreifðist býsna vel á fimm menn öfugt við Valsliðið þar sem Sturla Ásgeirsson var nánast sá eini sem eitthvað kvað að en hann skoraði sjö af mörkum Valsmanna, þar á meðal tvö síðustu mörk hálfleiksins og sá þar með til þess að jafnt var í hálfleik 11-11.

Vörn og markvarsla var góð í fyrri hálfleiknum en sóknarleikurinn frekar hægur og nokkuð um sendingarfeila þannig að ljóst var að eitthvað þurfti að ræða í hálfleiknum.

Og það hafði greinilega verið góð stemming í búningsklefanum því að þrátt fyrir að Valsmenn skoruðu fyrsta mark seinni hálfleiks þá fylgdu fimm Akureyrarmörk í kjölfarið og staðan orðin vænleg 12-16 fyrir Akureyri.
Menn voru ekkert hættir og með frábærum leikkafla jókst forystan jafnt og þétt þannig að þegar seinni hálfleikur var rúmlega hálfnaður var orðinn sjö marka munur á liðunum, 16-23 fyrir Akureyri.

Eitthvað misstu menn einbeitinguna við þessa velgengni og Valsmenn unnu boltann nokkrum sinnum í vörninni og skoruðu fjögur næstu mörk, flest úr hraðaupphlaupum þannig að munurinn var einungis þrjú mörk, 20-23 þegar níu og hálf mínúta var til leiksloka.

En menn tóku sig saman í andlitinu og í stöðunni 22-25 komu fjögur norðlensk mörk í röð og Hörður Fannar innsiglaði frábæran sjö marka sigur með síðasta marki leiksins, 23-30 sigur staðreynd og góð tvö stig komin í hús.

Seinni hálfleikurinn var hreinlega frábærlega leikinn. Nítján mörk skoruð og ekki eitt einasta af vítalínunni. Bjarni Fritzson átti stórleik með sex mörk og var gríðarlega mikilvægur. Einnig fór Oddur Gretarsson heldur betur í gang en hann hafði hægt um sig í fyrri hálfleiknum. Í heildina var sóknarleikurinn fjölbreyttur og að sama skapi árangursríkur. Guðmundur Hólmar var sömuleiðis sterkur og Heimir Örn Árnason stýrði sínum mönnum frábærlega þó að hann hefði hægt um sig í markaskorun að þessu sinni.

Hlynur Morthens í Valsmarkinu hefur oft reynst Akureyringum erfiður en að þessu sinni varð hann að játa sig sigraðan og var skipt útaf.

Vörnin var gríðarlega traust og baráttan til fyrirmyndar. Síðustu tíu mínúturnar stóð Stefán Guðnason í Akureyrar markinu og stóð vel fyrir sínu.

Mörk Akureyrar: Bjarni Fritzson 10 (2 úr vítum), Guðmundur Hómar Helgason 6, Geir Guðmundsson 4, Oddur Gretarsson 4, Hörður Fannar Sigþórsson 3, Heiðar Þór Aðalsteinsson 2 og Guðlaugur Arnarsson 1.

Markvarsla: Sveinbjörn Pétursson 11 skot og Stefán Guðnason 4 varin.

Hjá Val var Sturla Ásgeirsson markahæstur með 9 mörk, Anton Rúnarsson 6, Finnur Ingi Stefánsson 4, Magnús Einarsson 2, Atli Már Báruson 1, Arnar Daði Arnarsson 1.
Markverðir Vals vörðu samtals átta skot, Hlynur Morthens 6 og Ingvar K. Guðmundsson 2.

Staða Akureyrarliðisins hefur heldur betur vænkast upp á síðkastið, liðið hefur náð í 11 stig af 12 mögulegum í síðustu sex deildarleikjum og er klárlega með í toppbaráttu deildarinnar.

Nú tekur við langt hlé á deildarkeppninni en næsti leikur Akureyrar er ekki fyrr en fimmtudaginn 2. febrúar þegar HK kemur í heimsókn í Íþróttahöllina.

