Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15 Akureyri deildarmeistarar eftir sigur á HK - Akureyri Handboltafélag
Dómarar: Gísli Jóhannsson og Hafsteinn Ingibergsson
Umfjöllun
Tengdar fréttir
Heimir Örn með Deildarmeistaratitilinn 2011
12. mars 2015 - Akureyri handboltafélag skrifar
Þegar Akureyri varð Deildarmeistari (myndband)
Akureyri Handboltafélag er að fara að mæta HK í Digranesi á sunnudaginn og því um að gera að rifja upp skemmtilega heimsókn liðsins í Digranesið þann 28. mars 2011. Akureyri vann góðan sigur þann daginn og tryggði sér Deildarmeistaratitilinn. Smellið hér til að sjá upplýsingar um leikinn.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2 um sigurinn, við bendum sérstaklega á skemmtilegt fagn hjá Heimir Erni og Daníel Erni eftir um 35 sekúndur!
Atli var að vonum sáttur með áfangann sem náðist með sigrinum á HK
29. mars 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar
Viðtöl og myndbönd eftir HK leikinn
Það vantar ekki viðtöl og vangaveltur eftir sveiflukenndan leik HK og Akureyrar þar sem Akureyri tryggði sér deildarmeistaratitilinn með góðum þriggja marka sigri. Fyrst byrjum við á fréttaskoti úr fréttum Stöðvar 2, smelltu hér til að horfa.
Snúum okkur þá að viðtölum blaða og vefmiðla, fyrst koma vðtöl Stefáns Árna Pálssonar blaðamanns visir.is:
Bjarni Fritzson: Það verður erfitt fyrir liðin að koma norður
„Þetta er frábær tilfinning,“ sagði Bjarni Fritzson, leikmaður Akureyrar, eftir að liðið hafði tryggt sér Deildarmeistaratitilinn. „Við lékum alveg hreint frábærlega í fyrri hálfleik, en svo fara menn að reyna verja forskotið í þeim síðari og það kann aldrei góðri lukku að stýra.
Menn voru að spila hér í kvöld sem eru í raun meiddir og það hafði töluvert að segja í síðari hálfleiknum.
Við spilum alltaf eftir ákveðnu skipulagi og erum með virkilega agað lið, en þegar við förum úr því skipulagi þá fara hlutirnir að ganga illa.
Þetta er þvílíkt mikilvægur titill fyrir okkur þar sem við erum með frábæran heimavöll og það verður erfitt fyrir lið að koma Norður,“sagði Bjarni Fritzson mjög svo sáttur eftir sigurinn í kvöld.
Bjarni skorar eitt af fimm mörkum sínum í leiknum. Mynd: sport.is/Ómar Smith
Næstur á vegi Stefáns Árna varð Atli Hilmarsson
Atli Hilmarsson: Frábær stund fyrir félagið
„Þetta er frábært fyrir félagið,“ sagði Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar, mjög svo ánægður eftir sigurinn.
„Okkur hefur ekki gengið nægilega vel að klára þá titla sem hafa verið í boði í vetur og því er þessi sérstaklega mikilvægur.
Það var erfitt að sameina þessi tvö félög á sínum tíma en núna er fyrsti titillinn komin í hús og menn geta verið ánægðir með það. Ég er gríðarlega stoltur af þessum drengjum. Ég þurfti að byrja á því að kynnast þeim aðeins en þeir eru búnir að sýna mér hversu megnugir þeir eru.
Fyrri hálfleikurinn hjá okkur er líklega með því betra sem ég hef séð frá liðinu, en það gekk allt upp og við misnotuðum varla færi. HK-ingar komu síðan sterkir til baka varnarlega í síðari hálfleik og Björn Ingi fer að verja vel frá þeim, en við slökuðum allt of mikið á. Við sýndum samt ákveðin karakter að klára dæmið og það er það sem skiptir máli,“ sagði Atli.
„Fyrir svona lið eins og okkur þá er alveg gríðarlega mikilvægt að hafa heimavallarréttinn í úrslitakeppninni, en við eigum alveg hreint stórkostlega áhorfendur sem eiga eftir að hjálpa okkur mikið.
Ég verð fyrst og fremst að hugsa um mitt lið. Það eru nokkrir leikmenn sem hafa verið að glíma við meiðsli og þeir eiga eftir að spila minna í síðustu tveimur leikjum liðsins, en það kemur ekki til greina að taka á móti bikarnum í næsta leik á Akureyri eftir tap og því munum við gefa allt í þann leik,“ sagði Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar, að lokum.
Atli hvetur sína menn áfram í leiknum. Mynd: sport.is/Ómar Smith
Stefán Árni sneri sér því næst að heimamönnum í Kópavoginum.
Kristinn Guðmundsson: Mættum til leiks í síðari hálfleik
„Þetta var virkilega súrsætur leikur, en við mættum ekki til leiks fyrr en í hálfleik,“ sagði Kristinn Guðmundsson, annar þjálfari HK, eftir tapið í kvöld. „Í fyrri hálfleik vorum við okkur til háborinnar skammar. Við fórum út í síðari hálfleikinn með það að leiðarljósi að laga stöðuna aðeins og komast eins og menn frá leiknum.
Strákarnir komu virkilega sannfærandi til baka og við getum í raun verið svekktir með það að hafa ekki hreinlega hrifsað sigurinn úr höndunum á Akureyri.
Um leið og ég er virkilega stoltur af strákunum hvernig þeir komu út í síðari hálfleikinn þá er ég hrikalega óánægður með hvernig við mættum til leiks. Ég hef engar áhyggjur af liðinu ef við spilum eins og síðustu 25 mínútur leiksins, en menn verða að vera rétt innstilltir þegar þeir mæta til leiks
Undir lokin þá leituðu leikmenn mínir mikið inn á línu sem er oft merki um það að menn þora ekki að taka sjálfir á skarið, en það varð okkur kannski að falli. Sveinbjörn Pétursson hefur verið algjör martröð fyrir okkur í vetur og við hreinlega ráðum ekki við hann, en við fórum að skjóta almennilega á hann í síðari hálfleik,“ sagði Kristinn.
HK er í fjórða sæti deildarinnar með 20 stig, en þeir mæta sjóðheitu liði Fram í næstu umferð og það er leikur upp á líf og dauða.
„Það eru enn tveir leikir eftir að tímabilinu og þetta er í okkar höndum, en við verðum að spila betur en í kvöld,“ sagði Kristinn nokkuð bjartsýnn á framhaldið.
Förum næst yfir á Morgunblaðið en Ívar Benediktsson blaðamaður fjallaði um leikinn og ræddi við menn eftir leikinn. Viðtöl Ívars birtust ýmist á mbl.is eða í sjónvarpi Morgunblaðsins.
Heimir Örn Arnason: Langþráður og sætur titill
„Nú tókst okkur loks að skrifa stóran kafla í sögu félagsins, kafla sem við ætluðum að skrifa í bikarúrslitaleiknum í Laugardalshöll fyrir skömmu. Það þýðir lítið að derra sig nema að standa við stóru orðin og nú tókst okkur að standa við þau; fyrsti titilinn er í höfn og hann var svo sannarlega langþráður og sætur,“ sagði Heimir Örn Árnason, fyrirliði Akureyrar handboltafélags, eftir að liðið tryggði sér deildarmeistaratitilinn í handknattleik karla.
Akureyringar fengu þó ekki deildarbikarinn afhentan í gærkvöldi í leikslok í Digranesi. Ákveðið var að bíða með bikarafhendingu þar til Akureyringar leika fyrir framan sína stuðningsmenn í Íþróttahöllinni á Akureyri á fimmtudagskvöldið þegar næstsíðasta umferð deildarkeppninnar fer fram.
„Ég er mjög stoltur af liðinu nú þegar þessi áfangi er í höfn,“ sagði Heimir Örn og viðurkenndi að nokkur spenna hefði verið í hópnum upp á síðkastið eftir að alvarlega var farið að hilla undir að áfanginn væri innan seilingar.
„Við höfum verið svolítið inni í okkur en samt ekki tapað leikjum, svo þetta hefur verið í lagi hjá okkur,“ sagði Heimir Örn sem er einn af reynslumeiri mönnum liðsins.
„Það verður æðislegt að fá bikarinn afhentan á fimmtudagskvöldið og geta fagnað honum með stuðningsmönnum. Þeir eiga það svo sannarlega skilið enda eiga þeir ekki minna í þessum titli og áfanga en við leikmenn og þjálfari liðsins. Akureyringar hafa staðið þétt við bakið á okkur í öllum leikjum. Á síðasta leik voru á annað þúsund áhorfendur á heimaleik. Maður fann fyrir gæsahúð af vellíðan og finna þennan mikla stuðning. Vonandi láta menn sig ekki vanta í Höllina á fimmtudagskvöldið,“ sagði Heimir Örn Árnason, fyrirliði deildarmeistara Akureyrar í handknattleik karla.
Heimir Örn lætur vaða á HK markið. Mynd: sport.is/Ómar Smith
Guðlaugur Arnarsson: Langþráður áfangi
Guðlaugur Arnarson hinn þrautreyndi leikmaður Akureyrar var skiljanlega í sjöunda himni eftir sigurinn á HK í kvöld í N1-deild karla í handknattleik því með honum innsigluðu Akureyri handboltafélag sinn fyrsta deildarmeistaratitil í handknattleik karla. Guðlaugur sagði titilinn vera langþráðan eftir mikla vinnu sem magir hafi komið að á undangengnum árum. Akureyringar fá bikarinn afhentan á fimmtudagskvöldið fyrir framan stuðningsmenn sína í Íþróttahöllinni á Akureyri eftir leik við Aftureldingu.
Gulli fylgist með eina vítakasti leiksins. Mynd: sport.is/Ómar Smith
Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar, sagðist vera stoltur af liði sínu að það hafi nú tryggt sér deildarmeistaratitilinn í handknattleik karla þrátt fyrir að enn séu tvær umferðir eftir. Atli sagði ekki kæmi til greina að slaka á klónni þótt tvær umferðir séu eftir, það væri ekki sanngjarnt gagnvart öðrum liðum í deildinni.
Atli fagnar með sínum mönnum eftir leikinn. Mynd: mbl.is/Kristinn
„Nú höfum við stigið yfir ákveðinn þröskuld en svo sannarlega ekki hættir, við höfum ekki fengið nóg,“ sagði Atli sem horfir til úrslitakeppninnar sem er framundan að deildarkeppninni lokinni 7. apríl. „Við ætlum okkur sigur í næsta leik. Það verður lítið gaman að taka móti bikar á heimvelli á fimmtudaginn eftir að hafa tapað leik,“ sagði Atli Hilmarsson, þjálfari deildarmeistar Akureyrar í handknattleik karla.
Ívar Benediktsson sneri sér því næst að Kristni, þjálfara HK:
Kristinn: Biðst afsökunar á fyrri hálfleik
Kristinn Guðmundsson, annar þjálfara HK, biður stuðningsmenn liðsins afsökunar á slökum leik þess í fyrri hálfleik gegn Akureyri í N1-deildinni í handknattleik í kvöld. HK-liðið hafi hinsvegar sýnt aðra hlið í síðari hálfleik og náð að hleypa lífi leikinn og veitt Akureyri nokkra keppni. Akureyri vann leikinn sem fram fór í Digranesi, 32:29, eftir að hafa verið tíu mörkum yfir, 21:11, í hálfleik. Síðari hálfleikur var mikið betri hjá HK og segir Kristinn hann e.t.v. vera eitthvað sem liðið geti byggt á í næstu tveimur leikjum en HK á í harðri baráttu við Hauka um fjórða og síðasta sætið í úrslitakeppninni. Sjá viðtalið við Kristinn á Mbl sjónvarpinu
Að lokum kíkjum við á ítarleg viðtöl Guðmundar Egils Gunnarssonar á Sport.is en hann ræddi við Odd Gretarsson, Atla Hilmarsson og Kristinn þjálfara HK.
Oddur Gretarsson: Mikill léttir að klára þetta í dag
Oddur Gretarsson var tvímælalaust maður leiksins gegn HK í kvöld. Hann var allt í öllu í sóknarleiknum og vann hvern boltann á fætur öðrum af sóknarmönnum HK, geystist fram í sókn og skoraði. Hann segir það ótrúlegan létti að hafa náð að klára dæmið í dag.
„Ég er mjög ánægður, það er mikill léttir að vera búinn með þetta loksins. Það er frábært að ná að landa fyrsta titli félagsins og ég get eiginlega ekki lýst því hvað mér er létt núna.
Það er alveg klárt að þessi fyrri hálfleikur skóp sigurinn. Við töluðum um það í hálfleik að halda áfram og missa þetta ekki niður en það kom eitthvað kæruleysi í mannskapinn. Menn hættu að sækja á markið og það má einfaldlega ekki gerast, það er eitthvað sem við verðum að laga fyrir úrslitakeppnina. Ég er mjög ánægður með það en ég hefði viljað leggja meira af mörkum í síðari hálfleiknum en við náðum að klára þetta og það er fyrir öllu.“
Oddur segir það litlu skipta hvaða andstæðinga liðið fær í úrslitakeppninni, allir verði að vera á tánum og leggja allt sitt í leikina sem eru framundan. „Mér líst mjög vel á úrslitakeppnina, mér er eiginlega slétt sama hverjum við mætum. Við hugsum bara um okkar og nú geta gömlu karlarnir í liðinu farið að slaka aðeins á og þeir yngri fengið að spila meira, það er bara jákvætt. Við verðum bara að æfa eins og brjálæðingar þangað til að úrslitakeppninni kemur og við hlökkum mjög til.“
Oddur skoraði níu mörk í leiknum, hér er eitt þeirra í uppsiglingu. Mynd: sport.is/Ómar Smith
Atli Hilmarsson: Þetta er alveg stórkostlegt
Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar, var að vonum kampakátur eftir sigur sinna manna gegn HK í kvöld. Sigurinn tryggði liðinu fyrsta titilinn í sögu félagsins. „Ég er ótrúlega stoltur og frábært fyrir liðið að ná loksins í sinn fyrsta titil, við erum búnir að bíða eftir þessu í svolítinn tíma. Það eru búnir að vera úrslitaleikir í öðrum flokki og úrslitaleikir í meistaraflokki, bæði deildarbikar og bikar, sem hafa tapast. Það eru hinsvegar tvær umferðir eftir og við erum búnir að landa þessu, hver hefði eiginlega trúað því? Fyrir tímabilið var okkur spáð þriðja sætinu og við erum búnir að vinna þetta núna. Það er alveg stórkostlegt.“
Akureyri spilaði án vafa besta fyrri hálfleik sem lið hefur sýnt í N1-deildinni í vetur. Liðið gjörsamlega valtaði yfir HK og hafði 10 marka forystu í hálfleik en værukærð hleypti HK inn í leikinn í síðari hálfleik.
„Þetta var alveg ótrúlegur fyrri hálfleikur af okkar hálfu og þvílík barátta í hverjum einasta leikmanni. Við vorum að vinna bolta í vörninni, meira segja að vinna glataða bolta til baka. Við fundum alltaf best staðsetta leikmanninn í sóknarleiknum, við spiluðum frábæra vörn og fengum hraðaupphlaup í kjölfarið. Markvarslan var stórkostleg og þessi fyrri hálfleikur var náttúrulega alveg einstakur.
Auðvitað kom upp einhver værukærð í seinni hálfleiknum og það er einhvernvegin þannig að það má ekki slaka á gegn neinu liði í deildinni og þeir voru næstum því búnir að stela þessu frá okkur.“
Tvær umferðir eru eftir í N1-deildinni áður en kemur að sjálfri úrslitakeppninni og segir Atli það forréttindi að hafa þennan tíma til að undirbúa liðið fyrir úrslitakeppnina. Hann segir liðið þó ekki ætla að gefa neitt eftir í þessum síðustu tveimur leikjum.
„Ég ætla að leyfa liðinu að rúlla vel en við ætlum ekki að gefa neitt eftir samt sem áður. Hin liðin í deildinni eiga það ekki skilið frá okkur að við séum að hætta núna. Við klárum leikina á móti Aftureldingu og Fram alveg á fullu en auðvitað hugsa ég fyrst og fremst um leikmennina mína og að þeir séu í standi þegar kemur að úrslitakeppninni. Við þurfum að gíra okkur upp fyrir úrslitakeppnina og það er ágætt að fá tvo leiki núna á tveimur vikum til þess.“
Atli á sér enga óska mótherja í úrslitakeppninni og segir það ekki skipta máli hverjum liðinu mætir. Það verði allir að vera 100% á tánum og það sé ekki hægt að slaka á gegn neinu liði.
„Þetta er bara nýtt mót. Það sást hér í dag að það skiptir ekki á móti hverjum við lendum, við gerðum jafntefli við Hauka heima sem gætu alveg eins lent í fjórða sæti. Við vorum í miklu struggli með HK heima og eins hér í dag þannig ég held það skipti ekki hverjum við mætum. Mér sýnist FH og Fram verða númer tvö og þrjú en það verða rosalegir leikir. Við erum ánægðir með að vera með heimaleikjaréttinn það sem eftir er og vera búnir að landa þessum titli fyrir félagið er frábært.“
Kristinn Guðmundsson: Þetta er mjög súrsætt
Kristinn Guðmundsson, þjálfari HK, gat ekki leynt vonbrigðum sínum með leik sinna manna gegn Akureyri í kvöld. Liðið spilaði skelfilega í fyrri hálfleik en kom mjög sterkt til baka í þeim síðari en það dugði ekki til.
„Þetta er mjög súrsætt, við mættum bara ekki til leiks fyrr en í hálfleik. Við sköpuðum okkar ágætis færi í upphafi leiks og litum ágætlega út en erum að klikka á færunum og Sveinbjörn að verja frá okkur. Það dregur úr manni tennurnar og alltof fljótt í raun og veru, við vorum að gera eitthvað allt annað en að spila handbolta. Ég veit ekki hvað við hentum boltanum oft í hendurnar á þeim fyrir framan okkar eigin punktalínu þegar við ætlum að refsa þeim í bakið. Þetta var bara algjörlega til skammar.
Við töluðum um það í hálfleik að við vildum ekki vera þekktir fyrir svona lagað og löguðum mjög mikið í seinni hálfleik. Takist okkur að nýta seinni hálfleikinn í þeim tveim leikjum sem við eigum eftir þá er ég handviss um að við komumst í úrslitakeppnina. Ef við hinsvegar spilum eins og við gerðum í fyrri hálfleik þá förum við ekki neitt og eigum það heldur ekki skilið.“ Kristinn er þó ánægður með að liðið sé ennþá með örlögin í sínum höndum og þurfi ekki að treysta á úrslit annarra leikja til að eiga möguleika á að fara í úrslitakeppnina, liðið eigi innbyrðisviðureign á Hauka sem gæti reynst dýrmætt.
„Við förum í hvern einasta leik í deildinni til að vinna hann, alveg sama hvað og það breytir engu hvort það sé Akureyri eða Selfoss sem þú ert að spila við. Öll liðin í deildinni geta unnið hvort annað og sveiflurnar eru gríðarlegar og ég held að þetta snúist um að einbeita sér að sjálfum sér og ekki neinu öðrum. Við erum ennþá í þeirri stöðu að geta verið okkar eigin gæfusmiðir, við eigum tvo leiki eftir og erum ennþá með innbyrðisviðureign á Hauka. Við verðum bara að klára þessa tvo leiki, þá erum við í úrslitakeppni, annars ekki.“ sagði Kristinn Guðmundsson annar þjálfara HK að lokum.
Fagnað eftir leik
Að lokum bendum við á myndband sem er á Sport.is og er tekið í búningsklefa Akureyrarliðsins eftir leikinn. Smelltu hér til að skoða myndbandið.
Skemmtileg móttaka á flugvellinum í kvöld, Hlynur tekur við blómvendinum sínum
28. mars 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar
Tekið á móti meisturunum á flugvellinum við heimkomuna
Um leið og úrslit leiksins í kvöld lágu fyrir var ljóst að blað var brotið í sögu félagsins, það þurfti ekki að ýta lengi á fulltrúa stuðningsmanna að mæta á Akureyrarflugvöll til að fagna köppunum við heimkomuna.
Akureyrarfánarnir komnir upp og beðið eftir flugvélinni
Strákarnir fengu að sjálfsögðu blóm og faðmlag
Atli Hilmarsson fékk hlýjar móttökur
Sigfús Helgason ávarpaði hópinn og færði kveðjur Hannesar Karlssonar úr Austfjarðaþokunni
Samúel Jóhannsson hafði góðar tilfinningar um leikinn eins og kom á daginni
Bikarinn sjálfur var ekki með í för að þessu sinni en hann verður afhentur í Íþróttahöllinni næstkomandi fimmtudagskvöld að loknum leik Akureyrar og Aftureldingar. Bæjarbúar fá þar kjörið tækifæri til að hylla strákana og fagna með þeim frábærum árangri í vetur. Gleymum ekki að liðinu var spáð þriðja sætinu af þjálfurum og forráðamönnum liðanna fyrir keppnistímabilið, næst á eftir FH og Haukum. Árangur Atla og strákanna er því frábær, til hamingju Akureyri Handboltafélag!
Það verða örugglega margir límdir við tölvuskjáinn á mánudagskvöldið
28. mars 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar
Leikur dagsins: HK og Akureyri í beinni á SportTV.is
Akureyrarliðið heldur í Kópavoginn í dag til að berjast við HK pilta. Þetta verður fjórða viðureign liðanna í vetur og þar af sú þriðja í Kópavogi. Akureyri vann fyrsta leik liðanna afar sannfærandi 29-41 í fyrstu umferð N1 deildarinnar.
Liðin mættust nokkrum dögum seinna á sama stað í bikarkeppninni og varð sá leikur vægast sagt rafmagnaður en Akureyri vann með einu marki 28-29.
Liðin mættust síðast hér í Íþróttahöllinni þann 25. nóvember og þar varð enn á ný háspennuleikur þar sem Akureyri fór aftur með eins marks sigur, 32-31.
Það má því gera ráð fyrir að leikur liðanna íkvöld verði líkt og hinir af hæsta spennustigi enda bæði liðin í hörkukeppni. Með sigri myndi Akureyri tryggja sér deildarmeistaratitilinn en HK má ekkert slaka á til að halda sæti sínu meðal fjögurra efstu og þar með tryggja sig inn í úrslitakeppnina.
Við efumst ekki um að fjölmargir stuðningsmenn Akureyrar á höfuðborgarsvæðinu munu flykkjast á leikinn og styðja dyggilega við bakið á sínum mönnum.
Fyrir þá sem ekki komast á leikinn getum við fært þær ánægjulegu fréttir að leikurinn verður í beinni útsendingu á SportTV.is og hefst klukkan 18:30 í dag.