Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15 Frábær sigur Akureyrar á Val 29-25 - Akureyri Handboltafélag
6. desember 2009 - Akureyri handboltafélag skrifar
Myndaveisla frá sigrinum á Val á fimmtudaginn
Okkur hafa nú borist fjölmargar ljósmyndir frá leik Akureyrar og Vals síðasta fimmtudag. Að vanda er það hirðljósmyndari okkar, Þórir Tryggvason sem er á bak við myndavélina. Búið er að raða myndunum í syrpu og hægt að skoða þær hér.
Heiðar Þór kemur úr vinstra horninu og skorar
Það er skammt stórra högga á milli í boltanum þessa dagana en fimmtudaginn 10. desember verður ekki minni stórleikur á dagskrá en þá kemur núverandi topplið deildarinnar, Haukar í heimsókn og að sjálfsögðu verður ekki minni gleði og stemming í Höllinni þá en gegn Val.
6. desember 2009 - Akureyri handboltafélag skrifar
Glaumur og gleði hjá áhorfendum - myndir
Áhorfendur létu ekki sitt eftir liggja í baráttunni gegn Valsmönnum í síðustu viku. Áhorfendastúkan var þéttsetin strax frá upphafsmínútum leiksins og létu menn vel í sér heyra. Stemmingin var ósvikin og smitaði hún út frá sér til strákanna sem klárlega léku sinn besta leik á heimavelli í vetur.
Stuðningsmenn Akureyrar voru sem kunnugt er valdir bestu áhorfendur Íslandsmótsins fyrir síðasta leiktímabil og ljóst að þeir standa undir nafni í dag. Það er gríðarlegur styrkur fyrir liðið að finna stuðninginn sem hefur nú skilað fimm sigurleikjum í röð í N1 deildinni. Áhorfendur hafa því svo sannarlega fengið að upplifa sigurstemmingu, háspennu og gleði í Höllinni.
Jónatan var með gæsahúð eftir leikinn, Rúnar yfirvegaður að vanda
4. desember 2009 - Akureyri handboltafélag skrifar
Hvað sögðu menn eftir Valsleikinn í gær?
Leikmenn og þjálfarar Akureyrar og Vals voru teknir tali af fréttariturum dagblaðanna eftir leikinn í gærkvöldi. Heyrum hvað þeir sögðu um leikinn:
„Þetta var svona gæsahúðarleikur í restina,“ sagði Jónatan Þór Magnússon, leikmaður Akureyrar í viðtali við Andra Yrkil Valsson hjá Mbl. „Ég er mjög ánægður með að við keyrðum áfram á þá alveg fram á síðustu mínútu þar sem vörnin var mjög góð í síðari hálfleik. Þeir fóru bara einfaldlega á taugum undir lokin og við nýttum okkur það
Hjalti Þór Hreinsson fréttaritari Fréttablaðsins ræddi við Rúnar Sigtryggsson eftir leikinn: „Við keyrðum áfram núna. Það kom smá hik í þetta, við tókum leikhlé og ákváðum að keyra á þetta. Það heppnaðist ekkert á tímabili en heilt yfir skilaði þetta sigri. Menn voru ekkert að spara sig fyrir eitthvað sem kemur einhvern tíman seinna. Menn spiluðu leikinn eins vel og þeir gátu og nú er frí í kvöld og menn eiga að hafa það gott,“ sagði brosmildur Rúnar.
„Mér fannst liðið ekki spila neitt sérstaklega vel en ég er samt ánægður með að menn eru ekkert að eiga stjörnuleik kannski, en þeir eru að skila sínu fyrir liðið. Það er liðsheildin sem skilaði þessu. Það er enginn farþegi hjá okkur. Hörður Flóki er dæmi um það. Hann spilar í korter og ver vel og á nokkrar stoðsendingar. Það er rosalega gaman að sjá strákana spila handbolta inni á vellinum. Ég get svosem ekkert gert eftir að leikurinn er byrjaður. Þeir skemmta manni bara.
Íþróttahöllin er að verða gryfja og ég er ánægður með það. Strákunum er líka farið að líða vel að spila fyrir framan þessa áhorfendur. Í gamla daga þegar menn voru í Þór og KA þá vernduðu allir mennina í sínum liðum, og það var aldrei hægt að gagnrýna þá. Núna eru allir í Akureyri og ef menn standa sig ekki fá menn bara að heyra það. Það hefur verið erfitt fyrir suma en menn eru að venjast því.“
Næsti leikur Akureyrar er gegn Haukum eftir viku, toppliðið. Aðspurður hvort liðið ætti heima í toppbaráttunni sagði Rúnar: “Það eru Haukar næst og eftir það kemur það í ljós. Haukar eru besta liðið á landinu í dag sem við eigum eftir að spila við og við sjáum til hvernig gengur,“ sagði Rúnar.
Óskar Bjarni þjálfari Vals var ekki eins hress í viðtali við Andra Yrkil Valsson hjá Mbl: „Þeir voru sterkari í dag, svo einfalt er það í fyrri hálfleik komst vörnin ekki í gang og þar af leiðandi var markvarslan lítil. Þeir voru hins vegar sókndjarfari og það skipti engu hvernig vörn við spiluðum, við vorum alltaf á eftir þeim.“
Akureyringurinn Arnar Þór Gunnarsson í lið Valsmanna ræddi við Hjalta Þór Hreinsson á Fréttablaðinu: „Það sem skildi að var stemningin hjá þeim, hún var mun meiri hjá þeim núna og þeir fengu húsið með sér. Það er erfitt að spila á móti þeim í svona ham. Ég ætla ekki að vera að afsaka neitt en það vantaði Fannar (Þór Friðgeirsson) og hann er bara stór partur í þessu liði. Hann er öflugur varnarmaður og hann stillir upp sókninni. Sóknarleikurinn var þó einn sá besti sem við höfum sýnt í vetur, en vörnin var lélegasta vörn sem við höfum spilað í vetur, þetta snerist hjá okkur. Þetta var alveg ótrúlegt. Bubbi var heldur ekki góður í markinu, en af því vörnin var ekki góð.
Það er algjör snilld að koma hérna norður, þetta er auðvitað minn heimabær og ég kem einhverntíma aftur til að spila með Akureyri. Mér finnst það líklegt,“ sagði Arnór.
Odd er farið að kitla í lófana að klekkja á Valsmönnum
3. desember 2009 - Akureyri handboltafélag skrifar
Leikur dagsins: Akureyri –Valur klukkan 19:00 (lýsing)
Enn er komið að leikdegi hjá okkar mönnum og það enginn smáleikur. Það eru Valsarar sem koma í heimsókn í Íþróttahöllina klukkan 19:00 í dag og við ætlum að taka hraustlega á þeim. Akureyrarliðið hefur verið í góðum gír í deildinni upp á síðkastið, unnið síðustu fjóra leiki og strákarnir vita nákvæmlega til hvers stuðningsmennirnir ætlast í leiknum í dag.
Valsarar eru efstir í deildinni í dag en Haukar eiga reyndar leik til góða og geta farið uppfyrir þá með sigri á HK en sá leikur verður ekki leikinn fyrr en 14. desember.
Í kvöld verður leikin heil umferð í N1-deildinni, hinir leikirnir eru: Grótta – Fram, FH – HK og Haukar – Stjarnan, en þetta er næstsíðasta umferðin fyrir hlé.
Við verðum með beina textalýsingu frá leiknum eins og vanalega fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. Þú smellir hér til að fylgjast með beinu textalýsingunni sem opnast í sérstökum glugga og uppfærist sjálfkrafa á 20 sekúndna fresti.
