Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15
Handboltaævintýrið á Akureyri - stórsigur á HK - Akureyri Handboltafélag
  Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Fyrri leiktímabil

Tímabilið 2008-09

Leikmenn meistarafl. karla
Úrslit leikja
Deild karla




Ljósmyndir frá leiknum     Textalýsing frá leiknum     Tölfræði leiksins 
    Akureyri - HK  30-21 (14-10)
N1 deild karla
Íþróttahöllin
9. október 2008 klukkan: 19:30
Dómarar: Ingvar Guðjónsson og Jónas Elíasson
Umfjöllun

Oddur Gretarsson skorar eitt af fjölmörgum hraðaupphlaupsmörkum sínum gegn HK










10. október 2008 - Akureyri handboltafélag skrifar

Handboltaævintýrið á Akureyri - stórsigur á HK

Lið Akureyrar Handboltafélags fór hamförum í gær þegar sterkt lið HK kom í heimsókn. Liðið lék klárlega sinn besta leik frá upphafi og vann stórsigur 30-21.

Það var ljóst hálftíma fyrir leik Akureyrar og HK í gærkvöldi að eitthvað stórkostlegt lá í loftinu. Áhorfendur byrjuðu að streyma í stúkuna vel fyrir leik og var orðið fjölmenni þegar Herbert Guðmundsson steig fram á gólf Íþróttahallarinnar og hóf leikinn með lagi af nýjum geisladiski sínum. Þegar hann kynnti næsta lag Can‘t Walk Away tóku menn virkilega undir og var sungið með, klappað og stappað og Hebbi svo sannarlega búinn að kveikja í mannskapnum, teknar bylgjur á pöllunum og stemmingin eins og á gullaldarárunum.


Can‘t Walk Away

Sungið, klappað og stappað með Hebba

Valdimar Þórsson kom HK yfir í 0-1 en Árni Sigtryggsson jafnaði að bragði. Oddur Gretarsson kom Akureyri yfir með marki úr hraðaupphlaupi og gaf þar með tóninn fyrir það sem í vændum var. Valdimar jafnaði í 2-2 úr vítakasti og hélst sú staða næstu fimm mínúturnar en þar með settu Akureyringar heldur betur í gírinn. Heiðar Þór skorar úr tveim hraðaupphlaupum í röð, Andri Snær skorar sömuleiðis úr hraðaupphlaupi og þrátt fyrir að Oddur væri rekinn af leikvelli í tvær mínútur var krafturinn í liðinu slíkur að sá kafli vannst 2-0 og staðan orðin 8-3 fyrir Akureyri.

HK klóraði í bakkann með næstu þrem mörkum, staðan 8-6 og Hörður Fannar rekinn út af og fór að fara um suma. En þá var bara slegið í aftur og manni færri skorar Heiðar Þór sirkusmark af bestu gerð, Hafþór lokaði markinu og þeir Árni og Jónatan með bombur fyrir utan og staðan orðin 11-6.

Sjálfstraustið geislaði af liðinu á öllum sviðum, vörnin, markvarslan og sóknarleikurinn aldeilis frábær enda var stemmingin í húsinu ótrúleg. Staðan í hálfleik var 14-10 fyrir Akureyri og svo sannarlega létt yfir stuðningsmönnum í hálfleik.

Hafi menn haldið að leikmenn Akureyrar kæmu værukærir til seinni hálfleiks var það afsannað með hraði. Oddur Gretarsson fór á kostum í vörninni, hirti boltann af HK mönnum hvað eftir annað og refsaði með hraðaupphlaupsmörkum, Hafþór varði allt sem komst í gegnum vörnina, svo og hraðaupphlaup þannig að eftir 10 mínútna leik í seinni hálfleik var staðan orðin 19-10 og Kópavogspiltar algjörlega ráðþrota í leik sínum.

Tíu marka munur varð 22-12 og hélst hann nokkurn veginn til leiksloka, þó tókst HK að minnka muninn niður í átta mörk 28-20 og var það helst fyrir tilstilli Sverre Andreas Jakobssonar sem tók sig til og skoraði tvö mörk á lokakafla leiksins, svona rétt til að minna Akureyringa á sig.

Hörður Fannar Sigþórsson kórónaði svo stórbrotinn leik með því að þruma boltanum í netið beint úr aukakasti rétt áður en flautað var af.

Óhætt er að fullyrða að lið Akureyrar hefur aldrei leikið betur en í gær og magnað að sjá stemminguna í leikmönnum sem berjast svo sannarlega einn fyrir alla og allir fyrir einn, þetta er frábær liðsheild en ekki samsafn af einstaklingum.

Mörk Akureyrar: Oddur Gretarsson 6, Árni Þór Sigtryggsson 5, Andri Snær Stefánsson 5 (3 úr vítum), Heiðar Þór Aðalsteinsson 5, Hörður Fannar Sigþórsson 4, Jónatan Þór Magnússon 2, Elfar Halldórsson 1, Rúnar Sigtryggsson 1 og Þorvaldur Þorvaldsson 1.

Í markinu fór Hafþór Einarsson hamförum, varði 25 skot.

Eftir slíka frammistöðu liðsheildar er erfitt að taka einhverja út úr en þó ætla ég að tilnefna þá Hafþór og Odd sem menn leiksins.

Í liði HK var Valdimar Þórsson markhæstur með 6 mörk, þar af 4 úr vítum en þessi snjalli leikmaður náði sér engan veginn á strik gegn varnarmúr Akureyrar. Sveinbjörn Pétursson varði 17 skot, þar af eitt víti og hélt sínum mönnum á floti í fyrri hálfleik.

Stuðningsmenn Akureyrar geta því farið að hlakka til næsta heimaleikjar sem verður þó ekki fyrr en 23. október þegar Valsmenn koma í heimsókn, en í millitíðinni er útileikur gegn Víkingum laugardaginn 18. október og hefur heyrst að sá leikur verði sýndur í sjónvarpinu.

Takk strákar fyrir skemmtunina í gær – haldið áfram að spila með hjartanu, þetta var ógleymanlegur dagur!

Hér er hægt að sjá hvernig leikurinn gekk fyrir sig.

Tengdar fréttir

Þeir létu ekki sitt eftir liggja drengirnir enda var brjáluð stemming í Höllinni

14. október 2008 - Akureyri handboltafélag skrifar

Myndasyrpa frá síðasta leik er Akureyri gjörsigraði HK

Í dag birtum við myndasyrpu sem Þórir Tryggvason sendi okkur eftir magnaðan sigurleik Akureyrar gegn HK þann 9. október. Að vanda var áhorfendastúkan yfirfull og frábær stemming í húsinu. Trommuleikararnir sýndu allar sínar bestu hliðar og fá hér nokkrar myndir af sér.

Smelltu hér til að opna myndasyrpuna.


Allt í góðu lagi á kústunum á HK leiknum

13. október 2008 - Akureyri handboltafélag skrifar

Tíðindalaust á kústavígstöðvunum

Eftir uppákomu kústastrákanna í leiknum við Stjörnuna fyrir rúmri viku síðan fengu starfsbræður þeirra á HK leiknum sérstaka athygli áhorfenda og ljósmyndara. Ekkert bar þó til tíðinda að þessu sinni og höfðu strákarnir það frekar náðugt eins og eftirfarandi ljósmyndir Þóris Tryggvasonar bera með sér. Við þökkum öllum kústastrákunum að sjálfsögðu vel unnin störf á undanförnum leikjum enda vinna þeir mjög mikilvægt starf meðan á leikjum stendur.







Leikmenn voru kátir og stoltir í leikslok





11. október 2008 - Akureyri handboltafélag skrifar

Hvað sögðu menn eftir HK leikinn?

Fjölmiðlar landsins tóku leikmenn Akureyrar tali eftir HK leikinn. Hafþór Einarsson var í viðtali við Fréttablaðið: "Þetta var mjög góður leikur að okkar hálfu. Við spiluðum vel saman sem heild og þá gengur allt saman upp. Það er góð stemning í kringum liðið og umgjörðin er frábær. Herbert Guðmundsson með Can´t walk away hér fyrir leik átti sinn þátt í að koma okkur í stuð eins og annað," sagði Hafþór glaðbeittur en Herbert hitaði áhorfendur upp fyrir leikinn.

