Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15 Jafntefli í leik Hauka og Akureyrar - Akureyri Handboltafélag
17. desember 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar
Viðtöl eftir jafnteflisleik Hauka og Akureyrar
Að vanda leynast víða viðtöl við leikmenn og þjálfara eftir leikinn. Við reynum að tína til það sem við finnum og byrjum á viðtölum Stefáns Árna Pálssonar á visir.is sem hann tók við þjálfarana strax að leik loknum:
Atli Hilmarsson: Gott að vera á toppnum í fríinu Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar, var nokkuð sáttur með stigið í kvöld en hann hefði viljað þau bæði. Akureyri gerði jafntefli, 23-23, gegn Haukum í 11. umferð N1-deild karla en leikurinn fór fram á Ásvöllum. Bæði lið hefðu getað stolið sigrinum í lokin en jafntefli varð niðurstaðan.
„Ég er gríðarlega ánægður að vera enn á toppnum þegar kemur að fríinu. Strákarnir gerðu sér fulla grein fyrir því að Haukar væru með frábært lið og það yrði ekkert auðvelt að koma hingað. Við vorum alltaf vel inn í þessum leik og hefðum á tíma getað náð þriggja marka forystu og þá veit maður aldrei hvort leikurinn hefði þróast öðruvísi. Það sem einkenndi leikinn í kvöld var mikil taugaspenna hjá leikmönnum og bæði liðin vildu greinilega enda á góðum nótum fyrir fríið. Þetta var ekki besti handbolti sem ég hef séð en menn voru að leggja sig mikið fram og ég get ekki farið fram á meira,“ sagði Atli. Akureyringar voru í miklum vandræðum með framliggjandi vörn Hauka í kvöld og Birkir Ívar Guðmundsson var gjörsamlega með leikmenn Akureyrar í vasanum. „Ég hef engar áhyggjur af sóknarleiknum hjá okkur. Við spiluðum fínan sóknarleik á móti Fram í síðustu umferð, en í kvöld var það aðallega Birkir sem við vorum í vandræðum með,“ sagði Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar, eftir leikinn.
Halldór Ingólfsson: Áttum að hirða bæði stigin „Ég hefði viljað fá bæði stigin,“ sagði Halldór Ingólfsson, þjálfari Hauka, eftir leikinn í kvöld. Haukar gerðu jafntefli við Akureyri, 23-23, í hörkuspennandi leik á Ásvöllum í kvöld, en leikurinn var hluti af 11. umferð N1-deildar karla í handknattleik. „Við vorum í raun bara klaufar að klára ekki dæmið í restina. Akureyringar áttu í bullandi vandræðum með vörnina okkar nánast allan leikinn. Við vorum búnir að kortleggja sóknarleik þeirra vel og lögðum mikla áherslu á að stoppa Heimi (Örn Árnason). Undir lokin þá skora Akureyringar nokkur mörk eftir hraða miðju sem er alveg óásættanlegt af okkar hálfu. Akureyringar náðu að halda hraðanum töluvert niðri í leiknum og ég hefði viljað sjá mína menn keyra mun meira í bakið á þeim. Það er samt allt annar bragur á liðinu og hefur verið mikill stígandi í okkar spilamennsku,“ sagði Halldór eftir leikinn.
Guðmundur Hilmarsson á mbl ræddi við Atla Hilmarsson og Einar Örn Jónsson leikmann Hauka
Atli Hilmarsson: Fer ánægður í jólafríið Atli Hilmarsson þjálfari Akureyringa sagði við mbl.is eftir leikinn gegn Haukum í kvöld að úrslitin hefðu verið sanngjörn en liðin skildu jöfn, 23:23, í miklum baráttuleik sem leikinn var á Ásvöllum. „Ég fer ánægður í jólafríið enda erum við á toppnum og þetta var gott stig á útivelli gegn meisturunum,“ sagði Atli. Mbl sýndi einnig myndbandsviðtal við Atla, smelltu hér til að horfa á viðtalið, ef það virkar ekki þá er einnig hægt að prófa hér.
Einar Örn Jónsson: Ánægður með vörnina Einar Örn Jónsson leikmaðurinn reyndi í liði Haukanna var nokkuð sáttur við stigið sem Haukar fengu gegn toppliði Akureyringa í kvöld en liðin skildu jöfn, 23:23, í hörkuleik á Ásvöllum. Einar hrósaði varnaleik sinna manna og markvörslu Birkis Ívars Guðmundssonar. Mbl sýndi einnig myndbandsviðtal við Einar Örn, smelltu hér til að horfa á viðtalið, ef það virkar ekki þá er einnig hægt að prófa hér.
Snorri Sturluson blaðamaður Sport.is ræddi við Odd Gretarsson og Björgvin Hólmgeirsson eftir leikinn. Smelltu á linkana hér að neðan til að spila viðtölin við þá. Viðtal við Odd Gretarsson.
Loks er hægt að skoða viðtöl frá Haukar-TV þar sem Gunnar Berg leikmaður Hauka ræðir við Guðlaug Arnarsson, Björgvin Hólmgeirsson og Halldór Ingólfsson á léttu nótunum eftir leikinn. Sjá viðtalið við Guðlaug Arnarsson og fleiri.
Það er mikilvægur leikur sem Akureyri leikur í kvöld
16. desember 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar
Leikur dagsins: Haukar – Akureyri jafntefli 23-23
Því miður er beina útsendingin ekki að virka hjá Haukum en hér eru upplýsingar um gang leiksins.
Hálfleikur á Ásvöllum. Staðan er jöfn í miklum baráttuleik, 11:11, þar sem Akureyringar hafa verið skrefinu á undan. Birkir Ívar Guðmundsson hefur leikið best allra í fyrri hálfleiknum en hann varði 11 skot í hálfleiknum. Markahæstir Hauka: Guðmundur Á. Ólafsson 4/2, Tjörvi Þorgeirsson 2. Markahæstir Akureyringa: Guðmundur H. Helgason 3 Bjarni Fritzson 3/2.
Gangur leiksins í fyrri hálfleik: 1-2, 3-3, 5-6 (15. mín), 6-8, 7-8(22 min), 9-9, 11-11 (hálfleikur)
Síðasta umferð N1 deildarinnar fyrir jól verður leikin í kvöld. Akureyri mætir Haukum á heimavelli þeirra að Ásvöllum í Hafnarfirði. Að sjálfsögðu hvetjum við stuðningsmenn okkar á höfuðborgarsvæðinu til að mæta á leikinn og hvetja strákana til sigurs.
Því miður virðist útsending þeirra Haukamanna ekki vera að gera sig. Þegar við hringdum í þá fyrir örfáum mínútum voru svörin á þá leið að betra væri að nota Firefox vafrann í stað Internet Explorer. En það virðist engu skipta. Það er þó rétt að halda áfram að reyna. Einnig skal bent á stopula lýsingu á mbl.is.
Fyrir þá sem ekki komast á leikinn getum við bent á að hann verður sýndur í beinni á vefnum og hefst útsendingin klukkan 18:15 en leikurinn sjálfur klukkan 18:30.
Leikurinn hefur mikla þýðingu fyrir bæði liðin, Akureyri að sjálfsögðu til að halda toppsætinu en Haukar þurfa að sigur til að tryggja sér keppnisrétt í deildarbikarnum sem leikinn verður milli jóla og nýárs.
FH og HK eru einnig í sömu baráttunni en þau lið mætast einnig í kvöld og ljóst að sigurvegarinn í þeirri viðureign fer einnig í deildarbikarinn, sá leikur verður í beinni útsendingu á SportTV.is þannig að það verður nóg að gera fyrir áhugamenn að fylgjast með þessu öllu saman.
Stuðningsmannabolir til sölu á leiknumHægt verður að kaupa stuðningsmannaboli Akureyrar Handboltafélags á leiknum en Hlynur Jóhannsson verður með boli og posa á staðnum. Bolurinn kostar 4.000.- krónur og er að sjálfsögðu tilvalinn í jólapakkann í ár.
Flottir strákar í stuðningsmannabolunum
Einn af stóru leikjunum í umferðinni
14. desember 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar
Útileikur á fimmtudaginn gegn Haukum – sýndur á vefnum
Lokaumferð N1 deildar á þessu ári verður leikin á fimmtudagskvöldið. Akureyri sækir Hauka heim á Ásvelli í Hafnarfirði og hefst sá leikur klukkan 18:30. Okkur voru að berast fréttir um að leikurinn verði sýndur beint á netinu en það er Haukar-TV sem býður upp á þessa þjónustu og reikna þeir með að hefja útsendingu klukkan 18:15 með viðtölum og fleira fram að leik.
Liðin mættust hér á Akureyri þann 22. október og þá fór Akureyri með góðan sex marka sigur 25-19. Haukar verða klárlega engin lömb að leika við á sama tíma og Akureyri þarf að rífa sig upp eftir slakan leik gegn Fram um síðustu helgi.
Við fjöllum betur um leikinn hér á síðunni á næstu dögum.
Í þessari umferð eru ýmsar athyglisverðar viðureignir, Valur tekur á móti Fram en Valsmenn hafa heldur betur risið upp í síðustu leikjum. FH fær HK í heimsókn og þar geta ýmsir hlutir gerst. Loks er hörkuleikur í botnbaráttunni þar sem Selfyssingar mæta heimamönnum í Aftureldingu.
Liðin sem verða í fjórum efstu sætunum að lokinni þessari umferð keppa síðan í deildarbikarnum á milli jóla og nýárs. Akureyri og Fram eru örugg um sæti þar en FH, HK og Haukar berjast um hin tvö lausu sætin.