Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15 Akureyri leikur til úrslita í deildarbikarnum - Akureyri Handboltafélag
27. desember 2010 - Akureyri handboltafélag skrifar
Oddur: Ætlum að sjálfsögðu að vinna deildarbikarinn
Oddur Gretarsson segir í viðtali við Morgunblaðið að stefnan sé að sjálfsögðu að vinna deildabikarinn en toppliðið í N1-deildinni mætir Íslands- og bikarmeisturum Hauka í undanúrslitunum í kvöld. Haukarnir lögðu Akureyringa í spennandi úrslitaleik í fyrra.
„Við erum vel stemmdir fyrir þessari keppni. Það er smá þreyta í sumum okkar en það er fínt að fá þessa leiki. Ég á von að einhverjir þeirra sem hafa fengið minna að spila í vetur fái að spreyta sig en við verðum með okkar sterkasta lið og hlökkum bara til að taka þátt í þessu enda um skemmtilegt mót að ræða,“ sagði Oddur við Morgunblaðið í gær.
„Við töpuðum úrslitaleiknum á eftirminnilegan hátt fyrir Haukum í fyrra en við fáum tækifæri til að hefna okkar á þeim og markmiðið er að vinna mótið enda ekki á hverjum degi sem við eigum möguleika á að vinna bikar,“ sagði Oddur.
Oddur hefur stimplað sig vel inn með íslenska A-landsliðinu en hann var í landsliðshópnum sem lék á heimsbikarmótinu í Svíþjóð á dögunum. Þá hefur hann verið í stóru hlutverki með Akureyrarliðinu í N1-deildinni en þar hefur liðið þriggja stiga forskot nú þegar hlé hefur verið gert á deildinni.
„Það er búið að ganga virkilega vel hjá okkur. Það kom smá bakslag undir lokin en við vissum áður en lagt var af stað í haust að við færum ekki í gegnum mótið án þess að tapa leik. Við förum sáttir í fríið enda með þriggja stiga forskot á toppnum. Við gerum okkur líka grein fyrir því að við höfum ekki unnið neitt ennþá og við þurfum, ef eitthvað er, að bæta leik okkar eftir áramótin,“ sagði Oddur í viðtali við Guðmund Hilmarsson blaðamann Mbl.