Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15 Haukarnir heldur betur teknir í bakaríið - Akureyri Handboltafélag
Létt yfir Akureyringum í leikslok þrátt fyrir skakkaföll í liðinum
18. nóvember 2014 - Akureyri handboltafélag skrifar
Viðtöl við leikmenn og þjálfara eftir Haukaleikinn
Eftir magnaðan leik Akureyrar og Hauka í gærkvöldi þar sem Akureyrarliðið vann stórsigur þrátt fyrir að missa þrjá leikmenn í meiðsli á upphafsmínútunum var ýmislegt sem bar á góma í spjalli blaðamanna við leikmenn og þjálfara. Birgir H. Stefánsson á visir.is ræddi við Atla Hilmarsson, Kristján Orra Jóhannsson og Patrek Jóhannesson þjálfara Hauka í leikslok.
Atli Hilmarsson: Á bara varla orð
„Já þetta var allsvakalegt,“ sagði Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar, strax eftir leik varðandi það að hann missir þrjá menn meidda af velli í einum hálfleik. „Þeir sem voru að spila voru sumir líka hálf meiddir eins og Sverre og Sigþór þannig að ég er óskaplega stoltur. Þetta er frábær frammistaða hjá þessum drengjum, alveg frábær.“
Varnarleikur heimamanna var á köflum alveg svakalegur og sérstaklega í fyrri hálfleik. „Já, ég á bara varla orð yfir þetta. Hún var líka mjög fín í seinni hálfleik. Þetta var bara ótrúleg barátta út um allan völl, menn að berjast um og henda sér á bolta út um allt. Hlaupa til baka til að loka á hraðar sóknir þeirra og þetta sýnir karakter og þann vilja sem er í liðinu.“
Atli sendir skilaboð um varnarleikinn
Eftir þrjá heimasigra eru þrír útileikir á dagskrá, þetta var væntanlega það sem þú vildir sjá fyrir þá törn? „Já, að sjálfsögðu og nú er bara að halda áfram. Við erum enn bara um miðja deild og ekkert búnir að vinna ennþá. Þetta er samt á mjög góðri leið og með þessari baráttu og vörn þá heldur það áfram, það er alveg klárt.
Kristján Orri Jóhannsson: Verið að dæla aðeins á okkur
„Já þetta var mjög góður leikur hjá liðinu,“ sagði Kristján Orri Jóhannsson leikmaður Akureyrar strax eftir leik en hann var bæði markahæstur og maður leiksins að mati heimamanna. „Þegar leikmenn ná að smella svona vel þá eiga öll lið í vandræðum með okkur. Það var verið að dæla boltanum aðeins á okkur niður í hornin, enda nýttum við þau færi ágætlega vel.“
Það er væntanlega áhyggjuefni að sjá þrjá liðsfélaga meiðast í einum leik? „Já, þetta gerðist líka bara strax eftir einhverjar mínútur. Ég veit samt ekkert hvernig staðan er á þeim, hvað þeir verða lengi frá og svona en það verður bara að fá að koma í ljós. Við stillum bara upp sjö manna liði í byrjun og sjáum hvað gerist.“
Kristján getur leyft sér að brosa í kampinn eftir glæsilegt hraðaupphlaupsmark
Patrekur Jóhannesson: Þarf að finna menn sem eru ekki farþegar
„Það er voða erfitt að segja í raun,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Hauka, strax eftir leik þegar hann var spurður út í fyrstu viðbrögð. „Gríðarleg vonbrigði bara að koma svona til leiks. Ég átti ekki von á þessu eftir undirbúning okkar, maður sá að Akureyringum langaði mikið meira að spila leikinn en við og það er það sem maður er að hugsa núna og skilur ekki af hverju. Þetta er mjög erfiður leikur þegar staðan er orðin 12-4, að koma hingað norður með svona auglýsingu er mjög lélegt og ég er mjög svekktur.“
Það var á köflum hreinlega eins og þínir menn vildu ekki spila leikinn. „Já, ég veit það ekki. Ég mun náttúrulega ræða það og það virkaði þannig. Þegar maður er að spila handbolta þá þarf viss grunn vinna að vera í lagi og það voru sumir sem áttu mjög erfitt með það í dag. Það er alltaf hægt að gera mistök inn á velli en svona er bara engan vegin í lagi og ég ætla ekki einu sinni að reyna að verja það.“
Patrekur brúnaþungur undir lok leiksins