Einnig ætlar SportTV. is að vera með beina útsendingu á netinu frá leiknum. Þeir félagar hafa áður sent frá leik í Höllinni og allar líkur á að það gangi allt upp. Til að fylgjast með útsendingu SportTV.is skaltu smella hér eða á merkið hér við hliðina.
Aganefnd HSÍ hefur kveðið upp sinn úrskurð
2. desember 2009 - Akureyri handboltafélag skrifar
Valsarinn Fannar Friðgeirsson dæmdur í leikbann
Eins og mönnum er í fersku minni varð mikið havarí í lok leiks Vals og Hauka á sunnudaginn þar sem rauð spjöld fóru á loft með tilheyrandi afleiðingum fyrir viðkomandi leikmenn. Ingvar Árnason leikmaður Vals fékk þar að líta rauða spjaldið sem flestir töldu að ósekju í stað Fannars Friðgeirssonar. Nú hefur aganefnd HSÍ úrskurðað í málinu og sem hér segir:
Ingvar Árnason leikmaður Vals fékk útilokun vegna óíþróttamannslegrar framkomu á síðustu sekúndum leiks Vals og Hauka í M.fl.ka. 29.11.2009. Ljóst er að dómarar fóru leikmannavillt er þeir útilokuðu Ingvar. Ingvar hlýtur því enga frekari refsingu. Fram kom í beinni útsendingu á RUV að það var leikmaður nr. 23 hjá Val, Fannar Þór Friðgeirsson sem var sá seki er Ingvar var útilokaður. Eftir að leik lauk kom Fannar Þór jafnframt til dómara og sagði að það hefði verið hann sem kastaði boltanum í bak Freys. Niðurstaða aganefndar er að Fannar Þór Friðgeirsson er úrskurðaður í eins leiks bann.
Það er því ljóst að Fannar mun ekki leika með Val gegn Akureyri á morgun en væntanlega verður Ingvar í hópnum.
Fannar tekur út leikbannið gegn Akureyri á morgun
Fundargerð aganefndar er á vef HSÍ og er svohljóðandi:
Fundur Aganefndar HSÍ, 1. desember 2009
Mættir voru Gunnar K. Gunnarsson, Rögnvald Erlingsson og Vala Valtýsdóttir. Eftirtalin mál voru fyrir fundinum og voru afgreidd:
Lárus Jónsson leikmaður Fram fékk útilokun vegna grófrar óíþróttamannslegrar framkomu eftir að leik FH og Fram lauk í M.fl.ka. 26.11.2009. Niðurstaða aganefndar er að leikmaðurinn er úrskurðaður í eins leiks bann.
Andri Berg Haraldsson leikmaður Fram fékk útilokun vegna óíþróttamannslegrar framkomu í leik FH og Fram í M.fl.ka. 26.11.2009. Hélt hann uppteknum hætti eftir að leik lauk með orðum við dómara sem flokkast undir grófa óíþróttamannslega framkomu sbr. skýringu 6a í leikreglum. Niðurstaða aganefndar er að leikmaðurinn er úrskurðaður í eins leiks bann.
Freyr Brynjarsson leikmaður Hauka fékk útilokun vegna brots á síðustu sekúndum leiks Vals og Hauka lauk í M.fl.ka. 29.11.2009. Niðurstaða aganefndar er að leikmaðurinn er úrskurðaður í eins leiks bann.
Ingvar Árnason leikmaður Vals fékk útilokun vegna óíþróttamannslegrar framkomu á síðustu sekúndum leiks Vals og Hauka í M.fl.ka. 29.11.2009. Ljóst er að dómarar fóru leikmannavillt er þeir útilokuðu Ingvar. Ingvar hlýtur því enga frekari refsingu. Fram kom í beinni útsendingu á RUV að það var leikmaður nr. 23 hjá Val, Fannar Þór Friðgeirsson sem var sá seki er Ingvar var útilokaður. Eftir að leik lauk kom Fannar Þór jafnframt til dómara og sagði að það hefði verið hann sem kastaði boltanum í bak Freys. Niðurstaða aganefndar er að Fannar Þór Friðgeirsson er úrskurðaður í eins leiks bann.
Önnnur mál lágu ekki fyrir
Gunnar K. Gunnarsson formaður.
Það er sjaldnast lognmolla í kringum leiki Akureyrar og Vals
30. nóvember 2009 - Akureyri handboltafélag skrifar
Einn af risaleikjunum: Akureyri - Valur á fimmtudag
Á fimmtudaginn verður einn af stórleikjum N1 deildar karla þegar Akureyri tekur á móti Val í toppbaráttu deildarinnar. Í dag er Valur tveim stigum ofar en Akureyri og situr á toppi deildarinnar þannig að með sigri á fimmtudaginn nær Akureyri Valsmönnum að stigum.
Liðin mættust í fyrstu umferð N1 deildarinnar á heimavelli Valsmanna. Sá leikur var jafn og spennandi allt til loka. Akureyri saknaði þó Jónatans Magnússonar í leiknum en hann var meiddur og sömuleiðis missti Guðmundur Hólmar Helgason af leiknum vegna veikinda og munar um minna. Eins og áður segir var leikurinn í járnum allan tímann en á lokamínútunum gekk lukkan í lið með Valsmönnum og þeir skoruðu síðustu fjögur mörk leiksins á meðan Akureyri átti nokkur skot í stangirnar.
Í síðasta leik Valsmanna köstuðu þeir hins vegar frá sér sigrinum gegn Haukum í bláokin og misstu unninn leik niður í jafntefli. Þetta hefur verið einkennandi fyrir leiki N1 deildarinnar það sem af er, flestir hafa verið æsispennandi og til marks um það þá enduðu allir leikir 7. umferðar með eins marks sigri eða jafntefli, sem segir allt um spennustigið í handboltanum í dag.
Í fyrrnefndum leik Vals og Hauka á sunnudaginn sauð upp úr á lokasekúndunum og ljóst að einn leikmaður Hauka verður í leikbanni. Ingvar Árnason leikmaður Vals fékk rautt spjald og þar með væntanlega leikbann í næsta leik en mörgum finnst reyndar að það hafi verið skyttan Fannar Þór Friðgeirsson sem var skúrkurinn og hefði átti að fá rauða spjaldið í stað Ingvars. Það er hins vegar spurning hvort og þá hvernig dómstólar HSÍ meðhöndla þetta mál.
Fannar er hér sakleysið uppmálað
Eins og staðan í deildinni gefur til kynna þá er Valsliðið ótrúlega seigt, þeirra öflugasti maður í vetur hefur verið markvörðurinn Hlynur Mothens sem hefur sýnt mikinn stöðugleika og varið vel í öllum leikjum liðsins. Í sókninni eru hörkuskyttur, Ernir Hrafn Arnarson, Fannar Þór Friðgeirsson og Elvar Friðriksson sem ekki má líta af. Þá er ótalinn Akureyringurinn og baráttujaxlinn Arnór Þór Gunnarsson sem leikur jafnt sem hægri hornamaður eða skytta og er ævinlega fyrsti maður fram í hraðaupphlaupum sem eru einmitt eitt allra skæðasta vopn Valsmanna.
Hlynur Morthens, Ernir Hrafn, Elvar Friðriksson og Arnór Þór Gunnarsson
Akureyrarliðið hefur verið á góðri siglingu undanfarið, unnið síðustu fjóra leikina og klárt mál að strákarnir hafa hjarta og karakter til að klára leik sem þennan og sýna að þeir eru menn til að blanda sér af fullri alvöru í toppbaráttuna. Þar spila einnig áhorfendur lykilhlutverk en strákarnir hafa haft einstakt lag á að halda stuðningsmönnum sínum á tánum fram á síðustu sekúndur heimaleikjanna.