Tengdar fréttir

Menn fara sáttir í jólfafríið

19. desember 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar

Hvað sögðu menn eftir leik Vals og Akureyrar - myndir

Það voru ánægðir þjálfarar og leikmenn Akureyrar sem flugu norður í gær eftir góðan sigur á Valsmönnum. Ekki spillti gleðinni að vita af glæsilegu jólahlaðborði á Strikinu þegar heim kæmi.

Hér fara á eftir nokkur viðtöl sem hafa birst í fjölmiðlum eftir leikinn. Fyrst koma viðtöl Ívars Benediktssonar á Morgunblaðinu en hann ræddi við þjálfara liðanna eftir leikinn á Hlíðarenda:

Atli Hilmarsson: Förum glaðir í jólahlaðborðið

Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar, var ánægður með sigur sinna manna, 30:23, á Val í Valsheimilinu í dag í N1-deild karla í handknattleik. „Næst á dagskrá er að fara norður í jólahlaðborð sem bíður leikmanna og annarra sem starfa í kringum liðið í kvöld.“
Atli sagði að vörnin hefði verið góð hjá liðinu í fyrri hálfleik í dag en í síðari hálfleik hefði sóknarleikurinn einnig batnað til muna, ekki síst eftir að Heimir Örn Árnason, sýndi styrk sinn við leikstjórnina. Þar með hefði leiðir skilið með liðunum að þessu sinni.

Nú tekur við sex vikna hlé á keppni í N1-deildinni vegna Evrópumeistaramótsins í handknattleik karla í Serbíu í næsta mánuði. Atli sagði að nú yrði tíminn vel nýttur til þess að bæta leik liðsins og gera atlögu að einum af fjórum efstu sætum deildarinnar á endaspretti deildarkeppninnar.



Óskar Bjarni: Nú gefst tími til bæta liðið

Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, var að vonum ósáttur við tap sinn manna fyrir Akureyri, 30:23, á heimavelli í N1-deildinni í handknattleik í dag. Þetta er annar leikurinn á skömmum tíma þar sem Valsliðið nær sér alls ekki á strik.

Óskar sagði engar einhlítar skýringar á þessu en nú gefist nokkurra vikna frí frá keppni til þess að fara yfir hlutina og bæta eitt og annað, ekki væri vanþörf á. Mikill efniviður væri fyrir hendi innan Valsliðsins til þess að ná betri árangri og komst inn í fjögurra liða úrslitakeppnina. Valur er í sjötta sæti eftir leikinn í dag, þremur stigum á eftir Akureyri sem er í fimmta sæti.



Stefán Árni Pálsson blaðamaður visir.is og Fréttablaðsins ræddi við Atla Hilmarsson og Sturlu Ásgeirsson leikmann Vals:

Atli: Það verður gott fyrir ákveðna leikmenn að fá smá hvíld

„Þetta var frábær sigur hjá okkur og við erum að bæta okkur jafnt og þétt með hverjum leik,“ sagði Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar, eftir sigurinn í dag.

„Við vorum hundóánægðir með okkar spilamennsku í hálfleik þrátt fyrir að staðan hafi verið jöfn þá. Við byrjuðum síðan seinni hálfleikinn frábærlega vel og klárum leikinn í raun og veru þá.
Sóknarlega var liðið eilítið hikandi í fyrri hálfleiknum og við vorum að spila bara allt of hægt en það small allt í seinni hálfleiknum.
„Ég er virkilega feginn að komast í smá pásu núna og fá tækifæri til að hvíla leikmenn og koma hópnum í almennilegt stand. Við erum með frábært lið og þegar allir eru heilir þá ráða fáir við okkur“.

