Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15 Akureyri sigraði toppslaginn gegn HK fyrir troðfullu húsi - Akureyri Handboltafélag
Það eru þó allir sammála um að þetta hafi verið frábær handboltaleikur
26. nóvember 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar
Hvað sögðu menn eftir leik Akureyrar og HK?
Það er alltaf fróðlegt að heyra álit leikmanna og þjálfara eftir leiki og ekki síst eftir háspennuleik eins og við urðum vitni að í gærkvöldi. Hér á eftir er samantekt á efni sem við höfum fundið á hinum ýmsu fréttamiðlum:
Þröstur Ernir Viðarsson á Vikudegi ræddi við Atla Hilmarsson sem var að vonum sáttur í leikslok:
Atli Hilmarsson: Ekki hægt að tapa með fulla höll „Við þurftum að hafa mikið fyrir þessu og HK er náttúrulega með frábært lið,“ sagði Atli Hilmarsson þjálfari Akureyrar eftir eins marks sigur liðsins gegn HK í Íþróttahöllinni á Akureyri í kvöld N1-deildinni. Akureyri er því enn með fullt hús stiga á toppi deildarinnar, en tæpara mátti það ekki vera í kvöld þar sem lokatölur urðu 32:31.
„Við vorum alltof værukærir í fyrri hálfleik þar sem við gátum oft komist í fimm mörk en fengum mörk á okkur í bakið. Við vorum að missa boltann illa og HK refsaði okkur með hraðaupphlaupum.
Í seinni hálfleik voru við aftur komnir fimm mörkum yfir en vorum að fá rosalega mörg mörk á okkur á línunni sem við náðum ekki að stoppa. Við náum hins vegar að rífa okkur upp og liðið sýnir frábæran karakter í lokin að klára þetta.“ Atli viðurkennir að það hafi farið um hann á tímabili í leiknum en norðanmenn lentu tveimur mörkum undir seint í seinni hálfleik eftir að hafa haft forystu allan leikinn.
„Það fór um mig eiginlega allan leikinn enda frábært lið sem við vorum að mæta,“ sagði Atli, sem hrósaði stuðningsmönnum Akureyrarliðsins sem voru frábærir í kvöld, en alls voru 1250 manns í Höllinni sem létu vel í sér heyra. „Stuðningurinn frá áhorfendum var frábær í kvöld og það var ekki hægt að tapa með fulla höll,“ sagði Atli Hilmarsson.
Þrettán hundruð áhorfendur takk!
Andri Yrkill Valsson blaðamaður á mbl ræddi við Atla og Heimi Örn Árnason
Atli Hilmarsson: Fólkið svaraði kallinu „Ég talaði um það eftir síðasta leik að ég vonaðist eftir fullri Höll í næsta leik, ef ekki núna – hvenær þá, og fólkið svaraði svo sannarlega kallinu og sýndi frábæran stuðning,“ sagði Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar, eftir enn einn sigur norðanmanna í N1-deildinni.
„Mér fannst þetta frábær leikur þar sem mættust tvö frábær lið,“ sagði Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar. „Það var gaman að sjá hvað leikurinn var hraður en þó var svolítið mikið um mistök á báða bóga. En mér finnst það ekki skipta máli þar sem leikurinn hafði upp á svo mikið að bjóða. Við hefðum átt að ná meira forskoti í fyrri hálfleik en við fengum alltaf mark í bakið og misstum forskotið niður þannig. Okkur gekk mjög illa að eiga við Atla, línumann HK, í síðari hálfleik auk þess sem markvarslan datt niður um tíma. En við komum á endanum til baka, markvarslan hrökk aftur í gang og í kjölfarið snerist leikurinn við. Við höfum ekki oft lent í þeirri stöðu að vera undir eftir að hafa haft gott forskot en við sýndum úr hverju við erum gerðir og enduðum leikinn vel.“
Heimir Örn Árnason: Sýndum frábæran karakter Fyrirliðinn Heimir Örn Árnason var frábær og hefur stjórnað sóknarleik Akureyringa eins og herforingi. Heimir Örn vissi þó ekki alveg í hvorn fótinn hann ætti að stíga eftir leikinn. „Ég er mjög sáttur við sigurinn en ég finn fyrir blendnum tilfinningum. Ég tek ofan fyrir HK-ingum þar sem þeir tættu í sig vörnina hjá okkur og mér finnst við hafa verið teknir í bólinu varnarlega séð. Hann tók mig mjög illa línumaðurinn hjá þeim og ég læt það ekki koma fyrir aftur. Það leit ekki vel út þegar við vorum tveimur mörkum undir þar sem við vorum mjög stirðir sóknarlega en við sýndum frábæran karakter með þessum sigri og mér finnst hrikalega vel gert hjá okkur að vinna miðað við hvernig staðan var orðin,“ sagði Heimir.