Krafan er væntanlega sú að gera allt annað í næsta leik en liðið gerði hér í dag? „Já, núna þarf ég bara að finna leikmenn. Æfingar voru fínar og síðustu tveir leikir voru þannig að við vorum að vinna stórt. Núna þarf ég að finna menn sem er tilbúnir að gefa meira af sér til liðsins og vera ekki farþegar eins og þetta var í dag. Maður er drullu svekktur með það, eins og þú segir og sást eins og allir aðrir. Menn virkuðu eins og þeir væru í handbremsu og ég þarf að finna menn sem eru klárir í næsta leik.“
Einar Sigtryggsson blaðamaður mbl.is ræddi við Heiðar Þór Aðalsteinsson, vinstri hornamann Akureyrar og Patrek þjálfara Haukaliðsins
Heiðar Þór: Eyði allri orkunni inni á vellinum
Heiðar Þór Aðalsteinsson átti enn einn stórleikinn hjá Akureyringum í kvöld þegar lið hans lagði Hauka 28:21 í Olísdeild karla í handknattleik á Akureyri. Skoraði átta mörk og klikkaði varla á skoti fyrr en í blálokin. Heiðar Þór er nýorðinn faðir og slík tímamót virðast oft gefa mönnum auka kraft og innspýtingu fyrir sjálfstraustið. Hvað segir kappinn um það. „Ja, ég eyði alla vega allri orkunni núna inni á vellinum. Nei annars. Við vorum frábærir í kvöld og lögðum grunninn að sigri í fyrri hálfleiknum með frábærri vörn og markvörslu. Það er æðislegt að spila í svona vörn og fyrir framan þessa áhorfendur, maður minn. Þeir voru magnaðir. Fyrri hálfleikurinn okkar var næstum fullkominn og í þessum ham stöðvar okkur enginn. Við misstum aðeins dampinn í seinni hálfleiknum og líklega hafa menn verið eitthvað stressaðir að missa þetta niður. Við hægðum full mikið á og hefðum átt að klára leikinn betur. Við verðum að halda okkur á jörðinni þrátt fyrir þennan sigur. Menn eru að meiðast í bunkum hjá okkur og við erum bara um miðja deild. Það er samt klárt að þetta var sigur sterkrar liðsheildar því við gáfum bara í þegar menn fóru meiddir af velli.“
Þess má geta að þrír leikmenn Akureyrar heltust úr lestinni í leiknum. Heimir Örn Árnason á fyrstu mínútunni, Brynjar Hólm Grétarsson á þeirri annarri og Ingimundur Ingimundarson eftir 18 mínútur.
Heiðar Þór lét líka finna fyrir sér í varnarleiknum í gær
Patrekur: Þetta er ekki boðlegt
Ef Patrekur Jóhannesson hefur stigið á vigtina í morgun þá er ekki ólíklegt að hann hafi þyngst verulega meðan á leik Akureyrar og Hauka í Olís-deild karla í handknattleik stóð í kvöld. Þjálfari Hauka þurfti að horfa upp á sitt lið kjöldregið af vígreifum Akureyringum sem léku við hvurn sinn fingur. Það var alla vega þungt í honum hljóðið eftir sjö marka tap á Akureyri í kvöld, 28:21. „Það er lítið ef nokkuð jákvætt sem ég hef að segja eftir þessa frammistöðu. Ég er gríðarlega svekktur og súr út í strákana að hafa komið hingað með lélega einbeitingu og lítinn vilja. Við vorum búnir að vinna tvo síðustu leiki nokkuð létt en hingað vera menn að mæta með stórt hjarta og fulla einbeitingu annars taparðu leiknum. Spilamennskan hjá okkur var ótrúlega léleg og Akureyringarnir voru miklu betri. Þeir höfðu viljann og þrátt fyrir skakkaföll í liði þeirra þá bættu þeir bara í. Við lentum strax 12:4 undir og menn voru bara hræddir gegn vörninni þeirra. Ég verð bara að vera hreinskilinn. Þetta var ekki boðlegt. Við reyndum aðra taktík í seinni hálfleik en hún dugði skammt. Strákarnir geta þetta alveg, þeir hafa margoft sýnt það og við ætlum okkur að vera ofar í deildinni.“
Patrekur þungur á brún enda gengur lítið hjá hans mönnum
Blaðamaður vildi fá eitthvað jákvætt frá Patreki í lokin og þá stóð ekki á svari. „Akureyri er yndislegur bær og hér átti ég mín bestu ár í boltanum sem ég mun aldrei gleyma.“
Þá færum við okkur yfir á sport.is þar sem Siguróli Magni Sigurðsson ræðir við Heiðar Þór, Atla Hilmarsson og Patrek Jóhannesson.
Heiðar Þór: Þetta kallast liðsheild
Heiðar Þór Aðalsteinsson, nýbakaður faðir og athafnarmaður, var kátur í viðtali við Sport.is eftir leik. Barnið í höndum hans er þó ekki hans eigið, enda eignaðist hann stúlku.
Atli Hilmarsson: Frábær spilamennska hjá okkur
Akureyringar eru ósigraðir undir stjórn Atla Hilmarssonar og var hann því kátur í leikslok í kvöld þegar að Sportvarpið náði á honum.
Patrekur Jóhannesson: Ekki góð auglýsing fyrir okkur
Það var þungt hljóðið í Patreki Jóhannessyni eftir leik í kvöld þegar að Sportvarpið ræddi við hann.
Haukar eru stórveldi í íslenska handboltanum
16. nóvember 2014 - Akureyri handboltafélag skrifar
Heimaleikur gegn Haukum á mánudaginn
Það er stórlið Hauka sem er mótherji Akureyrar á mánudaginn. Fyrir leikinn eru liðin í 5. og 6. sæti Olís deildarinnar, Haukar með 11 stig en Akureyri 10. Liðin mættust í Hafnarfirði 21. september og þar unnu Haukar eins marks sigur í hörkuleik eftir að Akureyri hafði leitt með þrem mörkum í hálfleik. Haukaliðið hefur verið nokkuð sveiflukennt og afraksturinn það sem af er mótsins hefur trúlega verið undir væntingum þeirra sjálfra, fjórir sigrar, þrjú jafntefli og þrír tapleikir. Í síðustu tveim umferðum unnu þeir raunar sannfærandi sigra, unnu Fram stórt á heimavelli 26-13 og HK örugglega á útivelli 20-31. Þar á undan töpuðu þeir á heimavelli gegn ÍBV.
Þjálfari Hauka líkt og síðasta tímabil er Patrekur Jóhannesson sem jafnframt er landsliðsþjálfari Austurríkis. Haukar áttu frábært tímabil í fyrra, urðu bikarmeistarar og deildarmeistarar en töpuðu úrslitaeinvíginu gegn ÍBV með einu marki í oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn.
Haukar misstu tvo mikilvæga leikmenn í sumar, markahrókurinn Sigurbergur Sveinsson hélt til Þýskalands og Elías Már Halldórsson er sem kunnugt er í herbúðum Akureyrar þetta tímabil. Að öðru leiti má segja að Haukaliðið sé ekki mikið breytt frá því í fyrra. Þeir endurheimtu línumanni Heimi Óla Heimisson frá Svíþjóð og þá fengu þeir ungan og kanski lítt kunnan leikstjórnanda, Janus Daða Smárason frá Danmörku en hann er uppalinn Selfyssingur.
Skytturnar Adam Haukur Baumruk og Árni Steinn Steinþórsson eru markahæstir Hauka í deildinni með 45 og 43 mörk það sem af er. Þar á eftir koma línumaðurinn Heimir Óli Heimisson 27 mörk, skyttan Þröstur Þráinsson 25 mörk og leikstjórnandinn Janus Daði Smárason 24 mörk.
Árni Steinn er gríðarlega öflugur og hefur verið viðloðandi landsliðið upp á síðkastið, Adam Haukur hefur verið að fá stærra og stærra hlutverk í liðinu og þá má geta þess að Janus Daði var nú fyrir stuttu valinn efnilegasti miðjumaður fyrsta hluta Olís deildarinnar af vefnum fimmeinn.is.
Patrekur og lykilmenn hans, Árni Steinn, Adam Haukur og Janus Daði
Í síðustu tveim leikjum Hauka höfðu Adam og Árni steinn reyndar frekar hægt um sig, á móti Fram var Janus Daði Smárason markahæstur með 7 mörk en á móti HK var Tjörvi Þorgeirsson með 8 mörk og Heimir Óli með 6. Markverðir Hauka þeir Einar Ólafur Vilmundarson og Giedrius Morkunas hafa verið mjög stöðugir í leik sínum á bak við öfluga vörn Haukanna.
Akureyrarliðið endurheimtir Elías Má Halldórsson sem tók út leikbann í síðasta leik og vonandi nær Atli að stilla upp sínu sterkasta liði í leiknum en nokkrir leikmenn voru tæpir fyrir síðasta leik en hafa nú fengið nokkra daga til viðbótar til að koma til baka. Allavega þá er hægt að lofa hörkuleik í Höllinni á mánudagskvöldið en leikurinn hefst klukkan 19:00.