Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15 Háspennuleik lyktaði með jafntefli - Akureyri Handboltafélag
Það voru margvísleg smástríð í gangi meðan á leik Akureyrar og HK stóð síðastliðið miðvikudagskvöld. Sérstaklega biðu menn spenntir eftir að fylgjast með viðureign aðstoðarþjálfaranna Stefáns Árnasonar og föður hans Árna Stefánssonar á hliðarlínunni enda báðir þekktir fyrir að taka virkan þátt í leiknum og liggja ekki á skoðunum sínum á dómgæslu og öðrum uppákomum í leiknum. Þeir voru að sjálfsögðu ekki alltaf sammála og náði Þórir Tryggvason nokkrum myndum af viðureign þeirra í Höllinni.
Smellið hér til að skoða alla myndasyrpuna.
Einar flottur með gítarinn
6. mars 2009 - Akureyri handboltafélag skrifar
Trúbadorinn Einar Höllu með tónlistina - myndir
Það var góðkunningi strákanna, trúbadorinn Einar Höllu sem annaðist lifandi tónlist fyrir leikinn gegn HK og einnig í hálfleik. Helgi kemur reglulega fram á Kaffi Amor og stóð sig frábærlega í Höllinni.
Þórir Tryggvason smellti nokkrum myndum af Einari fyrir leikinn og er hægt að skoða myndirnar hér.
Nú er hvert stig dýrmætt í toppbaráttunni
4. mars 2009 - Akureyri handboltafélag skrifar
Leikur dagsins: Í beinni textalýsingu - Samningur við Skeljung og Orkuna
Það hefur vonandi ekki farið fram hjá nokkrum manni að leikurinn í dag gegn HK er ákaflega þýðingarmikill. Við höldum í hefðirnar með umgjörð leiksins, fyrir leik spilar trúbadorinn Einar Höllu og í stuðningsmannaherberginu verður heitur matur í boði hálftíma fyrir leik.
Við reiknum með því að í hálfleik verði undirritaður samningur við Skeljung og Orkuna sem felur í sér að þegar stuðningsmenn Akureyrar Handboltafélags versla eldsneyti hjá þessum aðilum njóti þeir vildarkjara og styrki í leiðinni Akureyri Handboltafélag um 2 krónur fyrir hvern eldsneytislitra. Við kynnum þetta samkomulag ítarlega hér á síðunni á næstu dögum.
Leikurinn í dag verður að sjálfsögðu í beinni textalýsingu hér á heimasíðunni eins og vant er fyrir þá stuðningsmenn sem ekki komast á leikinn. Það er virkilega auðvelt að fylgjast með leiknum í gegnum Beinu Lýsinguna.
Beina Lýsingin opnast í nýjum glugga sem uppfærist sjálfvirkt á 15 sekúndna fresti. Það er því ekkert mál að fylgjast með. Leikurinn hefst eins og fyrr kom fram klukkan 19:00 og við hvetjum alla til að fylgjast vel með.
Stefán Árnason er hvergi smeykur að mæta gamla manninum í kvöld
4. mars 2009 - Akureyri handboltafélag skrifar
Leikur dagsins: Akureyri – HK, feðgar mætast á hliðarlínunni
Í kvöld klukkan 19:00 mætast Akureyri og HK í Höllinni í gríðarlega mikilvægum leik fyrir bæði lið í baráttunni um sæti í 4-liða úrslitakeppni Íslandsmótsins í handbolta karla. En leikurinn er einnig mjög merkilegur fyrir þær sakir að aðstoðarþjálfarar liðanna eru feðgarnir Árni Stefánsson hjá HK og Stefán Rúnar Árnason sonur hans hjá Akureyri.
Vikudagur sló á þráðinn til þeirra feðga og spurði þá út í leikinn í kvöld og einvígi þeirra og fengum við góðfúslegt leyfi Jóns Stefáns Jónssonar blaðamanns til að birta spjall þeirra hér:
„Þessi leikur leggst mjög vel í mig, það verður rosalega gaman að koma norður og vonandi spila framan fulla Höllina af fólki og mæta þar góðu liði Akureyringa. Vonandi verður mikil stemmning, það hefur verið virkilega gaman að fylgjast með því úr fjarlægð hvað það er búið að gera flotta hluti í kringum handboltann á Akureyri og vonandi fær maður að upplifa það í kvöld.” sagði Árni um leikinn.
Þeir feðgar eru sammála um að leikurinn verði væntanlega jafn og spennandi allt til loka, Árni vildi ekkert segja um hvort liðið myndi sigra en Stefán kvaðst þess full viss um að hans menn myndu taka öll stigin.
Verður sérstakt að mætast Báðir eru þeir fullir tilhlökkunar að mæta hvor öðrum og viðurkenna að það verði mjög sérstakt að mætast. „ Þetta verður heldur betur gaman og sérstakt. Ég er mjög ánægður hvað hann hefur staðið sig vel í þessu hlutverki í vetur og hef fylgst vel með honum, sagði Árni um soninn. Stefán sagði var á sama máli. „Þetta verður sérstakt og skemmtileg, hann hefur kennt mér mikið og ég hef alltaf leitað til hans þegar ég þarf ráð varðandi þjálfun. Hann hefur kennt mér flest af því sem ég kann þó svo að auðvitað hafi ég auðvitað bætt við vitneskju mína annarsstaðar frá, svo hann hefur nú ekki öll tromp á hendi,” sagði Stefán léttur í lund
Óhætt er að segja að þeir feðgar geti brýnt rausn sína ef þörf er á en hvor þeirra er háværari? „Ég held að ég sé nú klikkaðri,” segir Árni og hlær. „Ég hef nú í gegnum tíðina reynt að láta hann læra af mínum mistökum og segja honum til í þessum efnum.” Stefán hins vegar var ekki alveg sammála og er þarna sennilega eina atriðið sem þá feðga greinir á um. „Það verður bara að koma í ljós hvor er háværari,” sagði Stefán kíminn og bætti svo við: „Ég held að dómararnir eigi eftir að lenda í vandræðum, þeir munu aldrei vita hvor okkar var að kalla inn á völlinn því við erum með svo líka raddir.”
Að lokum aðspurðir hvort þeir stefni að því að þjálfa saman í framtíðinni svöruðu þeir því báðir til að þeir vonuðust til að það myndi gerast, því þeir séu um flest sammála þegar handbolti er annarsvegar. Sannarlega verður áhugavert að fylgjast með þeim feðgum í kvöld.
Bæði liðin eru í hörkubaráttu um að komast í topp-4 sæti deildarinnar
3. mars 2009 - Akureyri handboltafélag skrifar
Leikur á morgun: Úrslitaleikur gegn HK
Á morgun, miðvikudag kemur hið öfluga lið HK í heimsókn og mætir okkar mönnum í Íþróttahöllinni klukkan 19:00. Liðin hafa mæst tvisvar í vetur, í fyrri leiknum léku Akureyringar við hvern sinn fingur og unnu frækinn átta marka sigur í Höllinni. Í seinni leiknum fór HK með fjögurra marka sigur á lokamínútum leiksins.
Í liði HK eru nokkrir góðkunningjar okkar Akureyringa. Fyrstan skal þar nefna markvörðinn Sveinbjörn Pétursson (Bubba) sem stóð í marki Akureyrar síðustu tvö árin. Varnarjaxlinn Sverre Andreas Jakobsson sem er uppalinn KA maður eins og línumaðurinn Arnar Þór Sæþórsson og vinstri skyttan Ragnar Snær Njálsson.
Þar fyrir utan er lið HK mjög vel mannað og einn þeirra albesti maður, vinstri skyttan Valdimar Fannar Þórsson er markhæsti maður N1-deildarinnar. Ólafur Bjarki Ragnarsson er frábær leikmaður sem þarf sömuleiðis að gefa góðar gætur og þá er ónefndur línumaðurinn Einar Ingi Hrafnsson sem gekk til liðs við HK frá Fram rétt áður en leiktímabilið hófst.
Þjálfari liðsins, Gunnar Magnússon er sem kunnugt er í þjálfarateymi landsliðsins og honum til aðstoðar er enginn annar en Árni Stefánsson þannig að það verður athyglisvert að fylgjast með þegar þeir feðgar Árni og Stefán Árnason mætast á hliðarlínunni!
Það er Ljóst að Akureyringar verða að taka á öllu sínu, jafnt innan vallar sem á áhorfendapöllunum til að knýja fram sigur á miðvikudaginn og taka þannig stórt skref í átt að úrslitakeppninni en bæði liðin eru í baráttunni um sæti þar.
Tónlistaratriðið fyrir leik annast trúbadorinn Einar Höllu og væntanlega verður fleira sér til gamans gert.
Við ítrekum enn og aftur að leikurinn er á miðvikudaginn og hefst klukkan 19:00.