Andri Yrkill ræddi við Erling Richardsson þjálfara HK og línumanninn Atla Ævar Ingólfsson
Erlingur Richardsson: Mjög gaman að koma hingað norður að spila Erlingur Birgir Richardsson, þjálfari HK, var mjög rólegur að leik loknum þrátt fyrir ósigurinn. „Spilamennskan var í heild yfir ágæt þrátt fyrir nokkra kafla í leiknum þar sem við hefðum átt að gera betur. Markmiðið var að stríða toppliðinu þar sem við vorum í öðru sæti fyrir leikinn og höfðum allt að vinna. Strákarnir stóðu sig mjög vel, fóru eftir því sem við lögðum upp með og reyndu allt sem þeir gátu til að sigra,“ sagði Erlingur við Morgunblaðið eftir leikinn.
Þjálfarar HK þeir Kristinn Guðmundsson og Erlingur Richardsson
HK-ingar eru nýkomnir frá Rússlandi þar sem þeir kepptu við Kaustik Volgograd í Evrópukeppni bikarhafa. Erlingur segir þó að liðið hafi ekki sýnt nein þreytumerki þrátt fyrir mikið ferðalag. „Nei, alls ekki. Við höfum sagt við strákana að ef þeir ætla að verða góðir íþróttamenn þurfa þeir að ferðast mikið þannig að það var ekkert að draga okkur niður. Við erum í þessu til að skemmta okkur og bæta okkur í handbolta og mér finnst liðið halda áfram að sýna framfarir. Við stóðum okkur vel á sterkum útivelli og börðumst fram á síðustu sekúndu sem sýnir hvað við erum með sterkt lið. Núna höldum við svo bara einbeittir í næsta leik,“ sagði Erlingur.
Hann hrósaði áhorfendum mikið enda hefur stemningin sjaldan verið eins góð þar sem um 1.250 manns troðfylltu Íþróttahöllina á Akureyri. „Stuðningur áhorfenda var frábær og það er mjög gaman að koma hingað norður að spila. Við vorum alveg tilbúnir í þetta og sýndum ekkert taugatitring gagnvart öllum áhorfendunum,“ sagði Erlingur.
Atli Ævar Ingólfsson: Völdum færin ekki vel „Það var léleg ákvörðunartaka í sókninni í lokin sem réð úrslitum þar sem við völdum færin ekki nægilega vel,“ sagði línumaðurinn Atli Ævar Ingólfsson eftir ósigur HK gegn Akureyri fyrir norðan. „Við vorum klaufar þar sem við vorum komnir yfir og með leikinn í okkar höndum en klúðrum því. Það var mikið stress í okkur í fyrri hálfleik sem ég skil ekki alveg. En við náðum að róa okkur niður í hálfleik og sýndum hvað við getum í þeim síðari. Við vorum hreint út sagt mjög óheppnir að tapa þessum leik.“
Atli Ævar Ingólfsson reyndist sínum eldri félögum erfiður
Hjalti Þór Hreinsson blaðamaður visir.is og Fréttablaðsins spjallaði sömuleiðis við ýmsa aðila:
Atli Hilmarsson: Sigureðlið er til staðar „Við áttum þetta inni frá Sveinbirni,“ sagði þjálfarinn Atli Hilmarsson kampakátur eftir 32-31 sigur Akureyrar á HK. Akureyri vann 32-31 en Sveinbjörn Pétursson varði frábærlega undir lokin og lagði grunninn að sigri eftir að HK hafði verið yfir
„Sveinbjörn hafði ekki varið vel í seinni hálfleik en ég vissi að þetta kæmi hjá honum,“ sagði Atli og brosti.
„Ég er ánægður með baráttuna í strákunum. Við klárum þetta vel undir lokin, við spiluðum ágætlega tveimur færri líka. Ég hefði þó viljað klára þetta fyrr, við gáfum þeim marga bolta í fyrri hálfleik. Forystan okkar var fljót að hverfa en það er bara frábært að halda áfram á sigurbraut. Það er sigureðli í þessum strákum sem við erum að kalla fram,“ sagði Atli.
Heimir Örn Árnason: Þetta sýnir bara styrk okkar Heimir Örn var besti maður Akureyrar, hann átti frábæran leik í vörn og sókn. „Það var mikið um að vera í lokin en við höfðum alltaf trú á þessu. Við vorum andlega skrítnir síðasta korterið og sóknin var hæg eins og margir hafa talað um. Ég tek ofan fyrir HK sem spilaði mjög vel. Þeir voru hrikalega góðir, en við unnum samt. Þetta sýnir bara styrk okkar,“ sagði Heimir. „Þetta eru blendnar tilfinningar fyrir mig, ég var góður í sókn en slakur í vörn, en sigur er sigur. Ég stóð mig vel en línumennirnir gerðu mjög vel í sókninni. Ég er smá svekktur að spila ekki betur í seinni hálfleik en andskotinn hafi það, þýðir það nokkuð þegar maður vinnur svona?“ spurði Heimir.
Hjalti ræddi við Daníel Berg Grétarsson leikstjórnanda HK
Daníel Berg: Heyrðum ekki í hvor öðrum inni á vellinum - 1300 manns í Höllinni á Akureyri „Þetta hefði getað dottið hvoru megin sem var en þeim tókst að klára þetta. Þeir voru bara sterkari undir lokin,“ sagði sársvekktur Daníel Berg Grétarsson eftir leikinn gegn Akureyri í kvöld.
„Við tókum hræðilega ákvörðun undir lokin þegar rétthendur maður fer inn úr hægra horninu. Við höfðum verið að spila skynsamlega fram að því. Oft þarf lítið til að snúa leikjum og eftir þetta datt allt með þeim“, sagði Daníel.
Hann gat skorað undir lokin en vörn Akureyrar varði skot hans á lokasekúndunni. „Ég hélt að við myndum klára þá eftir að við náðum tveggja marka forystu þegar lítið var eftir. Þetta er mjög svekkjandi,“ sagði Daníel sem fannst umgjörðin þó frábær.
„Við gátum ekki talað saman inni á vellinum, slíkur var hávaðinn. Við þurftum bara að gefa merki. Það er langt síðan maður hefur upplifað svona og þetta gerist ekki oft á Íslandi,“ sagði Daníel en tæplega 1300 manns studdu Akureyringa dyggilega í kvöld.Að lokum ræddi Hjalti við Erling Richardsson þjálfara HK
Erlingur Richardsson: Forréttindi að fá að spila í þessum hávaða „Mér fannst dómararnir leyfa þeim fullmikið undir lokin en svona er þetta. Leikurinn þróaðist þannig að ég hefði verið sáttur með jafntefli en það voru forréttindi að fá að spila í þessum hávaða,“ sagði Erlingur Richardsson þjálfari HK en leikmenn HK sögðust eftir leikinn ekki hafa heyrt hver í öðrum inni á vellinum, slíkur var stuðningur áhorfenda.
Heimir er fullur bjartsýni fyrir leikinn
25. nóvember 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar
Leikur dagsins: Akureyri – HK í beinni textalýsingu
Þá er runninn upp leikdagur, og það enginn venjulegur leikur. Tvö skemmtilegustu lið landsins mætast í Höllinni klukkan 19:00, það er von á fjölmenni og því vissara að mæta tímanlega til að tryggja sér góð sæti.
