Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15
Akureyringarnir í HK kláruðu Akureyri - Akureyri Handboltafélag
  Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Fyrri leiktímabil

Tímabilið 2009-10

Leikmenn meistarafl. karla
Úrslit leikja
Deild karla




Ljósmyndir frá leiknum     Textalýsing frá leiknum     Tölfræði leiksins 
    Akureyri - HK  22-24 (9-13)
N1 deild karla
Íþróttahöllin
Mán 5. apríl 2010 klukkan: 19:30
Dómarar: Brynjar Einarsson og Vilbergur F. Sverrisson
Umfjöllun

Rúnar kom inn í vörnina og stóð fyrir sínu

5. apríl 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar

Akureyringarnir í HK kláruðu Akureyri

Akureyri tapaði í kvöld sínum fjórða leik í röð í N1 deild karla í handbolta þegar liðið lá gegn HK 22-24 eftir miklar spennumínútur í lokin. Segja má að slakur fyrri hálfleikur hafi orðið okkar mönnum að falli því hefði liðið spilað hann þó ekki nema hefði verið sæmilega þá hefði það sennilega staðið uppi sem sigurvegari í kvöld.
Sveinbjörn „Bubbi“ Pétursson, fyrrverandi leikmaður Akureyrar og núverandi markvörður HK var ótrúlegur í fyrri hálfleiknum og varði hvorki fleiri né færri en 19 skot, mörg þeirra voru reyndar mjög slök en það verður ekki tekið af Bubba að hann var frábær.


Sveinbjörn var yfirburðamaður á vellinum í dag

Í sóknarleiknum var annar fyrrum leikmaður Akureyrar, Atli Ævar Ingólfsson strákunum gríðarlega erfiður og skoraði fjöldann allan af mörkum af línunni, ásamt því að opna vel fyrir skyttur HK-liðsins með því að láta Akureyringa hafa virkilega fyrir sér í hverri einustu sókn.


Atli Ævar var Akureyri gríðarlega erfiður

Það má því sannarlega segja að Akureyringarnir í HK hafi verið sínum fyrrum félögum banabiti í kvöld.

HK-liðið var hins vegar langt frá því að vera frábært í kvöld, og raunar ekki meira en sæmilegt en því miður voru okkar menn í Akureyri einfaldlega enn slakari lengst af. Lykilmenn virðast einfaldlega ekki vera að ná sér á strik og er það náttúrulega skelfilegt á þessum tímapunkti á tímabilinu þegar allt er undir og hvert einasta stig er gulls í gildi.

En aftur að leiknum. Eftir slakan fyrri hálfleik var staðan 13-9 HK í vil, Akureyri byrjaði hins vegar síðari hálfleik vel og náði að minnka muninn fljótlega í eitt mark, þeim gekk hins vegar erfiðlega að jafna og tókst það ekki fyrr en um 8 mínútur lifðu leiks þegar sterkasti maður Akureyrar í leiknum, Oddur Gretarsson jafnaði leikinn úr hraðaupphlaupi í 20-20. Eftir fylgdi mikill barningur og verður það að viðurkennast að dómarar leiksins voru í það minnsta ekki á þeim buxunum á að láta halla á gestina því þeir fengu að spila langar sóknir auk þess sem þeir ráku Guðlaug Arnarson útaf á gríðarlega mikilvægum tímapunkti fyrir litlar sakir. Það skal þó tekið fram að ekki er hægt að kenna dómurunum um þennan ósigur í kvöld.


Hreinn Hauksson fékk mikið högg og varð að yfirgefa völlinn nefbrotinn

Árni Sigtryggsson minnkaði muninn í 22-23 þegar tæpar fjórar mínútur lifðu leiks. HK fékk tæpar tvær mínútur í sókn sem endaði með að dæmd var lína á þá, en þá höfðu þeir reyndar þegar skotið í slá og látið Flóka verja tvisvar frá sér en alltaf náð boltanum aftur. Akureyri fékk boltann og hélt í sókn sem endaði með því að Árni var óheppinn með skot sitt sem endaði í þverslá HK marksins þegar rúm mínúta var eftir. HK náði boltanum og hélt í sókn sem endaði með marki þegar 15 sekúndur voru til leiksloka og tíminn of naumur til að jafna. Lokatölur eins og áður sagði 24-22 gestunum í vil.

Mörk Akureyrar: Oddur Grétarsson 9 (4 úr vítum), Árni Þór Sigtryggsson 5, Guðmundur H. Helgason 3, Halldór Logi Árnason 2, Guðlaugur Arnarsson 2, Jónatan Magnússon 1.
Varin skot: Hörður Flóki Ólafsson 17.

Vegna úrslita annarra leikja í kvöld geta strákarnir þó enn treyst á sig sjálfa, því sigur gegn Haukum á útivelli á fimmtudag í lokaumferð deildarinnar tryggir sæti í úrslitakeppninni. Tapi liðið hins vegar þeim leik verða Akureyringar að treysta á að HK vinni FH-inga á heimavelli sínum í Kópavogi. Við að sjálfsögðu treystum því að strákarnir hafi þetta einfalt og rífi sig einfaldlega upp eftir þessa fjögurra leikja taphrinu og klári Haukana.

Jón Stefán Jónsson

Tengdar fréttir

Það er allt undir í leiknm í dag

5. apríl 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar

Leikur dagsins: Akureyri - HK

Dramatíkin í N1 deildinni heldur áfram í dag þegar næstsíðasta umferð N1 deildarinnar verður leikin. Baráttan um sæti í úrslitakeppninni er æsispennandi en með sigri í dag fer Akureyri langt með að tryggja sig í 4 liða úrslitin. Leikurinn hefst klukkan 19:30 í dag sem er hálftíma seinna en við erum vön á heimaleikjum en sá leiktími kemur til af því að samkvæmt reglum HSÍ verða allir leikir síðustu tveggja umferðanna að fara fram samtímis.

Akureyri og HK hafa mæst tvisvar í vetur og sigraði Akureyri í báðum leikjunum. HK liðið gerði sér hins vegar lítið fyrir og lagði Hauka að velli í síðasta leik 24-22 þannig að þeir mæta klárlega baráttuglaðir í leikinn.

Akureyri tapaði hins vegar fyrir Val í síðustu umferð með sömu markatölu. Í þeim leik byrjaði liðið herfilega en náði fínum leik seinni hluta leiksins og var raunar óheppið að fá ekki eitthvað út úr þeim leik. Hann sýnir strákunum þó að þeir þurfa að mæta til leiks strax í upphafi og berjast eins og grenjandi ljón fyrir sínu.

Eins og kunnugt er þá eru tveir fyrrum leikmenn Akureyrar í liði HK, markvörðurinn geðþekki Sveinbjörn Bubbi Pétursson og baráttujaxlinn Atli Ævar Ingólfsson sem hefur heldur betur blómstrað á línunni hjá HK í vetur.


Sveinbjörn og Atli Ævar heilsa áhorfendum í Höllinni fyrr í vetur

Minnum á að leikurinn hefst klukkan 19:30 í kvöld og hægt verður að fylgjast með honum hér í textalýsingu. Lýsingin opnast í sérstökum glugga sem endurnýjast á 20 sekúndna fresti.

Smelltu hér til að fylgjast með lýsingunni.


Til baka    Senda á Facebook

Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson