12. febrúar 2009 - Akureyri handboltafélag skrifar
Leikur dagsins: FH - Akureyri í beinni textalýsingu
Þá er runninn upp leikdagur hjá Akureyri Handboltafélagi. Að þessu sinni halda strákarnir í Hafnarfjörðinn og leika gegn spútnikliði FH í Kaplakrikanum.
Leikurinn hefst klukkan 19:30 og að sjálfsögðu ætlum við að bjóða stuðningsmönnum sem ekki eiga heimangegnt á leikinn upp á beina lýsingu frá leiknum hér á síðunni og hefst hún rétt fyrir leik.
Það er virkilega auðvelt að fylgjast með leiknum í gegnum Beinu Lýsinguna.
Beina Lýsingin opnast í nýjum glugga sem uppfærist sjálfvirkt á 15 sekúndna fresti. Það er því ekkert mál að fylgjast með. Leikurinn hefst eins og fyrr kom fram klukkan 19:30 og við hvetjum alla til að fylgjast vel með.
Það getur allt gerst þegar þessi lið mætast
11. febrúar 2009 - Akureyri handboltafélag skrifar
Útileikur gegn FH á fimmtudaginn
Þá er þriðja og síðasta umferð N1 deildarinnar að hefjast og byrjar Akureyri lokarimmuna á útivelli gegn FH núna á fimmtudaginn. Síðast þegar liðin mættust var það einmitt á heimavelli þeirra FH-inga og þar fór Akureyri með frækinn sigur. Akureyri átti prýðisgóðan leik gegn Fram í síðustu viku og stefnir allt í hörkuleik.
FH tapaði síðustu tveim leikjum sínum, gegn Haukum í N1 deildinni og nú á sunnudaginn gegn Val í bikarnum og koma væntanlega til leiks staðráðnir í að rífa sig upp aftur. Nokkuð hefur verið um meiðsli í þeirra herbúðum og óljóst hvernig þeir stilla upp liði sínu en hins vegar fékk FH góðan liðstyrk um áramótin þegar landsliðsmaðurinn Bjarni Fritzson sneri heim úr atvinnumennsku og gekk til liðs við þá og hefur sýnt prýðisleiki á árinu.
Það hefur því heldur hækkað meðalaldurinn í hinu unga og frábæra liði FH-inga og inneignin í reynslubankanum hækkar stöðugt.
Rúnar og Hörður Fannar gengu vasklega fram í vörninni gegn FH síðast
Við reiknum fastlega með því að verða með leikinn í beinni textalýsingu hér á síðunni á fimmtudaginn fyrir alla stuðningsmenn liðsins sem heima sitja en hvetjum að sjálfsögðu harðskeytta stuðningsmenn á suðvesturhorninu til að mæta í Kaplakrikann klukkan 19:30 og hvetja liðið því nú ríður á að komast í hóp fjögurra efstu liða til að verða með í úrslitakeppninni í vor.