"Áhorfendur voru frábærir og með troðfullt hús þarf að vera eitthvað að ef þú ætlar þér ekki eitthvað. Við getum allt sem við viljum ef við höldum þessu áfram."

Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Akureyrar, var að vonum ánægður með leik sinna manna í viðtali við Morgunblaðið: "Þetta var mjög gott hjá okkur gegn sterku liði HK. Leikurinn kláraðist í byrjun seinni hálfleiks þar sem þeir skoruðu ekki mark fyrstu tíu mínúturnar. Hafþór stóð sig frábærlega í markinu og allir leikmenn stóðu sig mjög vel. Það skilaði sínu með þessa frábæru áhorfendur og mjög sterka vörn svo það varð eitthvað undan að láta hjá þeim. Þetta var orðið frekar einfalt í lokin þótt við höfum kannski slappað of mikið af. En það er erfitt að halda einbeitingu í 60 mínútur þegar maður er kominn með tíu marka forystu og korter eftir." Áhorfendur fjölmenntu á leikinn og mikil stemning var í stúkunni. Rúnar segir það skipta miklu máli: "Já, stuðningur áhorfenda telur alveg rosalega mikið og við erum mjög þakklátir fyrir að þeir gáfu okkur tækifæri eftir að hafa tapað fyrstu tveimur leikjunum í deildinni.
Þeir mættu samt eftir það og halda áfram að styðja okkur á sinn einstaka hátt og við reynum auðvitað að launa þeim með skemmtilegri spilamennsku og sigri," sagði Rúnar.

Rúnar var ekki síður í skýjunum yfir leik sinna manna í viðtali við handbolti.is "Þetta var okkar besti leikur í langan tíma. Það er frábært að spila fyrir Norðan um þessar mundir og stemmingin orðin eins og í gömlu góðu dagana. Sigurvegarar í þessum leik voru ekki leikmenn heldur áhorfendur og allt fólkið í bænum. Stuðningurinn við liðið hefur verið frábær í höfuðstað Norðurlands undanfarnar vikur og það ber virkilega að þakka." Spurður um þessa góðu spilamennsku liðsins og þessu frábæru stemmingu, sagði Rúnar "Eigum við ekki að segja að kreppan fari vel í okkur Akureyringa".

Þá var hornamaðurinn snöggi Heiðar Þór Aðalsteinsson mjög sáttur í leikslok í viðtali við Vikudag: "Varnarleikur okkar var frábær í leiknum og klárlega það sem skóp þennan sigur auk góðrar markvörslu. Hröðu sóknirnar hjá okkur gengu ágætlega en við getum enn betur þar. Áhorfendur voru frábærir og þetta var rosalega gaman í kvöld. Mórallinn í hópnum er algjör snilld og getur örugglega ekki verið betri. Við sjálfir erum líka aldrei betri en þegar við stöndum saman og höfum jafn gaman að þessu eins og í kvöld," sagði Heiðar Þór sigurreifur að lokum.




Við þökkum Herbert kærlega fyrir hans framlag

10. október 2008 - Akureyri handboltafélag skrifar

Stuð í handboltanum – myndasyrpa með Herbert

Eitt af því sem lagt var upp með í sumar þegar unnið var að undirbúningi vetrarstarfsins var að gera hvern heimaleik Akureyrarliðsins að sannkallaðri veislu þar sem saman færi frábær handbolti og hvers kyns skemmtiatriði.

Það vantaði ekkert upp á veisluföngin síðasta fimmtudag. Akureyrarliðið sýndi handbolta á heimsmælikvarða og fyrir leik söng sjálfur Herbert Guðmundsson.

Herbert endaði sitt atriði á því að flytja ofursmellinn Can’t Walk Away og gaf þar með tóninn fyrir frábært kvöld. Það má með sanni segja að um ofursmell sé að ræða því lagið var valið á alþjóðlega safndiskinn The Superhits of the 80's hitbox.

Þórir Tryggvason sendi okkur eftirfarandi myndir frá atriði Herberts í Íþróttahöllinni.


Það er mikið lagt í þennan leik jafnt handboltalega sem tónlistarlega!



9. október 2008 - Akureyri handboltafélag skrifar

Leikur dagsins: Akureyri - HK í beinni textalýsingu

Það ætti ekki að hafa farið framhjá nokkrum manni að í dag fáum við leikmenn HK í heimsókn í Íþróttahöllina og verður það örugglega hörkuleikur þar sem hvorugt liðið mun gefa þumlung eftir. Leikurinn sjálfur hefst klukkan 19:30 og að sjálfsögðu er skyldumæting mjög tímanlega á leikinn því að hálftíma fyrir leik eða um klukkan 19:00 verður enginn annar en Herbert Guðmundsson með upphitunartónleika! Við höfum fyrir satt að hann ætli að flytja alla sína helstu smelli eins og Can't Walk Away í bland við nýtt efni.

Eins og venjulega verður boðið upp á beina lýsingu frá leiknum hér á síðunni fyrir þá sem ekki komast á leikinn og hefst hún rétt fyrir leik.

Það er virkilega auðvelt að fylgjast með leiknum í gegnum Beinu Lýsinguna.

Smellið hér til að opna Beina Lýsingu

Beina Lýsingin opnast í nýjum glugga sem uppfærist af sjálfu sér á 15 sekúndna fresti. Það er því ekkert mál að fylgjast með. Leikurinn hefst eins og fyrr kom fram klukkan 19:30 og við hvetjum alla til að fylgjast vel með.


Herbert verður í sínu besta formi í Höllinni

7. október 2008 - Akureyri handboltafélag skrifar

Herbert Guðmundsson hitar upp fyrir leikinn gegn HK

Eins og menn muna annaðist Háskólabandið lifandi tónlistarflutning fyrir fyrsta heimaleikinn í ár en nú hefur fengist staðfest að það verður enginn annar en tónlistarmaðurinn Herbert Guðmundsson sem mun hita upp í Íþróttahöllinni fyrir leik Akureyrar Handboltafélags og HK á fimmtudaginn og kynda upp stemminguna. Þetta eru frábær tíðindi og ljóst að handboltaleikir á Akureyri eru sannkölluð fjölskylduhátíð enda hefur frammistaða áhorfenda vakið verðskuldaða athygli.

Herbert er nýbúinn að gefa út nýjan disk sem kallast Spegill sálarinnar og eru nokkur lög farin að hljóma af honum á útvarpsstöðvunum. Herbert mun væntanlega flytja lög af diskinum í höllinni og aldrei að vita nema við fáum líka ofursmellinn ódauðlega Can´t walk away.

Það borgar sig því fyrir stuðningsmenn að mæta snemma í Höllina á fimmtudaginn en húsið opnar klukkan 18:45. Á síðustu tveim leikjum hefur áhorfendastúkan verið þéttsetin og stemmingin rafmögnuð.

Við verðum með frekari upplýsingar um Herbert og umgjörð leiksins hér á síðunni á næstunni en við getum lofað því að það verður magnað stuð í Höllinni á fimmtudaginn, jafnt í tónlistinni sem handboltanum.


Nú þurfa allir að leggjast á eitt á fimmtudaginn

7. október 2008 - Akureyri handboltafélag skrifar

Stórleikur 4. umferðar: Akureyri - HK

Á fimmtudaginn kemur hið öfluga lið HK í heimsókn og mætir okkar mönnum í Íþróttahöllinni klukkan 19:30. HK tapaði í fyrstu umferð fyrir Fram á heimavelli 23-27, í annarri umferð unnu þeir FH á útivelli 33-36 og í síðustu umferð gerðu HK menn sér lítið fyrir og unnu sanngjarnan sigur á Íslandsmeisturum Hauka 25-23.

Þátttaka HK í Eimskipsbikarnum fékk hins vegar snöggan enda því þeir töpuðu naumlega fyrir Val í gærkvöldi 27-26.

Í liði HK eru nokkrir góðkunningjar okkar Akureyringa. Fyrstan skal þar nefna markvörðinn Sveinbjörn Pétursson (Bubba) sem stóð í marki Akureyrar síðustu tvö árin. Varnarjaxlinn Sverre Andreas Jakobsson sem er uppalinn KA maður eins og línumaðurinn Arnar Þór Sæþórsson og vinstri skyttan Ragnar Snær Njálsson.

Þar fyrir utan er lið HK mjög vel mannað og var til dæmis valið lið 3. umferðar N1-deildarinnar eftir sigurinn á Haukum. Einn þeirra albesti maður er vinstri skyttan Valdimar Fannar Þórsson sem var einmitt valinn besta vinstri skyttan í áðurnefndu vali, Ólafur Bjarki Ragnarsson er frábær leikmaður sem þarf sömuleiðis að gefa góðar gætur og þá er ónefndur línumaðurinn Einar Ingi Hrafnsson sem gekk til liðs við HK frá Fram rétt áður en leiktímabilið hófst. Þjálfari liðsins, Gunnar Magnússon var svo útnefndur þjálfari síðustu umferðar.

Það er því ljóst að Akureyringar verða að taka á öllu sínu, jafnt innan vallar sem á áhorfendapöllunum til að knýja fram sigur á fimmtudaginn.

Við hittum Sveinbjörn Pétursson eftir Haukaleikinn á dögunum og bað hann fyrir bestu kveðjur til liðsmanna og stuðningsmanna Akureyrar og kvaðst hlakka til að koma norður á fimmtudaginn.


Þeir félagar Andri Snær og Sveinbjörn hittust á Ásvöllum
og virðast notast við sama stílistann!

Það verður svo enginn annar en tónlistarmaðurinn Herbert Guðmundsson sem mun hita upp í Íþróttahöllinni fyrir leik Akureyrar Handboltafélags og HK á fimmtudaginn og kynda upp stemminguna. Þetta eru frábær tíðindi og ljóst að handboltaleikir á Akureyri eru sannkölluð fjölskylduhátíð enda hefur frammistaða áhorfenda vakið verðskuldaða athygli.


Það er ekki amalegt að eiga bestu stuðningsmenn á Íslandi

6. október 2008 - Akureyri handboltafélag skrifar

Frá fyrirliða: Takk fyrir okkur stuðningsmenn!

Góðan dag kæru stuðningsmenn Akureyrar handboltafélags. Ég vil fyrir hönd leikmanna þakka fyrir frábæran stuðning í síðasta deildar leik á móti Stjörnunni og einnig í fyrsta leiknum á tímabilinu á móti FH. Það er alveg ljóst að þið svo sannarlega svöruðuð kalli okkar um að mæta aftur og styðja okkur jafn vel og gert var í leik 1. þrátt fyrir að sá leikur hafi því miður tapast

Fyrir okkur leikmenn þá er varla hægt að lýsa því hversu mikið skemmtilegra er að spila þessa íþrótt þegar maður finnur fyrir svona miklum stuðningi og gleði á pöllunum í fullri höllinni. Stjórn félagsins á heiður skilið fyrir að búa til góða umgjörð sem er svo sannarlega að skila sér og það er klárt mál að við komum til með að vera gríðarlega erfiðir heim að sækja ef þetta heldur áfram svona.

Í næstu umferð eigum við svo annan heimaleik næsta fimmtudag á móti HK. Þeir eru með hörkulið og hafa byrjað vel með þá Akureyringa Sverre Andres Jakobsson silfurref (við Akureyringar þekkjum hann nú samt best undir nafninu Sverrir Bæjó) og markvörðinn Sveinbjörn Pétursson fremsta í flokki.

Þannig skora ég á alla sem mættu síðast að koma aftur á fimmtudaginn 9. okt og helst að taka einn með sér, ég lofa góðri skemmtun. Við leikmenn sem í þessu stöndum erum staðráðnir í að selja okkur dýrt og það í allan vetur og með ykkur í liði með okkur er allt hægt.

Með bestu kveðju
Jónatan Þór Magnússon
fyrirliði Akureyrar handboltafélags.


Til baka    Senda á Facebook

Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson