Warning: Undefined array key "frettanr" in /web/akhandadmin/public_html/index.php on line 15 Jafntefli gegn ÍR í kaflaskiptum leik - Akureyri Handboltafélag
Að vanda er hægt að finna nokkur viðtöl við þjálfara og leikmenn liðanna í fjölmiðlum hér er hægt að nálgast það sem við höfum fundið. Byrjum á viðtölum Einars Sigtryggssonar, blaðamanns Morgunblaðsins en hann ræddi við Bergvin Þór Gíslason og Bjarna Fritzson.
Bergvin: Skelfilegt að tapa forskotinu niður
Bergvin Þór Gíslason lék loks heilan leik fyrir Akureyringa eftir erfið meiðsli í tæp tvö ár. Er hann allur að skríða saman en ekki búinn að ná fullum styrk. Ekki var hann alveg sáttur með niðurstöðuna eftir jafntefli Akureyrar og ÍR í Olísdeild karla í handknattleik í kvöld, 23:23. „Þetta verða að teljast vonbrigði. Við eyddum mikilli orku í að byggja upp gott forskot og svo var það bara farið á örskotsstundu. Það má eiginlega segja að það hafi verið skelfilegt að tapa þessu svona hratt niður.“
Akureyringar voru sex mörkum yfir en á níu mínútna kafla fór forskotið og gott betur. Allt í einu voru ÍR-ingar komnir tveimur mörkum yfir. Hvernig vill Bergvin útskýra þetta hrun? „Við verðum bara að viðurkenna það að við misstum einbeitinguna og gáfum þeim boltann allt of oft og ört. Þeir keyrðu á okkur og við náðum ekki að stilla upp vörninni okkar. Þegar við náðum því þá vorum við þéttir og þeir áttu erfitt með að finna glufur.“
En nýi danski leikmaðurinn. Hvernig fannst Bergvini hann koma til leiks? „Nicklas er klárlega fínn sóknarmaður og hann stóð fyrir sínu í leiknum. Við fundum hann í Færeyjum þar sem hann hefur spilað síðustu þrjú árin.“
Bergvin búinn að snúa á ÍR vörnina og skorar
Bjarni Fritzson: Samstíga í fjölgunarmálunumBjarni Fritzson, þjálfari og leikmaður ÍR, var sáttur með eitt stig eftir jafntefli gegn Akureyri fyrir norðan í kvöld í Olísdeildinni í handbolta, 23:23. Var hann að spila á fornum slóðum gegn góðvini sínum, Heimi Erni Árnasyni og fyrrum lærisveinum þeirra félaganna. Bjarni og Heimir Örn þjálfuðu lið Akureyrar tvö síðustu tímabil. „Ég er ekki nógu ánægður með leik okkar en mjög sáttur við að hafa náð þessu stigi. Það er erfitt að koma hingað og Akureyringar geta stillt upp svakalegri vörn. Ég er fyrst og fremst ánægður með karakterinn og trúna í liðinu en það var lítið að ganga hjá okkur lengi vel. Við tókum svo leikhlé og ákváðum að keyra á fullu á þá og þá kom þetta. Fyrri hálfleikurinn var því miður full rólegur hjá okkur. Vörnin var svo sem í lagi en við vorum allt of hikandi í sóknaraðgerðunum og Tomas var að verja vel í markinu hjá þeim.“
En hvernig var svo að spila gegn Heimi Erni? „Það var bara mjög gaman. Hann spilaði vel og það er gott fyrir Akureyri að hann sé kominn aftur. Hann kom þeim aftur á beinu brautina þegar við vorum komnir yfir og færði þeim meiri ró í sóknarleiknum.“ Bjarni lofaði síðan heimamenn í stúkunni. ,,Það var frábært að spila hérna í kvöld, áhorfendur tóku vel á því. Hér er gott að koma og margt gott fólk“ sagði Bjarni að lokum. Þess má til gamans geta að þeir Bjarni og Heimir Örn eru nokkuð samstíga í fjölgunarmálunum en eiginkonur þeirra eru báðar ófrískar. Óskum við þeim öllum til hamingju með það.
Bjarni fékk góðar viðtökur frá stúkunni
Á visir.is eru viðtöl Birgis H. Stefánssonar við Atla Hilmarsson, Hreiðar Levý Guðmundsson og Einar Hólmgeirsson aðstoðarþjálfara ÍR.
Atli Hilmarsson: Súrt að hafa ekki fengið annað stig
„Það sem er jákvætt er að við snérum aftur eftir að hafa verið undir,“ Sagði Atli Hilmarsson eftir leik.
„Annars er ég mjög súr. Við erum að fá urmul af hraðaupphlaupum á okkur sem er óvanalegt með okkar lið, erum að láta boltann í hendurnar á þeim ítrekað og þeir refsa grimmilega með hröðum sóknum. Fyrri hálfleikurinn var ekkert sérstakur sóknarlega en ég var ánægður með varnarleikinn og markvörslu, Tomas hélt okkur bara inni í leiknum í fyrri hálfleik. Við áttum alltaf séns á því að vinna þetta og það er súrt að hafa ekki fengið annað stig.“
Tveir nýliðar léku með Akureyri í dag. Hreiðar Levý og Nicklas Selvig. „Já, þeir eiga eftir að hjálpa okkur klárlega í vetur. Erfiður fyrsti leikur í dag hjá þeim, Nicklas er búinn að vera með okkur á þremur æfingum og ekki hægt að ætlast til þess að hann sé að bera okkar leik uppi, Hreiðar hefur ekki spilað leik síðan í apríl og er að koma aftur eftir erfið meiðsli en þeir tveir eiga eftir að hjálpa okkur heilmikið.“
Atli Hilmarsson og Sævar Árnason bíða eftir að leikurinn hefjist
Hreiðar Levý: Áttum að sigla þessu í land
„Ég spilaði síðasta alvöru leik 10. apríl,“ sagði Hreiðar Levý Guðmundsson eftir sinn fyrsta leik með Akureyri þrátt fyrir að hann hafi komið til liðsins fyrir núverandi tímabil.
„Síðan þá hefur þetta eiginlega verið ströggl með hnéð, fór í aðgerð sem átti ekki að vera mikið mál en endaði svo með sýkingu, næringu í æð og pakki sem ég er enn að eiga við. Sýkingin er ekki enn til staðar en ég er bara að vinna í því að byggja upp löppina. Ég hefði viljað taka nokkra í viðbót í þessum leik, það hefði verið mjög gott Öskubusku dæmi ef ég hefði náð að verja síðasta boltann frá Bjögga. Við vorum að missa boltann trekk í trekk, fá á okkur hraðaupphlaup og þeir fá sjálfstraust. Þetta var einhver sjö eða átta mínútna kafli þar sem þeir voru allt í einu komnir yfir og þá var þetta leikur, erfitt að finna skýringu á því hvað gerðist en það blokkaðist bara eitthvað hjá okkur og svona má ekki gerast. Við áttum að sigla þessu í land þannig að þetta er svekkjandi.“
Hreiðar Levý kynntur til leiks eftir hátt í sjö ára fjarveru
Einar Hólmgeirsson: Sturla fékk botnlangakast
„Þetta bar þess merki í byrjun að þetta var fyrsti leikur eftir frí,“ sagði Einar Hólmgeirsson strax eftir leik.
„Við spiluðum t.d. aðeins einhverja tvö æfingarleiki í þessu fríi þannig að maður bjóst við smá ryðguðum sóknarleik en samt ekki alveg svona. Ryðið fór svo af mönnum þarna í seinni hálfleik, það var mikið um brottvísanir sem opnaði leikinn. Ég vil ekki tjá mig um dómara beint en það var mikill HM bragur af þessu, heilt yfir þá hallaði ekki á annað liðið og þetta jafnaðist held ég út. Heilt yfir erum við sáttir með stigið en vorum samt klaufar að klára þetta ekki þegar við vorum komnir yfir. Bjöggi er samt búinn að vera meiddur alla pásuna, fór á nokkrar æfingar í þessari viku og hjálpaði okkur mikið í dag. Við vorum aðeins að prófa nýja vörn og Daníel var frábær þar enda var ég nokkuð ánægður með hana en við verðum að laga sóknina.“
Þegar um tuttugu mínútur voru eftir þá leit þetta ekkert sérstaklega út fyrir þína menn. „Nei, alls ekki. Mér fannst samt vanta bara eitthvað lítið eins og ég sagði við Bjögga rétt áður en Arnar Bjarki setti hann í slá og inn og það kom okkur í gang aftur.“
Sturla Ásgeirsson var ekki með ykkur í dag, hver er staðan á honum? „Hann fékk botnlangakast og fór í aðgerð núna á sunnudaginn. Það eru alveg örugglega alveg tvær til þrjár vikur í hann.“
Einar Hólmgeirsson og Bjarni Fritzson bera saman bækur sínar
Að lokum eru hér þrenn vídeóviðtöl sem Siguróli Magni Sigurðsson tók en þau hafa birst bæði inni á sport.i og vefnum fimmeinn.is
Atli: Ósáttur við að hafa ekki klárað þetta
Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar, var ósáttur með að fá einungis eitt stig er Akureyri og ÍR gerðu jafntefli í Olís deild karla í handbolta. Hann hrósaði þó karakternum í liðinu fyrir að jafna og komast aftur yfir eftir að hafa lent undir seint í seinni hálfleik. Hann fór svo yfir stöðuna á liðinu og meiddum leikmönnum.
Hreiðar Levý: Þetta var smá stress í upphafi
Hreiðar Levý markmaður Akureyriar var að leika aftur með AKureyri eftir langan tíma og sagði að stress hefði gert var við sig í byrjun.
Bjarni Fritszon: Tilfinningin góð að koma á gamla heimavöllinn
Hvaða takta fáum við að sjá á morgun?
4. febrúar 2015 - Akureyri handboltafélag skrifar
Myndband af sirkusmarki Andra Snæs gegn ÍR
Akureyri fær ÍR í heimsókn annað kvöld klukkan 19:00 í mikilvægum leik í Olís-deildinni. Við ákváðum að rifja upp skemmtilega takta fyrirliðans, Andra Snæs Stefánssonar, í leik gegn ÍR sem fór einmitt fram í Höllinni þann 4. október.
Jovan Kukobat varði skot og kastaði boltanum að því er virtist of langt fram en Andri Snær greip boltann í loftinu og skoraði. Sjón er sögu ríkari en við hvetjum alla til að mæta í Höllina á morgun og hvetja liðið til sigurs!
Fyrr í vetur rifjuðum við upp svipað sirkusmark hjá Andra sem var einnig eftir sendingu frá Jovan Kukobat en það var í leik gegn Fram þann 13. mars 2014.
Fær Nicklas að sýna sig gegn ÍR?
4. febrúar 2015 - Akureyri handboltafélag skrifar
Fyrsti leikur ársins á fimmtudaginn
Eftir að hafa fylgst með heimsmeistarakeppni karla í sjónvarpinu er loksins komið að því að handboltaáhugamenn fá aftur tækifæri til að verða þátttakendur í lifandi handboltaleik. Hér á Akureyri byrjar tímabilið með látum, tveir stórleikir í vikunni þar sem liðin sem eru efst og jöfn í Olís-deildinni mæta í Íþróttahöllina.
Á fimmtudaginn mæta ÍR-ingar undir stjórn góðkunningja okkar Bjarna Fritzsonar en sá leikur er liður í Olís-deildinni og hefst hann á hefðbundnum tíma klukkan 19:00. ÍR-ingar fóru illa með Akureyrarliðið þegar liðin mættust í Breiðholtinu fyrr í vetur og er ekki spurning að heimamenn vilja svara fyrir sig í Höllinni.
Bæði lið fengu að kenna á meiðslum lykilleikmanna undir lok ársins og ekki vitað hvernig ástandið er á mannskapnum í dag.
Bjarni Fritzson spilandi þjálfari ÍR
Akureyri hefur fengið tvo nýja leikmenn, markvörðurinn Hreiðar Levý Guðmundsson er mættur til leiks og um síðustu helgi kom til liðsins danski leikmaðurinn Nicklas Selvig sem tekur stöðu Elíasar Más Halldórssonar sem sneri aftur til Hauka.
Nicklas sækir að Herði Fannari Sigþórssyni í bikarúrslitaleiknum í Færeyjum síðasta vetur
Það er gríðarleg spenna á öllum vígstöðvum í Olís deildinni þar sem öll stig skipta gríðarlegu máli og þar skiptir stuðningur áhorfenda gríðarlegu máli. Að vanda verður dýrindis matur í stuðningsmannaherberginu fyrir leikinn.
Á sunnudaginn er svo annar spennuhlaðinn leikur þegar hitt toppliðið, Valur kemur en sá leikur er í 8-liða úrslitum Coca Cola bikarsins og er að sjálfsögðu upp á líf og dauða. Valsleikurinn hefst klukkan 16:00 á sunnudaginn en meira um hann síðar.