Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15
Glæsilegur sigur Akureyrar á Haukum í kvöld - Akureyri Handboltafélag
  Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Fyrri leiktímabil

Tímabilið 2010-11

Leikmenn meistarafl. karla
Úrslit leikja
Deild karla




Ljósmyndir frá leiknum     Textalýsing frá leiknum     Tölfræði leiksins 
    Akureyri - Haukar  25-19 (12-10)
N1 deild karla
Íþróttahöllin
Fös 22. október 2010 klukkan: 19:00
Dómarar: Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson
Umfjöllun

Sveinbjörn var maður vallarins í kvöld

22. október 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar

Glæsilegur sigur Akureyrar á Haukum í kvöld

Akureyri hafði ekki unnið Hauka á heimavelli í sögu félagsins þegar liðin mættust í Íþróttahöllinni í kvöld og raunar tapað síðustu heimaleikjum gegn Hafnfirðingum með miklum mun. Hafi hins vegar einhvertíman verið ástæða til bjartsýni gegn Haukum, þá var það í kvöld. Okkar menn hafa byrjað tímabilið einkar vel en Haukarnir farið lítið meira en sæmilega af stað.
Enda kom það á daginn að Akureyri vann leikinn og var sigurinn einkar sannfærandi.

Eitthvað virtist það ætla ganga brösuglega hjá mönnum að skora í kvöld, staðan eftir tíu mínútna leik var til að mynda ekki nema 2-1 en upp frá því fór nú aðeins að losna um og þá sér í lagi Hauka megin. Eftir um 20 mín leik í fyrri hálfeik höfðu Akureyringar náð 2 marka forskoti í 8-6 sem hélst út að hálfleik en þá var staðan 12-10 okkar mönnum í vil.

Hafi einhverntíman verið vafi á að Akureyri væri betra liðið í leiknum þá fór sá vafi allur í byrjun síðari hálfleiks þegar Akureyingar léku manni færri 4 af fyrstu 5 mínútunum vegna brottvísana en héldu samt forskoti sínu í tveimur mörkum. Enda kom það á daginn að þegar liðið var fullmannað á ný fór munurinn að aukast og var hann orðin fimm mörk 19-14 þegar tæplega korter var eftir af leiknum. Haukar komust næst niður í þriggja marka mun 10 mínútum fyrir leikslok en Akureyri jók muninn jafn harðan á ný og endaði á að landa tiltölulega þægilegum sigri 25-19.

Sigurinn geta Akureyringar fyrst og fremst þakkað frábærum varnarleik liðsins og stórbrotinni markvörslu frá besta manni vallarins í kvöld, Sveinbirni Péturssyni. Alls varði hann 22 skot og mörg þeirra á glæsilegan hátt. Eitthvað virtust Haukarnir líka smeykir við hann því þeir skutu hvað eftir annað yfir og framhjá markinu úr ágætis færum. Það herbragð Akureyringar að taka Björgvin Hólmgeirsson stórskyttu Haukanna úr umferð virtist koma gestunum á óvart og komst sóknarleikur þeirra eiginlega aldrei í gang í leiknum.

Í sókninni hjá var Bjarni Fritzson mjög góður og setti 8 mörk ásamt nokkrum stoðsendingum, en einnig var Heimir Örn virkilega góður og skynsamur í sínum aðgerðum. Oddur tók svo við keflinu þegar Heimir fór að þreytast seinni part leiksins.

Heilt yfir fínn leikur hjá Akureyrarliðinu sem spilaði nokkuð agaðan og góðan leik í kvöld og þá sérstaklega varnarlega. Sóknarleikurinn var ágætur en getur eflaust orðið betri.

Mörk Akureyrar: Bjarni Fritzson 8 (1 víti), Oddur Gretarsson 6 (1 víti), Heimir Örn Árnason 5, Geir Guðmundsson 4, Halldór Logi Árnason 2.

Markvarsla: Sveinbjörn Pétursson 22 þar af 1 víti.

Mörk Hauka: Þórður Rafn Guðmundsson 5 (3 víti), Freyr Brynjarsson 3, Björgvin Hólmgeirsson 3, Heimir Óli Heimisson 2, Gísli Jón Þórisson 2, Stefán Rafn Sigurmannson 2, Einar Örn Jónsson 1, Tjörvi Þorgeirsson 1.
Markvarsla: Birkir Ívar Guðmundsson 10 og Aron Rafn Eðvarðsson 10.

Glæsileg byrjun Akureyrar á tímabilinu er orðin staðreynd, fimm leikir, fimm sigrar þar af fjórir í deild og liðið situr eitt á toppi deildarinnar að minnsta kosti þar til á morgun þegar HK tekur á móti FH. Með sigri jafna FH-ingar okkar menn að stigum.

Ekki er hægt að skilja við leikinn í kvöld án þess að minnast á hina gríðarlega skemmtilegu stemmningu sem var í Höllinni í kvöld en um 800 manns mættu á leikinn og héldu uppi góðri stemmningu frá upphafi leiks til enda. Áfram svona Akureyringar, innan vallar sem og utan!!

Jón Stefán Jónsson

Staðan að lokinni 4. umferð
Nr. FélagLeikir U J TMörkHlutfallStig-
1. Akureyri4400126 : 102248:0
2. HK4301130 : 13006:2
3. FH4301125 : 104216:2
4. Fram4202133 : 115184:4
5. Haukar420291 : 101-104:4
6. Afturelding410396 : 108-122:6
7. Selfoss4103107 : 120-132:6
8. Valur4004107 : 135-280:8

Tengdar fréttir

Skemmtileg upprifjun á frábærum leik

7. nóvember 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar

Myndasería frá leik Akureyrar og Hauka komin á YouTube

Þórir Tryggvason var að senda okkur glæsilega myndaseríu frá leik Akureyrar og Hauka þann 22. október síðastliðnum. Þórir fékk Andra Má Þórhallsson í lið með sér við samsetningu á myndunum og er hún komin á Youtube.com.



Þú getur látið myndaseríuna fara yfir allan skjáinn með því að smella á örvahnappinn neðst til hægri á spilaranum og að sjálfsögðu er tónlist með!

Nú eru framundan tveir heimaleikir, fimmtudaginn 11. nóvember er deildarleikur gegn Selfossi og mánudaginn 15. nóvember er bikarleikur gegn Aftureldingu. Við reiknum að sjálfsögðu með því að það verði sama stemming og fjör í Íþróttahöllinni þá eins og myndarunan hér að ofan sýnir.

Takk fyrir þetta Þórir og Andri Már!


Morgunæfingarnar í sumar hafa gert Heimi gott

25. október 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar

Mismunandi kátir leikmenn og þjálfarar eftir Haukaleikinn

Eins og venjulega höfum við tínt saman glefsur úr viðtölum blaðamanna við leikmenn og þjálfara liðanna eftir leikinn. Byrjum á spjalli Hjalta Þórs Hreinssonar á Fréttablaðinu en hann spjallaði við sigurreifan Atla Hilmarson þjálfara Akureyrar:

Atli Hilmarsson sagðist vera stoltur af liðinu sínu eftir frækinn sex marka sigur á Haukum í kvöld. Akureyri var alltaf skrefi á undan og Haukar aldrei líklegir til að ná í stig, hvort sem það var eitt eða tvö.
„Það á enginn að vinna okkur þegar við spilum þessa vörn og með Bubba í stuði í markinu,“ sagði kampakátur Atli Hilmarsson sem var stoltur af sínum mönnum. „Við höfum spilað þrjá leiki á einni viku og unnið þá alla svo ég er stoltur. Björgvin er þeirra langbesti maður sóknarlega og við veðjuðum á réttan hest þar. Vörnin var frábær og Bubbi sá um rest. Hefðum við nýtt færin okkar betur hefðum við unnið með meiri mun.

Þetta hefur gengið vel, það er góð stemming hérna en þetta er bara rétt að byrja. Við eigum stórhættulegan leik við Val í næstu umferð, lið sem á gjörsamlega allt inni, og við þurfum að hvíla okkur vel í landsleikjahléinu og nýta þessa 10 daga í góðan undirbúning,“ sagði Atli.

Hjalti ræddi sömuleiðis við brosmildan Heimi Örn Árnason:
„Helvítis morgunæfingarnar í allt sumar klukkan 6 hjá Dino (Dean Martin, innsk.) eru að skila sér,“ sagði Heimir Örn brosandi en hann stýrði sókn Akureyrar vel. „Ég fann það eftir fimm mínútur að við myndum vinna. Haukar voru aldrei líklegir til að komast í gegn. Sóknin okkar var léleg í seinni en vörnin þeirra var góð. Karakterinn og andinn sem við erum að sýna er glæsilegur,“ sagði Heimir alsáttur eftir gott dagsverk

Það var ekki sama gleðin í Haukamanninum Frey Brynjarssyni þegar Hjalti Þór ræddi við hann:
„Þeir spiluðu mjög góða vörn og komu okkur á óvart með að spila 3-2-1. Við eigum að vera klárir í það þegar Bjöggi er tekinn úr umferð en við lentum í stökustu vandræðum og það er ekki hægt að bjóða upp á 19 mörk skoruð. Við völdum vitlaust í sókninni en við eigum helling inni. Við erum ekki enn komnir í gang,“ sagði Freyr.

Loks ræddi Hjalti við Halldór Ingólfsson þjálfara Hauka
Halldór Ingólfsson segir að slakur sóknarleikur hafi orðið Haukum að falli í leiknum gegn Akureyri í kvöld. Haukar töpuðu sínum fyrsta útileik fyrir félaginu síðan Akureyri var stofnað árið 2006.
„Við erum að spila fína vörn og markvarslan er fín. Við gefumst aðeins upp þarna í lokin en það er sóknin sem varð okkur að falli.
Við sköpuðum okkur ekki nógu góð færi og þegar við fengum góð færi nýttum við þau illa. Sóknin í heild sinni var slök og við vorum hreinlega ekki að spila handbolta.
Það á að vera veisla fyrir aðra leikmenn þegar Björgvin er tekinn úr umferð en það hafði þveröfug áhrif á liðið. Við höfum æft það margoft og við vitum hvernig við eigum að bregðast við,“ sagði Halldór.

Liðið hafði aðeins skorað tæp 23 mörk að meðaltali í leikjunum fjórum og segir Halldór að sóknarleikurinn sé helsti höfuðverkur liðsins. „Við verðum að vinna í honum,“ sagði þjálfarinn niðurlútur.

Andri Yrkill Valsson, blaðamaður Morgunblaðsins ræddi við Heimi Örn og Sveinbjörn markvörð eftir leikinn:

Heimir Örn: „Þessi góða byrjun kemur mér ekkert á óvart“
Heimir Örn Árnason, fyrirliði Akureyrar, var að vonum sáttur með sigurinn. „Ég fann alveg frá byrjun að stemningin var okkar megin og mér fannst við líklegri allan tímann. Haukarnir hafa verið rosalega sterkir undanfarin ár en mér fannst þeir ekki vera eins sannfærandi og þeir hafa verið,“ sagði Heimir Örn Árnason, fyrirliði Akureyrar.

„Þetta var mjög flott. Við spiluðum frábæran varnarleik en sóknarleikurinn var bara ágætur. Þessi góða byrjun hjá okkur kemur mér ekkert á óvart. Við stöndum vel að vígi, eigum marga efnilega menn utan við liðið svo við eigum nóg inni og munum bara bæta okkur. Við erum að standa við okkar markmið sem við settum okkur fyrir tímabilið og ætlum alls ekkert að fara að gefa eftir.“

Sveinbjörn Pétursson: „Gáfum tóninn fyrir það sem koma skal“
„Það er mjög gaman að vera kominn aftur norður og fá að taka þátt í fyrsta heimasigrinum gegn Haukum,“ sagði Sveinbjörn Pétursson, markvörður Akureyrar, eftir sigur Norðanmanna gegn Íslandsmeisturum Hauka, 25:19, en þetta var fyrsti heimasigurinn gegn Haukum síðan liðið var stofnað. Sveinbjörn fór á kostum og varði alls 22 skot í markinu, en hann hefur staðið sig frábærlega eftir að hafa komið aftur norður í sumar.

„Við sýnum öruggan leik þar sem varnarleikurinn var sérstaklega góður og allir börðust allan leikinn. Mér fannst við ekki spila af fullum krafti í fyrstu leikjum deildarinnar en þessi stendur svo sannarlega upp úr. Við töluðum um það fyrir leikinn að með sigri mundum við gefa tóninn fyrir það sem koma skal og sýna að við ætlum að vera í toppbaráttuni í vetur,“ sagði Sveinbjörn.

Loks ræddi Andri Yrkill Valsson við Halldór Ingólfsson þjálfara Hauka
„Það eina sem er í stöðunni er að rífa sig upp úr þessu og mæta ákveðnir í næsta leik,“ sagði Halldór Ingólfsson, þjálfari Hauka eftir 25:19 tap liðsins gegn Akureyringum í kvöld.

