Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15 ÍBV gjörsigraði Akureyri í Höllinni - Akureyri Handboltafélag
Dómarar: Ingvar Guðjónsson og Þorleifur Árni Björnsson. Eftirlitsmaður Kristján Halldórsson
Umfjöllun
Tengdar fréttir
Arnór Þorri kom af krafti inn í leikinn
6. október 2013 - Akureyri handboltafélag skrifar
Viðtöl eftir ÍBV leikinn
Það var frekar dauft yfir Akureyringum eftir leikinn gegn ÍBV á laugardaginn en að sama skapi var létt yfir Eyjamönnum. Einar Sigtryggsson, blaðamaður mbl. ræddi við nýliðann Arnór Þorra Þorsteinsson sem sýndi góða takta í liði Akureyrar svo og brosmildan Magnús Stefánsson, frá Fagraskógi sem líkt að aðrir Eyjamenn voru sáttir í leikslok:
Arnór Þorri: Gáfum þeim leikinn
„Þetta var ekki gott hjá okkur í dag, við vorum bara slakir og það vantaði eitthvað hjá okkur. Ég kom inn þegar Valþór meiddist en fram að því var virkilega erfitt að horfa upp á það sem var að gerast. Við vorum ekki nógu grimmir í vörninni og tókum mörg léleg skot. Svo voru einstaklingsmistökin allt of mörg og þetta telur allt. Munurinn á liðunum er alls ekki mikill en við gáfum þeim þetta hér í dag. Það er erfitt að útskýra hvað gerðist því við vorum vel stemmdir fram að leik. Við þurfum að bæta fyrir þennan skell með því að koma bandbrjálaðir í næsta leik gegn HK. Ég veit að þetta á eftir að smella saman hjá okkur og hef því engar áhyggjur“ sagði Arnór en hann og Jovan Kukobat eru líklega einu leikmenn Akureyrarliðsins sem gátu gengið nokkuð keikir frá leiknum.
Arnór Þorri brýst í gegnum ÍBV vörnina
Magnús Stefánsson: Allt Jónasi flugmanni að þakka
Magnús Stefánsson, frá Fagraskógi, var ekki að spila sinn fyrsta leik í Íþróttahöllinni á Akureyri þegar hann leiddi sína menn til sigurs gegn Akureyringum, 35:22, í Olísdeild karla í handknattleik í dag.. Lék hann lengi með KA og síðar Akureyri áður en Eyjarnar heilluðu. Hann var eins og fleiri hálf rasandi eftir hinn auðvelda þrettán marka sigur Eyjamanna.
„Ég veit bara varla hvað ég á að segja. Þetta var mjög sérstakur leikur og við tókum þetta bara strax með sterkum leik sem þeir áttu engin svör við. Þeir hljóta að vera verulega svekktir með sinn leik. Þjálfararnir okkar voru svoleiðis búnir að kortleggja Akureyringana upp á tíu og við fórum bara eftir því sem átti að gera. Vörnin var flott og Sindri lamdi okkur áfram allan tímann, Markvarslan var líka fín og svo voru menn virkilega að blómstra í sókninni. Við bara náðum að brjóta þá niður og smám saman tókum við völdin og það má segja að þetta hafi verið búið í hálfleik.
Þessi vörn okkar er gæluverkefni þjálfarans og hún virkaði vel í dag en ekki gegn Haukum í síðasta leik. Mér finnst alltaf gott að koma norður og þrátt fyrir að áhorfendur hafi látið sig vanta í dag þá verð ég að hrósa þeim sem mættu. Það var ágæt stemmning og öll umgjörðin hérna er til fyrirmyndar og greinilega frábærlega staðið að öllu. Ég vil líka hrósa flugmanninum, honum Jónasi, sem lóðsaði okkur hingað úr Eyjum. Flugið var þægilegt og sigurinn líka svo þetta er allt honum að þakka,“ mælti Magnús Stefánsson.