Sturla Ásgeirsson: Áttum í raun ekki séns í seinni hálfleik

„Þetta var mjög súrt tap,“ sagði Sturla Ásgeirsson, fyrirliði Vals, eftir tapið í dag.
„Leiðinlegt að fara inn í fríið með tap á bakinu og einnig erum við komnir þremur stigum á eftir Akureyri eftir þennan leik sem er mjög svo slæmt.
Ég var ánægður með fyrri hálfleikinn og vorum alls ekki síðri aðilinn þá. Síðan hrynur bara allt í síðari hálfleiknum hvort sem það er vörn, sókn eða markvarsla.
Ég veit ekki hvað gerðist hvort menn voru eitthvað þreyttir en við áttum í raun ekki séns í seinni hálfleik.
Það verður nóg að gera hjá okkur í þessu svokallaða fríi og við þurfum í raun að bæta okkur á öllum sviðum“.


Gulli og Heimir hafa öruggar gætur á landsliðfulltrúanum Sigfúsi


Bjarni Fritzson skorar eitt af tíu mörkum sínum án þess að Hlynur Morthens komi vörnum við

Á visir.is eru fleiri ljósmyndir Vilhelms frá leiknum, smelltu hér til að skoða myndirnar.

Vídeóviðtöl við Atla og Óskar Bjarna á Sport.is

Við endum þessa samantekt á vídeóviðtölum við þjálfarana sem birtust á sport.is. Smelltu á myndirnar til að sjá og heyra viðtölin:





Nú er bara um að gera að koma sér vel fyrir framan við sjónvarpið

17. desember 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar

Síðasti leikur ársins á sunnudag, útileikur gegn Val

Tólftu umferð N1 deildar karla lýkur á sunnudaginn þegar Akureyri Handboltafélag mætir Val í Vodafonehöllinni klukkan 15:45. Leikurinn er gríðarlega mikilvægur fyrir bæði liðin í baráttunni um að vera í hópi þeirra efstu í deildinni.

Úrslit annarra leikja í þessari umferð hafa þau áhrif að hvorugt liðið á möguleika á að komast í deildarbikarinn sem verður leikinn milli jóla og nýárs en það er ljóst að Haukar, FH, HK og Fram verða í fjórum efstu sætunum og þar með í deildarbikarnum.

Akureyrarliðið hefur verið á góðri siglingu í síðustu leikjum, fjórir sigrar og eitt jafntefli úr síðustu fimm leikjum. Liðin mættust hér á Akureyri í 5. umferð deildarinnar og lauk þeim leik með jafntefli 24-24.

Valsliðið er óútreiknanlegt, á góðum degi eru þeir illviðráðanlegir en síðan hafa þeir átt slaka leiki inn á milli. Í síðasta leik töpuðu Valsarar fyrir Fram með einu marki og töpuðu illa á heimavellivfyrir Haukum í Eimskipsbikarnum. Þar á undan gerðu þeir jafntefli við FH, og unnu Aftureldingu, Gróttu og HK.

Valsmenn munu sakna línumannsins Orra Freys Gíslasonar en hann tekur út leikbann á sunnudaginn. Hins vegar gleðjast þeir yfir því að Valdimar Þórsson er kominn af stað aftur eftir meiðsli og þarf ekki að hafa mörg orð um mikilvægi hans fyrir Valsliðið.

Fyrir leikinn er Anton Rúnarsson markahæstur Valsmanna í N1 deildinni með 86 mörk en næstir koma Sturla Ásgeirsson og Finnur Ingi Stefánsson með 65 og 42 mörk. Ekki má gleyma mikilvægasta leikmanni Valsliðsins sem er markvörðurinn Hlynur Morthens, einn sá albesti hér á landi.

Stuðningsmenn á höfuðborgarsvæðinu ættu að fjölmenna á leikinn enda mikið í húfi. Aðrir geta glaðst yfir því að leikurinn verður sýndur beint á RÚV og hefst útsending þeirra klukkan 15:30 en leikurinn sjálfur klukkan 15:45.

Til baka    Senda á Facebook

Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson