Dómarar: Arnar Sigurjónsson og Svavar Ó Pétursson. Eftirlitsdómari Guðjón L. Sigurðsson
Umfjöllun
Tengdar fréttir
Halldór kom heldur betur við sögu á lokaandartökum leiksins
14. febrúar 2014 - Akureyri handboltafélag skrifar
Hvað höfðu menn að segja eftir sigurinn á FH?
Eins og gefur að skilja voru heimamenn alsáttir eftir að hafa landað sigri á FH í gærkvöldi en Hafnfirðingar að sama skapi ekkert of sælir. Blaðamenn Mbl og visir.is ræddu við nokkra leikmenn og þjálfara í leikslok.
Einar Sigtryggsson blaðamaður Mbl ræddi við Halldór Loga Árnason sem setti svo sannarlega glæsileg svip sinn á lokakafla leiksins en Einar talar um Supermantilþrif Halldórs sem atvik leiksins.
Formáli Einars er þannig: Atvik leiksins kom þegar rúmar tvær mínútur lifðu af honum. Þá varði Sigurður Örn Arnarson, markvörður FH, skot og kastaði boltanum fram á frían mann. Kom þá ekki Halldór Logi Árnason, línu- og varnarmaður Akureyringa, fljúgandi af bekknum, yfir hálfan völlinn og greip boltann með annarri hendinni í loftinu eins og heimsklassa fótboltamarkmaður. Þaðan rann hann út af vellinum en dómararnir sáu það ekki enda var Halldór fljótur að losa sig við boltann.
Halldór Logi: Ekkert annað en að svífa
Halldór Logi þurfti að sjálfsögðu að útskýra tilþrifin í leikslok. „Ég er úr Aðaldalnum og ég tók tvö ár í marki með fótboltaliði Geislans á mínum yngri árum. Það var ekkert annað í stöðunni en að svífa á þetta. Ég er viss um að þetta voru einir fimm metrar. Ég rann svo pottþétt út af en það hefði verið synd ef dómararnir hefðu séð það og dæmt af mér boltann. Þeir bara vildu ekki gera það því þetta var svo flott,“ sagði Halldór léttur enda væntanlega búinn að skipa sér á sess með Alexander Peterssyni með þessum Superman-tilþrifum sínum.
Tilþrif Halldórs Loga voru ótrúlega
Einar Sigtryggsson náði tali af Bjarna Fritzsyni eftir leikinn. Bjarni var virkilega broshýr eftir brösugt gengi upp á síðkastið. Hann mátti líka vera það þar sem lið hans vann dísætan sigur auk þess sem Bjarni sjálfur átti stórleik.
Bjarni: Varð að vinna fyrir strákana mína
„Ég á tvo litla stráka sem mæta á alla leiki í búningum með nafnið mitt á bakinu. Þeir eru mínir helstu stuðningsmenn og ég vildi gera allt til að vinna leikinn fyrir þá. Þeir eru búnir að vera mjög svekktir á tapleikjunum og þeir fóru bara að gráta eftir bikarleikinn gegn FH. Ég vildi bara vera fyrirmyndarpabbi og vinna þennan leik fyrir þá.
Ég er mjög sáttur með okkar lið. Leikurinn var í járnum og við áttum alveg inni fyrir þessum endi. Þetta hefur verið á leiðinni í allan vetur en það hefur ekki alltaf tekist að klára. Áhorfendur náðu að styðja okkur í gegn um lokakaflann og það er frábært að sjá að þeir snúa ekki við okkur bakinu. Jovan komst í gang í seinni hálfleik og það skipti öllu máli“ sagði Bjarni og vildi gera sem minnst úr sínum þætti en hann dró vagninn og skoraði 11 mörk í leiknum og átti fjölda stoðsendinga.
„FH-ingarnir eru góðir, vel þjálfaðir og harðir í horn að taka. Við misstum Heimi í smá meiðsli og þetta var því einstaklega sætt. Næsti leikur er á sunnudaginn í Eyjum. Það er spilað þétt núna og kemur helst niður á gömlu köllunum“ sagði Bjarni og strákarnir hans litlu og stóru geta eflaust sofnað með sælubros í kvöld.
Bjarni Fritzson með fyrsta mark leiksins
Því næst ræddi Einar Sigtryggsson við nafna sinn Einar Andra Einarsson þjálfara FH sem var ekki beint kátur eftir tapið gegn Akureyri í Olís-deildinni. Það er náttúrulega einstaklega svekkjandi að tapa leik á síðustu sekúndunum en Akureyringar sátu eftir á mánudaginn og nú var komið að FH-ingum.
Einar: Svekkjandi að fá ekki markið í lokin
„Þetta var því miður slakt hjá okkur og ég er svekktur með spilamennskuna. Gæðin í leiknum voru ekki mikil og bikarleikurinn á mánudaginn sat eflaust í liðunum. Það er erfitt að spila tvisvar í röð við sama lið en við áttum að gera betur.
Einar Andri þjálfari FH var í stöðugu talsambandi við dómara leiksins
Við erum með menn í meiðslum en þeir líka og við erum ekkert að kvarta. Við vorum bara ekki nógu góðir til að vinna. Það var mikil spenna í restina og svekkjandi að fá ekki siðasta markið okkar gilt. Dómarinn dæmdi þetta svona og því fengu þeir séns í lokin til að klára og það tókst ekki að stöðva Kristján. Þetta var bara sárt og svekkjandi“ sagði Einar Andri greinilega mjög daufur sem skiljanlegt er því það lá nánast í loftinu allan leikinn að hann myndi enda jafn.
Eins og myndin sýnir þá var Einar Rafn lentur þannig að dómarar leiksins höfðu alveg rétt fyrir sér
Á visir.is birtist viðtal Birgis H. Stefánssonar við Þránd Gíslason línumann Akureyrar.
Þrándur Gíslason: Við erum djöfull góðir
„Það hefði verið dásamlegt að komast áfram í bikarnum og maður átti flottan leik þar,“ sagði Þrándur Gíslason þegar hann var spurður út í það hvort að þessi sigur væri jafn sætur og tapið var súrt þremur dögum áður. „Held að þetta hafi jafnvel verið aðeins mikilvægara. Fyrir töfluna var þetta eiginlega bara algjörlega nauðsynlegt að ná í tvö stig hér og það verðum við að gera aftur á sunnudag gegn ÍBV ef við ætlum að vera með.“
Ef marka má þessa síðustu tvo leiki þá eru hér jöfn lið á ferð „Já, við erum djöfull góðir og það eru þeir líka. Þetta er líklegast bara svolítið lýsandi fyrir deildina nema þetta hefur ekki alveg dottið með okkur og við höfum líka tekið nokkrar skitur. Við erum vonandi að ná því núna að vinna aðeins upp sjálfstraust og stöðugleika.“
Það er væntanlega markmiðið að komast í úrslitakeppnina? „Það er ekki spurning, við stefnum klárlega á það ennþá. Þetta er að spilast nokkuð vel fyrir okkur, allir að vinna alla og þá er stutt í pakkann. Það er bara mikilvægasta atriðið hjá okkur að halda áfram að næla í stig.“
Þrándur Gíslason öruggur á línunni
Það er næsta víst að það eru spennuleikir þegar FH kemur í heimsókn
13. febrúar 2014 - Akureyri handboltafélag skrifar
Leikur dagsins: Akureyri – FH í Olís-deildinni
Það er leikið þétt í handboltanum þessa dagana og mætast Akureyri og FH aftur hér í Íþróttahöllinni í dag. Sá leikur er í Olís-deildinni en leikurinn tilheyrir 14. umferð deildarinnar. Staða liðanna að henni lokinni segir til um hvaða leikir verða á heimavelli og hverjir á útivelli í síðustu sjö umferðum deildarinnar. Reyndar er það svo að Akureyri og ÍBV eiga eftir að mætast í margfrestuðum leik úr 10. umferð. Sá leikur verður í Vestmannaeyjum sunnudaginn 16. febrúar og þá loks kemur í ljós uppröðun liðanna.
Við vitum allt um æsilegan leik Akureyrar og FH á mánudagskvöldið og ljóst að það verður ekki síður spenna og hasar í dag enda þurfa bæði lið á stigum að halda í Olís-deildinni. Leikurinn hefst klukkan 19:00 eins og vanalega og að sjálfsögðu gilda stuðningsmannaskírteinin á leikinn.
Heimir og Bjarni munu örugglega leggjast á eitt með að stöðva Ásbjörn Friðriksson á fimmtudaginn.