Magnús gat brosað breitt í leikslok
Birgir H. Stefánsson, blaðamaður Vísis ræddi við þjálfarana, Heimi Örn Árnason og Gunnar Magnússon eftir leikinn:
Heimir Örn Árnason: Algjör aftaka
„Þetta var bara algjör aftaka,“ sagði Heimir þungur á brún strax eftir leik. „Ég held að það sé erfitt að finna eitthvað gott til að taka úr þessum leik. Við komumst varla í vörn síðasta korterið í fyrri hálfleiknum. Við vorum með einhverja 18 tapaða bolta sem er allavega tíu of mikið.“
Var þetta bara einn af þessum dögum þar sem ekkert gengur upp? „Já en það er sama. Menn verða að líta í eigin barm núna og læra af þessu, við viljum ekki mæta svona til leiks eins og aumingjar aftur. Þessi heimavöllur á bara að vera vígi. Ég veit ekki hvort að leiktíminn hafi farið svona agalega í menn en þeir eiga nú að vera reynslumeiri en það í þessum bolta. Næsti leikur er HK úti og ef menn ætla að spila svona þá fer það ekki vel. Mjög erfiður útivöllur þar sem þeir náðu jafntefli á móti FH. Þeir hafa þannig séð engu að tapa og mæta því alltaf dýrvitlausir.
Heimir þarf að rífa sína menn upp fyrir næsta leik
Gunnar Magnússon: 24 marka sveifla milli leikja
„Við áttum auðvitað von á hörkuleik enda alltaf erfitt að koma hingað norður,“ sagði Gunnar Magnússon þjálfari ÍBV eftir leik. „Við vorum bara frábærir í dag. Vörnin góð, markvarslan einnig og sóknin öguð. Virkilega ánægður með strákana í dag. Það stigu allir upp í dag, allir gerðu sitt. Þegar það gerist þá erum við bara helvíti góðir.“
Það er töluvert um sveiflur í leik ÍBV það sem af er tímabils. „Já, þú sérð það að núna er 24 marka sveifla milli leikja frá heimavelli og yfir á erfiðan útivöll fyrir norðan. Núna þurfum við að ná Eyjamönnum niður á jörðina, þeir eiga það til að fara of hátt upp eftir sigra. Núna er það okkar verkefni að ná mönnum niður á jörðina aftur og undirbúa leikinn gegn FH.“
Er stefnan sett á toppbaráttu? „Við ætluðum að komast í gegnum þessa byrjun og erum komnir með fjögur stig og þau eru ekki tekin af okkur. Við erum ánægðir með þessa byrjun en við tökum þetta bara leik fyrir leik. Ef við ætlum að vera með í toppbaráttu þá þurfum við að geta strítt liðum eins og FH og Haukum, við sjáum hvernig þetta fer í næsta leik.“
Gunnar lagðist á bæn í leiknum og var bænheyrður
Þrándur mun örugglega standa í ströngu í dag
5. október 2013 - Akureyri handboltafélag skrifar
Leikur dagsins: Akureyri – ÍBV klukkan 13:30
Það verður heldur betur fjör í Íþróttahöllinni í dag þegar Akureyri og ÍBV mætast í fyrsta sinn í fimm ár. Bæði lið eru með tvö stig eftir tvo leiki í deildinni en bæði lið unnu sína leiki í fyrstu umferð, Akureyri vann Fram og ÍBV vann ÍR. Ekki er að efa að bæði lið stefna á sigur í leiknum enda mikilvægt að hala inn stig í deildinni sem fer vægast sagt skemmtileg af stað.
Þetta er síðasti leikurinn í 3. umferð en það er greinilegt að mikið jafnræði er með liðunum í deildinni sem öll hafa þegar tapað leik sem gefur vísbendingu um fjöruga og athyglisverða baráttu í vetur. Þrír leikir voru í gær þar sem Fram sigraði Val, Haukar unnu FH og ÍR-ingar unnu HK.
Leikurinn hefst klukkan 13:30 í dag sem er óvenjulegur tími en eiginlega bara fínn, það er enginn stórleikur í enska fótboltanum þannig að það er tilvalið að skella sér í Höllina og fylgjast með hörku handboltaleik. Ekki er annað vitað en liðin geti tjaldað sínum sterkustu leikmönnum, og verður gaman að sjá Eyjamenn aftur í baráttunni. Þeir eru með stórskyttuna Róbert Aron Hostert sem kom frá Íslandsmeisturum Fram, tvo sterka erlenda leikmenn auk annarra reynslubolta sem komu liðunu upp í úrvalsdeildina í vor.
Heimsíðan verður með beina textalýsingu frá leiknum fyrir þá sem ekki komast á leikinn.
ÍBV mæta sterkir til leiks í Olís-deildinni
2. október 2013 - Akureyri handboltafélag skrifar
Um ÍBV mótherja Akureyrar á laugardaginn
Það eru fimm ár síðan ÍBV lék síðast í úrvalsdeild en síðasti leikur liðsins vorið 2008 var einmitt gegn Akureyri. Vestmannaeyingar unnu 1. deildina með töluverðum yfirburðum síðasta vor og ætla án vafa að berjast í efri hluta úrvalsdeildarinnar í ár.
Þeir hafa styrkt lið sitt mikið fyrir átökin í vetur. Þar ber fyrst að nefna að þeir réðu nýjan þjálfara, Gunnar Magnússon sem hefur verið aðstoðarlandsliðsþjálfari undanfarin ár auk þess að þjálfa Kristiansund, lið Jónatans Magnússonar í Noregi síðastliðin þrjú ár.
ÍBV hefur einnig fengið til sín öfluga leikmenn, athygli vakti í haust þegar Róbert Aron Hostert, fyrrum leikmaður Fram hætti við að fara erlendis en gekk til liðs við Eyjamenn. Tveir erlendir kappar komu til liðsins, hægri skyttan Filip Scepanovic, frá Serbíu sem er gríðarlega reyndur leikmaður svo og slóvenskur línumaður, landsliðsmaðurinn Matjaz Mlakar. Þá fengu þeir Agnar Smára Jónsson frá Val og hafa endurheimt Andra Heimi Friðriksson úr meiðslum.
Eini leikmaðurinn sem ÍBV hefur misst frá því í fyrra er Nemanja Malovic sem átti reyndar frábært tímabil í fyrra og var langmarkahæsti maður liðsins í 1. deildinni.
Akureyringar munu án efa taka vel á móti skyttunni, Magnúsi Stefánssyni frá Fagraskógi en þessi fyrrum leikmaður Akureyrar hefur verið í herbúðum Eyjamanna síðastliðin tvö ár. Magnús lék síðast með Akureyri þann 3. maí 2008 en það var einmitt gegn ÍBV. Um haustið gekk Magnús til liðs við Fram og lék með þeim þar til hann fluttist til Eyja.
Magnús í síðasta leik með Akureyri, einmitt gegn ÍBV vorið 2008
Eyjamenn hófu úrvalsdeildina með glæsilegum átta marka sigri á bikarmeisturum ÍR. Þeir voru fjórum mörkum undir í hálfleik en tóku öll völd á vellinum í seinni hálfleik og völtuðu yfir heimamenn. Þar var Theodór Sigurbjörnsson markahæstur með 8 mörk, Róbert Aron Hostert með 6 og Grétar Þór Eyþórsson með 5 mörk, Matjaz Mlakar 2, Andri Heimir Friðriksson 2, Filip Scepanovic 2, Sindri Haraldsson 1, Guðni Ingvarsson 1 og Magnús Stefánsson 1. Varnarleikur liðsins small saman í seinni hálfleiknum undir forystu Sindra Haraldssonar og þar fyrir aftan átti markvörðurinn Haukur Jónsson stórleik.
Róbert Hostert í kunnuglegri stellingu. Mynd: Andri Marinó Karlsson sport.is
Í síðustu umferð fengu Eyjamenn Hauka í heimsókn og má segja að sá leikur hafi þróast gjörólíkt ÍR leiknum, jafnt var í hálfleik 10-10 en í seinni hálfleik hrundi leikur þeirra og Haukar unnu tólf marka sigur 18-30. Þess má geta að varnarjaxlinn Sindri fékk beint rautt spjald og trúlega veikti það vörnina verulega. Í leiknum gegn Haukum var markaskorun liðsins þannig: Andri Heimir Friðriksson 4,Filip Scepanovic 3, Agnar Smári Jónsson 2, Matjaz Mlakar 2, Theodór Sigurbjörnsson 2, Grétar Eyþórsson 2, Magnús Stefánsson 1, Róbert Aron Hostert 1 og Guðni Ingvarsson 1.
Atkvæðamestu leikmenn ÍBV í fyrra, fyrir utan Nemanja, voru þeir Theodór og Andri Heimir með 95 mörk í deildinni, Grétar Þór Eyþórsson með 89 mörk og Magnús Stefánsson með 58 mörk.
Það má bóka hörkuleik á laugardaginn þar sem bæði liðin ætla sér að kvitta fyrir tapaða leiki síðustu umferðar. Leiktíminn er raunar mjög óvenjulegur, klukkan 13:30 á laugardegi sem stafar af því að Eyjamenn þurfa að komast heim áður en flugvöllurinn í Eyjum lokar.
Sjáumst í Höllinni á laugardaginn og munið að minna alla áhugamenn um handbolta á þessa óvanalegu tímasetningu leiksins.