Tölfræði leiksins
Haukar - Akureyri 29-27 (17-9) N1 deild karla Ásvellir 15. apríl 2008 klukkan: 19:15 Dómarar: Anton Pálsson og Hlynur Leifsson
Umfjöllun Hörður skoraði fimm mörk í dag15. apríl 2008 - Akureyri handboltafélag skrifarMeistarafl. karla: Haukar sigruðu Akureyri Nýbakaðir Íslandsmeistarar Hauka sigruðu Akureyri, 29:27 en liðin mættust á Ásvöllum fyrr í kvöld. Eftirfarandi umfjöllun er tekin af handbolti.is . Haukar byrjuðu leikinn með miklum látum og allt virtist stefna í enn einn stórsigurinn hjá liðinu. Þeir spiluðu frábæran fyrri hálfleik og leiddu að honum loknum 17:9. Sókn Akureyringa var mjög slök og fengu Haukamenn hvert hraðaupphlaupið á fætur öðru. Akureyringar mættu gríðarlega öflugir til leiks í seinni hálfleik og minnkuðu forskot Hauka jafnt og þétt. Mikil spenna var á lokakafla leiksins þar sem Akureyri náði að minnka forustuna í 1 mark. En Haukar fóru með sigur af hólmi 29:27.Mörk Hauka: Gísli Jón Þórisson 7, Freyr Brynjarsson 5, Andri Stefan 4,Jón Karl Björnsson 3, Elís Már Halldórsson 2, Gunnar Berg Viktorsson 2, Þröstur Þráinsson 2, Kári Kristjánsson 2, Tjörvi Þorgeirsson 1, Pétur Pálsson 1. Gísli Guðmundsson varði 11 skot í markinu og Aron Rafn Eðvarðsson 5.Mörk Akureyrar: Jónatan Þór Magnússon 7, Hörður Fannar Sigþórsson 5, Einar Logi Friðjónsson 4, Magnús Stefánsson 3, Ásbjörn Friðriksson 3, Nikolaj Jankovic 2, Andri Snær Stefánsson 1, Oddur Grétarsson 1, Heiðar Þór Aðalsteinsson 1. Í markinu varði Sveinbjörn Pétursson 10 skot.Eftirfarandi frásögn er tekin úr Morgunblaðinu Um tíma stefndi í stórsigur meistaranna. Þeir höfðu átta marka forskot eftir fyrri hálfleikinn og náðu mest níu marka í seinni hálfleik en hvort einhver ,,timburmenni“ hafi gert vart sig hjá leikmönnum Hafnarfjarðarliðsins í síðari hálfleik skal ósagt látið. Altént slökuðu þeir á og gerðust værukærir og það nýttu Akureyringar sér í vil og náðu fyrir vikið að bjarga andlitinu og hleypa óvæntri spennu í leikinn. Jónatan Þór Magnússon minnkaði muninn fyrir norðanmenn, 28:27, með marki úr vítakasti tveimur mínútum fyrir lok leiksins. Haukar misstu boltann þegar um 1 mínúta var eftir og Akureyringar brugðu á það ráð að skipta markverðinum út af og leika með aukamann í sókninni. Ekki tókst betur til en þeir misstu boltann klaufalega 40 sekúndum fyrir leikslok og þar sem Haukar brunuðu fram gátu gestirnir ekki skipt markverði sínum inn á. Ásbjörn Friðriksson útileikmaður Akureyrarliðsins stóð því á milli stanganna í síðustu sókn Hauka og honum tókst ekki að verja skot Elísar Más Halldórssonar sem innsiglaði sigur Haukanna. Vörn og markvarsla var í molum hjá norðanmönnum í fyrri hálfleik og áhugaleysi ríkjandi en leikur liðsins var miklu betri í seinni hálfleik.
Tengdar fréttir Væntanlega enn einn spennuleikurinn í uppsiglingu15. apríl 2008 - Akureyri handboltafélag skrifarKarlaliðið: Haukar-Akureyri í kvöld á Ásvöllum Karlaliðið heldur í Hafnarfjörðinn í dag til að glíma við verðandi Íslandsmeistara Hauka. Akureyri ætlar svo sannarlega að fylgja eftir góðum sigri gegn HK frá því á sunnudaginn. Leikir liðanna í vetur hafa verið æsilegir og lauk tveim síðustu með jafntefli eftir mikla dramatík á lokasekúndunum. Síðast mættust liðin í KA heimilinu þann 21. febrúar og endaði hann 27-27 þar sem Halldór Ingólfsson jafnaði í lokin fyrir Hauka. Liðin mættust í Hafnarfirði 24. nóvember og endaði sá leikur 25-25. Þar var sama sagan, Haukar jöfnuðu í lok leiksins en hins vegar svíður mönnum ennþá að dómarar dæmdu af mark í lokin sem hefði fært Akureyri sigur í þeim leik. Leikurinn hefst klukkan 19:15 í kvöld og eru allir stuðningsmenn sunnan heiða hvattir til að mæta á Ásvelli og hvetja liðið. Hér er hægt að rifja upp umfjöllun okkar um áðurnefnda leiki.Akureyri-Haukar 21. febrúar 2008 Haukar-Akureyri 24. nóvember 2007
Til baka Senda á Facebook