Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15
Öruggur sigur á Selfyssingum og Akureyri áfram á toppnum - Akureyri Handboltafélag
  Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Fyrri leiktímabil

Tímabilið 2010-11

Leikmenn meistarafl. karla
Úrslit leikja
Deild karla




Ljósmyndir frá leiknum     Myndband frá leiknum      Textalýsing frá leiknum     Tölfræði leiksins 
    Akureyri - Selfoss  34-29 (15-13)
N1 deild karla
Íþróttahöllin
Fim 11. nóvember 2010 klukkan: 19:00
Dómarar: Anton Gylfi Pálsson og Hlynur Leifsson
Umfjöllun

Geir var með sannkallaðan stórleik í dag





11. nóvember 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar

Öruggur sigur á Selfyssingum og Akureyri áfram á toppnum

Fín stemmning var á áhorfendapöllunum frá byrjun leiks þegar að Akureyri Handboltafélag tók á móti Selfyssingum í N1 deildinni í kvöld. Okkar menn voru fyrir leikinn ósigraðir í efsta sæti deildarinnar með 10 stig en Selfyssingar sátu í næst neðsta sæti með tvö stig.

Leikurinn var jafn til að byrja með og var jafnt á flestum tölum upp í stöðuna 6-6 á 11 mín. Geir Guðmundsson hafði þá skorað fimm af sex mörkum leiksins en þegar loksins hinir hrukku í gang fóru hlutirnir að gerast og næstu 5 mörkin voru Akureyringa.


Geir skorar eitt af fyrstu fimm mörkum liðsins í kvöld

Norðanmenn voru því komnir með nokkuð þægilega forystu 10 mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks.

Sú forysta hélst lengst af en menn fóru full snemma að huga að því að hvíla sig í stað þess að bíða með það fram að hálfleik því Selfyssingar skoruðu síðustu þrjú mörk fyrri hálfleiks og var staðan í leikhléi 15-13.

Sveinbjörn Pétursson markvörður Akureyrar varði sem fyrr virkilega vel og þegar flautað var til leikhlés var hann þegar kominn með 14 varin skot, mörg hver þeirra úr dauðafærum. Geir Guðmundsson hafði einnig átt mjög góðan leik og skoraði 6 mörk.

Í síðari hálfleik var leikurinn nokkuð jafn framan ef en rétt eins og í þeim fyrri tók Akureyri að síga fram úr eftir um 10 mínútna leik í síðari hálfleiknum og tóku Selfyssingir leikhlé um 9 mínútum fyrir leikslok í stöðunni 29-24 fyrir Akureyri. Það leikhlé hafði þó ekki mikið að segja því Akureyringar áttu ekki í teljandi vandræðum með að klára leikinn á sannfærandi hátt, lokatölur urðu 34-29.

Vörn Akureyrar var nokkuð kaflaskipt í fyrri hálfleiknum og það sama átti við í þeim síðari, lengst af var hún þó sæmileg en ekki mikið betri en það. Sóknarleikurinn var hins vegar með betra móti sem sýnir sig í 34 mörkum skoruðum hjá liðinu.


Guðlaugur Arnarsson var öflugur á línunni og skoraði fjögur mörk í kvöld

Ekki verður skilið við leikinn án þess að minnast á hið unga lið Selfoss sem bauð upp á virkilega skemmtilegt varnarafbrigði þegar þeir voru einum fleiri á vellinum og spiluðu þá maður á mann vörn (oft nefnd indíánavörn). Það gekk svona upp og ofan en var skemmtileg tilraun engu að síður. Varnarleikur Selfyssinga þess í milli var hins vegar ekki burðugur og varð liðinu að falli í leiknum. Liðið er hins vegar augljóslega með marga efnilega leikmenn innan sinna raða og á greinilega framtíðina fyrir sér, rétt eins og Akureyrarliði sem er nú síður en svo skipað eingöngu gamlingjum, en þrír af fjórum markahæstumönnum liðsins eru tvítugir eða yngri.

Ef við hellum okkur í tölfræðina þá átti Sveinbjörn átti góðan leik í markinu og varði 24 skot.


