Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15 Háspennujafntefli Akureyrar og Vals - Akureyri Handboltafélag
Dómarar: Gísli Jóhannsson og Hafsteinn Ingibergsson. Eftirlitsdómari Einar Sveinsson
Umfjöllun
Tengdar fréttir
Þrándur fagnaði markinu vel en hefði það átt að standa?
30. október 2015 - Akureyri handboltafélag skrifar
Flautumark Þrándar Gísla gegn Val 2014
Við rifjum hér upp eftirminnilegt mark sem Þrándur Gíslason skoraði fyrir Akureyri undir lok fyrri hálfleiks í leik gegn Val í mars í fyrra. Markið kom Akureyri yfir í 13-12 en Valsarar vildu meina að boltinn hefði ekki verið kominn í markið þegar flautan gall. Hér er myndband af markinu og dæmi nú hver fyrir sig!
Þjálfarar liðanna á þessum tíma, þeir Heimir Örn Árnason og Ólafur Stefánsson segja sína skoðun á markinu að leik loknum.
Liðin mætast á morgun í Vodafone Höllinni og eins og fram hefur komið verður leikurinn í beinni útsendingu á RÚV, ekki missa af þessum leik, áfram Akureyri!
Heimir sá eftir öðru stiginu
23. mars 2014 - Akureyri handboltafélag skrifar
Viðtöl eftir leik Akureyrar og Vals:
Það fer ekki mikið fyrir viðtölum eftir leikinn, kannski hefur óvissan um leiktíma orðið til þess að ekki virtust allir blaðamenn hafa átt heimangengt á leikinn, loks þegar hann var flautaður á. Ólafur Þórisson blaðamaður Morgunblaðsins stóð vaktina og einnig fundum við viðtöl við þjálfarana á RÚV.
Byrjum á viðtali Ólafs Más Þórissonar, fréttaritara mbl.is sem ræddi við leikmennina Sigþór Árna Heimisson og Geir Guðmundsson sem einmitt voru valdir bestu menn sinna liða:
Sigþór Heimisson: Ógeðslega gaman að spila í KA-heimilinu
Sigþór Árni Heimisson skoraði 4 mörk þegar Akureyri og Valur skildu jöfn 24:24 í Olís deild karla í handknattleik í kvöld. Spilað var í KA-heimilinu en þetta er fyrsti leikur Akureyrar þar frá því 2008 en Höllin þar sem félagið spilar vanalega heimaleiki sína var upptekin vegna árshátíðar Akureyrarbæjar.
Sigþór ólst upp hjá KA og honum fannst alls ekki leiðinlegt að koma á fornar slóðir. „Það var gott að koma heim og rífa upp stemninguna í KA-heimilinu. Það var eiginlega alveg ógeðslega gaman. Ég er KA-maður alveg í gegn þannig að það skemmdi ekki fyrir að spila hér.“
Akureyri fékk tækifæri í síðustu sókninni til að skora og spurður hvort þeir hefðu ekki alveg getað stolið þessu í lokin sagði Sigþór: „Jú heldur betur. Það hefði kannski ekki verið sanngjarnt ef litið er á hvernig leikurinn þróaðist. Mér fannst hinsvegar bæði lið vera mikið út af og það hleypti þessu aðeins upp.“
Sigþór var þó ekki ánægður með hvernig tókst til þegar liðið var einum manni færri. „Ég var ekki að spila sérstaklega þá, ekki frekar en liðið allt í fyrri hálfleik. Ég tók nokkrar slæmar ákvarðanir í þeirri stöðu. En við löguðum það í þeim síðari.“
Hann sagði dagskipunina hafa verið jákvæðni og aftur jákvæðni. „Við töluðum um það á fundum fyrir leikinn að fara inn í þetta á jákvæðu nótunum. Við skoðuðum síðasta leik hjá okkur og þá var mikil neikvæðni ríkjandi. Þjálfararnir töluðu um að breyta því og mér fannst það takast mjög vel.“
Sigþór í leik liðanna í Höllinni fyrr í vetur
Geir: Snjórinn náði upp á miðjar rúður á rútunni
„Ótrúlegt en satt þá fann maður sig vel hérna,“ sagði gamli Þórsarinn Geir Guðmundsson sem skoraði 7 mörk fyrir Val sem gerði jafntefli við Akureyri 24:24 í KA-heimilinu í kvöld. Liðin áttust við í margfrestuðum leik vegna veðurs í Olís-deild karla í handknattleik en upphaflega átti hann að fara fram á fimmtudaginn. Næst átti svo að spila á föstudegi en þá var einnig ófært yfir Öxnadalsheiðina og það var svo ekki fyrr en um miðjan dag í dag að starfsmenn og verktakar Vegagerðarinnar náðu að opna hana. Fannfergið var gríðarlega mikið þar að sögn Geirs en þeir voru 9 tíma á leiðinni frá Reykjavík.
Beðinn um ferðasögu sagði Geir: „Þetta er engin afsökun fyrir okkar spilamennsku en við lögðum af stað klukkan 8 í morgun frá Reykjavík. Keyrðum á Blönduós þar sem við borðuðum. Þar er okkur tjáð að þessi blessaða Öxnadalsheiði sé lokuð en það eigi að opna hana um eitt þannig að við leggjum af stað til Varmahlíðar. Þegar þangað er komið hringir Stefán Guðnason í mig og segir að heiðin verði lokuð eitthvað áfram, líklega næstu tvo til þrjá tímana. Við leigðum okkur því bústað í Varmahlíð og höfðum það huggulegt. Spiluðum Kana og horfðum á fótbolta í einhverja tæpa tvo tíma.
Það var svo frábært veður á heiðinni en rosalega mikill snjór enda nýbúið að ryðja þarna rétt rúmlega einbreið göng. Snjórinn náði upp á miðjar rúður á rútunni og við vorum tvo og hálfan tíma frá Varmahlíð, sem vanalega tekur bara klukkutíma,“ sagði Geir um þetta langa ferðalag.
Við spjölluðum svo líka aðeins saman um leikinn en Geir var sammála undirrituðum um að þeir hefðu í raun bara verið klaufar að missa fjögurra marka forskot niður á átta síðustu mínútunum. „Við vorum reknir svolítið út af á þessum tíma. Þeir skora þá nokkur mörk og fá áhorfendur með sér og „mómentið“ er einhvern veginn með þeim. Það fór svona helst með okkur. Við vorum með þetta í okkar höndum og því vont að missa þetta stig frá okkur.“
Geir fór mikinn líkt og í leik liðanna í Höllinni fyrr í vetur
Ólafur Már Þórisson ræddi einnig við þjálfarana, Heimi Örn Árnason og Ólaf Stefánsson:
Heimir Örn: Því miður hitti Geir
Heimir Örn Árnason, annar þjálfara Akureyrar, var ánægður með úrslitin úr því sem komið var. „Það væri bara frekja að biðja um tvö stig. Þeir eru eflaust mjög svekktir með eitt stig en fyrst við fengum lokasóknina þá hefði verið hrikalega gaman að taka tvö.“ Heimir sagði eitt stig gera lítið fyrir liðið, sem er enn í sjöunda sæti, umspilssætinu. Liðið er þremur stigum á eftir ÍR þegar þrír leikir eru eftir. Tveir af þeim á útivelli gegn Hafnarfjarðarliðunum tveimur og svo heimaleikur gegn HK í síðustu umferðinni. „Þetta þýðir að við þurfum að sækja eitt, jafnvel tvö stig í Hafnarfjörðinn til að koma okkur úr þessu umspilssæti og treysta á að ÍR tapi stigum.“ Heimir var ánægður með að spila í KA-heimilinu þar sem hann hefur unnið marga sigra á sínum ferli sem leikmaður. „Það var hrikalega gaman og það rifjuðust upp margar ótrúlega skemmtilega minningar. Ekki skemmdi svo fyrir að mótherjinn var Valur. Eins og svo oft áður voru það norðanmenn sem leiddu þetta lið, sem væri mjög lítið án þeirra,“ sagði Heimir Örn með bros á vör. En hann hældi Geir Guðmundssyni og Guðmundi Hólmari Helgasyni í hástert. „Geir var frábær og Gummi búinn að vera heilt yfir þeirra besti maður í vetur. Við lögðum upp með að stoppa Gumma og leyfa Geir frekar að skjóta. Því miður fyrir okkur þá hitti hann vel í fyrri hálfleik. En það gekk upp í seinni því þá byrjaði hann að klikka.“
Ólafur: Vildi fresta aftur
