Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15 Ströggl gegn Gróttu en dýrmæt stig í hús - Akureyri Handboltafélag
20. febrúar 2012 - Akureyri handboltafélag skrifar
Viðtöl eftir leik Gróttu og Akureyrar og myndir frá leiknum
Akureyri þurfti að hafa fyrir sigrinum á Gróttu síðastliðinn fimmtudag. Oddur Gretarsson átti stórleik og skoraði 11 mörk fyrir Akureyri. Blaðamenn sport.is og mbl.is ræddu við kappann eftir leikinn. Byrjum á viðtali Stefáns Hirst Friðrikssonar hjá sport.is:
Oddur: Er að komast í gang aftur
„Þetta var erfiður leikur hérna í kvöld. Við vorum lengi af stað og náðum okkur í rauninni aldrei almennilega á strik. Það var einhver deyfð yfir þessu hjá okkur, engin stemmning í húsinu og við þurftum að rífa okkur sjálfir í gang. Við náðum þessum tveimur til þremur ágætu köflum í leiknum en þeir gerðu útslagið fyrir okkur,“ sagði Oddur. Oddur spilaði virkilega vel eftir tiltölulega dapurt gengi að undanförnu og var hann ánægður með sína frammistöðu í leiknum „Þetta gekk vel í dag. Ég er búinn að vera í smá lægð, náttúrulega búinn að vera að spila nýja stöðu og svona en ég er allur að koma til. Ég er að finna mig bara nokkuð vel á miðjunni. Þetta voru tvö gríðarlega mikilvæg stig fyrir okkur erum við bara ánægðir með sigurinn. Við stefnum að sjálfsögðu á úrslitakeppnina og eru þessi sigur því bara ánægjulegur,“ sagði Oddur Gretarsson, leikmaður Akureyri að lokum.
Oddur skorar eitt af 11 mörkum sínum í leiknum
Ólafur Már Þórisson blaðamaður mbl.is ræddi einnig við Odd
Oddur: Vorum á rassinum í byrjun
„Við vorum á rassinum til að byrja með og í raun var einhver deyfð yfir þessum leik. Það voru svona 26 manns í húsinu þannig að maður þurfti sjálfur að rífa sig í gang. Við vorum lengi að því og náðum því í raun eiginlega aldrei fyrir utan tvo til þrjá kafla sem gerðu eiginlega gæfumuninn,“ sagði Oddur og sagðist vara hafa upplifað eins lélega stemningu frá því hann var í 2. flokki.
„Mér finnst það skrítið þar sem Grótta er með ungt og efnilegt lið ásamt því að þetta er stórt félag og með góða yngri flokka.“
Hann sagði stigin tvö mikilvæg þótt margt þyrfti að laga. Spurður hvort það hafi haft einhver áhrif að liðin voru að mætast í annað skiptið á einni viku sagði Oddur: „Það á ekki að skipta máli. Það gæti þó vel verið en þeir eru að sjálfsögðu líka að spila aftur við okkur. Þannig að það ætti ekki að hafa áhrif.“
16. febrúar 2012 - Akureyri handboltafélag skrifar
Leikur dagsins: Útileikur gegn Gróttu - í beinni textalýsingu
Í kvöld hefst þriðji hluti N1 deildarinnar sem er þá 15. umferðin. Akureyri á útileik gegn Gróttu á Seltjarnarnesi og hefst hann klukkan 18:30. Við höfum því miður ekki tök á að vera með okkar eigin beinu lýsingu frá leiknum en vísum hér á textalýsingu Vísir.is.
Aðrir leikir kvöldsins eru: FH – Afturelding, Fram – Haukar og HK - Valur en sá leikur verður í beinni á SportTV.is. Allir þessir leikir hefjast klukkan 19:30.
Heldur betur áskorun á liðið framundan
14. febrúar 2012 - Akureyri handboltafélag skrifar
Spennandi hlutir framundan – útileikur við Gróttu
Á fimmtudaginn hefst þriðji og síðasti hluti N1-deildarinnar hjá körlum. Það eru sem sé eftir sjö umferðir þar sem öll liðin leika innbyrðis. Akureyri situr nú í 5. sæti deildarinnar og á framundan fjóra útileiki og þrjá heimaleiki. Næstu tveir leikir eru á útivelli, gegn Gróttu nú á fimmtudaginn og síðan gegn Aftureldingu þann 1. mars.
Það er sem sé býsna langt í næsta heimaleik en hann er ekki á dagskrá fyrr en fimmtudaginn 8. mars þegar við fáum HK í heimsókn. Þar á eftir kemur útileikur gegn Haukum, heimaleikur gegn FH sunnudaginn 18. mars, síðan er útileikur gegn Fram 22. mars og að endingu heimaleikur gegn Val fimmtudaginn 29. mars.
Deildin er í raun galopin, aðeins munar fjórum stigum á Akureyri í 5. sætinu og Haukum sem eru í 1. sætinu þannig að mikilvægt er að allir, jafnt leikmenn og stuðningsmenn leggist á eitt og haldi fullri einbeitingu í þeim leikjum sem eftir eru.
Við lentum í erfiðleikum í fyrsta hluta mótsins en liðið steig heldur betur upp í framhaldinu og náði besta árangri allra liða í öðrum hlutanum, þ.e.a.s. í umferðum 8 - 14. Stigasöfnun liðanna í þeim hluta var sem hér segir: Akureyri 11 stig, FH 10 stig, HK 10 stig, Haukar 8 stig, Fram 7 stig, Valur 7 stig, Afturelding 3 stig og Grótta 0 stig.
Nú þarf bara að halda dampinum áfram allt til enda og sjá svo hvar við stöndum eftir næstu sjö umferðir.