Á vef Vikudags er rætt við fulltrúa liðanna og eru þeir fullir tilhlökkunar: „Leikurinn leggst mjög vel í mig og það er alltaf ákveðin hápunktur á vetrinum að koma norður, þar er mikil stemmning og mikið af fólki,“ segir Vilhelm Gauti Bergsveinsson fyrirliði HK.
„Það er ekki annað hægt en að vera fullur bjartsýni fyrir leikinn. Það virðist ekkert stöðva okkur eins og er en þetta verður hörkuleikur,“ segir Heimir Örn Árnason fyrirliði Akureyrar.
Fyrir þá fjölmörgu stuðningsmenn sem ekki komast á leikinn verður heimasíðan að sjálfsögðu með beina textalýsingu frá leiknum. Eins og vanalega þá opnast lýsingin í sérstökum glugga og uppfærist sjálfkrafa á 15 sekúndna millibili.
24. nóvember 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar
Troðfyllum Íþróttahöllina á fimmtudaginn!
Akureyrarliðið skemmti landsmönnum svo sannarlega í beinni útsendingu á RÚV á laugardaginn með frábærum leik gegn FH. Næsti kafli í ævintýrinu fer fram fimmtudaginn í Höllinni þegar helstu mótherjar okkar, HK mæta eftir að hafa hitað upp í Rússlandi um síðustu helgi.
Allir þeir sem skemmtu sér við sjónvarpið fá nú kjörið tækifæri til að upplifa stemminguna á eigin skinni með því að mæta í Höllina. Það er fátt sem jafnast á við að taka þátt í stemmingunni í troðfullri Höll og fylgjast með tveim bestu og skemmtilegustu liðum landsins kljást á vellinum.Leikmenn Akureyrar mæta til leiks, yfirvegaðir eins og vanalega, tilbúnir til að gera sitt besta og það þurfum við stuðningsmennirnir að gera líka. Það sást vel í sjónvarpsleiknum að stuðningsmenn Akureyrarliðsins á Höfuðborgarsvæðinu tóku virkan þátt í leiknum og yfirgnæfðu gjörsamlega FH-ingana. Nú reynir fyrir alvöru á stuðningsmennina hér fyrir norðan að sýna hvað í þeim býr og hver er munurinn á heimavelli og útivelli. Ef það er ekki ástæða núna þá spyr maður sig hvenær?Þegar staðan í deildinni er skoðuðu sést að Akureyrarliðið er búið að sigra HK, Fram og FH öll á útivelli. Þetta eru einmitt liðin sem eru í 2. 3. og 4. sæti N1 deildarinnar og nú skuldum við strákunum einfaldlega að troðfylla Höllina og berjast með þeim hér á heimavelli. Fyrsta tækifærið til þess er einmitt klukkan 19:00 á fimmtudaginn og örugglega vissara að mæta tímanlega því búast má við miklu fjölmenni. Höllin verður opnuð klukkan 18:15.Hinn magnaði kynnir hússins lofar ólýsanlegri stemmingu og lumar á nýjungum sem setji ný viðmið fyrir aðra kynna í íslenskum handbolta, ekki missa af því!
HK liðið er búið að vera gríðarlega öflugt upp á síðkastið
23. nóvember 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar
Mótherjar okkar á fimmtudaginn - HK
Það er vægt til orða tekið að leikur Akureyrar og HK á fimmtudaginn verði einn af úrslitaleikjum N1 deildarinnar. HK hefur blásið á allar hrakspár manna um slakt gengi í ár og hafa með frábærum leik, baráttu og stemmingu sannað að liðið er miklu betra en spekingarnir töldu. Í árlegri spá sinni töldu forráðamenn og þjálfarar liðanna að HK myndi verða í 6. sæti deildarinnar. Reyndin er hins vegar sú að eftir þriðjung af deildarkeppninni er liðið í öðru sæti með 12 stig, hefur unnið alla leiki sína nema gegn Akureyri.
Akureyri fór illa með HK í fyrstu umferðinni, vann tólf marka sigur á heimavelli HK í Kópavoginum 29-41. Akureyringar héldu uppteknum hætti og slógu HK út úr Eimskipsbikarnum, sömuleiðis í Kópavoginum en nú með aðeins eins marks mun 28-29. Það má því vera ljóst að HK á harma að hefna gegn Akureyri og mun klárlega koma eins og grenjandi ljón í Höllina á fimmtudaginn.
En til að kynna stuttlega Kópavogsliðið þá hefur það innanborðs feikilega sterka einstaklinga. Þar fer fremstur í flokki markahæsti leikmaður deildarinnar, Ólafur Bjarki Ragnarsson sem hefur skorað 63 mörk í 7 deildarleikjum eða 9 mörk að meðaltali í leik. Ólafur er algjör lykilmaður í liðinu, gríðarlega öflug skytta og hefur oftar en ekki unnið leiki algjörlega upp á eigin spýtur. Hann er sömuleiðis mjög útsjónarsamur og finnur einstaklega vel línumanninn Atla Ævar Ingólfsson. Atli er næstmarkhæstur leikmanna HK með 49 mörk og hefur blómstrað hjá HK eftir að hann kom þangað frá Akureyri.
Bjarki Már Elísson er einnig fyrirferðarmikill í liði HK, hann er búinn að skora 44 mörk í vetur og loks skal nefndur Daníel Berg Grétarsson sem HK fékk frá Fram. Daníel fór rólega af stað í fyrstu leikjum haustsins, en er kominn á fulla ferð og er kominn með 22 mörk.
Ólafur Bjarki, Atli Ævar, Bjarki Már og Daníel Berg
Eins og við vitum þá lék Sveinbjörn Pétursson í markinu hjá HK undanfarin ár en þeir hafa nú endurheimt markvörðurinn Björn Inga Friðþjófsson sem lék í Danmörku á síðasta tímabili. Björn hefur verið mjög öflugur það sem af er og klárlega einn af betri markmönnum deildarinnar.
Björn Ingi, Erlingur Richardsson og Kristinn Guðmundsson
Nýir þjálfarar eru við stjórnvölinn hjá HK, þeir Erlingur Richardsson og Kristinn Guðmundsson tóku við Gunnari Magnússyni (sem nú er þjálfari Jónatans Magnússonar hjá Kristiansund í Noregi). Þeir Erlingur og Kristinn hafa mikla reynslu sem þjálfarar og hafa eins og dæmin sanna náð flottum árangri með liðið í vetur.
Um síðustu helgi spilaði HK gegn rússneska liðinu Kaustik í Evrópukeppni bikarhafa og lék báða leikina ytra. Fyrri leiknum tapaði HK með fimm mörkum, 39-34 en tapaði seinni leiknum með fimmtán mörkum, 39-24. Í fyrri leiknum skoruðu Bjarki Elísson og Atli Ævar 9 mörk hvor og Ólafur Bjarki 8 mörk. Það var svo vinstri hornamaðurinn Hákon Hermannsson Bridde sem var atkvæðamestur ásamt Ólafi Bjarka, báðir með sex mörk í seinni leiknum. Það má gera ráð fyrir að þessi Rússlandsför hafi verið góð upphitun fyrir HK liðið fyrir leikinn gegn Akureyri.
Ívar Benediktsson blaðamaður Morgunblaðsins ræddi í upphafi leiktíðar við reynsluboltann og fyrirliðann Vilhelm Gauta Bergsveinsson:
„Ég hef fulla trú á að okkur eigi eftir að ganga vel við að móta nýtt lið. Við gengum einnig í gegnum miklar breytingar á leikmannahópnum á síðasta ári sem gengu vel. Nú bætist við að nýir þjálfarar hafa komið í brúna. Þeir hafa gengið mjög skipulega til verks þannig að mér líst vel á leiktíðina sem framundan er,“ segir Vilhelm Gauti Bergsveinsson, fyrirliði og aldursforseti HK-liðsins í handknattleik.
„Undirbúningurinn hefur verið góður en vissulega hefur gengi okkar í æfingaleikjunum verið upp og ofan. En heilt yfir þá tel ég okkur vera á réttri leið,“ segir Vilhelm Gauti sem tók fram skóna á síðasta ári eftir að hafa tekið sér þriggja ára hlé.
„Við þessar miklu breytingar þá gefst yngri leikmönnum tækifæri til að koma inn og taka við keflinu. Það er hinsvegar ekki þannig að allt séu þetta reynslulitlir leikmenn í hópnum. Það hafa komið til liðs við okkur reynslumenn eins og Björn Ingi Friðþjófsson markvörður. Hann kom til baka eftir árs dvöl í Danmörku. Ólafur Bjarki Ragnarsson kom til baka eftir veru í Þýskalandi. Og síðan gekk Daníel Berg Grétarsson til liðs við okkur á dögunum. Þegar hann verður kominn í leikæfingu styrkir hann HK-liðið mjög mikið.
Síðan má ekki gleyma yngri strákunum sem öðluðust mikla reynslu á síðasta vetri og mæta nú til leiks reynslunni ríkari, svo sem Bjarki Már Elísson og Atli Ævar Ingólfsson.“
Vilhelm Gauti, sem er aðeins 31 árs, dró fram skóna á nýjan leik fyrir rúmu ári, eftir nokkurt hlé. Við brotthvarf Sverres Jakobssonar frá liðinu sumarið 2009 fékk Gunnar Magnússon, þáverandi þjálfari HK, Vilhelm Gauta til að endurskoða ákvörðun sína um að hætta. „Gunni sagði að það vantaði meiri þyngd í liðið. Menn mega túlka það á þann hátt sem þeir vilja,“ segir Vilhelm Gauti sem lék aðallega í vörn HK á síðustu leiktíð og stóð sig vel. „Ég æfði mjög vel í sumar og hlakka mjög mikið til þess að vera með í vetur. Maður áttar sig eiginlega ekki á því hversu skemmtilegt þetta er allt saman fyrr en maður snýr til baka eftir gott hlé eins og ég tók. Ég reikna ekki með að hætta á næstunni. Ætli ég verði nokkuð göngufær eftir fimm ár? Þá verður bara að hafa það. Ég spila á meðan ég get eitthvað,“segir Vilhelm Gauti léttur í lund eins og hans er von og vísa.
„Ég reikna með að leika meira í sóknarleiknum en í fyrra, að minnsta kosti í fyrstu leikjum keppnistímabilsins. Ég hef mikið spilað í sókninni í æfingaleikjunum. Það helgast af því af því að Bjarki Már Gunnarsson er meiddur og verður jafnvel frá keppni fram í byrjun desember. Síðan verður bara að koma í ljós hvað gamli maðurinn fær að spila í sókninni þegar á líður.“
Mikil leikgleði og stemning hefur alltaf fylgt í HK-liðinu. Vilhelm segir að mikil áhersla sé lögð á að hópurinn standi vel saman. „Við fórum snemma á undirbúningstímanum í sumar í æfingaferð til Þýskalands meðal annars í þeim tilgangi að fara með hópinn út úr hinu daglega amstri og þjappa hópnum vel saman. Það er svolítið í eðli félagsins að hafa góða stemningu innan þess og við viljum viðhalda henni,“ segir Vilhelm Gauti Bergsveinsson.
Leikmannalisti HK Björn Ingi Friðþjófsson, 23 ára - markvörður Valgeir Tómasson, 23 ára - markvörður Bjarki Már Elísson, 20 ára - vinstra horn Brynjar Freyr Valsteinsson, 27 ára - vinstra horn Leifur Óskarsson, 21 árs - vinstra horn/miðjumaður Hákon Hermannsson Bridde, 26 ára - vinstra horn Bjarki Már Gunnarsson, 22 ára - vinstri skytta Ólafur Bjarki Ragnarsson, 22 ára - vinstri skytta/miðjumaður Vilhelm Gauti Bergsveinsson, 31 árs - vinstri skytta Daníel Berg Grétarsson, 25 ára - miðjumaður Atli Karl Bachmann, 19 ára - hægri skytta/hornamaður Hörður Másson, 21 árs - hægri skytta Sigurjón Friðbjörn Björnsson, 22 ára - hægra horn Atli Ævar Ingólfsson, 22 ára - línumaður Ármann Davíð Sigurðsson, 22 ára - línumaður Björn Þórsson Björnsson, 22 ára - línumaður Sigurjón Rúnarsson, 24 ára - línumaður.