„Menn voru of ragir í sókn og gerðu ekki það sem þeir áttu að gera. Við þorðum ekki að sækja og náðum þar af leiðandi ekki að spila almennilegan handbolta.“

Halldór var sem kunnugt er spilandi þjálfari Gróttu á síðustu leiktíð en hann segist ekki ætla að taka skóna úr hillunni.
„Nei ég er ekki að fara að taka skóna fram og mun bara halda mig á hliðarlínunni“ sagði Halldór að lokum.


Það lét enginn sitt eftir liggja í baráttunni við Haukana

25. október 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar

Frábær stemming meðal áhorfenda á Haukaleiknum

Það var mögnuð stemming meðal áhorfenda í Höllinni á föstudagskvöldið þegar Akureyri Handboltafélag skellti Íslands- og bikarmeisturum Hauka sannfærandi. Það voru ekki bara leikmenn sem léku við hvern sinn fingur heldur voru áhorfendur frábærir og tóku fullan þátt í baráttunni.

Þórir Tryggvason sendi okkur fjölmargar myndir frá leiknum og beindi linsunni ekki síst að áhorfendum enda þeirra þáttur í sigrinum ekki lítill.

Hér er hægt að skoða allar myndirnar frá föstudagsleiknum.


Það mun mikið mæða á Guðlaugi Arnarssyni í fjarveru Hödda

22. október 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar

Leikur dagsins: Akureyri – Haukar

Aðeins einn leikur er á dagskrá N1 deildarinnar í dag en það er jafnframt stórleikur umferðarinnar þegar Akureyri tekur á móti Íslands- og bikarmeisturum Hauka. Það er ljóst að gríðarlegur áhugi er á leiknum og má búast við miklu fjölmenni í Höllina í kvöld.

Akureyrarliðið hefur verið á fínni siglingu það sem af er og mikilvægt að ná toppleik í kvöld til að halda þeirri stöðu sem strákarnir eru búnir að ávinna sér með fyrri leikjum. Það er vissulega skarð fyrir skildi að reynsluboltinn Hörður Fannar Sigþórsson missir af leiknum þar sem hann tekur út leikbann. Reyndar er jafnt komið á með liðunum hvað þetta varðar því hornamaðurinn Guðmundur Árni Ólafsson tekur einnig út leikbann í Haukaliðinu.

Upphaflega átti leikurinn að fara fram fimmtudaginn 21. október en var seinkað um einn dag vegna þéttra leikja Akureyrar þessa dagana. Þessi breyting hefur þær afleiðingar að heimasíðan getur ekki verið með beina textalýsingu frá leiknum að þessu sinni. Við höfðum reyndar stólað á að það kæmi ekki að sök þar sem SportTV.is hafði auglýst að þeir myndu sýna leikinn beint á netinu en af einhverjum ástæðum hafa allar þeirra útsendingar verið felldar niður þessa dagana.

Besta úrræði áhugasamra er því hreinlega að mæta í Höllina og fá stemminguna beint í æð. En auðvitað eru ýmsir sem ekki koma því við og þá er þeirra besti kostur að fylgjast með íþróttavef mbl.is en ef að líkum lætur verða þar fréttir af gangi leiksins.

4. umferðin hófst í gærkvöldi með tveim leikjum, Fram valtaði yfir Val 40-23 á heimavelli sínum í Safamýrinni og á Selfossi máttu heimamenn sætta sig við tveggja marka tap fyrir Atureldingu 24-26. Umferðinni lýkur svo á laugardaginn þegar HK fær FH í heimsókn en sá leikur verður sýndur beint á RÚV og hefst útsendingin klukkan 15:30 en leikurinn 15:45.


Akureyrskir áhorfendur eru orðnir þekktir um allt land

21. október 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar

Stefnir í æsispennandi leik gegn Haukum á föstudaginn

Það er ekki laust við að það sé tilhlökkun í handboltaáhugamönnum fyrir föstudagsleikinn gegn Haukum úr Hafnarfirði. Fyrir mótið var Haukum spáð 2. sæti deildarinnar en Akureyri því þriðja. Eins og staðan er í dag þá er Akureyri með sex stig, eða fullt hús en Haukar hafa tapað tveim stigum gegn nágrönnum sínum í FH.

Í gegnum tíðina hefur Haukaliðið haft lukkudísirnar í liði með sér og ófáum leikjum hefur þeim tekist að snúa sér í hag á lokasprettinum þó að útlitið hafi verið dökkt framan af. Þetta er að sjálfsögðu ekki hægt að skýra með endalausri heppni heldur spilar hér inní reynsla og gæði liðsins.