Stefán Guðnason í þann mund að verja vítakast

Af útileikmönnum voru hornamennirnir Bjarni Fritzon og Oddur Grétarsson atkvæðamiklir að venju. Bjarni skoraði 9 mörk og Oddur 5. Geir Guðmundsson átti einnig mjög góðan leik og setti 8 mörk. Guðmundur Hólmar Helgason skoraði 4, Guðlaugur Arnarson 4, Heimir Örn Árnason 2 og Hörður Fannar Sigþórsson 2.

Næsti leikur Akureyrar er á mánudaginn gegn Aftureldingu í Höllinni í bikarkeppninni og er engin ástæða til annars en að fjölmenna á þann leik því það er löngu kominn tími á alvöru bikarævintýri hjá Akureyringum!

Jón Stefán Jónsson

Sjá fleiri myndir Þóris Tryggvasonar frá leiknum.
Fleiri myndir frá leikjum kvöldsins á sport.is

Eftir leiki kvöldsins þar sem HK sigraði Hauka og Fram vann Aftureldingu er staðan í deildinni þannig:
Staðan í deildarkeppni karla
Nr. FélagLeikir U J TMörkHlutfallStig-
1. Akureyri6600183 : 1483512:0
2. HK6501203 : 198510:2
3. Fram6402205 : 176298:4
4. FH5302159 : 142176:4
5. Haukar6303156 : 162-66:6
6. Afturelding6105157 : 179-222:10
7. Selfoss6105161 : 185-242:10
8. Valur5005124 : 158-340:10

Tengdar fréttir

Geir átti stórleik í þessum leik gegn Selfyssingum

31. desember 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar

Myndasería frá leik Akureyrar og Selfoss komin á YouTube

Þórir Tryggvason var að senda okkur glæsilega myndaseríu frá leik Akureyrar og Selfoss þann 11. nóvember síðastliðnum. Þórir fékk Andra Má Þórhallsson í lið með sér við samsetningu á myndunum og er hún komin á Youtube.com.



Þú getur látið myndaseríuna fara yfir allan skjáinn með því að smella á örvahnappinn neðst til hægri á spilaranum og að sjálfsögðu er tónlist með!

Nú eru framundan langt hlé hjá Akureyrarliðinu vegna heimsmeistarakeppninnar sem fram fer í Svíþjóð í janúar. Nokkrir leikmenn Akureyrar verða þó uppteknir með landsliðum Íslands en slagurinn hér innanlands hefst ekki fyrr en 3. febrúar þegar Valsmenn koma í heimsókn. Við reiknum að sjálfsögðu með því að það verði sama stemming og fjör í Íþróttahöllinni þá eins og myndarunan hér að ofan sýnir.

Takk fyrir þetta Þórir og Andri Már!


Gulli var frábær í kvöld og Atli sáttur með sína menn



12. nóvember 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar

Hvað sögðu menn eftir Selfoss leikinn?

Að venju söfnum við saman viðtölum við leikmenn og þjálfara eftir leiki. Hjalti Þór Hreinsson blaðamaður visir.is ræddi við Guðlaug Arnarsson og Selfyssinginn Guðjón Finn Drengsson þó svo að Stefán Guðnason hafi aðeins blandað sér inn í spjall þeirra.

Guðlaugur: Njótum velgengninnar meðan er
Guðlaugur Arnarsson sýndi gamalkunna takta í sókninni þegar Akureyri vann Selfoss í N1-deild karla í kvöld. Hann fór auk þess fyrir góðri vörn liðsins líkt og alltaf.

„Þeir eru í góðu formi og keyrðu mikið á okkur. En við náðum stjórn á leiknum og góð sókn skilaði þessu undir lokin.“

Á síðasta tímabili var það lenska hjá liðinu að komast í góða stöðu en tapa henni niður. Ekkert slíkt hefur gerst í vetur. „Við erum reynslunni ríkari og í mjög góðu formi. Við vorum það reyndar líka í fyrra en við höfum byggt á þessu og við vitum af því. Þetta er massíf heild hjá okkur,“ sagði Guðlaugur, oft kallaður Öxlin, en ekkert lát er á sigurgöngu liðsins.

„Við njótum þess meðan er,“ sagði Húsvíkingurinn sem átti frábæran leik. Hann batt vörnina vel saman og skoraði auk þess fjögur mörk og fiskaði tvö víti.

