Dómarar: Gísli Jóhannsson og Hafsteinn Ingibergsson.
Umfjöllun
Tengdar fréttir
Takk fyrir allar myndirnar Þórir!
1. mars 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar
Mögnuð myndasyrpa frá bikarhelginni
Þórir Tryggvason lét ekki sitt eftir liggja um helgina frekar en fyrri daginn. Hann sendi okkur 190 myndir frá bikarveislunni. Myndirnar eru frá föstudagsæfingunni í Laugardalshöllinni, frá hittingi stuðningsmanna fyrir leik á Ölver í Glæsibæ og loks frá bikarúrslitaleiknum sjálfum.
26. febrúar 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar
Leikur dagsins: Valur - Akureyri
Þá er komið að stóra deginum, sjálfum bikarúrslitaleiknum. Leikmenn Akureyrar Handboltafélags komu til Reykjavíkur í gær og fengu eina æfingu í Laugardalshöllinni, rétt til að prófa fína gólfið. Þórir Tryggvason smellti af nokkrum myndum á æfingunni.
Spáð í aðstæður í Laugadalshöllinni
Inga Dís hafði nóg að gera við að nudda og mýkja vöðva leikmanna
Notuð verður flott tækni við auglýsingaskiltin í dag
Leikurinn hefst svo klukkan 16:00 í dag, stuðningsmenn ætla að hittast í Ölver í Glæsibæ um klukkan 13:00 og kynda upp stemminguna.
Gríðarlega mikilvægt að fá stuðning frá áhorfendum
25. febrúar 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar
Bikarúrslitin: Mikilvægt að fá stuðning frá okkar fólki
Nú styttist óðum í bikarúrslitaleikinn, stærsta handboltaleik ársins þegar Akureyri Handboltafélag og Valur mætast í úrslitaleik karla. Þröstur Ernir Viðarsson blaðamaður Vikudags ræddi í gær við þjálfara liðanna og sinn hvorn leikmanninn:
Atli: Klárir í slaginn og fullir tilhlökkunar
Atli Hilmarsson þjálfari Akureyrar segir sína menn vera klára í slaginn. „Við erum fullir tilhlökkunar og það er einstaklega gaman að fá að taka þátt í svona leik,“ segir Atli. Allir leikmenn eru klárir, fyrir utan Geir Guðmundsson sem verður ekki meira með í vetur. Varnarjaxlinn Hreinn Þór Hauksson er kominn aftur inn í lið norðanmanna og er það mikill styrkur fyrir liðið. Oddur Gretarsson hvíldi í síðasta deildarleik vegna ökklameiðsla en er tilbúinn í leikinn. En hvernig leggst leikurinn í Atla?
„Þetta verður hörkuleikur. Valsmenn eru alltaf að bæta sig og eru með hörkufínt lið. Staða liðanna í deildinni skiptir engu þegar komið er í svona leik,“ segir hann. Akureyringar hafa ungu liði á að skipa í bland við eldir leikmenn en Atli segist ekki hafa áhyggjur af reynsluleysi í liðinu.
Frá leik Akureyrar og Vals í Höllinni nú í febrúar
„Við höfum fullt af reynsluboltum inn á milli í okkar liði og þó við höfum ekki farið saman í svona leiki þá höfum við farið sitt í hvoru lagi. Ég held að okkar reynsluboltar séu tilbúnir í þetta,“ segir hann. Atli vonast eftir því að stuðningsmenn Akureyrar fjölmenni suður á leikinn og styðji við bakið á sínu liði. „Það er gríðarlega mikilvægt að fá stuðning og væri gaman að fá góða stemmingu frá okkar fólki. Það væri flott að geta haft helming áhorfenda á okkar bandi,“ segir Atli.
Guðmundur Hólmar: Stærsti leikurinn á ferlinum
Skyttan unga í liði Akureyrar, Guðmundur Hólmar Helgason býður spenntur eftir leiknum. „Þetta er stærsti leikurinn hingað til á mínum ferli og það er því gríðarlegur spenningur. Ég hef reyndar einu sinni spilað bikarúrslitaleik með 2. flokki en þá var ég bara kjúklingur,“ segir hann. Guðmundi líst vel á að mæta Valsliðinu í úrslitum og er hvergi banginn.
Guðmundur í leik Akureyrar og Vals í Höllinni nú í febrúar
„Valur er með mjög gott og reynslumikið lið en það þýðir ekkert annað en að vera bara kaldur. Maður tekur sína sjensa og þarf að sýna skynsemi í leiknum. Maður býr vel að því að hafa reynslubolta eins og Heimi Örn Árnason og Guðlaug Arnarsson við hliðina á sér. Það gefur manni mikið.“
Óskar Bjarni: Þurfum að stoppa hraðaupphlaupin
„Þetta er það skemmtilegasta sem íþróttamenn og þjálfarar fá. Bæði þessi vika og leikurinn sjálfur,“ segir Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals. „Það verður gaman að mæta Akureyri og deildin segir allt um þeirra getu. Þeir eru að klára leikina og eru með góða vörn og leikmenn sem taka af skarið. Þeir verðskulda að vera á toppnum og það verður krefjandi og skemmtilegt að eiga við þá í þessum leik.“
Þrátt fyrir að Valur sé á leiðinni í fjórða bikarúrslitaleikinn í röð, segir Óskar að liðið hafi ekki mikla reynslu fram yfir Akureyrarliðið. „Við höfum misst marga leikmenn og liðið er mjög breytt. Þannig að ég held að liðin standi jafnfætis hvað reynsluna skiptir. Það eru margir nýir leikmenn í okkar liði sem eru að fara í bikarúrslit í fyrsta sinn.“
Óskar Bjarni og Heimir Ríkharðsson í leik Akureyrar og Vals í Höllinni nú í febrúar
Valsmenn hafa tapað tvívegis fyrir Akureyri í deildinni í vetur. Óskar Bjarni segir að ýmislegt megi taka úr þeim leikjum sem nýtist liðinu á laugardaginn og segir lykilatriði að stoppa hraðaupphlaup norðanmanna. „Við þurfum að spila mjög agaðan sóknarleik. Ef við erum að spila illa úr kerfunum eru þeir með besta hraðaupphlaupslið deildarinnar sem refsar grimmt. Það er því lykilatriði fyrir okkur að spila markvissan sóknarleik,“ segir Óskar Bjarni.
Anton Rúnarsson: Veltur á dagsforminu
Anton Rúnarsson leikmaður Vals mætir sínu gamla félagi í leiknum en hann lék með Akureyrarliðinu um tíma. „Það má segja að þetta sé fyrsti alvöru bikarleikurinn sem ég tek þátt í að einhverju viti. Eigum við ekki að segja að við eigum helmingsmöguleika á sigri. Akureyri hefur auðvitað spilað frábærlega í vetur en við komið sterkir inn á seinni hluta deildarinnar. Það er komið meira sjálfstraust í liðið og það getur allt gerst í þessu,“ segir Anton. Hann segir andlegu hliðina geta ráðið miklu á laugardaginn. „Þetta veltur rosalega mikið á dagsforminu. Spennustigið getur skipt máli og þarf að vera rétt stillt. Svo þarf hausinn að vera svolítið kaldur og það þýðir ekkert að vera of hátt uppi fyrir leikinn,“ segir Anton.
Hörður Fannar stöðvar Anton í leik Akureyrar og Vals í Höllinni nú í febrúar
Það safnast þegar saman kemur
21. febrúar 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar
Viltu setja stuðningstilkynningu á heimasíðuna?
Þessa dagana er margvísleg fjáröflun í gangi til að standa straum að kostnaði við þátttöku félagsins í Eimskipsbikarnum. Safnað er áheitum meðal einstaklinga og fyrirtækjum boðið að vera með ýmsar auglýsingar sem tengjast bikarúrslitaleiknum. Einn vettvangur sem getur hentað smærri aðilum sem vilja vera með er að birta smáauglýsingu eða stuðningsyfirlýsingu við Akureyri Handboltafélag sem yrði birt hér á vefnum framað og framyfir úrslitaleikinn á laugardaginn. Hægt er að skrá sig fyrir slíkri auglýsingu með því að fylla út formið hér að neðan, hér er um frjálst framlag að ræða þannig að upphæðin er að vali viðkomandi.
Við þökkum fyrirfram fyrir veittan stuðning
21. febrúar 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar
Styrkur og áheit vegna bikarúrslitaleiks 2011
Þátttaka Akureyrar Handboltafélags í bikarkeppninni er búið að vera mikil ánægja fyrir alla sem þar hafa komið nálægt. En bikarævintýrið kostar líka sitt og því grípum við til þess að bjóða einstaklingum að sýna stuðning sinn og heita ákveðinni upphæð á félagið vegna þátttöku í úrslitaleik Eimskipsbikarsins.
Ef þú vilt leggja þitt að mörkum skaltu lesa eftirfarnandi og fylla út formið hér að neðan, þú ræður upphæðinni, margt smátt getur gert gæfumuninn.
Fyllum Laugardalshöllina af stuðningsmönnum Akureyrar
18. febrúar 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar
Flugfélag Íslands með tilboð á flugi á bikarúrslitaleikinn
Flugfélag Íslands auglýsir sérstakt tilboð á flugi fyrir þá stuðningsmenn Akureyrar Handboltafélags sem vilja fara á bikarúrslitaleik Akureyrar Handboltafélags og Vals laugardaginn 26 febrúar.
Tilboðið er eingöngu bókanlegt núna um helgina eða frá kl. 08:00 föstudaginn 18. febrúar og til kl. 18:00 sunnudaginn 20 febrúar.
Verð aðeins 16.170 kr. með sköttum báðar leiðir.
Takmarkaður sætafjöldi á þessu frábæra verði.
Ferðatilhögun: Frá Akureyri 26. febrúar kl. 09:55 eða 13:40 Frá Reykjavík 26. febrúar kl. 19:00
Þessi fargjöld eru einungis bókanleg í síma 460 7000 hjá Flugfélagi Íslands Akureyri
Athugið að þetta tilboð verður ekkert auglýst frekar.
Stuðningsmenn Akureyrar Handboltafélags hafa því þetta forskot, en eftir að opnað verður fyrir sölu, eru sætin opin í almennri sölu.
Mæting í flug eigi síðar en 30 mín fyrir brottför.
Stærsti leikurinn í sögu félagsins
17. febrúar 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar
Sætaferðir á úrslitaleik Eimskipsbikarsins 26. febrúar
Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum að Akureyri Handboltafélag leikur til úrslita gegn Val í Eimskipsbikarnum í Laugardalshöllinni laugardaginn 26. febrúar.
Akureyri handboltafélag hefur ekki áður komist í úrslit bikarkeppninnar en annar forveri þess, KA, náði þeim áfanga að verða þrisvar sinnum bikarmeistari, 1995, 1996 og 2004.
Þeir sem hafa upplifað stemminguna á slíkum úrslitaleik vilja örugglega ekki missa af þessu tækifæri og því hafa Sérleyfisbílar Akureyrar (SBA) ákveðið að bjóða upp á sætaferðir á leikinn.
Farið verður frá Íþróttahöllinni á Akureyri klukkan 8:00 á laugardaginn 26. febrúar og heim aftur fljótlega að leik loknum. Sætaverð er 4.000 krónur.
Það er vissara að tryggja sér sæti sem fyrst en hægt er að bóka sæti í ferðina gegnum vefinn.