Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15 Ótrúlegur endasprettur tryggði Akureyri eitt stig gegn Val - Akureyri Handboltafélag
Dómarar: Jón Karl Björnsson og Þorleifur Á. Björnsson, eftirlit Einar Sveinsson
Umfjöllun
Tengdar fréttir
Jón Heiðar Sigurðsson stóð fyrir sínu í leiknum
25. október 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar
Ljósmyndir frá leik Akureyrar og Vals
Hér eru komnar ljósmyndir Þóris Tryggvasonar frá Valsleiknum í síðustu viku en eins og jafnan áður þá hefur Þórir séð um að festa augnablikin á filmu, eða kannski frekar á minniskort. Það eru ekki margir íþróttaviðburðir í bæjarlífinu sem Þórir hefur ekki skjalfest með þessum hætti og er framlag hans til menningarsögunnar í raun ómetanlegt.
22. október 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar
Myndband frá leik Akureyrar og Vals
Nú er komið í hús meðfylgjandi myndband frá leik Akureyrar og Vals frá fimmtudeginum. Eins og áður þá er það Hákon Ingi Þórisson sem hefur haft veg og vanda að gerð myndbandsins og var bæði myndataka og klipping í hans höndum. Einnig er skotið inn nokkrum ljósmyndum frá Þóri Tryggvasyni.
Við þökkum Hákoni Inga fyrir þetta glæsilega myndband en eins og menn muna þá gerði hann annað fyrir FH leikinn fyrr í haust.
Leikir Akureyrar og Vals hafa verið spennuþrungnir undanfarin ár
20. október 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar
Leikur dagsins: Akureyri - Valur, nú verður allt lagt í sölurnar
Andstæðingar Akureyrar í leik dagsins eru engir aðrir en ríkjandi bikarmeistarar Vals. Það þarf ekki að hafa mörg orð um að lið Akureyrar á harma að hefna frá bikarúrslitaleiknum í fyrravetur. Valsliðið lenti eins og menn muna í hremmingum á síðasta leiktímabili en með endurkomu Óskars Bjarna Óskarssonar sem þjálfara hrökk Valsvélin í gang og gekk liðinu flest í haginn á lokaspretti N1 deildarinnar.
Óskar Bjarni heldur áfram um stjórnvölinn hjá Val og víst er að hann hefur lag á að ná því besta út úr sínum mönnum. Nokkrar mannabreytingar hafa orðið hjá Val frá síðasta tímabili, skyttan Ernir Hrafn Arnarson hélt til Þýskalands, Heiðar Þór Aðalsteinsson er kominn til Akureyrar á ný auk þess sem nokkrir leikmenn eru einfaldlega hættir. Valsmenn endurheimtu þá Gunnar Harðarson og Magnús Einarsson úr danska boltanum, þá er öldungurinn Sigfús Sigurðsson kominn til þeirra enn á ný eftir að hafa leikið með Emsdetten í Þýskalandi í fyrravetur.
Sigfús Sigurðsson í leik með Val á Opna Norðlenska mótinu í haust
Þá gekk fyrrum Haukamaðurinn Andri Stefan Guðrúnarson til liðs við Val en hann verður þó væntanlega ekki leikhæfur fyrr en eftir áramót vegna meiðsla.
Það sem af er mótinu hafa Valsmenn unnið Aftureldingu, gert jafntefli við Gróttu en tapað fyrir FH og Fram. Ef á að tilgreina mikilvægustu leikmenn Valsliðsins kemur fyrst upp í hugann markvörðurinn Hlynur Morthens sem oftar en ekki hefur hreinlega unnið leiki fyrir Val upp á eigin spýtur. Það sem af er N1 deildinni eru það Anton Rúnarsson, Sturla Ásgeirsson og Finnur Ingi Stefánsson sem eru langatkvæðamestir í sóknarleiknum og hafa allir skorað 20 mörk eða meira. Næstur kemur línumaðurinn Orri Freyr Gíslason með 11 mörk.
Hlynur, Anton, Sturla og Finnur Ingi
Þess ber að geta að ein skærasta stjarna liðsins, Valdimar Fannar Þórsson hefur lítið haft sig í frammi enda glímt við meiðsli og munar um minna en Valdimar er einn hæfileikaríkasti leikmaður landsins.
Það er ljóst að Valsmenn munu bíta hraustlega frá sér í leiknum en það ætla heimamenn svo sannarlega að gera einnig en það hefur vantað herslumuninn upp á að ná hagstæðum úrslitum í síðustu leikjum.
Líkt og í síðasta leik þá fáum við góðan liðstyrk í Hreini Haukssyni en hann kom í örstutta heimsókn frá Svíþjóð í gær og er til í slaginn. Hreinn kom einnig í Haukaleikinn í síðustu umferð og sýndi þar og sannaði að hann hefur engu gleymt í varnarleiknum.
Geir Guðmundsson er kominn á fulla ferð, hér skorar hann á móti Aftureldingu
Þá er heldur að vænkast útlitið hjá nokkrum sem hafa verið á meiðslalistanum og aldrei að vita nema einhverjir þeirra verði klárir í hópinn í dag.
Það er mikill hugur í strákunum að komast aftur á sigurbraut og með dyggum stuðningi áhorfenda getum við lofað hörkuleik í kvöld.
Við verðum að vanda með beina textalýsingu frá leiknum fyrir þá sem ekki eiga heimangengt á leikinn.