Dómarar: Arnar Sigurjónsson og Svavar Ólafur Pétursson
Umfjöllun
Tengdar fréttir
Hvaða tromp verða Atli og Sævar með í bakhöndinni í kvöld?
13. október 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar
Leikur dagsins: Haukar – Akureyri í beinni textalýsingu
Enn á ný er runninn upp leikdagur, að þessu sinni sækjum við Hauka heim að Ásvöllum í Hafnarfirði. Leikurinn hefst klukkan 18:30 og ef að líkum lætur munu bæði lið leggja allt í sölurnar til að landa sigri í dag.
Sjónvarpsstöðvarnar ætla ekki að vera með leikinn í beinni útsendingu en við höfum gert ráðstafanir til að vera með beina textalýsingu frá leiknum hér á síðunni.
Það þarf ekki að taka það fram að stuðningsmenn Akureyrarliðsins á Höfuðborgarsvæðinu hafa sýnt það á liðinum árum að þeir eru betri en enginn og hvetjum við þá til að fjölmenna á leikinn og taka virkan þátt í baráttunni.
Eins og vanalega þá er einfalt að fylgjast með textalýsingunni, hún opnast á sérstökum glugga og uppfærist sjálfkrafa á 15 sekúndna fresti.
11. október 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar
Hreinn Hauksson leggur Akureyri lið á ný
Akureyri Handboltafélag á mikilvægan leik á fimmtudaginn þegar liðið mætir Haukum á Ásvöllum. Eins og alþjóð veit þá eru lykilmenn í Akureyrarliðinu að glíma við meiðsli og verða frá í nokkrar vikur, þannig eru Heimir Örn Árnason og Hörður Fannar Sigþórsson báðir úr leik og nú síðast bættist Heiðar Þór Aðalsteinsson í hópinn, ristarbrotinn. Fyrir voru á meiðslalistanum þeir Daníel Einarsson og Ásgeir Jónsson.
Það var því ljóst að eitthvað varð til bragðs að taka og var brugðið á það ráð að heyra hljóðið í jaxlinum Hreini Haukssyni sem hefur staðið vaktina undanfarin ár með miklum sóma. Hreinn, sem fluttist til Svíþjóðar í sumar þar sem hann stundar, nám hefur haldið sér í góðu formi og brást vel við og kvaðst til í að leggja sín lóð á vogarskálarnar. Hreinn mun því koma til liðs við sína gömlu félaga á fimmtudaginn og klæðast Akureyrarbúningnum á nýjan leik og ekki spurning að hann mun ekki láta sitt eftir liggja í varnarleiknum frekar en endranær.
Hreinn í leik gegn FH síðastliðið vor
Leikir Hauka og Akureyrar hafa alltaf verið baráttuleikir
11. október 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar
Útileikur gegn Haukum á fimmtudag
Andstæðingar Akureyrar á fimmtudaginn eru engir aðrir en stórveldið Haukar úr Hafnarfirði. Ekkert félag hefur oftar orðið Íslandsmeistari í karlaflokki frá aldamótum en Haukar. Félagið hampaði m.a. Íslandsmeistarabikarnum þrjú ár í röð 2008, 2009 og 2010 undir stjórn Arons Kristjánssonar.
Aron þjálfaði í Þýskalandi síðastliðið tímabil og en er nú kominn aftur í heimahagana og ætlar sér klárlega að gera betur með liðið en því gekk í fyrra. Haukarnir höfnuðu þá í fimmta sæti deildarinnar og í fyrsta sinn í háa herrans tíð komust þeir ekki í úrslitakeppnina.
Haukunum hefur gengið býsna vel það sem af er, bæði á undirbúningstímabilinu og í upphafi N1 deildarinnar en þeir töpuðu reyndar á heimavelli fyrir Fram í annarri umferðinni.
Nokkrar mannabreytingar hafa orðið hjá Haukum frá síðasta tímabili, skyttan Björgvin Hólmgeirsson og hornamaðurinn Guðmundur Árni Ólafsson eru farnir erlendis og þá lagði reynsluboltinn Einar Örn Jónsson skóna á hilluna.
En Haukarnir hafa líka fengið liðsstyrk, t.d. gekk hornamaðurinn Gylfi Gylfason til liðs við þá eftir 11 ára veru í Þýskalandi. Þá fengu Haukar unga skyttu frá Svartfjallalandi, Nemanja Malovic sem hefur sýnt að hann kann ýmislegt fyrir sér, skoraði t.d. 12 mörk þegar Haukar unnu HK í fyrstu umferðinni.
Eftir þrjár umferðir er Malovic markahæstur þeirra Haukamanna með 15 mörk og Skyttan Stefán Rafn Sigurmannsson næstur með 14 mörk. Stefán var einmitt valinn besti sóknarmaðurinn á Opna Norðlenska mótinu í haust.
Haukarnir eru með öflugan mannskap og verða örugglega erfiðir heim að sækja og því rétt að hvetja Akureyringa sem tök eiga á að drífa sig á Ásvelli á fimmtudaginn, leikurinn hefst klukkan 18:30.
SportTV.is ætlar ekki að sýna leikinn en við vonumst til að geta boðið upp á beina textalýsingu frá leiknum hér á síðunni, nánar um það síðar.