Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15
Frækinn útisigur á Val - heimaleikur á laugardagskvöldið - Akureyri Handboltafélag
  Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Fyrri leiktímabil

Tímabilið 2009-10

Leikmenn meistarafl. karla
Úrslit leikja
Deild karla




Ljósmyndir frá leiknum     Myndband frá leiknum      Tölfræði leiksins 
    Valur - Akureyri  24-27 (14-13)
N1 deild 4-liða úrslit
Vodafonehöllin
Fim 22. apríl 2010 klukkan: 16:00
Dómarar: Magnús Kári Jónsson og Kári Garðarsson, eftirlitdómari: Helga Magnúsdóttir
Umfjöllun

Höddi, Oddur og Hafþór fóru fyrir frábæru liði í dag





22. apríl 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar

Frækinn útisigur á Val - heimaleikur á laugardagskvöldið

Lið Akureyrar braut blað í sögu félagsins í dag á margan hátt. Ekki nóg með að liðið sigraði í sínum fyrsta leik í úrslitakeppni Íslandsmótsins heldur vann liðið sinn fyrsta útisigur á Valsmönnum og þetta var svo sannarlega góður dagur til slíkra hluta. Ekki hægt að gefa stuðingsmönnum betri sumargjöf.

Það leit reyndar ekkert alltof vel út í byrjun leiks og Valsmenn virtust hafa leikinn í hendi sér. Þeir skoruðu fyrstu tvö mörk leiksins og eftir nokkurra mínútna leik var staðan 6-2 Val í vil. Vörn Akureyrar náði sér ekki á strik og Hörður Flóki átti ekki mikla möguleika í markinu. Á sama tíma varði Hlynur Morthens eins og berserkur í Valsmarkinu.

Munurinn varð 8-3 en þá loks vaknaði Akureyrarliðið til lífsins. Þrjú mörk í röð hleyptu lífi í leikinn og baráttan kom í varnarleikinn og þar með tók Flóki nokkra góða bolta í markinu.

Eftir rúmlega þrettán mínútna leik varð Árni Sigtryggsson fyrir fólskulegri árás þegar Ingvar Árnason hreinlega lamdi hann í andlitið. Á einhvern óskiljanlegan hátt slapp Ingvar með einungis tveggja mínútna brottrekstur en eins og kom greinilega fram í endursýningu sjónvarpsins var hér ekki um neitt óviljaverk að ræða. Árni varð að yfirgefa völlinn og kom lítið við sögu það sem eftir lifði leiks.

Valur hélt frumkvæðinu en það var ljóst að Akureyrarliðið var komið á skrið. Hörður Fannar var öflugur á línunni sótti ófá vítaköst sem Oddur skilaði af öryggi í netið. Geir Guðmundsson leysti Árna af hólmi í skyttunni og skoraði tvö mikilvæg mörk. Oddur svo til þess að forysta Vals var einungis eitt mark í hálfleik, 14-13.
Hafþór kom í markið í stöðunni 11-8 og fann sig fljótlega, varði þrjú skot undir lok hálfleiksins.
Valsmenn gátu fyrst og fremst þakkað Hlyni markverði sínum að hafa forystu í hálfleik en hann varði sextán skot í hálfleiknum og þar af mörg úr dauðafærum.


Það var vel tekið á því í vörninni,
Höddi og Oddur stobba Baldvin Þorsteinsson Mynd: mbl.is/Eggert

Akureyri hóf seinni hálfleikinn af miklum krafti, skoruðu fyrstu þrjú mörkin og komnir með tveggja marka forystu 14-16. Liðið hreinlega blómstraði og það geislaði af liðinu. Varnarleikurinn small saman og Hafþór í sínu besta formi þar fyrir aftan. Valsmenn virtust slegnir út af laginu og glutruðu frá sér boltanum hvað eftir annað.

Vissulega klúðraði Akureyri boltanum nokkrum sinnum líka en Hafþór kom oftar en ekki til bjargar á örlagastundu.

Akureyri hélt frumkvæðinu næstu mínútur en í stöðunni 17-18 kom frábær kafli þar sem Akureyri náði fjögurra marka forystu 17-21 og ljóst að strákarnir höfðu fulla trú á verkefninu.
Valsmenn neituðu að gefast upp og minnkuðu muninn í eitt mark, 21-22 en Guðmundur Hólmar Helgason svaraði með glæsilegu marki sem Jonni og Oddur fylgdu eftir með sínu markinu hvor, staðan 21-25 og skammt til leiksloka.

Síðustu andartök leiksins gerðu Valsmenn örvæntingarfulla tilraun til að hleypa leiknum upp en Akureyrarliðið var öryggið uppmálað og landaði glæsilegum sigri 24-27.

Eftir erfiða byrjun var það klárlega dugnaðurinn og baráttan í vörninni sem var lykillinn að sigrinum auk þess sem Hafþór átti einn sinn traustasta leik í markinu í seinni hálfleiknum. Allir skiluðu varnarhlutverkum sínum með sóma og sóknarlega komu margir fínir sprettir þó við eigum klárlega nokkuð inni þar.

Hörður Fannar lék eins og engill, skoraði sex mörk og fiskaði fimm vítaköst. Oddur var öruggur á vítalínunni að vanda.

Mörk Akureyrar: Oddur Gretarsson 11 (6 úr vítum), Hörður Fannar Sigþórsson 6, Geir Guðmundsson 3, Jónatan Magnússon 3, Hreinn Hauksson 2, Árni Sigtryggsson og Guðmundur Hólmar Helgason 1 mark hvor.

Hörður Flóki Ólafsson varði 3 skot og Hafþór Einarsson 16 skot.

Mörk Vals: Arnór Þór Gunnarsson 10 (7 úr vítum), Fannar Þór Friðgeirsson 7, Baldvin Þorsteinsson 3, Elvar Friðriksson 2, Ingvar Árnason 1, Sigurður Eggertsson 1.
Hlynur Morthens varði 24 skot, þar af 1 vítakast.

Þrátt fyrir þennan glæsta sigur verður að hafa í huga að nú er einungis leikhlé í viðureigninni. Baráttan heldur áfram á laugardagskvöldið og með sömu baráttu og fullri höll af áhorfendum þurfa menn að taka saman og klára verkefnið.

Á vefinn sport.is eru komnar fjölmargar skemmtilegar myndir frá leiknum, umfjöllun Snorra Sturlusonar og videóviðtöl.


Sigurstemming í leikslok og kampakátir stuðningsmenn Akureyrar sem yfirgnæfðu ótrúlega fámenna sveit heimamanna - Mynd: Hilmar Þór/sport.is

Smelltu hér til að skoða myndir og umfjöllun á sport.is og hér til að horfa á viðal við Jónatan Magnússon.

Tengdar fréttir

Árni Sigtryggsson sækir að Valsmarkinu eftir nefbrotið!

23. apríl 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar

Myndir frá leik Vals og Akureyrar

Á visir.is eru komnar myndir úr Vodafone-höllinni frá viðureign Vals og Akureyrar í gær. Það var Daníel Rúnarsson, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis sem smellti af þessum myndum. Hér er eitt sýnishorn þar sem Valsvörnin reynir að stöðva Hörð Fannar Sigþórsson með öllum ráðum.

Smelltu á myndina til að skoða allar myndirnar á visir.is.

Einnig bendum við á að hægt er að skoða myndir á sport.is.


Árni er nefbrotinn eftir leikinn



23. apríl 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar

Hvað sögðu menn eftir leikinn?

Það var létt yfir leikmannahópi Akureyrar þegar þeir stigu út úr flugvélinni við komuna heim í kvöld. En menn eru jarðbundnir og gera sér fulla grein fyrir því að sigurinn er ekki unninn, leikurinn á laugardagskvöldið verður rosalegur og ekkert fyrirfram gefið þar.

Leikurinn tók sinn toll því að Árni Sigtryggsson er nefbrotinn eftir glórulausa árás Ingvars Árnasonar en hann fer væntanlega í meðhöndlun á morgun. Aðrir minna laskaðir en munu ekki láta það á sig fá.

Þess má geta að Haukar unnu í kvöld HK með tveimur mörkum 22-20 í fyrstu viðureign liðanna.

Fjölmiðlar hafa birt viðtöl við nokkra úr hópnum og fara þau hér á eftir:

Elvar Geir Magnússon fréttaritari visir.is talaði við Rúnar Sigtryggsson sem hvetur bestu stuðningsmenn landsins til að fjölmenna á laugardagskvöldið:

„Þetta var mjög ánægjulegur sigur,“ sagði Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Akureyrar, sem vann frábæran sigur á Hlíðarenda í dag. Akureyri getur nú tryggt sér í úrslit með því að leggja Valsmenn norðan heiða á laugardag.

„Það er ekkert nýtt hjá okkur að við erum lengi að finna taktinn. Menn halda þó haus þrátt fyrir að þetta hafi verið lengi að koma. Við misstum Val ekki mjög langt frá okkur og komumst til baka í leikinn.

„Þrátt fyrir að ýmislegt hafi verið á móti okkur kláruðum við þetta samt. Við spiluðum meiri vörn en þeir, slepptum einhverjum fólskubrotum,“ sagði Rúnar.

„Það er bara hálfleikur eftir þennan leik. Við þurfum á öllu okkar að halda til að vinna Val, hvort sem það er heima eða úti. Við biðlum til okkar bæjarbúa að koma því þetta verður mjög erfitt á laugardaginn. Við þurfum allan þann stuðning sem til er í bænum.“

Fréttablaðið birtir einnig stutt viðtal Elvars Geirs við baráttujaxlinn Hörð Fannar Sigþórsson:

„Þegar við vorum orðnir heitir small þetta allt saman, vörnin komst í lag og sóknarleikurinn gekk miklu betur,“ sagði Hörður Fannar Sigþórsson, leikmaður Akureyrar, eftir glæsilegan sigur norðanmanna gegn Val á Hlíðarenda í gær.
„Það var meiri barátta í okkur. Þetta eru tvö jöfn lið á velli en þetta er bara spurningin um hvort liðið langar meira að vinna,“ sagði Hörður.

Ívar Benediktsson blaðamaður Morgunblaðsins talaði við hershöfðingjann Guðlaug Arnarsson sem var hógværðin uppmáluð eftir leikinn.

„Það var ekki bara ég, vörnin í heild var mjög góð,“ sagði Guðlaugur Arnarsson, hershöfðinginn í vörn Akureyrar, hæverskur þegar Morgunblaðið náði tali af honum eftir sigur Akureyrar á Val í fyrsta undanúrslitaleik liðanna í N1-deild karla í handknattleik í gær.

„Við lékum bara vel sem heild í vörninni, menn hreyfðu sig vel frá horni til horns. Út á það gengur góður varnarleikur og hann gekk frábærlega að þessu sinni.“

Akureyringar byrjuðu leikinn illa og lentu fimm mörkum undir um tíma, 8:3, en létu slæma byrjun ekki slá sig út af laginu.

Guðlaugur segir Akureyrarliðið ekki vera óvant að fara illa af stað í leikjum en vinna sig síðan inn í þá. „Ég veit ekki hvort það er vegna þess að við erum nokkrir í liðinu sem erum farnir að eldast og þurfum góðan tíma til þess að komast í gang,“ sagði Guðlaugur á léttu nótunum enda glaður með sigurinn.

„Sem betur fer misstum við Valsmenn ekki langt frá okkur. Síðan tókst okkur smátt og smátt að nálgast Valsmenn eftir því sem á fyrri hálfleikinn leið. Í hálfleik fundum við að vörnin var að smella saman hjá okkur og það gekk síðan eftir þegar inn í síðari hálfleikinn kom. Það byggist svo margt á varnarleiknum.“

Guðlaugur segir að ekki aðeins hafi varnarleikur Akureyrarliðsins verið góður heldur hafi sóknin verið fín. „Við gættum þess að spila af yfirvegun og það skilaði okkur mörkum.“

Guðlaugur undirstrikar að ekki sé sopið kálið hjá Akureyrarliðinu og það hafi ekki tryggt sér sæti í úrslitum. Framundan sé annar leikur við Val á Akureyri annað kvöld. „Þá verður líka stríð. Við eigum möguleika á að brjóta blað í sögu Akureyrar - handboltafélags með sigri með því að vinna á laugardag. Við treystum bara á að Akureyringar fjölmenni á leikinn, fylli Höllina og styðji okkur. Við munum gefa allt í leikinn,“ segir Guðlaugur Arnarsson, leikmaður Akureyrar.


Morgunblaðið ræddi við markvörðinn Hafþór Einarsson sem einnig óskar eftir stuðningi bæjarbúa á laugardaginn:

„Það var virkilega gaman að sjá hversu vel okkur tókst að halda dampi allan leikinn í dag þegar svo mikið var í húfi,“ sagði Hafþór Einarsson, markvörður Akureyrar, eftir sigur liðsins á Val, 27:24, í fyrstu viðureign liðanna í undanúrslitum úrvalsdeildar karla í handknattleik.

Hafþór átti stórleik í marki Akureyrar og varði 17 skot, þar af 14 í síðari hálfleik. „Mér gekk vel í síðari hálfleik og það var ekki síst vegna þess að vörnin var mjög góð. Fyrir vikið náðu Valsmenn ekki eins góðum skotum og þeir hefði annars náð hefði vörnin verið lakari eins og hún var framan af fyrri hálfleik.“

Hafþór og félagar geta tryggt sér sæti í úrslitum Íslandsmótsins takist þeim að leggja Val öðru sinni í Höllinni á Akureyri á laugardagskvöldið. Hafþór segist treysta á að Akureyringar fjölmenni á leikinn eins og þeir hafi gert til þess á keppnistímabilinu og reyndar í fyrra líka. Stuðningurinn geti gert gæfumuninn.
„Ég vonast eftir fullu húsi áhorfenda og frábærri stemningu. Þá getum við stígið næsta skref og komist alla leið í úrslitin. Það væri alveg hreint frábær,“ sagði Hafþór Einarsson, markvörður Akureyrar.

Síðan bendum við á vídeóviðtöl á sport.is við fyrirliðann, Jónatan Magnússon og þar er einnig viðtal við þjálfara Vals Óskar Bjarna Óskarsson.

Til baka    Senda á Facebook

Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson