Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15 Magnaður sigur á ÍR í Höllinni - umfjöllun - Akureyri Handboltafélag
Dómarar: Bjarki Bóasson og Gunnar Óli Gústafsson. Eftirlitsdómari Helga Magnúsdóttir
Umfjöllun
Tengdar fréttir
Bjarni og Heimir sáttir með sína menn
10. mars 2014 - Akureyri handboltafélag skrifar
Hvað sögðu menn eftir ÍR-leikinn?
Hér fara á eftir viðtöl sem við höfum fundið eftir viðureign Akureyrar og ÍR á fimmtudaginn, viðtölin koma af mbl.is, visir.is og sport.is.
Byrjum á viðtali Ólafs Más Þórissonar, fréttaritara mbl.is sem ræddi við Bjarna Fritzson og Sturlu Ásgeirsson:
Bjarni Fritzson: Stálum þessu af Patta brauðryðjanda
Leikurinn var afar kaflaskiptur í fyrri hálfleik en eftir lélega byrjun hrukku Akureyringar í gang. Þrátt fyrir að Akureyri hafi aðeins skorað 5 mörk á fyrstu 15 mínútum leiksins fannst Bjarna sóknarleikurinn ganga þokkalega en það hafi vantað að nýta færin og hlaupa til baka. Það lagaðist til mikilla muna eftir leikhlé sem hann og Heimir þjálfarar liðsins tóku.
„Leikhléið snérist um að laga það enda það ekki flókið bara ef þú nennir því og setur það í forgrunn að hlaupa vel til baka. Við gerðum það og það breyttist. Þrátt fyrir að þeir hafi verið að spila í bikarhelgi komu þeir bara ferskir til leiks. En það dró kannski aðeins af þeim.“
Bjarni vildi ekki meina að hans gamla félag hafi verið með eitthvað þunnskipað lið í dag. „Þeir eru með fína breidd, gott lið og tvo menn í hverri stöðu. Auðvitað vantaði Björgvin og það munar um það en það eru samt rosalega margir góðir leikmenn í þessu liði. Þeim er ekki vorkunn þó þeir missi einn mann í einum leik. Við erum búnir að glíma við þetta í svolítið lengri tíma og ég vorkenni því ekki liðum sem eru að væla í fjölmiðlum þegar þeir missa einn og einn leikmann,“ sagði Bjarni brosmildur.
Vendipunkturinn í leiknum var eins og áður segir eftir um stundarfjórðung. Stór þáttur í því var þegar liðið spilaði með sjöunda sóknarmanninn inná. Þetta sést æ oftar þegar lið eru einum manni færri en lítið notað þegar lið eru fullskipuð. Bjarni sagði að liðið hefði aldrei prófað þetta áður í leik en spurður hvort þeir hefðu æft þetta vel sagði hann; „Já við erum búnir að æfa þetta aðeins. Patti (Patrekur Jóhannesson þjálfari Hauka og austuríska landsliðsins) er náttúrulega brautryðjandi og við erum að stela þessu svolítið af honum. Við ákváðum að prófa þetta og það virkaði vel.“
Bjarni er hér sjálfur í vesti sem sjöundi sóknarmaðurinn
Spurður hvort þjálfarinn sjái fyrir sér að liðið geti náð í úrslitakeppnina stóð ekki á svörunum. „Þó það sé ljótt að segja það þá höfum við verið mjög flottir síðan við losuðum okkur við útlendinginn. Við höfum breytt um leikskipulag og fórum í aðra hluti. Flæðið er allt annað og hann í raun hentaði ekki innan um þessa litlu og snöggu stráka sem við höfum reynt að nýta okkur. Þegar við sleppum þessum aula mistökum og skotnýtingin er góð þá líður mér eins og við getum unnið alla sem ég held reyndar að við þurfum að gera ætlum við okkur í úrslitakeppnina,“ sagði Bjarni og glotti.
Sturla: Vorum einfaldlega hræddir í sókninni
Sturla Ásgeirsson fyrirliði ÍR var að vonum niðurlútur eftir að hafa tapað fyrir Akureyri nyrðra 32:29 í Olís-deild karla í handknattleik. ÍR-ingar sem byrjuðu vel gátu komið sér í 4. sæti með sigri þar sem Fram tapaði í Vestmannaeyjum. Síðari hluti fyrri hálfleiks og stór hluti af seinni hálfleik gerði hinsvegar að verkum að liðið er enn með jafnmörg stig og Fram í 4. til 5 sæti.
Hann vildi ekki kenna bikarhelginni um hvernig fór þar sem þeir spiluðu til úrslita gegn Haukum. Það hafi frekar verið grunnatriði handboltans sem varð þeim að falli. „Við byrjum virkilega vel, vorum að gera það sem við ætluðum að gera, vera beittir í vörninni og keyra í bakið á þeim. Svo taka þeir leikhlé og herða sig aðeins. Við brotnum við það mótlæti að þeir fari að berja aðeins meira á okkur í vörninni. Þá bökkuðum við of mikið frá þeim og vorum einfaldlega hræddir í sókninni. Í kjölfarið fá þeir auðvitað hraðaupphlaupin sín þar sem þeir eru hrikalega góðir. Því miður fljóta þeir á því nánast allan leikinn og við náum aldrei að svara.“
Sturla vildi meina að ÍR-ingar hefðu verið sjálfum sér verstir og að tapa leiknum hefði verið sérstaklega vont ef mið er tekið af deildinni. Þar er baráttan virkilega hörð um 4. sætið. „Nú eru Akureyringar komnir nær okkur og að sama skapi getur myndast stærra bil upp í liðin fyrir ofan. Það eru ekki margir leikir eftir og úrslitakeppnin verður fljótt fjarlægður draumur ef maður fer eitthvað að gefa eftir. Við verðum því að gjöra svo vel að spýta í lófana og vinna næstu runu af leikjum sem er framundan og sjá svo hvað það skilar okkur.“
Auðvitað ætlaði ÍR sér það fyrir mótið að komast í úrslitakeppnina og það er að sjálfsögðu enn á stefnuskránni. „Já já klárlega en ég held líka að flest lið hafi ætlað sér í úrslitakeppnina og við stefnum þangað. En auðvitað þurfum við að vinna leiki til þess og við eigum þá nokkra eftir við þessi lið fyrir ofan okkur.“
Sturla í góðri gæslu hjá Akureyrarvörninni
Spurður hvaða væri stærsta atriðið sem ÍR-ingar þyrftu að laga eftir þennan leik var svarið einfalt og stutt eins og reyndar beðið var um! „Hlaupa betur heim, það er fyrst og fremst það sem skiptir máli. Það er hægt að komast upp með að spila lélegan sóknarleik ef maður kemur sér hratt í vörnina og spilar hana vel.“
Birgir H. Stefánsson tíðindamaður visir.is tók þjálfarana Heimi Örn Árnason og Bjarka Sigurðsson tali eftir leikinn:
Heimir Örn: Ungi stóri strákurinn var eins og reynslubolti
„Nei alls ekki,“ sagði Heimir Örn þjálfari Akureyrar strax eftir leik þegar hann var spurður að því hvort að hann hafi verið nálægt því að gefast upp eftir byrjun leiksins. „Ég hef bara ekki séð svona lélega vörn hér í Höllinni í mörg ár, 5. flokkur hefði staðið sig betur í vörn. Þetta var skammarlegt en ég hafði enga trú á því að við værum ekki að fara að ná þessu í gang, þetta var ekki leikur til að byrja með.“
Jovan datt heldur betur í gírinn í seinni hálfleiknum og það virtist koma mönnum í gírinn. „Já, svo settum við líka Brynjar inn sem aukamann í sókn og ungi stóri strákurinn stóð sig frábærlega, var eins og reynslubolti með tvær stoðsendingar og eitt svakalegt mark.“
Þessi sjö manna sóknarútfærsla, er þetta eitthvað sem þið hafið verið að æfa? „Þetta auðvitað kom fyrir nokkrum árum síðan, held að það hafi verið Dagur Sigurðsson sem var mikið með þetta fyrst. Það eru flest lið að prófa sig áfram, þetta gekk í dag en gæti verið skelfilegt í næsta leik. Þetta er svolítið happdrætti en þetta gekk mjög vel í dag.“
Tölfræðilega er enn von á sæti í úrslitakeppni, er það ennþá stefnan? „Að sjálfsögðu, innbyrðis leikir núna við Val og Fram. Ég er búinn að segja það örugglega í mörgum viðtölum að á góðum degi erum við ekkert langt frá neinum liðum og jafnvel jafn góð. Eins og þú sérð á þessum leikjum við FH um daginn, eitt mark í sitt hvora áttina. ÍR-inga erum við núna búnir að vinna tvisvar en þeir okkur einu sinni en þeir eru samt búnir að ná í mikið fleiri stig en við. Því miður erum við of oft að detta á eitthvað lágt plan sem ég á erfitt með að skilja.“
Heimir fer yfir handboltareglurnar með öðrum dómara leiksins
Bjarki Sigurðsson: Fannst liðið halda að þetta væri jafnvel komið
„Maður þarf bara aðeins að láta hugann reika og tékka á því,“ sagði Bjarki Sigurðsson þjálfari ÍR aðspurður hvað var valdurinn að þessum mikla viðsnúning í leiknum. „Mér fannst bara liðið halda að þetta væri jafnvel komið. 11-5 og þá einhvernvegin fjarar undan, Akureyri taka leikhlé og fóru að berjast en við bökkuðum út úr því.“
Kom þessi sjö manna sóknarútfærsla Akureyringa ykkur á óvart? „Nei, ekki neitt. Við virtumst tapa öllum einvígum maður á mann, hvort sem það var í vörn eða sókn og það boðar ekkert gott.“
Það vantaði tvo stóra pósta í lið ÍR í dag og aðrir ekki á pari, er þetta frægi bikardraugurinn? „Nei, ég tel ekki svo vera. Þetta er fyrst og fremst hugarfar. Allt í lagi, bikar er bikar og menn eru þreyttir eftir það en menn ættu að vera búnir að jafna sig. Við fórum yfir leikskipulagið en mér fannst menn bara mjög staðir. Þegar menn eru ekki að hlaupa í sínar hlaupaleiðir og fara eftir taktík og brjóta sig út jafnvel þá erum við í vondum málum.“
Bjarki fylgist með sínum mönnum
Við endum þessa samantekt á vídeóviðtölum af sport.is, það eru Siguróli Sigurðsson og Birgir H. Stefánsson sem bera fram spurningarnar:
Heimir: Seinni hálfleikurinn var frábær
Bjarki Sigurðsson: Liðið hélt að þetta væri komið
Óhætt að lofa mögnuðum leik á fimmtudaginn
4. mars 2014 - Akureyri handboltafélag skrifar
Sannkallaður baráttuleikur gegn ÍR
Eftir tvo útileiki í Vestmannaeyjum er aftur komið að heimaleik í Höllinni. Að þessu sinni er það spútnikliðið úr Breiðholtinu, ÍR sem mætir norður yfir heiðar. Þetta verður þriðji leikur liðanna á tímabilinu. ÍR vann fyrsta leikinn á sínum heimavelli 27-23 en Akureyri vann þegar liðin mættust í Höllinni, 32-30.
Fyrir leikinn situr ÍR í 5. sæti deildarinnar með 16 stig en líkt og um fleiri lið hefur spilamennska þeirra verið dálítið köflótt í vetur, þeir hafa átt flotta leiki en dottið niður þess á milli. ÍR fór með sigur í síðustu þrem deildarleikjum, gegn HK, Fram og FH en töpuðu þar á undan fyrir Val og Haukum. Þá stóðu ÍR-ingar í ströngu um síðustu helgi í fjórðungsúrslitum Coca-Cola bikarsins þar sem þeir unnu fyrst sannfærandi sigur á Aftureldingu en töpuðu sjálfum úrslitaleiknum í hörkuleik gegn Haukum.
Síðasti heimaleikur Akureyrar var gegn FH og er óhætt að segja að þeir sem voru þar viðstaddir fengu eitthvað fyrir sinn snúð. Akureyri fór það með magnaðan baráttusigur, með marki á lokasekúndum leiksins.
Þrándur Gíslason hélt uppi stuðinu alls staðar í Höllinni í leiknum gegn ÍR
Þegar tölfræði ÍR liðsins er skoðuð þá er fátt sem kemur á óvart. Það eru alltaf sömu aðilar sem bera uppi markaskorun liðsins. Hornamaðurinn, Sturla Ásgeirsson hefur skorað 102 mörk og stórskyttan Björgvin Hólmgeirsson 84 stykki. Þetta eru leikmenn sem ekki má líta af því þá er eins víst að illa fer. Næstu þrír markaskorara ÍR eru hægri skyttan Arnar Birkir Hálfdánsson 52 mörk, línumaðurinn, Jón Heiðar Gunnarsson með 50 mörk og leikstjórnandinn Guðni Már Kristinsson 48 mörk. Þessir fimm leikmenn hafa verið potturinn og pannan í leik ÍR liðsins í allan vetur auk þess sem markverðir liðsins þeir Kristófer Fannar Guðmundsson og Arnór Freyr Stefánsson hafa verið öflugir.
ÍR-ingar söknuðu Ingimundar Ingimundarsonar framan af móti en hann var mættur til leiks á ný og lék síðustu fjóra deildarleiki ÍR. Ingimundur meiddist í upphafi bikarúrslitaleiksins en ekki er vitað hversu alvarleg þau meiðsli eru.
Akureyrarliðið hefur sömuleiðis glímt við meiðsli, alkunna er að Bergvin Þór Gíslason meiddist aftur í Valsleiknum, sínum fyrsta á tímabilinu og sömuleiðis meiddist Hreinn Þór Hauksson í FH leiknum. Báðir hörkuðu þó af sér og tóku þátt í síðasta leik gegn Vestmanneyingum. Heimir Örn Árnason missti hinsvegar af síðasta leik vegna meiðsla.
Það var barist jafnt innan sem utan vallar þegar liðin mættust síðast
En eins og strákarnir sýndu í síðasta leik gegn ÍR svo og gegn FH á dögunum þá þýðir ekkert annað en að bretta upp ermarnar og berjast til sigurs frá fyrstu mínútu og allt til enda með fulla trú á verkefninu, þá fylgir líka með gleðin og ánægjan sem skiptir öllu máli og smitar frá sér til áhorfenda sem örugglega láta þá ekki sitt eftir liggja.