Ólafur Stefánsson, þjálfari Valsara, sagði sína menn hafa verið klaufa að missa niður fjögurra marka forystu á átta mínútna kafla undir lok leiks. „Við fengum nokkrar tveggja mínútna brottvísanir á þeim tíma. Þeir náðu þá að jafna og við vorum í raun heppnir að þeir náðu ekki að stela þessu alveg af okkur. Heilt yfir var þetta þó ágætisbarátta hjá okkur. Ég hefði þó viljað sjá meiri markvörslu þar sem vörnin var góð.“ Ólafur var þó ánægður með að sínir menn létu ekki níu tíma ferðalag hafa áhrif á sig en hefði viljað fresta leiknum enn frekar. „Ég hefði viljað setja hann á sunnudaginn þegar það var vitað að yrði pottþétt fært. HSÍ er hins vegar með einhverja sólarhringsreglu. Ég segi á móti því það er óþægilegt að bíða og þurfa lengi að halda sér í startholunum.“
Í fréttum útvarpsins voru stutt viðtöl við þjálfarana Heimi Örn Árnason og Ólaf Stefánsson:
Heimir Örn: Ánægður með vörnina
Þeir leiddu með tveim til fjórum þannig að jafnteflið var gott. Við tókum smá séns í lokin svipað og gegn Fram með fjóra - tvo og gekk bara vel. Hrikalega ánægður með strákana í vörninni en áttum í erfiðleikum sóknarlega. Eitt stig var að sjálfsögðu sanngjarnt en djöfull hefði verið gott að fá bæði stigin, það hjálpar okkur lítið þetta eina stig.
Heimir ræðir við fréttamann RÚV eftir leikinn
Ólafur Stefánsson: Hefði viljað taka tvö stig
Hefði viljað taka tvö stig, vorum komnir fjórum mörkum yfir en það fór sem fór en góð barátta í Akureyrarliðinu og held að þeir hafi alveg átt punktinn skilið fyrir góða baráttu, klókt spil, góða vörn og góða markvörslu þannig að jafntefli var bara það sem gerðist.
Ólafur ræðir við fréttamann RÚV eftir leikinn
Halldór Logi var markahæstur í síðasta leik liðsins í KA heimilinu
22. mars 2014 - Akureyri handboltafélag skrifar
Leikur dagsins: Akureyri-Valur í KA-heimilinu - klukkan 19:30
Nú er búið að ákveða að leikur Akureyrar og Vals hefst klukkan 19:30 í dag.
Eftir ófærð síðustu daga hefur gengið erfiðlega að opna Öxnadalsheiðina en nú telja menn að það muni takast og að leikurinn hefjist klukkan 19:30 í KA-heimilinu.
Akureyrarliðið er ekki alveg ókunnugt því að spila í KA-heimilinu því fyrstu tvö tímabil liðsins 2006-2007 og 2007-2008 fóru heimaleikir liðsins fram þar. Sumarið 2008 var gólf Íþróttahallarinnar endurnýjað, skipt út gömlum dúk og sett vandað parket gólf og í kjölfarið var ákveðið að liðið færði æfingar og leiki sína þangað.
Reyndar lék Akureyrarliðið bikarleik í KA-heimilinu 4. október 2008 gegn HKR (Handknattleiksfélag Reykjanesbæjar) og vann þar stærsta sigur í sögu félagsins, 51-15. Þrír núverandi leikmenn Akureyrar tóku þátt í þeim leik, Andri Snær Stefánsson, Halldór Logi Árnason og Hreinn Hauksson. Sjá umfjöllun um leikinn gegn HKR.
Nú hefur bæði gólf og stúka verið endurnýjuð í KA-heimilinu þannig að aðstæður eru allar hinar ákjósanlegustu og um að gera fyrir alla stuðningsmenn að drífa sig á leikinn. Fyrir þá sem þekkja til sögunnar þá hafa leikir Akureyraliða og Valsmanna ávallt verið frábær skemmtun og engin ástæða til að efast um að það sama verði uppi á tengingunum í dag.