Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15 Flottur sigur á Akureyrar á FH og staða liðsins vænleg - Akureyri Handboltafélag
Enn einu sinni kom í ljós hversu frábærir stuðningsmenn Akureyrar Handboltafélags eru en þeir voru hreint út sagt magnaðir á leiknum gegn FH. Stemmingin var ósvikin frá upphafi og þegar FH hafði unnið sig inn í leikinn í seinni hálfleik tvíefldust áhorfendur og studdu kröftuglega við bakið á sínum mönnum.
Þórir Tryggvason ljósmyndari sendi okkur helling af myndum sem flestar sýna fjörið á bekkjunum.
SportTV.is gerir það ekki endasleppt - bein útsending frá leiknum
18. mars 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar
Leikur dagsins: Akureyri – FH í beinni á SportTV.is
Stórleikur 16. umferðar N1 deildarinnar er klárlega á Akureyri í kvöld þegar FH kemur í heimsókn í Höllina. Það hefur vonandi ekki farið fram hjá neinum að KEA býður öllum frítt á leikinn og kunnum við þeim að sjálfsögðu bestu þakkir fyrir. Það má búast við fjölmenni og dúndurstemmingu í Höllinni enda er þetta einn af úrslitaleikjunum í toppbaráttunni.
Fyrir þá sem ekki komast í Höllina getum við bent á að SportTV.is verður á staðnum með sinn búnað og ætlar að sýna leikinn beint á netinu. Leikurinn hefst klukkan 19:00 og má gera ráð fyrir að útsendingin á SportTV.is hefjist nokkrum mínútum áður.
Að sjálfsögðu eru hefðbundnar veitingar fyrir leik og í hálfleik fyrir meðlimi stuðningsmannaklúbbsins.
Eins og kemur fram hér annarsstaðar á síðunni þá verður ekki af áður auglýstum tónleikum Stórsveitar Tónlistarskólans í dag en þess í stað er ætlunin að bregða upp sýnishornum frá tónleikum hljómsveitarinnar Lynyrd Skynyrd.
Síðan er rétt að vekja athygli á því að Ríkissjónvarpið verður með leik Gróttu og Akureyrar í beinni útsendingu klukkan 16:00 á sunnudaginn. Þessu ber að sjálfsögðu að fagna en þess má geta að RUV hefur ekki sýnt beint frá leik Akureyrar síðan 18. október 2008.
Það verða Lynyrd Skynyrd sem hlaupa í skarðið fyrir Stórsveitina í dag
18. mars 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar
Forföll hjá Stórsveit Tónlistarskólans á Akureyri
Eins og búið var að auglýsa rækilega ætlaði Stórsveit Tónlistarskólans á Akureyri að halda tónleika fyrir áhorfendur á leik Akureyrar og FH í dag. Af óviðráðanlegum ástæðum þarf hljómsveitin að boða forföll og því getur ekki orðið af því að þessu sinni.
Þess í stað verður varpað upp sýnishornum frá tónleikum hinnar frábæru hljómsveitar Lynyrd Skynyrd. Flestir ættu að þekkja hið sígilda lag þeirra Sweet Home Alabama sem verður klárlega tekið í kvöld.
Þrátt fyrir ýmiss skakkaföll í gegnum tíðina þá er hljómsveitin enn í fullu fjöri og hélt eftirminnilega tónleika í London þann 6. mars síðastliðinn og geta menn hér séð stemminguna þegar sveitin tekur sitt þekktasta lag.
Frábært framtak KEA manna
16. mars 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar
KEA býður öllum handboltaáhugamönnum á FH leikinn!
Það fer ekki á milli mála að leikur Akureyrar og FH á fimmtudaginn er einn af stærstu leikjum tímabilsins enda mikið í húfi fyrir bæði lið. KEA hefur ákveðið að bjóða öllum frítt á leikinn þannig að nú er kjörið tækifæri fyrir alla áhugamenn að drífa sig í Höllina og styðja við bakið á sínum mönnum.
FH hefur reynst Akureyri afar erfiðir hér á okkar heimavelli þannig að það er fullur hugur í Akureyrarstrákum að snúa nú við taflinu með dyggum stuðningi áhorfenda.
Í forföllum Stórsveitar Tónlistarskólans á Akureyri verður varpað upp sýnishornum frá tónleikum suðurríkjasveitarinnar Lynyrd Skynyrd fyrir leik og í hálfleik.
Taktu því frá fimmtudaginn, leikurinn hefst klukkan 19:00 og rétt að mæta tímanlega, það verður áreiðanlega hvert sæti í Höllinni setið, þökkum KEA fyrir framtakið.
FH hefur ekki tapað stigi í Höllinni undanfarin tvö ár
15. mars 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar
Risaleikur gegn FH og Stórsveitin í Höllinni á fimmtudaginn
Það verður svo sannarlega fjör í Íþróttahöllinni á fimmtudaginn þegar Akureyri og FH mætast í toppbaráttunni í N1 deild karla. Akureyri er í 2. sæti deildarinnar með 20 stig en FH er einungis einu stigi á eftir þannig að það er mikið í húfi í þessum leik.
FH hefur leikið Akureyri grátt þegar liðin hafa mæst hér á Akureyri síðastliðin tvö tímabil. Tveir deildarleikir og einn bikarleikur þar sem FH hefur farið með sigur af hólmi í þeim öllum. Það er því sannarlega kominn tími á að Akureyri reki Hafnarfjarðargýluna úr Höllinni í eitt skipti fyrir öll.
Akureyri vann sannfærandi sigur á Stjörnunni í síðasta leik og hefur verið á góðri siglingu í síðustu leikjum. Leikmenn hafa sýnt fína baráttu, kraft og sigurstemmingu í síðustu leikjum sem er að sjálfsögðu miklu skemmtilegri heldur hitt.
FH ingar eru svo sannarlega með frábært lið eins og við höfum fengið að kynnast í vetur og gerðu sér lítið fyrir og lögðu nýkrýnda bikarmeistara Hauka að velli á sannfærandi hátt í síðustu umferð.
Við eigum von á glæsilegum gestum í Höllina á fimmtudaginn en Stórsveit Tónlistarskólans á Akureyri ætlar að spila fyrir leik og í hálfleik undir stjórn Alberto Carmona.
Alberto Carmona flottur við stjórnvölinn
Hljómsveitin fór á kostum í Höllinni í fyrravetur
Hljómsveitin kom einnig fram í tengslum við leik í fyrravetur og var hreint út sagt frábær.
Stuðningsmenn geta því farið að hlakka til fimmtudagsins, glæsilegir tónleikar og rafmagnaður handboltaleikur, það verður ekki betra!