„Ég er bara sáttur með sigurinn, þetta snýst um það“ sagði hann hógvær.

Guðjón Finnur Drengsson: Herslumuninn vantar
Guðjón Finnur Drengsson átti virkilega góðan leik fyrir Selfyssinga í kvöld en það dugði þó ekki til. Liðið tapaði með fimm mörkum norðan heiða fyrir Akureyri, 34-29. Guðjón skoraði sjö mörk úr átta tilraunum.

„Við erum alltaf að verða betri og betri,“ sagði Guðjón sem nýtti færin sín einkar vel í kvöld en í því labbaði Stefán „Uxi“ Guðnason, markmaður Akureyrar framhjá og sagðist vera ósáttur með að hafa ekki varið víti frá Guðjóni í leiknum.

„Ég hef ekki varið frá þér síðan 2002 held ég,“ sagði Stefán og Guðjón glotti við tönn. „Gott mál.“

Guðjón segir að planið hafi ekki verið flókið, að vinna. „Við hefðum þurft að nýta færin okkar betur. Við skutum mjög mikið beint á Bubba í markinu.


Guðjón Drengsson reynir að stöðva Geir Guðmundsson

Vörnin hefði getað verið betri líkt og markvarslan. Nú vantar bara herslumun hjá okkur áður en við förum að hirða fleiri stig,“ sagði Guðjón og rauk út í flugvél líkt og hann væri í einu af sínum víðfrægu hraðaupphlaupum.

Atli Hilmarsson
„Planið var bara að halda okkar striki og vinna,“ sagði Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar. „Við vorum klaufar að leggja ekki grunn að sigrinum undir lok fyrri hálfleiks en ég er ánægður með hvernig liðið kom til baka þó að það hafi ekki allt gengið upp.“

Kollegi hans Sebastian Alexanderson segir að liðið bæti sig með hverjum leik.
„Við spiluðum betur en á móti Haukum gegn miklu betra liði en það dugði ekki. Okkur vantar enn herslumuninn. Vörnin var fín í fyrri hálfleik en við hefðum þurft að fá meiri markvörslu. Ég er þó ánægður með baráttuna í strákunum, þetta fer að detta hjá okkur,“ sagði Sebastian þjálfari Selfoss.

Þröstur Ernir Viðarsson blaðamaður Vikudags ræddi við Sveinbjörn Pétursson eftir leikinn:

Sveinbjörn: Getum bætt okkur heilmikið
Sveinbjörn Pétursson átti góðan dag í marki Akureyrar og varði 24 skot í 34:29 sigri norðanmanna gegn Selfossi í N1-deild karla í handbolta á heimavelli í kvöld. Sveinbjörn var þó ekkert alltof sáttur við sína frammistöðu í leikslok. „Það eru sumir hlutir sem ég hefði viljað gera betur í kvöld en þetta slapp til. Ég er ekki alveg sáttur en sigurinn náðist sem var fyrir öllu,“ sagði Sveinbjörn, sem hefur oft spilað með betri vörn fyrir framan sig í vetur en í kvöld.

„Vörnin var ekki alveg að finna sig í fyrri hálfleik, sérstaklega gegn Ragnari (Jóhannssyni) sem var gríðarlega öflugur. Svo skánaði vörnin strax þegar við bökkuðum í 6-0 vörn. Svona heilt yfir er maður sáttur við stigin tvö en það er heilmikið sem við gætum bætt. Það er hins vegar jákvætt við okkar spilamennsku að þó við séum ekki að toppa á öllum sviðum að þá erum við að ná sigri.“


Sveinbjörn var traustur að venju í leiknum

Það vakti athygli að Selfyssingar beittu maður á mann vörn strax í upphafi seinni hálfleiks. Sveinbjörn segir það ekki hafa komið sérstaklega á óvart.
„Þjálfari Selfyssinga er þekktur fyrir að taka sjensa og er óhræddur við að gera tilraunir. Þetta sló okkur svolítið en við tókum æfingu í gær þar sem við æfðum þetta og mér fannst við ná að leysa þetta þokkalega. Þeir gerðu þetta líka gegn Haukum á síðustu helgi en við leystum þetta og skoruðum nokkur mörk úr þessu.“

Selfyssingar stóðu lengi vel í Akureyrarmönnum og það var ekki fyrr en í lok leiksins sem norðanmenn náðu að hrista þá af sér.
„Þeir eru þekktir fyrir að gefast aldrei upp og keyra allan leikinn. Þetta er fínasta lið og strákarnir hafa spilað lengi saman og Basti (Sebastian Alexenderson) er að gera fína hluti með þá. Við vissum að þó að við myndum vera að leiða með fimm mörkum eða tapa með fimm myndu þeir keyra á okkur allan tímann,” sagði Sveinbjörn Pétursson.

Andri Yrkill Valsson blaðamaður Morgunblaðsins ræddi sömuleiðis við Guðlaug Arnarsson og Sebastian Alexandersson

Guðlaugur: Þetta var mjög góður sigur
„Við mættum góðu liði, þeir eru í góðu formi, hlaupa endalaust og keyra mikið á okkur svo þetta var mjög góður sigur,“ sagði Guðlaugur Arnarson, varnarjaxl Akureyrar, eftir sigur norðanmanna gegn Selfyssingum, 34:29, í úrvalsdeild karla í handknattleik á Akureyri í gærkvöld.

„Við vorum svolítið fljótir á okkur í byrjun þegar við vorum komnir með forskot en við vorum sterkari í síðari hálfleik. Sveinbjörn var mjög traustur og vörnin hélt vel á mikilvægum stundum. Sóknarleikurinn er búinn að vera mjög góður og við erum að skora mörg góð mörk.“

Guðlaugur talaði einnig um hversu góð liðsheild er innan herbúða Akureyrar. „Það er enginn sem að ber liðið á herðum sér, við erum allir í þessu saman.“

Sebastian: Liðið sýndi mikil batamerki
„Við vorum að spila við besta lið deildarinnar og stóðum vel í þeim nánast allan tímann. Við börðumst að venju vel en við erum vanir að eiga slæma kafla í leikjum sem fella okkur að lokum. Sá kafli var þó styttri en venjulega og liðið sýndi mikil batamerki," sagði Sebastian Alexanderson, þjálfari Selfyssinga, við mbl.is eftir leikinn.

Hann segir ekki möguleika á að sitt lið muni falla úr N1-deildinni í vetur, en Selfoss eru sem kunnugt er nýliðar í deildinni. „Það er stutt í að hlutirnir fari að smella hjá okkur svo það er ekki vafi í mínum huga að við munum halda sæti okkar í deildinni.


Framtíð félagsins staðfest næstu tíu árin

11. nóvember 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar

Samstarf KA og Þór um Akureyri Handboltafélag til tíu ára

Áður en leikur Akureyrar og Selfoss hófst í kvöld innsigluðu formenn KA og Þór nýjan samning um rekstur á Akureyri Handboltafélagi. Upphaflegi samningurinn var til fimm ára og nú er félagið einmitt á sínu fimmta starfsári. Nýi samningurinn sem kynntur var í kvöld gildir til næstu tíu ára og nær til meistaraflokks karla og 2. flokks karla.

Þórir Tryggvason smellti af þessum myndum þegar Sigfús Helgason formaður Þórs og Hrefna Torfadóttir formaður KA skiptust á skjölum þar að lútandi.


Sigfús Helgason og Hrefna Torfadóttir staðfesta samninginn


Samkomulagið staðfest með kossi


Húrra fyrir KA, Þór og Akureyri Handboltafélagi



Gummi og Geir verða meðal margra ungra og sprækra leikmenna á gólfinu í dag



11. nóvember 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar

Leikur dagsins: Akureyri - Selfoss í beinni textalýsingu

Það er allt til reiðu fyrir skemmtilegan og spennandi handboltaleik í Íþróttahöllinni í kvöld. Allir leikmenn heilir og til í slaginn. Þeir sem fylgdust með sjónvarpsleik Hauka og Selfoss urðu vitni að því að Atli Kristinsson, vinstri skytta Selfyssinga fékk beint rautt spjald fyrir brot á leikmanni Hauka í hraðaupphlaupi. Svo virðist sem dómarar leiksins hafi ekki séð ástæðu til að leggja fram skýrslu um atvikið því ekki var fjallað um málið á fundi aganefndar HSÍ sem haldinn var miðvikudaginn 10. nóv og því sleppur Atli við leikbann að þessu sinni.


Að sjálfsögðu viljum við fá fulla Höll af áhorfendum sem styðja myndarlega við bakið á sínum mönnum, ekki veitir af því Selfyssingar eru til alls vísir.

Heimasíðan býður að venju upp á beina textalýsingu frá leiknum fyrir þá sem ekki eiga heimangegnt. Leikurinn hefst klukkan 19:00 og beina lýsingin þar rétt á undan.

Það er virkilega auðvelt að fylgjast með leiknum í gegnum Beinu Lýsinguna.

Smellið hér til að opna Beina Lýsingu

Beina Lýsingin opnast í nýjum glugga sem uppfærist sjálfvirkt á 15 sekúndna fresti. Það er því ekkert mál að fylgjast með. Leikurinn hefst klukkan 19:00 og við hvetjum alla til að fylgjast vel með.


Sebastían heldur uppi handboltahefðinni á Selfossi



9. nóvember 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar

Leikur gegn Selfossi á fimmtudaginn

Mótherjar Akureyrar á fimmtudaginn eru Selfyssingar sem endurheimtu sæti í úrvalsdeild karla í handknattleik síðastliðið vor eftir fjögurra ára veru í neðri deildinni. Liðið vann 1. deildina sannfærandi þegar það vann Aftureldingu í uppgjöri efstu liðanna í troðfullu íþróttahúsinu á Selfossi á vormánuðum.

Þjálfari Selfyssinga er hinn litríki markvörður Sebastían Alexandersson og hefur hann unnið frábært starf undanfarin ár á Selfossi við þjálfun og uppbyggingu handboltaakademíunnar. Sebastían er fyrrum landsliðsmarkvörður Íslands en lék annars lengst af með Fram. Allir leikmenn liðsins utan Guðjóns Drengssonar eru uppaldir hjá félaginu og fyrir vikið er mikil baráttustemming í liðinu og engin hætta á öðru en leikmenn berjist fram í rauðan dauðann fyrir félagið.

Aðstoðarþjálfari Selfoss er okkur að góðu kunnur, enginn annar en Björgvin Þór Björgvinsson sem lék með KA hér á árum áður, var t.d. í Íslandsmeistaraliðinu 1997. Björgvin átti sæti í íslenska landsliðinu en síðustu árin lék hann með Fram.

Lið Selfoss er tiltölulega ungt að árum, leikmenn þess hafa verið mörg undanfarin ár í toppbaráttunni í 2. flokki og þekkja því vel til baráttuleikja. Liðið fékk öflugan reynslubolta til liðs við sig í sumar, það er fyrrnefndur Guðjón Finnur Drengsson sem kom frá Fram. Guðjón leikur aðallega í vinstra horninu en bregður sér í ýmiss hlutverk eftir því sem þarf hverju sinni. Hann hefur leikið með Safamýrarliðinu allan sinn feril að undanskilinni stuttri dvöl hjá þýska 3. deildarliðinu Kassel á fyrri hluta síðasta tímabils.

Selfyssingum gekk vel á undirbúningstímabilinu, unnu Ragnarsmótið sem þeir halda sjálfir með glæsibrag. Það sem af er tímabilinu hafa þeir reyndar aðeins unnið einn leik, sigruðu Valsmenn á Selfossi en enginn skyldi vanmeta liðið því baráttan og stoltið er svo sannarlega fyrir hendi hjá leikmönnum.

Nokkrir leikmenn hafa farið fyrir liðinu í markaskorun í upphafi mótsins. Hægri skyttan Ragnar Jóhannsson er þar atkvæðamestur með 41 mark en vinstri skyttan Atli Kristinsson kemur næstur með 25 mörk. Guðjón Drengsson er öruggur í vinstra horninu, kominn með 19 mörk og miðjumaðurinn Helgi Héðinsson með 13 mörk.

Ragnar, sem hefur leikið með yngri landsliðum Íslands undanfarin ár var í viðtali við Ívar Benediktsson í Morgunblaðinu í upphafi leiktíðarinnar. Kíkjum á kafla úr viðtalinu:


Stórskyttan Ragnar Jóhannsson, mynd: mbl

„Aðalmarkmið okkar verður að halda sæti í deildinni en njóta þess að spila í efstu deild og hafa gaman af því,“ segir Ragnar Jóhannsson um væntingar og vonir nýliða N1-deildarinnar í handknattleik á keppnistímabilinu.

Ragnar er ein helsta skytta liðsins og var markahæsti leikmaður þess á síðasta tímabili en þá lék Selfoss í 1. deild. Hann er aðeins tvítugur og hefur æft handknattleik með Ungmennafélagi Selfoss frá átta ára aldri.

Í handboltaakademíunni á Selfossi hefur verið unnið mikið og gott starf síðustu árin. Stór hluti Selfoss-liðsins nú hefur farið í gegnum hana. Ragnar var á meðal þeirra fyrstu sem útskrifuðust úr henni eftir þriggja ára nám í hitteðfyrra.

„Liðið er byggt upp á heimamönnum. Það á örugglega eftir að hjálpa okkur í vetur að vera með lið nær eingöngu skipað heimönnum sem berjast fyrir tilverurétti þess í deild þeirra bestu. Sú staðreynd mun örugglega fylkja fólki á bak við okkur,“ sagði Ragnar og bætir við að stuðningur áhorfenda hafi verið einstaklega góður á síðasta vetri. „Þá ríkti mikil stemning í bænum og við treystum áfram á stuðning bæjarbúa og nærsveitamanna þegar flautað verður til leiks.“

Ragnar segist hafa skýr markmið. „Aðalmarkmið mitt núna er að standa mig vel hérna heima í deildinni og reyna þannig að sanna mig með því að sýna fram á að ég sé tilbúinn í úrvalsdeildina. Langtímamarkmið mitt er hinsvegar að komast í gott lið í útlöndum og spila með A-landsliðinu,“ segir Ragnar sem leikið hefur með yngri landsliðum Íslands síðustu fjögur árin og var m.a. í silfurliðinu á HM 19 ára og yngri í Túnis í fyrra.

Ragnar er þrátt fyrir ungan aldur, einn sjö leikmanna sem nú skipa 25 manna leikmannahóp Selfoss léku með liðinu þegar það var síðast í úrvalsdeildinni í handknattleik, leiktíðina 2005-2006. Þetta eru Atli Kristinsson, Birkir Fannar Bragason, Helgi Héðinsson, Hörður Bjarnarson, Ívar Grétarsson, Ómar Vignir Helgason og Ragnar Jóhannsson. Þeir Ragnar og Atli voru lang-markahæstu leikmenn Selfossliðsins í 1. deildinni í fyrra.

Leikmannalisti Selfyssinga er sem hér segir:
Birkir Fannar Bragason, 22 ára - markvörður
Helgi Hlynsson, 19 ára - markvörður
Sverrir Andrésson, 19 ára - markvörður
Guðjón Finnur Drengsson 31 árs - vinstra horn
Guðni Ingvarsson, 24 ára - vinstra horn
Baldur Þór Elíasson, 22 ára - vinstra horn
Andri Már Sveinsson, 19 ára - vinstra horn
Trausti Eiríksson, 19 ára - vinstra horn
Atli Kristinsson, 24 ára - vinstri skytta
Eyþór Lárusson, 21 árs - vinstri skytta
Matthías Örn Halldórsson, 19 ára - vinstri skytta
Sigurður Már Guðmundsson, 19 ára - vinstri skytta
Ívar Grétarsson, 26 ára - miðjumaður
Helgi Héðinsson, 22 ára - miðjumaður
Óskar Kúld Pétursson, 21 árs - miðjumaður
Einar Sverrisson, 18 ára - miðjumaður
Ragnar Jóhannsson, 20 ára - hægri skytta
Gunnar Ingi Jónsson, 22 ára - hægri skytta
Andri Hrafn Hallsson, 19 ára - hægri skytta
Hörður Bjarnarson , 29 ára - hægra horn
Árni Steinn Steinþórsson, 19 ára - hægra horn
Ómar Vignir Helgason 30 ára - línumaður
Atli Hjörvar Einarsson, 22 ára - línumaður
Sveinbjörn Jóhannsson, 21 árs - línumaður
Einar Héðinsson, 19 ára - línumaður.


Til baka    Senda á Facebook

Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson