Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15 Stórbrotinn leikur í kvöld - sigur á FH - Akureyri Handboltafélag
Dómarar: Hlynur Leifsson og Hafsteinn Ingibergsson. Eftirlitsmaður Einar Sveinsson
Umfjöllun
Tengdar fréttir
Að vanda voru menn misánægðir með leikinn
20. mars 2012 - Akureyri handboltafélag skrifar
Hvað sögðu menn eftir sigur Akureyrar á FH?
Tíðindamenn Morgunblaðsins og Fréttablaðsins ræddu við leikmenn og þjálfara Akureyrar og FH eftir leik þeirra í gærkvöldi. Andri Yrkill Valsson ræddi við Guðlaug Arnarsson en Skapti Hallgrímsson ræddi við þjálfarana Atla Hilmarsson og Kristján Arason en þessi viðtöl birtust á mbl.is:
Guðlaugur Arnarsson: Liðsheildin skipti sköpum
„Við vorum lélegir í síðasta leik og ætluðum okkur að snúa blaðinu við og koma sterkir til baka. Við sýndum að við erum í þessari baráttu af alvöru. Ég var mjög ánægður með vörnina nánast allan leikinn þar sem þeir áttu engin svör. Hún datt svo aðeins niður undir lokin og þeir minnkuðu þetta óþarflega mikið. Ég hefði viljað halda þeim lengra frá okkur í restina en við urðum svolítið kærulausir eins og gerist oft í svona leikjum. En liðsheildin skipti sköpum, þetta var sigur sem við þurftum og ég er mjög ánægður að það gekk eftir.“ Aðspurður hvort Akureyri hugsi um að endurheimta deildarmeistaratitilinn sagði Guðlaugur: „Að sjálfsögðu kitlar það. Fyrsta markmið okkar er hins vegar að tryggja sæti í úrslitakeppninnni og hefur verið það frá upphafi. Við þurfum að treysta á sjálfa okkur, ef við vinnum okkar leiki komumst við þangað og svo sjáum við bara til hvar við stöndum,“ sagði Guðlaugur Arnarsson einbeittur í leikslok.
Guðlaugur var gríðarsterkur í vörninni í leiknum
Atli Hilmarsson: Það besta sem liðið hefur sýnt
Atli Hilmarsson þjálfari Akureyrar var gríðarlega ánægður með sína menn. „Ég held að fyrri hálfleikurinn hafi verið eitt það besta sem liðið hefur sýnt síðan ég kom,“ sagði Atli við Skapta Hallgrímsson blaðamann Morgunblaðsins að leikslokum. Atli nefndi að hæðir og lægðir væru í handboltanum: „Við vorum svakalega lélegir fyrir viku en það breyttist heldur betur núna. Vonandi verður þetta hugarfar í liðinu á móti Fram.“ Liðin mætast í Reykjavík á föstudaginn gríðarlega mikilvægum leik. „Ég held að í þessum ham eigi ekkert lið séns í okkur,“ sagði Atli - en bætti við að liðið gæti farið niður á miklu lægra plan, eins og það hefði t.d. leikið í siðustu viku þegar það steinlá fyrir Haukum. Hér er hægt að horfa á viðtal Skapta við Atla.
Kristján Arason: Þetta var hrein hörmung
„Þetta var hrein hörmung,“ sagði Kristján Arason, annar þjálfara FH eftir tapið gegn Akureyringum fyrir norðan. FH var níu mörkum undir í hálfleik, og Kristján sagðist að sá munur hefði verið mjög sanngjarn. En þegar upp var staðið kvaðst hann þó ánægður með að FH-liðið gafst ekki upp og hefði lokið leik með sæmd.
„Ég tek það ekki frá Akureyringum að þetta var besti hálfleikur sem ég hef séð þá spila í vetur, en menn spila alltaf vel þegar vörnin er svona mjúk,“ sagði Kristján. Hann sagði FH hreinlega ekki eiga að geta spilað svona slaka vörn. „Við verðum að læra af þessum fyrri hálfleik; að handbolti vinnst í vörn, enn og aftur sýnir það sig hve varnarleikur skiptir miklu máli. En við verðum bara að koma dýrvitlausir í leikinn gegn FH, ég vona að stemningin í Krikanum á föstudaginn verði jafn frábær og hér.“
Kristján og Einar Andri reyna að koma boðum til sinna manna í leiknum
Hjalti Þór Hreinsson blaðamaður Vísir.is og Fréttablaðsins ræddi við Odd Gretarsson, Atla Hilmarsson og Einar Andra þjálfara FH eftir leikinn:
Oddur Gretarsson: Ógeðslega gaman
„Við höfðum ógeðslega gaman af þessum leik og virkilega gaman að spila hér í kvöld eins og sást á liðinu og öllu húsinu, nema síðustu tíu mínúturnar þegar við fórum að slaka á, samt frábær sigur. Eftir síðasta leik á móti Haukum þar sem við vorum með alveg skelfilega skotnýtingu þá þurfti bara hver og einn að hugsa sinn gang.
Oddur skorar eitt af mörkum sínum í leiknum
Bubbi tók okkur í smá fyrirlestur og við fórum vel í gegnum hvernig við vorum að skjóta og það hefur bara virkað vel. Við mættum vel undirbúnir í þennan leik og það sýndi sig bara, einbeittir frá fyrstu mínútu. Við þurfum að vinna allavega einn leik af því sem eftir er til að klára og fara í úrslitakeppnina, það er Fram næst á útivelli og það er bara annar úrslitaleikur þar sem hart verður barist,“ sagði Oddur.
Atli Hilmarsson: Nánast gallalaus fyrri hálfleikur
„Þetta er allt annað lið. Ég lofaði því líka að allt annað lið myndi mæta hér í dag og við svo sannarlega spiluðum frábæran leik, fyrri hálfleikur nánast gallalaus. Það er oft erfitt að koma inn í hálfleikinn með svona stöðu, menn fara í það að halda en það var ekki ætlunin.
Við föttuðum það bara allt of seint að þeir voru að stefna á innbyrðis stöðuna, áætlunin var bara að vinna leikinn enda bjóst ekki neinn við því að við færum að sigra með níu hér í kvöld. Fyrir mig er aðalatriðið að komast í úrslitakeppnina, ég hef trú á því að þetta kveiki það mikið í okkur að við förum á þetta flug áfram,“ sagði Atli.
Einar Andri Einarsson: Erum í stórhættu á að komast ekki í úrslitakeppnina
„Fyrstu 30 mínúturnar í leiknum eru alveg skelfilegar hjá okkur, en seinni hálfleikurinn er mjög góður og vinnum við hann með 5 mörkum. Við bara mættum ekki til leiks, Akureyringar voru frábærir í fyrri hálfleik, spiluðu frábæra sókn og náðu hraðaupphlaupum. Mér fannst við ágætir sóknarlega allan tímann, ef við hefðum fengið betri varnarleik þá hefðum við fengið fleiri hraðaupphlaup í kjölfarið en fyrst og fremst töpum við þessum leik í fyrri hálfleik á ömurlegum varnarleik.“
FH-ingar mættu grimmari inn í seinni hálfleikinn, snérist umræðan um að stefna að því að minnka þetta niður í þrjú til að vera með betri innbyrðis viðureignir á Akureyri? „Við bentum þeim á það að við yrðum að koma þessu eins mikið niður og við gætum og fyrst og fremst að vinna seinni hálfleikinn, ná þessu niður í í það minnsta fjögur mörk var markmiðið. Það eru tveir leikir eftir í deildinni og allt undir, erum í stórhættu á að komast ekki í úrslitakeppni og það eru vonbrigði. Við eigum HK heima á föstudaginn og við þurfum heldur betur að mæta klárir í hann enda hreinn úrslitaleikur um það hvort liðið fer í úrslitakeppnina,“ sagði Einar Andri.
Einar Andri var ekki alltaf sáttur við dómgæsluna í leiknum
Það má segja að gleðin hafi verið við völd í Höllinni í gær
20. mars 2012 - Akureyri handboltafélag skrifar
Myndir frá leiknum gegn FH og myndband af áhorfendum
Það var frábær stemming og gleði í Höllinni í gær og að vanda fangaði Þórir Tryggvason ljósmyndari herlegheitin. Áhorfendur voru af ýmsum aldri og í myndasyrpunni frá leiknum má einmitt sjá nokkra glaðbeitta fulltrúa yngri kynslóðarinnar.
Hér er einnig hægt að skoða myndband sem sýnir vel stemminguna á leiknum:
Þetta verður klárlega hörkuleikur
19. mars 2012 - Akureyri handboltafélag skrifar
Leikur dagsins í beinni textalýsingu
Við verðum að sjálfsögðu með beina textalýsingu frá leik Akureyrar og FH í dag. Leikurinn hefst klukkan 19:00 og þú smellir hér til að fylgjast með lýsingunni.
Þar að auki verður leikurinn sýndur á SportTV.is en hann þar verður hann án lýsingar samkvæmt frétt á heimasíðu SportTV.is.
„Allir leikirnir sem eftir eru verða í raun úrslitaleikir. Núna þurfum við á öllum stuðningi að halda og verðum að fá fulla Höll gegn FH, skapa stemmingu og vinna þennan leik.“ Segir Atli Hilmarsson.
Það verður að mæta af fullri alvöru gegn toppliði FH
17. mars 2012 - Akureyri handboltafélag skrifar
„Verðum að fá fulla Höll gegn FH“ segir Atli Hilmarsson
Næsta umferð N1 deildar karla er á mánudagskvöldið en þá tekur Akureyri á móti FH. „Allir leikirnir sem eftir eru verða í raun úrslitaleikir og við spilum ekki annan svona leik eins og gegn Haukum. Núna þurfum við á öllum stuðningi að halda og verðum að fá fulla Höll gegn FH, skapa stemmingu og vinna þennan leik.“ Segir Atli Hilmarsson í viðtali við Þröst Erni Viðarsson í Vikudegi.
Atli sendir skilaboð til sinna manna í síðasta heimaleik gegn HK
„Það kemur ekkert annað til greina og ég veit að strákarnir í liðinu hefðu helst viljað spila strax daginn eftir Haukaleikinn til að bæta þetta upp. Ég fékk spurningu frá einum leikmanni eftir þann leik hvort það yrði ekki skotæfing daginn eftir. Þannig að þeir eru meðvitaðir um að skotnýtingin þarf að komast í lag.
Það er svo sem ekkert svakalegt þótt við höfum tapað einum leik og ekkert stórvægilegt sem þarf að laga. Við þurfum að bæta skotnýtinguna og gerum við það þá eru okkur allir vegir færir. Þetta er í okkar höndum að komast í úrslitakeppnina og við þurfum bara að vinna okkar leiki og ætlum að gera það,“ segir Atli Hilmarsson.
Það verður örugglega brjáluð stemming í Höllinni á mánudaginn
16. mars 2012 - Akureyri handboltafélag skrifar
Stórleikur Akureyrar og FH í Höllinni á mánudagskvöldið
Það fer að síga á seinni hluta N1 deildarinnar hjá körlunum en nú eru aðeins þrjár umferðir eftir áður en úrslitakeppnin tekur við. Baráttan um sæti í úrslitakeppninni er gríðarlega hörð en efstu fjögur liðin fara í hana.
Akureyri situr sem stendur í 4. sæti deildarinnar en menn mega ekkert misstíga sig í þeim leikjum sem eftir eru til að halda því.
Það er því gríðarlega mikilvægur leikur á mánudagskvöldið þegar Akureyri tekur á móti toppliði deildarinnar FH og hefst leikurinn klukkan 19:00 í Íþróttahöllinni.
Síðast þegar liðin mættust í N1 deildinni lauk leiknum með jafntefli 29 -29 í Hafnarfirði.
Áhorfendur stóðu sig frábærlega í síðasta heimaleik gegn HK og nú er enn meira undir, mætum öll og tökum með okkur vini og vandamenn og gerum frábæra skemmtun á mánudagskvöldið.