Á það var bent hér á síðunni um daginn að Haukar hafa ekki tapað leik hér á Akureyri síðastliðin fjögur ár, en tvisvar hefur leikjum liðanna lokið með jafntefli, í bæði skiptin 27-27. Akureyrarliðið er staðráðið í því að mæta Haukaliðinu af fullum krafti og kveða Haukagrýluna endanlega niður að þessu sinni.

Akureyrarliðið er búið að leika fjóra alvöruleiki það sem af er hausti og sigrað í öll skiptin, jafnvel þó að liðið hafi ekki endilega átt sína bestu leiki. Það segir okkur að liðið býr yfir miklum styrk og verður ekki sigrað svo auðveldlega, líkt og hefur einmitt einkennt Haukaliði síðustu árin.

Í nýjasta tölublaði Vikudags ræðir Þröstur Ernir Viðarsson við Stefán Guðnason, markvörð Akureyrar og Einar Örn Jónsson hornamann Hauka um væntingar þeirra til leiksins:

„Erum með betra lið en Haukarnir“ segir Stefán Guðnason
„Haukarnir eru erfiðir en ég vil meina að við séum með betra lið en þeir. Mórallinn í hópnum hjá okkur er bara þannig að manni finnst eins og við hreinlega getum ekki tapað leik,“ segir Stefán Guðnason markvörður kokhraustur.
„Stemmingin er alveg frábær í liðinu og þó að við séum að spila illa, eins og t.d. á móti Fram í síðasta deildarleik þá erum við samt að vinna.“

„Verður 50-50 leikur“ segir Einar Örn Jónsson
„Þessi leikur leggst mjög vel í mig. Okkur hefur gengið mjög vel fyrir norðan en það eru vissulega aðrir tímar núna og við erum t.d. með mun yngra lið en oft áður. Akureyrarliðið er mjög sterkt og ég held að þetta verði 50-50 leikur. Það er hvergi skemmtilegra að spila en fyrir norðan. Þetta eru alltaf spennandi og skemmtilegir leikir og ég reikna með að svo verði einnig á morgun,“ segir hornamaðurinn þaulreyndi, Einar Örn Jónsson.

SportTV mun ekki sýna frá leiknum
SportTV var búið að tilkynna að þeir myndu sýna leikinn beint á netinu en því miður verður ekkert af því að þessu sinni. Við vitum ekki hvað veldur en þeir virðast vera að glíma við einhverja erfiðleika og á heimasíðu sinni biðst SportTV.is innilega afsökunar á að geta ekki staðið við auglýsta dagskrá.

Það er því ekki um annað að ræða fyrir fólk að mæta á leikinn og rétt að koma tímanlega því að undanfarin ár hafa leikir Akureyrar og Hauka dregið að sér flesta áhorfendur í Höllinni. Það má því búast við því að stúkan verði full og einnig verði hópur áhorfenda niðri á gólfi.


Eins og sést þá var þétt setið í stúkunni á leik liðanna í fyrravetur.



Höddi fær allavega ekki spjald í Haukaleiknum!

21. október 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar

Hörður Fannar verður í leikbanni gegn Haukum

Hörður Fannar Sigþórsson verður í banni í leik Akureyrar og Hauka á föstudaginn. Hörður fékk rautt spjald á lokaandartökum leiksins gegn Fram síðastliðinn laugardag þegar hann stöðvaði sókn Framara í fæðingu. Aganefnd HSÍ hefur fellt sinn dóm og eins og við var að búast fékk Hörður Fannar eins leiks bann.

Guðmundur Árni Ólafsson hinn snjalli hornamaður Hauka tekur sömuleiðis út bann í leiknum en hann fékk rautt spjald á lokasekúndum leiks Aftureldingar og Hauka síðstliðinn fimmtudag.

Á heimasíðu HSÍ er að finna svohljóðandi úrskurð aganefndar:

Fundur Aganefndar HSÍ, 19. október 2010
Mættir voru Gunnar K. Gunnarsson, Rögnvald Erlingsson og Vala Valtýsdóttir. Eftirtalin mál voru fyrir fundinum og voru afgreidd:
  1. Guðmundur Árni Ólafsson leikmaður Hauka fékk útilokun með skýrslu vegna brots í leik Aftureldingar og Hauka í M.fl.ka. 14.10.2009. Niðurstaða aganefndar er að leikmaðurinn er úrskurðaður í eins leiks bann.
  2. Lárus Mikael leikmaður Harðar fékk útilokun með skýrslu í leik Harðar og Stjörnunnar í M.fl.ka. 16.10.2009. Niðurstaða aganefndar er að leikmaðurinn er úrskurðaður í eins leiks bann.
  3. Yngvi Ásgeirsson leikmaður KA 2 fékk útilokun með skýrslu í leik Fjölnis og KA 2 í 3.fl.ka. 17.10.2009. Niðurstaða aganefndar er að leikmaðurinn er úrskurðaður í eins leiks bann.
  4. Davíð Óskarsson leikmaður ÍBV fékk útilokun með skýrslu í leik IBV og ÍR í M. fl.ka. 17.10.2010. Niðurstaða aganefndar er að leikmaðurinn er úrskurðaður í eins leiks bann.
  5. Hörður Fannar Sigþórsson leikmaður Akureyrar fékk útilokun með skýrslu í leik Fram og Akureyrar í M. fl.ka. 16.10.2010. Niðurstaða aganefndar er að leikmaðurinn er úrskurðaður í eins leiks bann.
Önnur mál lágu ekki fyrir.
Gunnar K. Gunnarsson formaður.


Það er komið að því að láta Haukana finna fyrir sér

19. október 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar

Föstudagsleikurinn - toppbaráttuleikur gegn Haukum

Næstu andstæðingar Akureyrarliðsins á heimavelli verða engir aðrir en Íslands- og bikarmeistarar Hauka. Allt frá því að Akureyrarliðið varð til hefur því ekki tekist að sigra Haukana hér á heimavelli en gengið öllu betur á útivelli. Það er því kominn tími á breytingu og með dyggum stuðningi áhorfenda að vinna Haukana loksins.

Leiktíminn er sérstakur að þessu sinni því leikið verður á föstudegi og hefst leikurinn klukkan 19:00. Haukarnir unnu Valsmenn nokkuð örugglega í fyrstu umferð N1 deildarinnar en töpuðu illa fyrir nágrönnum sínum í FH í næsta leik. Haukar unnu síðan Aftureldingu með einu marki í síðustu umferð og voru í raun býsna heppnir að fara með sigur í þeim leik. En það hefur einmitt verið einkenni Haukaliðsins undanfarin ár að þrátt fyrir að útlitið hafi verið dökkt hafa þeir sýnt ótrúlega seiglu og oftar en ekki klárað leikina á lokaandartökunum.

Eins og svo oft áður var það Björgvin Hólmgeirsson sem tryggði Haukum sigurinn gegn Aftureldingu.

Hér á eftir er kynning Guðmundar Hilmarssonar, blaðamanns Morgunblaðsins, á Haukaliðinu en kynningin birtist í Morgunblaðinu nú í upphafi leiktímabilsins.

Haukarnir handhafar allra titlanna

Haukar hafa verið stórveldi í íslenskum karlahandbolta um nokkurra ára skeið en sigurganga liðsins hefur verið hreint ótrúleg frá því liðið landaði Íslandsmeistaratitlinum árið 2000 undir stjórn Guðmundar Karlssonar. Þá höfðu Haukarnir beðið í 57 ár eftir titlinum stóra sem þeir unnu í fyrsta skipti árið 1943.

Haukar hafa hampað Íslandsmeistaratitlinum átta sinnum á síðustu 10 árum og hafa unnið titilinn undanfarin þrjú ár en liðið hafði betur í úrslitaeinvígi við Valsmenn á síðustu leiktíð og lagði þá einnig í úrslitaleik bikarkeppninnar. Haukar lögðu Valsmenn enn og aftur í árlegum leik meistara meistaranna í síðustu viku og eru þar með handhafar allra titlanna sem í boði eru hjá HSÍ, en auk þess að vinna Íslandsmótið og bikarkeppnina á síðustu leiktíð fögnuðu Haukarnir deildarmeistaratitlinum.

Skörð hafa verið höggvin í Haukaliðið fyrir þetta tímabil en líkt og fyrir síðustu leiktíð hafa Haukarnir misst sterka leikmenn úr sínum röðum og flestir þeirra hafa reynt fyrir sér í atvinnumennsku. Meistararnir hafa fyrir leiktíðina í ár ekki safnað liði í þeirra stað heldur stóla þeir nú á yngri leikmenn félagsins en mikill efniviður er fyrir hendi hjá Haukunum enda hefur verið haldið vel á málum yngri flokka félagsins.

Halldór tekur við góðu búi
Þjálfaraskipti urðu hjá Hafnarfjarðarliðinu í sumar. Aron Kristjánsson sagði skilið við Haukana eftir þrjú frábær ár en undir hans stjórn urðu Haukar þrívegis Íslandsmeistarar og einu sinni bikarmeistarar. Aron er nú tekinn við þjálfun þýska liðsins Hannover-Burgdorf. Við starfi hans tók Halldór Ingólfsson, sem er öllum hnútum kunnugur hjá Haukum, en Halldór, sem þjálfaði og lék með Gróttu á síðustu leiktíð, lék með liðinu um langt árabil og var lykilmaður í sigursælu liði þeirra.






Með lið í titilbaráttu

Heldur sigurganga Haukanna áfram? Þrír sterkir farnir en aðeins einn nýr leikmaður Yngri leikmenn liðsins fá tækifæri Reynsluboltar enn til staðar


Freyr Brynjarsson hefur verið stöðvaður í Höllinni

Viðtal við Frey Brynjarsson

Freyr Brynjarsson, hornamaður Hauka, er einn leikreyndasti leikmaður N1-deildarinnar í handbolta og hann vill ekkert annað en titil.
„Mér líst bara nokkuð vel á okkar lið. Áður en við byrjuðum að spila á æfingamótunum hér heima vissi ég ekki alveg hvar við stæðum. Við fengum þrjá skelli í mótinu sem við tókum þátt í í sumar í Svíþjóð en það kom mér skemmtilega á óvart gengi okkar á Ragnarsmótinu og Hafnarfjarðarmótinu og við virðumst vera komnir vel af stað miðað við önnur lið,“ sagði baráttujaxlinn og einn af lykilmönnum Íslands- og bikarmeistara Hauka, Freyr Brynjarsson, í samtali við Morgunblaðið.

Freyr segir að ákveðin kynslóðaskipti séu að eiga sér stað hjá Haukum þrátt fyrir að reynsluboltar séu enn til staðar en Freyr, Birkir Ívar Guðmundsson, Gunnar Berg Viktorsson og Einar Örn Jónsson eru allir áfram í herbúðum liðsins.

„Það eru nokkrir ungir strákar, sem hafa verið að banka á dyrnar undanfarin ár, komnir inn í hópinn. Þeir hafa nýtt sín tækifæri vel á undirbúningstímabilinu, hafa fengið sína eldskírn og munu fá að láta ljós sitt skína í vetur. Liðið okkar hefur tekið miklum breytingum síðustu tvö árin og ég held að um átta sterkir leikmenn hafi horfið á braut. Það kemur sér vel að hafa ræktað yngri flokkana vel og það er svo sannarlega að skila sér núna,“ segir Freyr.

Stefna ekki Haukar á að vera í baráttunni um titlana í vetur?

„Að sjálfsögðu ætlum við að gera það. Við teljum okkur vera með það gott lið að við eigum að vera með í baráttunni um titlana og vinna einhverja þeirra. Liðið okkar í dag er góð blanda af ungum og efnilegum leikmönnum og eldri og reyndari mönnum sem hafa tekið þátt í að vinna titlana undanfarin ár. Það kemur í hlut okkar gömlu að leiða hópinn en að sama skapi eru þessir ungu strákar hjá okkur tilbúnir í átökin,“ sagði Freyr.

Í árlegri spá þjálfara, fyrirliða og forráðamanna liðanna í N1-deildinni var Haukunum spáð öðru sæti á eftir grönnum sínum í FH. Spurður út í þá spádóma sagði Freyr: „Þessi spá truflar okkur ekkert. Við horfum bara til þeirra markmiða sem við höfum sett okkur en kannski setur þetta kannski smá aukapressu á FH-ingana“.

Freyr segir að toppbaráttan geti orðið jöfn og spennandi í ár en líkt og á síðustu leiktíð fara fjögur efstu liðin eftir þrefalda umferð í deildinni í úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn.

„Ég held að FH-ingarnir verði ofarlega. Þeir eru með sterkt lið og þegar Logi fer að skjóta á markið verða þeir enn sterkari. Framararnir eru með mjög fínt lið. Það er komin meiri breidd í það. Akureyringarnir verða eflaust öflugir. Það eru komnir nokkrir ungir og spennandi leikmenn hjá þeim og ég held að þeir verði pottþétt í toppbaráttunni. Svo eru alltaf einhver lið sem koma á óvart og ég get alveg séð fyrir mér að Selfyssingar verði eitt þeirra liða,“ sagði Freyr.

Molar

Haukarnir hafa orðið fyrir töluverðri blóðtöku en þrír sterkir leikmenn eru horfnir á braut frá liðinu. Stórskyttan Sigurbergur Sveinsson er genginn í raðir þýska 2. deildar liðsins DHC Rheinland og leikur þar með Árna Þór Sigtryggssyni, fyrrverandi leikmanni Akureyrar og Hauka. Línumaðurinn Pétur Pálsson er kominn til danska liðsins Midtjylland og Elías Már Halldórsson ákvað að skipta yfir til Haugaland sem leikur í norsku 1. deildinni.

Haukar hafa aðeins bætt við sig einum leikmanni frá síðustu leiktíð. Íslandsmeistararnir fengu skyttuna Svein Þorgeirsson frá Víkingi. Þorkell Magnússon tók fram skóna í sumar og hugðist leika með Haukunum í vetur eftir nokkurra ára hlé en Þorkell er hættur við og mun ekki leika listir sínar í horninu í vetur.

Haukarnir hafa þegar hampað einum titli á tímabilinu. Þeir mættu Valsmönnum í árlegum leik meistara meistaranna á Ásvöllum nú í haust þar sem þeir kjöldrógu Valsmenn. Haukarnir unnu tólf marka sigur, 31:19.

Halldór Ingólfsson þjálfari Hauka var þjálfari Gróttu á síðustu leiktíð en Geir Sveinsson tók við starfi hans undir lok keppnistímabilsins eftir að Halldór hafði samið við Hauka. Halldór lauk tímabilinu með því að leika nokkra leiki með Gróttu sem var í harðri fallbaráttu, en það dugði ekki til þar sem Grótta féll.

Leikmannahópurinn

Aron Rafn Eðvarðsson, 21 árs - markvörður
Birkir Ívar Guðmundsson, 34 ára - markvörður
Stefán Huldar Stefánsson, 20 ára - markvörður
Tjörvi Þorgeirsson, 20 ára - miðjumaður
Freyr Brynjarsson, 33 ára - hornamaður
Einar Pétur Pétursson, 19 ára - hornamaður
Guðmundur Árni Ólafsson, 20 ára - hornamaður
Jónatan Ingi Jónsson, 23 ára - línumaður
Gísli Jón Þórisson, 24 ára - skytta
Sveinn Þorgeirsson, 23 ára - skytta
Sigurður Guðjónsson, 20 ára - línumaður
Gunnar Berg Viktorsson, 34 ára - skytta
Heimir Óli Heimisson, 20 ára - línumaður
Stefán Rafn Sigurmannsson, 20 ára - hornamaður/skytta
Einar Örn Jónsson, 34 ára - hornamaður/skytta
Þórður Rafn Guðmundsson, 21 árs - skytta
Björgvin Hólmgeirsson, 23 ára - miðjumaður/skytta



Heimir Árnason ætlar klárlega að taka á Haukunum í næstu viku

14. október 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar

Leikur Akureyrar og Hauka verður föstudaginn 22. október

Næsti heimaleikur Akureyrar Handboltafélags er gegn Haukum og átti hann að fara fram fimmtudaginn 21. október en nú hefur verið afráðið að færa leikinn um einn dag þ.e.a.s. yfir á föstudaginn 22. október.

Ástæðan er fjöldi leikja sem Akureyri á að spila þessa dagana. Eins og kunnugt er á liðið útileik gegn Fram sem var fluttur yfir á laugardaginn 16. okt fyrir sjónvarpið. Síðan er annar útileikur á þriðjudagskvöldið þegar liðið mætir HK í Eimskipsbikarnum þannig að það var orðið fullstíft prógram að fá svo deildarleik strax á fimmtudag.

HSÍ er því búið að taka ákvörðun um að leikurinn gegn Haukum færist yfir á föstudagskvöldið og hefst hann klukkan 19:00.

Nú þarf bara að láta tíðindin berast til allra stuðningsmanna um að taka frá föstudagskvöldið 22. október, við eigum harma að hefna gegn Haukum og nú þarf að leggja allt í sölurnar.

Til baka    Senda á Facebook

Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson