Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15
Akureyri með góðan útisigur á Gróttu - Akureyri Handboltafélag
  Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Fyrri leiktímabil

Tímabilið 2011-12

Leikmenn meistarafl. karla
Úrslit leikja
Deild karla




Textalýsing frá leiknum     Tölfræði leiksins 
    Grótta - Akureyri  19-28 (9-13)
N1 deild karla
Seltjarnarnes
Fim 9. febrúar 2012 klukkan: 18:30
Dómarar: Arnar Sigurjónsson og Svavar Ólafur Pétursson
Umfjöllun

Sveinbjörn og Bjarni virðast kunna vel við sig á móti Gróttu



9. febrúar 2012 - Akureyri handboltafélag skrifar

Akureyri með góðan útisigur á Gróttu

Akureyri gerði góða ferð á Seltjarnarnesið í kvöld og sótti þangað tvö góð stig. Það má aldrei vanmeta lið eins og Gróttu og sem betur fer mættu leikmenn Akureyrar ákveðnir til leiks enda er liðið í þeirri stöðu að ekkert má bregða útaf til að markmiðið um sæti í úrslitakeppninni náist.

Heimir Örn Árnason var í hópnum en ljóst að hann yrði ekki notaður nema nauðsyn krefði. Hins vegar lék Ásgeir Jónsson sinn fyrsta alvöruleik með Akureyri og er ástæða til að fagna þeim tíðindum.

Akureyri byrjaði leikinn með látum og komst í 1 – 4 þar sem Hörður Fannar fór á kostum á línunni. Grótta minnkaði muninn í eitt mark en Akureyri jók muninn aftur í fjögur mörk 4 – 8 um miðjan hálfleikinn.


Bjarni Fritzson í leik gegn Gróttu í Íþróttahöllinni

Gróttumenn náðu ekki að ógna að gagni og Akureyri með þægilega fimm marka forystu lengst af til hálfleiks. En Grótta skoraði síðasta mark hálfleiksins og minnkuðu með því forskotið í fjögur mörk á ný, hálfleiksstaðan 9-13 fyrir Akureyri.
Bjarni Fritzson og Sveinbjörn Pétursson áttu magnaðan leik, Bjarni með frábæra nýtingu, sjö mörk og Sveinbjörn öruggur í markinu.


Sveinbjörn Pétursson í ham á móti Gróttu fyrr í vetur

Í upphafi seinni hálfleiks herti Akureyrarliðið tökin og forystan varð sjö mörk, 12 - 19 eftir rúmlega tíu mínútna leik og ljóst að Gróttumenn höfðu fá svör við leik Akureyrar. Markaskorunin dreifðist meira en í fyrri hálfleiknum. Jón Heiðar Sigurðsson tók við leikstjórninni, Heiðar Aðalsteinsson kom í vinstra hornið og Daníel Einarsson í hægra hornið og skoraði tvö góð mörk.
Bjarni og Sveinbjörn voru áfram öruggir í sínum leik, Stefán Guðnason leysti Sveinbjörn af síðustu mínúturnar. Munurinn á liðinum jókst jafnt og þétt og varð mestur tíu mörk 18 – 28 en Grótta skoraði síðasta mark leiksins og minnkaði muninn þar með í níu mörk, lokatölur 19-28.

Mörk Akureyrar: Bjarni Fritzson 12 (5 úr vítum), Hörður Fannar Sigþórsson 4, Bergvin Gíslason 3, Geir Guðmundsson 3, Oddur Gretarsson 3, Daníel Einarsson 2 og Guðmundur Hólmar Helgason 1.
Sveinbjörn Pétursson stóð í markinu lengst af og varði 17 skot. Stefán Guðnason varði 2 skot, þar á meðal vítakast snemma í leiknum.

Þess má til gamans geta að þegar liðin mættust hér á Akureyri fyrr í vetur þá skoraði Bjarni einnig 12 mörk og Sveinbjörn varði líka 17 skot þá.

Hjá Gróttu var Jóhann Gísli Jóhannsson markahæstur með 5 mörk en besti maður þeirra var þó án efa markvörðurinn Lárus Helgi Ólafsson sem varði ein 16 skot.

Þessi úrslit svo og önnur úrslit kvöldisins þýða að Akureyri er í 5. sætinu og í raun breyttist ekkert innbyrðis röð liðanna í deildinni og þar með ljóst að Akureyri og Grótta mætast aftur í næstu umferð á Seltjarnarnesinu og næsti leikur þar á eftir verður útileikur gegn Aftureldingu.

Tengdar fréttir

Ánægður að vera kominn á sigurbraut á ný

10. febrúar 2012 - Akureyri handboltafélag skrifar

Hvað sögðu menn eftir Gróttuleikinn?

Við höfum fundið nokkur viðtöl við þjálfara og leikmenn Akureyrar og Gróttu eftir leik gærdagsins og fara þau hér á eftir. Byrjum á viðtölum Kolbeins Tuma Daðasonar við Bjarna Fritzson og Lárus Helga Ólafsson sem birtust á Vísir.is:

Bjarni Fritzson: Menn þurfa að hætta að meiðast

„Við vorum klárir á því að þetta yrði mjög erfiður leikur. Við erum að berjast eins og við getum að komast í úrslitakeppnina. Fyrir bæði lið voru þessi stig gríðarlega mikilvæg. Þeir áttu ekkert að mæta vitlausari en við í þennan leik,“ sagði Bjarni sem skoraði tólf mörk í leiknum og nýtti vítin sérstaklega vel.
„Já, ég er búinn að vera að klára færin vel upp á síðkastið. Strákarnir voru að finna mig ágætlega. Ég reyni að nýta færin eins vel og ég get og það gengur ágætlega,“ sagði Bjarni.

Heimir Örn Árnason kom ekkert við sögu í leiknum í dag. Heimir hefur verið frá um tíma vegna meiðsla en spilaði þó í tapleiknum gegn HK í síðustu umferð.

„Hann er að reyna að koma sér í stand. Hann var kannski ekki klár í HK-leikinn, byrjaði of snemma. Þetta tekur smá tíma. Hann hafði bara mætt á tvær æfingar fyrir HK-leikinn. Það var kannski fullsnemmt en við þurftum á honum að halda. Sem betur fer gat hann hvílt í dag.“

Bjarni segir sína menn í fínum málum. Liðið hefur náð í þrettán af síðustu sextán stigum en menn verði að halda áfram að berjast.


Það vantar ekkert upp á baráttuna hjá Bjarna Fritzsyni, hér í leik gegn HK

„Það eru sex frábær lið að berjast um sætin, deildin gríðarlega jöfn og erfiðir leikir eftir. Það væri heimska að hugsa um eitthvað annað,“ sem hefur þó trú á sínum mönnum í framhaldinu komist liðið í úrslitakeppnina.

„Já, við eigum fullt inni og erum með mjög gott lið. Menn þurfa að hætta að meiðast í smá stund, ná sér í stand, ná betri takti og samspili. Þá verðum við mjög hættulegir.“

Kolbeinn Tumi ræddi einnig við Lárus Helga markvörð Gróttu

Lárus Helgi: Öll ljós kveikt en enginn heima

Leit Gróttumanna að fyrsta sigrinum heldur áfram en liðið er einmana á botni deildarinnar með eitt stig.

„Þetta kom ekki í dag. Seinni hálfleikur var arfaslakur hjá okkur. Ef ég ætti að lýsa honum þá voru öll ljós kveikt en engin heima. Menn voru á staðnum en eins og vofur. Tókum bandvitlausar ákvarðanir,“ sagði Lárus sem átti fínan leik í marki heimamanna.

„Mér fannst munurinn eiga að vera minni í hálfleik en svona er þetta. Við höldum áfram.
Þessar tölur gefa ekki rétta mynd af leiknum. Hann átti aldrei að tapast með meira en fjórum til fimm mörkum. Það er eitthvað sem vantaði hjá okkur í þessum leik,“ sagði Lárus sem taldi muninn hafa átt að vera minni í hálfleik þegar hann var ánægður með frammistöðu síns liðs.


Lárus Helgi í leik gegn Akureyri í Íþróttahöllinni í vetur

Grótta er fimm stigum á eftir Aftureldingu þegar þetta er ritað en Mosfellingar etja kappi við Fram sem stendur.

„Við skulum biðja til guðs að þeir vinni ekki. Geri þeir það þá er þetta orðið rosalega svart. En við þurfum að taka þrjá leiki, vinna þá, þannig að það er alveg geranlegt,“ sagði Lárus Helgi sem segir góða stemmningu hjá Gróttumönnum.

„Já, það er hörkufjör á æfingum og flottur hópur. Það er fínn andi hjá okkur þó staðan sé svona.“

Morgunblaðið ræddi einnig við Bjarna Fritzson eftir leikinn, Sindri Sverrisson blaðamaður mbl. var á staðnum.

Bjarni Fritzson: Eigum mikið inni

„Þetta var ótrúlega mikilvægur leikur fyrir okkur því það er algjört grundvallaratriði að við vinnum liðin fyrir neðan okkur. Það er ekki eins og Grótta hafi ekki gert öðrum liðum skráveifu. Valsararnir töpuðu stigi hérna og Framararnir voru heppnir gegn þeim í síðustu umferð, og þetta var bara mjög erfiður leikur,“ sagði Bjarni Fritzson sem skoraði 12 mörk fyrir Akureyringa í gær, þar af sex af vítalínunni þar sem hann sýndi mikið öryggi.

Akureyringar hafa oft leikið betur en í gær en arfaslakur sóknarleikur heimamanna varð til þess að leikurinn varð aldrei spennandi. Bjarni segir Akureyrarliðið geta gert mun betur.

„Þetta var allt í lagi hjá okkur en ekkert sérstakt. Svona leiki þarf að leysa af fagmennsku og reyndar náðum við að halda þessu í 5-6 mörkum mestallan leikinn svo maður var aldrei stressaður þó þeir væru að berjast af fullum krafti. Við vorum aðeins öflugri,“ sagði Bjarni. Aðalmarkverðir liðanna stóðu mjög vel fyrir sínu og vörðu sextán skot hvor. Lárus Helgi Ólafsson varði reyndar 12 í fyrri hálfleiknum einum og ótrúlegt að það skyldi ekki nýtast betur.

„Lalli er búinn að spila virkilega vel í vetur og það er einmitt í þessum leikjum sem Grótta hefur verið að standa sig best, þá er hann að verja virkilega vel. Það kom því ekkert á óvart að hann stæði sína plikt,“ sagði Bjarni.

Línumaðurinn Ásgeir Jónsson lék sinn fyrsta leik fyrir Akureyri í gær og þá er Andri Snær Stefánsson kominn frá Danmörku og byrjaður að æfa. Heimir Örn Árnason var hins vegar ekki með í gær og þarf að fara varlega á næstunni.

„Við erum ágætir en eigum heilmikið inni. Það þarf að fínpússa ýmsa hluti í vörn og sókn, og ná bara betri takti. Við spiluðum ekki einn æfingaleik í hléinu og höfum verið með mjög marga menn meidda svo þetta er alveg eðlilegt,“ sagði Bjarni.

Atli Hilmarsson: Mikilvægt að koma sér í gírinn

„Við erum bestir þegar við erum einbeittir og náum upp alvöru vörn og hraðaupphlaupum. Það er mikilvægt að við komum okkur í gírinn fyrir átökin sem eru fram undan og þetta hjálpar til þess. Grótta getur strítt hvaða liði sem er,“ sagði Atli sem segir stöðuna á leikmannahópnum sínum vera að skána en meiðsli hafa hrjáð liðið mjög í vetur. Heimir Örn Árnason lék þó ekki í kvöld og mun þurfa einhvern tíma til viðbótar til að koma sér í gang. Ásgeir Jónsson lék hins vegar sinn fyrsta leik fyrir Akureyri og þá er Andri Snær Stefánsson kominn frá Danmörku og byrjaður að æfa með liðinu.
Hér má sjá og heyra allt viðtalið við Atla, smelltu á myndina til að byrja.


Guðfinnur Kristmannsson: ósáttur við sóknarleikinn

Guðfinnur Kristmannsson var ósáttur við leik sinna manna í Gróttu sem töpuðu með níu mörkum fyrir Akureyri í kvöld, 28:19, í N1-deild karla í handknattleik. Hann sagði sína menn hafa gefist upp og það væri eins og þeir hefðu aldrei haft trú á sigri.
Sóknarleikurinn er helsti höfuðverkur Gróttumanna sem spiluðu á köflum mjög góða vörn með Lárus Helga Ólafsson í stuði í markinu. Guðfinnur sagði það sama hafa verið uppi á teningnum í síðasta leik þegar Grótta var hársbreidd frá því að ná stigi gegn Fram.
Það fylgir sömuleiðis vídeóviðtal við Guðfinn, smelltu á myndina til að fylgjast með því.





Viðtöl af sport.is

Loks sjáum við viðtöl Guðmundar Egils Gunnarssonar við þjálfara liðanna en þau eru fengin frá sport.is.





Ásgeir er í hóp í dag

9. febrúar 2012 - Akureyri handboltafélag skrifar

Grótta - Akureyri: Bein textalýsing frá Vísir.is

Nú er komið á daginn að leikur Gróttu og Akureyrar verður í beinni textalýsingu á visir.is. Hér á síðunni er hægt að fylgjast með lýsingunni sem hefst væntanlega klukkan 18:30.

Ásgeir Jónsson er í leikmannahóp Akureyrar í fyrsta sinn í vetur.

Smelltu hér til að opna lýsinguna í sérstökum glugga.


Bjarni Fritzson verður í baráttunni á Nesinu í kvöld

9. febrúar 2012 - Akureyri handboltafélag skrifar

Leikur dagsins: Útileikur gegn Gróttu

Í kvöld fer fram lokaumferð 14. umferðar N1 deildar karla. Akureyri á útileik gegn Gróttu á Seltjarnarnesi og hefst hann klukkan 18:30. Því miður hefur heimasíðan ekki tök á að vera með beina lýsingu frá leiknum og þá mun SportTV.is ekki heldur sýna leikinn.

Vísir hefur verið með beinar textalýsingar frá fjölmörgum leikjum deildarinnar í vetur og treystum við á að þeir sinni þessum leik í kvöld. Ef svo verður þá setjum við upp slóð á lýsinguna þeirra þegar það kemur í ljós.

Aðrir leikir kvöldsins eru: Afturelding – Fram, HK – Valur og Haukar – FH en sá leikur verður í beinni á SportTV.is. Allir þessir leikir hefjast klukkan 19:30.


Það var létt yfir Stefáni Guðnasyni eftir leikinn gegn Gróttu fyrr í vetur

8. febrúar 2012 - Akureyri handboltafélag skrifar

Mikilvægur útileikur gegn Gróttu á fimmtudaginn

14. umferð N1 deildar karla verður leikin á fimmtudaginn og með henni lýkur öðrum hluta deildarinnar. Akureyri sækir Gróttu heim og hefst leikurinn klukkan 18:30 á Seltjarnarnesinu. Gróttumenn stóðu svo sannarlega í Fram liðinu í síðasta leik þannig að enginn skyldi halda að verkefnið verði auðvelt fyrir Akureyrarliðið.

Leikurinn er svo sannarlega mikilvægur fyrir Akureyri og nauðsynlegur í þeirri stigasöfnun sem liðið þarf á að halda. Með sigri í leiknum tryggir Akureyri sig í 5. sæti deildarinnar en tap gæti kostað að Valur næði sætinu og þar með yrði langsótt að komast í úrslitakeppnina.

Röð liðanna að lokinni næstu umferð ræður hvernig leikjaröð liðanna verður í þriðja og síðasta hluta deildarinnar. Liðin í 1. – 4. sæti fá fjóra heimaleiki og þrjá útileiki en liðin í 5. – 8. sæti fá þrjá heimaleiki og fjóra útileiki. Ef Akureyri heldur 5. sætinu í deildinni og röð liðanna breytist ekki verður leikjaplan liðsins sem hér segir:

Grótta – Akureyri *
Afturelding – Akureyri *
Akureyri - HK
Haukar – Akureyri *
Akureyri - FH
Fram - Akureyri
Akureyri – Valur *

Stjörnumerktu leikirnir eru öruggir (ef Akureyri heldur 5. sætinu) en röð HK, FH og Fram í deildinni gæti breyst og þar með hvort viðureignirnar við þau verða heima eða heiman.

Fyrir þá sem vilja spekulera í möguleikunum þá er uppsetningin þannig í síðustu sjö umferðunum:

1. umferð: 2 - 7, 4 - 1, 3 - 6, 8 - 5
2. umferð: 2 - 4, 1 - 6, 3 - 8, 7 - 5
3. umferð: 6 - 2, 8 - 1, 5 - 3, 4 - 7
4. umferð: 2 - 8, 4 - 6, 1 - 5, 7 - 3
5. umferð: 5 - 2, 8 - 4, 3 - 1, 6 - 7
6. umferð: 2 - 3, 4 - 5, 6 - 8, 1 - 7
7. umferð: 1 - 2, 3 - 4, 5 - 6, 7 - 8.

Til baka    Senda á Facebook

Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson